GunniJak í Danmörku
7.11.03
  Útimarkaður, pottkaup og svikin símalínuloforð 07-11-03
Ég svaf frá klukkan 12 á miðnætti til 10 í morgun! Kannski er loftslagið svona hollt í Jimena de la Frontera!! Ég var búinn að eiga í vandræðum með svefn heima áður en ég fór, kannski bara stress. Við Lúí fórum í bæinn og á útimarkað. Mjög líkt Kolaportinu, nema hvað hér er hálfgerð Karnivalstemning, allir hlægjandi og að skemmta sér. Ég keypti mér tvær peysur og 6 pör af sokkum í pakka, 9 evrur!! (ca. 800 Íkr) Svo keypti ég mér töfflur á 3 evrur. Meira um verðlagið hér seinna.
Svo fórum við Lúí í bankann og ég fékk mér debetkort. Mátti til að opna bankareikning til að geta fengið síma. Og þá var ekkert verra að stíga skrefið til fulls og fá sér eitt kortið enn. Það er auðveldara að vera útlendingur og fá sér debetkort hér en á Íslandi. Á Lágafelli var í fyrra Úkraínumaður í eitt ár. Fljótlega eftir að hann kom var farið að vinna í því að hann fengi debetkort. Og það var ekki fyrr en rétt áður en hann fór að hann fékk það!! Nei, ég segi nú svona að gamni, en það eru engar ýkjur að það tók margar vikur og ótal ferðir og vesen. Hér þurfti ég ekki einu sinni að láta þá fá mynd!! Og kortið verður sent heim til mín á mánudaginn. OK, ekki HEIM til mín, heldur hingað heim í Jimena.
Þegar ég fór að elda í dag líkaði mér ekki potturinn sem ég hafði, hann var allur undinn og snúinn og dansaði flamingodans á hellunni. (Ég er með svona tveggja hellu glereldavél sem sést í gegnum). Svo ég arkaði á stað að kaupa nýjan pott til að gefa Lúí handa mér. Ég fann litla búð í húsasundi þar sem ALLT fæst, meðal annars pottar. Ég fann emeleraðan teflonpott, ca 2ja lítra með sérhönnuðum botni fyrir glereldavélar. Mig langaði svo í hann, en spurði ekki einu sinni um verðið. Svo kom kallinn og sagði mér að hann kostaði 12 evrur. Ég gleypti við því og keypti svo meira af honum. Hann bunaði verðinu útúr sér á spænsku sem ég auðvitað skildi ekki svo ég beygði mig yfir kassann til að sjá verðið í glugganum á kassanum. Hann hefur trúlega haldið að ég væri eitthvað óánægður svo hann lækkaði upphæðina um 4 evrur, þannig að ég fékk pottinn á ca. 700 krónur íslenskar!
Símakallarnir lofuðu að koma seinnipartinn í dag, Lúí fór í vinnu og ég var heima og beið. Svo hringja þeir um 5 leitið og eina orðið sem sá sem hringdi kunni í ensku var "Monndei, monndei". Ég varð alveg óður og hellti mér yfir hann á mergjaðri íslensku eins og hún er verst í vegavinnu og til sjós. En ég fékk ekkert nema monndei og svo skellti dóninn á mig löngu áður en ég hafði ausið úr öllum skálum íslenskrar reiði minnar. Svo ég kem þessu skrifelsi ekki inn á netið fyrr en í næstu viku. Aftur og enn: Fjandinn!!
 
6.11.03
  Fyrsta dagbókunin mín í Jimena 06-11-03
Jæja, þetta er skrifað í Jimena de la Frontera (Héreftir bara kallað Jimena, enda gera spanjólarnir það sjálfir). Hingað komst ég án skakkafalla og neinna meiri háttar ævintýra. (Ég hélt það :-(
Ég gisti hjá Kolla og hans frú aðfararnótt sunnudags. Hann gerði tölvuna mína Jimenafæra, tengdi myndavélina, módemið og milljón ditten og datten. Þegar ég var að fara í sokkana um morguninn klæjaði mig eitthvað í legginn rétt fyrir ofan ökklann og þegar ég athugaði það betur sá ég að það var kominn ansi stór svarblár blettur sem ekki hafði verið áður. Hann var/er ca. 8x8 cm. Þessi blettur var rétt fyrir neðan blettinn sem ég fékk þegar ég fékk eitrunina í fótinn um árið. Eftir það er stór svarblá skella á fætinum á mér. Mér brá ansi mikið og skellti mér inn á Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi. Þar aumkvuðust yfir mig tvær hjúkkur þó ég kæmi svona fyrirvaralaust. Þær sögðu að ég væri með of háan blóðþrýsing og lélegt bláæðakerfi. Þær gáfu mér krem til að bera á mig og sögðu mér að hundskast til að ná af mér þessu hálfa kílói sem ég með aukalega og ég skildi bara gera það suðr'í Andalúsíu. Semsagt, ég fékk (ljós)grænt ljós en nú held ég að sé komið að þeim púnkti hjá mér að ég verði annað hvort að taka mér tak eða bara drepast hægt og bítandi úr öllum þessum mínum (spikfylgjandi)krankleikum.
Jæja, svo heimsókti ég Unu systur, hún er við sæmilega heilsu miðað við aðstæður. Ég var ekki kominn í bæinn fyrr en kl. 17:50 og kom engu í verk nema nokkrum heimsóknum. Ég svaf svo hjá Ólafíu (Þið megið taka þessu eins og þið viljið :-) um nóttina. Ég vaknði með þeim Magna, fékk mér með þeim morgunmat og svo stytti ég buxurnar mínar. Gat ekki verið að koma í uppábrotnum gallabuxum til Spánar. Svo fór ég í Árbæjarlaugina og síðan í eitthvað hárstúdíó við Rofabæ þar sem stórskemmtileg kona klippti mig snyrtilega herraklippingu. Við Lúí Kastel vorum búin að hafa heilmikil netsamskipti útaf hárinu á mér, ég er skrifa þetta í Notepad og ónettengdur svo ég get ekki sett þau skrif inná núna, kannski seinna.
Næst náði ég í nýja debetkortið mitt. Seinna ætlaði ég að nota það en fann það hvergi í öllum mínum hirslum. Eftir mikla og örvæntingarfulla leit fattaði ég að nýja kortið er allt öðru vísi á litinn en það gamla og var ég búinn að marg handfjatla það án þess að þekkja það. Ég fór í Hafnarfjörð og hitti Auðbjörgu í Ísafold. Hún leysti mig út með dollurum sem ég lít á sem afmælisgjöf en hún kallaði vinnulaun. Stjáni vinur minn Karbrator var búinn að lofa að skutla mér suðreftir, en þennan morgun var grenjandi hríð og vindur og ég vildi ekki þiggja hans góða boð vegna þess að það var komin fljúgandi hálka og hann á sokkalestunum. Ég lagði gamla góða Sportaranum við Fjörukrána og tók FlyBussinn þaðan suðreftir.
Nú, fólki finnst orðið svo hversdagslegt að ferðast að það tekur því ekki að tala um sjálfa ferðina til Stansted, það gekk alveg snurðulaust að komast til ríkis Betu. En því miður seinkaði vélinni og svo urðu nokkrar tafir þannig að ég missti af rútunni til Lúton sem fór kl. 18:15 og varð að bíða eftir annari til 21:00. Ég hef aldrei á æfi minni farið krókóttari leið en þarna á milli.
Rútan beygði hundrað sinnum og sikksaxaði fram og aftur um sveitir Englands. Það liggja nefnilega allar megin leiðir suður - norður og þessvegna er engin alminleg leið þarna á milli. Í Lúton tók ég mér leigubíl, svona týpiskan enskan. Bílstjórinn var örugglega Pakistani, alla vega var hann í hvítum kjól og með vefjarhött! Þegar ég kom í gistiheimilið Hillhouse fórnaði Vertan höndum og sagðist hafa verið hætt að bíða eftir mér og vera búin að láta annan fá herbergið sem ég átti pantað!! En þarna var vön kona og lét sér ekki bregða. Hún náði í bedda og skellti inn í dagstofuna. Gallinn var bara sá að helvítis beddinn var feti styttri en ég. En sem betur var þarna forláta fjögurra sæta sófi sem ég svaf í í staðinn og það alveg eins og lamb. Ég fór svo með taxa aftur til Lúton Airport og það var eins og með flugið til Englands, ekkert sérstakt gerðist. En ólíkur var aðbúnaðurinn hjá IcalandExpress og Monharck. Það var heitur breskur morgunverður, það voru sjónvörp í vélinni og heddfónar fyrir músik. En ekkert hjá EX. Bara seldar samlokur eins og í vegasjoppu. Ég kæri mig samt ekki um meiri þjónustu fyrir meiri pening, þetta er nú ekki nema tveggja og hálfstíma flug. Bæði flugin Jafnlöng.Hafiði pælt í því að það er jafnlangt frá Kef til Stan og frá Stan til Gib? Ég veit ekki með ykkur, en einhvernveginn hefur mér fundist að meginland Evrópu sé svo lítið.
Ég ætlaði að taka helling af myndum á leiðinn frá Lúton til Jimena, en það kom babb í bátinn þegar ég ætlaði að fara að hlaða myndavélina með rafmagni engilsaxa, fjandans innstungurnar eru allt öðruvísi en hjá afgangi Evrópubúa og ég gat ekki tekið neinar myndir fyrr en í Jimena. Það var alveg satt hjá Ástríki og Steinríki að þessir Tjallar eru stórskrítnir.
Það stóð ekki á því að Lúí Kastel biði eftir mér í Gíbraltar. Mér fannst þá strax að við hefðum þekkst alla ævi. Enda erum við búin að skiptast á meilum í tæpt ár. Ég ákvað um áramótin síðustu að fara í sólina og byrjaði þá þegar að undirbúa það. Ég auglýsti eftir gistingu næsta haust þaðan frá og Lúí var sú eina sem svaraði. Síðan erum við búin að undirbúa þetta. Jæja, áfram með ferðasöguna. Lúí var svo heppin að Jane vinkona hennar var að sækja vinkonu sína til Gíbraltar um sama leiti og mín vél átti að lenda og fékk Lúí far með henni. Við skiluðum okkur út úr sinni hvorri vélinni með hálftíma millibili samkvæmt áætlun. Gíbraltar er hluti að Bretlandi og þónokkuð ströng landamæravarsla inn í Spán. Landamærin eru í göngufæri frá flugvellinum. En nú fór í verra. Vinkonurnar voru pikkaðar út á landamærunum og farið með þær afsíðis án nokkurra skýringa. Við Lúí héldum að verðirnir væru svona hrifnir af þeim, enda hinar fallegustu júffertur. Eftir langa bið komu þær svo, það hafði vaknað grunur um að þær væru af skemmtiferðaskipi sem lagðist að bryggju í Gíbraltar tveim dögum áður vegna þess að allir farþegarnir höfðu fengið þessa líka svakalegu steinsmugu með tilheyrandi kvölum og magapínu. Spánverjar bönnuðu að skipið fengi að leggjast að bryggju, en gátu vitanlega ekki gert neitt í því, þetta var jú England en ekki spánn. Í stainn lokuðun þeir landamærunum fyrir öllum til að fá ekki pestina inn í Spán. Þessu banni var nýbúið að aflétta þegar GunniJak heiðraði Gíbraltar með náveru sinni. Gallinn var hinsvegar sá að enginn af téðu skipi mátti fara í gegn og þóttu vinkonurnar eitthvað skemmtiferðaskipsfarþegalegar. Við Lúí sögðum að þær væru svona steinsmugulegar, en þeirri skoðun var afar illa tekið.
Mér félla allur ketill í eld þegar ég sá Jimena í fyrsta sinn. Ýmyndið ykkur þorp uppi í Hekluhlíðum, alveg upp undir topp!! Ég get svarið það, göturnar eru svo ótrúlega brattar að það nær engri átt. Aumingja hnén mín, nú detta lappirnar endanlega undan GunnaJak. Að þessu slepptu hef ég ekki orðið fyrir vonbrigðum með neitt nema það að menningin hér er eins og í Stykkishólmi til skamms tíma, sundlaugin bara opin yfir sumarið. Fjandinn. Krakkagrislíngunum hér er bara ekki kennt að synda og yfir veturinn eru fáir sem engir túristar til að dekra við svo sundlauginni er bara lokað. Basta.
Það er rosalega fallegt hér og útsýnið frá íbúðinni minni er ólýsanlegt. Vitanlega skelli ég fullt af myndum á heimasíðuna mína þegar ég verð orðinn nettengdur. Ég er búinn að bíða í allan dag eftir símaköllunum til að leggja línu inn til mín, en það var víst Síesta hjá þeim í allan dag, en kannski koma þeir á morgun. Hver veit. Manjana.
Í kvöld fór ég í göngutúr, bara eitthvað út í loftið. Allt í einu blasti kastalinn við mér, hátt fyrir ofan mig. Ég lagði á brattann og lét mig ekki fyrr en ég komst upp. Þaðan var ótrúlegt útsýni, skógi vaxin fjöll og dalir og Jimena hringaði sig utanum hæðina sem kastalinn stendur á. Í fjarska voru sveitabæir og 2 hvít þorp. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Já, ég var bókstaflega heillaður af útsýninu. Ég geymi allar lýsingar á kastalanum þar til seinna, ég var ekki með myndavélina með mér, enda skall á myrkur á meðan ég var þarna. Já, það SKALL á myrkur. Rökkrið er mjög stutt hérna, allt í einu er bara komið myrkur. Lúí bauð mér í mat og hvað haldið þið að hún hafi boðið mér að borða? Lambaket, já lambaket af Jimensku lambi. Það var nokkuð gott, en ekki eins og af "okkar" lömbum. Hún hafði allskonar mér ókunnugt dót með þannig að þetta var ekkert eins og steikin heima. Seint í kvöld fór ég svo í annan göngutúr um bæinn, bara á bolnum. Það var soldil gola, en hún var passlega hlý. Hér eru ÖLL, já bókstaflega öll hús hvít. Og í ótrúlega löngum lengjum. Kannski 40-50 hús byggð hvert upp við annað. Og engin leið inn í bakgarðana nema í gegnum stofuna og eldhúsið!! Margir eru með hænsni og hunafjöldinn er ótrúlegur. Það er verið að gera upp ógrynni af húsum hérna og það virðast vera mjög strangar reglur um að þau haldi upprunalegu formi og lit. Og mér sýnast nýju húsin falla nákvæmlega inn í það gamla. Það er verið að byggja hús hérna beint fyrir ofan og mér sýnist það vera 100 ára í útliti. Hér er lókal brandari þar sem verið er að segja fólki til vegar: "Þú beygir hjá hvíta húsinu með brúna tígulsteinsþakinu"!

 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com