GunniJak í Danmörku
16.10.04
  Sjóða. Smíða. Milluhúsið í kvöld. Maggi eiturhress eins og vanalega. Dúlla. .
.
Vakna klukkan 10:00 og byrja að sjóða kl. 10:30. Klára hina hliðina og nú fer að verða gaman, á morgun byrja ég á krossinum. Legg mig í hálfan annan tíma í dag. Eftir kvöldmat er farið í heimsókn í Milluhúsið eða Maggastaði. Þar er fullt af gestum, en það er eins og í kvæðinu um Tótu: "Maður getur lengi á sig gestum bætt" Það voru indversk hjón með ótrúlega fallega litla dúllu, 4ra ára. Við stoppuðum í ca. hálfan annan tíma, en þá fóru gestirnir og heimafólkið að borða. Heim upp úr tíu og ég er að reyna að halda mér vakandi fram yfir miðnætti. Ef ég fer of snemma að sofa vakna ég aftur um 2-3 leitið og sofna ekki næstu 2-3 tímana. Þetta er búið að ganga svona síðasliðnar 3 nætur.
 
15.10.04
  Lúalegt Ofbeldi. Aggersborg. Smíða. StóriLaukur en ekki LaukStaur. .
.
Ég var beittur ofbeldi í morgun. Aumingja GunniJak. Það er síðasti dagur í skólafríi hjá heimasætunni og í tilefni af því rauk hún inn til mín um miðja nótt (Klukkan var 09:03) og skipaði mér á lappir til að gera eitthvað skemmtilegt seinasta skóla frídaginn hennar. Ég hélt nú ekki og breiddi sængina upp fyrir haus. Ekki dugði það því henni var kippt ofan af mér. En ég gat alveg sofið sængurlaus svo það var ekkert vandamál fyrir mig, heldur bara hana. Ekki lagði hún í líkamlegt ofbeldi, kannski minnug auglýsingar sem er í sjónvarpinu hérna. Það er kall sem vaknar við klukkuna að morgni dags. Hann ætlar að rota klukkufjandann og kýlir ofan á náttborðið sitt, en í staðinn fyrir að hitta klukkuna mélar hann gleraugun sín. Trúlega hefur mín munað þetta og í staðinn kveikti hún á vekjaraklukkunni og lét hana hringja endalaust, í öruggri fjarlægt. Svo setti hún á stað endalausa hringingu í gemsanum mínum. GunniJak er hraustmenni og lét ekkert af þessu á sig fá, en þá greip heimasætan til óyndisúrræða og fór að syngja hátt og snjallt ofan í allt saman. Og frekar en að þola þetta allt þá drattaðist GunniJak á lappir.

Um ellefu leitið fórum við í smá bíltúr, skruppum til Aggersborgar, http://www.sns.dk/natur/netpub/naturforvaltning/natu043.htm en það eru rústir eftir miðaldaborg frá tímum Víkinganna. Það er með ólíkindum hvað þetta er stór hringur sem hefur legið umhverfis borgina. Inni í hringnum hafa verið 16 langskálar þar sem hafa búið mörg hundruð manns. Við tókum tíkina Blíðu með okkur og höfðum hana í 20 metra löngu bandi. Sú kunni að meta það. Á eftir fórum við til StóraLauks, en það er víst rétta meiningin í orðinu Lögstör, en ekki LaukStaur. Fengum okkur pulsu og fórum svo heim.

Við Bjarki skrúfuðum hjólin undan hjólhýsinu og litum á legur og bremsur. Legurnar eru fínar en einhver pikklis í bremsunum. Bremsar ekki jafnt og minna á vintstra hjóli. Komið myrkur og við frestuðum framkvæmdum. Smíða fram að mat.
 
14.10.04
  Fann það týnda. Maggastaðir heita Milluhús. Göt í eyru, á hverjum? Lopapeysa í svívirðu. Smíða smeið smiðum smoðið. .
.
Tíkin Blíða gekk af göflunum klukkan hálfníu í morgun, loksins þegar ég ætlaði að sofa út. Engin ÁK, engin morgunerindi og ekkert. Allir farnir úr húsinu fyrir sjö. Þufti þá ekki fjandans pósturinn að koma með pakka. En ég mistti af honum svo hann skildi bara eftir tilkynningu. Seinna í dag fór svo Bjarki til FerjuSlef og sótti pakkann, sem hann hélt að væri til sín, en þar er þá loksins komið langþráð hleðslutæki fyrir myndavélina mína. Loksins get ég farið að taka myndir á hana. Annars er vélin þeirra hérna alveg prýðileg miðað við verð og nafn, HP!

Ég gat ekki sofnað aftur í morgun og fór bara út í hesthús að smíða. Heiðrún kom svo óvænt heim í hádeginu, skipti hálfum deginum í dag fyrir hálfan dag á morgun. Við fórum svo eftir hádegið í Maggastaði sem reyndar heita Mylluhús í ísl. þýðingu. Fundum það sem ég týndi í gær. Stoppuðum drjúga stund og skoðuðum miklar framkvæmdir. Verið að stækka og búa til tjörn úr gamalli tjörn. Búið að rífa hlöðuna og verið að saga timbrið niður í eldivið. Og svo eilífðarverkefnið eins og hérna heima, smíða hesthús.

Um síðir fórum við svo til AAberbro í búðarráp og svo í Bröst í sömu erindum. Í Bröst fórum við inn í Rauðakross búð sem selur gamalt dót til styrktar börnum. Þar fann ég rosalega flotta íslenska lopapeysu sem átti að selja á 400 krónur íslenskar!! Hún var því miður of lítil á mig, en mér fannst skömm að sjá hana þarna til sölu á svona smánarprís. Svo ég fjárfesti í lopapeysu sem ég get ekki notað. Klikkun. Að lokum fóru mæðgurnar inn í búð þar sem sett eru göt í eyru. Og sú stutta sló til, verðlaun fyrir að vera góða stelpan undanfarið. Lengi.

Komum heim um hálfsexleitið og ég fór beint út að smíða fram að kvöldmat og fór svo aftur út að smíða til 21:00. Hálfnaður með grindverkið hinumegin. Mjakast.


 
13.10.04
  Dr Saxi, er mér batnað í eyranu? Já. Álaborg. Maggi. Gleymdi einhverju hjá Magga, man ekki hvað það var. .
.
Við ÁK skellum okkur til Álaborgar um klukkan 10:30. Náðum rétt með naumindum í tímann minn hjá Eyra-lækninum mínum klukkan 11:15. Hann hreinsaði hlustina og sogaði út úr henni allt draslið eftir dropana. Skrítið efni, eins og það væri búið að forskalla eða múrhúða eyrað að innan. ÁK kom inn til dokksa til að vera túlkur, henni tókst ekki að horfa lengi á aðfarirnar í eyranu á mér, hálf svona subbulegt. Og hjúkkan sem þarna var bannaði henni að horfa á skjáinn. Svo komu slæmu fréttirna fyrir aumingja ÁK: ég er útskrifaður frá doktornum. Hann sagði að fyrst ég væri farinn að heyra skár með eyranu, en ég hef ca. 50% heyrn á því núna, þá myndi draflinn í mieyranu trúlega vera farinn að minnka af sjálfu sér. Og það er ekki vottur af sveppasýkingu lengur í eyranu. Þarf maður nú að fara til Danmerkur til að láta lækna jafn ómerkilegan sjúkdóm og "fá í eyrun"?

Við ÁK femgum okkur hamborgara á BurgerKing, þriðja skiptið hjá mér. Okkur kom saman um að það væri ekkert hægt að gera skemmtilegt í Álaborg með tóma buddu. En þannig er nú fjárhagsstaðan hjá mér núna. Poor GunniJak!! En, ég á líka heilt hjólhýsi úti á hlaði, ligga ligga lá! Þannig að ég er nú ekki svo ósáttur við að vera blankur. Og ég snýkji mér mat, bíl og allt annað sem þart til að draga fram lífið. Það er nú bara hálfur mánuður fram að næstu mánaðarmótum og ég þarf alls ekki að eyða nokkrum sköpuðum hlut þangað til.

Jæaja, við komum við á MakkDónald og fengum okkur sjeik. Það besta í Danmörku er mér sagt. Svo fórum við til Magga, nema hvað!! Tátan sem hefur verið hjá honum er farin og Maggi farinn að vinna í Millunni. Svona brauðverksmiðju. Vinnur á vöktum og vinnur marga daga í einu og hefur svo langt frí á milli. Hann var að fara í vinnuna og ég stoppaði stutt, en "gleymdi" heimasætunni frá Bæjarstrjúpavegi 103! Fattaði það ekki fyrr en ég var kominn heim. 25 kílómetra. Nennti ekki að snúa við svo hún verður bara þarna í nótt.
 
12.10.04
  PikkNikk. Vöfflur og sulta, nammi namm. Skurður. Stífla. Bátar. Bátasafn. Laukstaur .
.
Við ÁK förum í "pikknikk" eftir hádegi í dag. Keyrum til LaukStaur og kaupum okkur kex, vöfflur og sultutau. Vestan við Lögstör er merkilegt mannvirki. Breiður og djúpur skipaskurður sem grafinn var í landið við hliðina á fjörunni, margra kílómetra langur. Skil ekki alveg hvað hann átti að fyrirstilla, trúlega hefur verið of grunnt fyrir utan Lögstör til að bátar og skip kæmust út og inn. Við skurðendann er núna skútuhöfn og aðeins innar trilluhöfn. Við fórum niður í fjöru í skjól við runna og neyttum kræsinganna. Tók gommu af myndum, skelli þeim inn á Fotki fljótlega. Svo keyrðum við aðeins meðfram skurðinum og þar er báta og sjómennskusafn. Keyptum okkur inn í það, en föttuðum ekki að það átti að fara að loka. Fengum bara aðgöngumiða til seinni nota í staðinn. Dagsverk að skoða safnið. Þarna er 140 ára gömul snúningsbrú sem var snúið þegar skip þurftu að fara um skurðinn. Fallegt og merkilegt mannvirki. Rúntuðum soldið um LaukStaur og fórum svo heim.
 
11.10.04
  Algjört svínarí. Grís að hitta á svoleiðis. Flott bú. Flott svín. .
.
Allir hressir í dag. Í morgun byrjaði viku frí í skólum hér í Danmörku. Ég er ekki alveg viss um að allir skólar taki þessa viku í fríið, en allir fá vikufrí um þetta leiti. Ég vaknaði í tómu húsi klukkan tíu. ÁK ekki heldur heima. Var mestallan daginn að smíða milligerðir í hesthúsið. Er að verða búinn öðru megin og þá er eftir hinu megin og kross í miðjunni. Það er að segja það verða 4 stíur og það koma grindur með hliðum í krossinn á milli þeirra. ÁK hringdi í mig um hálfþrjú leitið og biður mig að koma á nýja vinnustaðinn hennar mömmu sinnar. Hún hafði þá farið með henni klukkan 7 í morgun og verið allan daginn.

Þvílíkur munur maður minn!! Það er með ólíkindum hvað allt er hreint og fínt á þessu búi miðað við það sem hún vann á áður. Þetta bú er ca. tíunda stærsta svínabú í Danmörku. Kann ekki að nefna tölur, en ég held að það komi ca. 200 grísir á dag. Heiðrún vinnur á skemmtilegasta staðnum á búinu, hún er ljósmóðir og sinnir gyltunum í kringum gotið og svo litlu grislingunum þegar þeir eru komnir í heiminn. Það þarf mikla natni til að halda lífi í þessum litlu dýrum. Mamman getur lagst ofan á þá, étið þá og svo verður stundum einn og einn útundan á spena og þá er voðinn vís. Heiðrún var í miklum önnum þegar ég kom og ÁK fór með mig í hringferð um búið. Allt er svo hreint eins og best má verða. Enda eru svín hreinlegustu húsdýrin. Leggjast aldrei ofan í úrganginn úr sér ef þau eiga kost á öðru. Mest þótti mér til um tvö nýleg hús þar sem gilturnar eiga heima á meðan þær eru ekki með grísi. Þessi hús eru með ólíkindum stór, eins og að vera inni í risavöxnum stórmarkaði. Sér varla milli enda nema með kíki. Ég tók ekki með mér myndavél í þetta skipti, ætla aftur að heimsækja staðinn þegar Heiðrún verður næt á helgarvakt. Þá er hún ein eða kannski tvö að vinna og betra næði að taka myndir. Til samnburðar við hitt búið sem Heiðrún vann á.

Þarna er öllu stýrt með tölvum, fóðruninni, hvenær á að hleypa til og svo er hver einasta gylta og hver grís skráður í tölvuna. Og aðbúnaðurinn fyrir starfsfólkið maður, eins og á hóteli. Fólkið borðar hádegismat á staðnum og þarna er þetta fína eldhús. Það er sniðugt hvernig sóttvörnum er háttað, ganginum þar sem starfsfólkið fer inn í sjálft svínahúsið þegar það fer að vinna er skipt eftir endilöngu. Öðru megin er stétt og hinu meigin, einni tröppu neðar, er ristagólf þar sem fólk fer í og geymir stígvélin. Og það má enginn stíga af ristinni upp á stéttina eftir að vera kominn í stígvél. Og það fer enginn maður inn í svínahúsið nema í samfestingi. Að vísu urðu smá vandræði þegar það kom fullvaxinn víkingur norðan frá dumbshafi og fór að reyna að troða sér í samfesting. Allir alltof litlir. Málinu var bjargað með því að ég fékk svona pappírssamfesting sem ætlast er til að skella sér í utanyfir allt, til dæmis fyrir Dýralækninn o.sv.frv.

Hélt áfram að sjóða í kvöld til klukkan níu. Hef ekki gert það áður, var bara í svo miklu stuði að mér héldu engin bönd.
 
10.10.04
  Hesthúsa við Hesthúsasmíði. Ét heilan hest. Batnandi heilsa. Engin jarðarför í þetta skipti. .
.
Fólk er að ná sér eftir veikindin, maður er svona eins og með væga þynnku. Húsbóndinn, Bjarki, lætur ekki á sjá og stendur keikur upp úr veikindahafinu. Heiðrún er að vinna, það kemur öðru hvoru vinnuhelgi hjá henni. Það er öllu frestað hér á svæðinu í skólafrívikunni. Ekkert KikkBox, engin leikfimi, enginn handbolti, ekkert badminton og svo framvegis. Ég held að hún Minna mín hafi ætlað til Íslands þessa viku, kannski er hún þar bara núna. Veit ekki. Hlakka til að sjá hana, nú verð ég á eigin vegum á leið suður Danmörku og get heimsótt hana.

Það þurfti að skafa að rúðum í morgun, semsagt kominn vetur í Danmörku. Langar orðið suður á bóginn í hlýjuna. En það er líka það eina sem togar, get varla haft það betra annarsstaðar en hér. Ég er að treyna mér suðuverkið í hesthúsinu til að hafa afsökun til að vera sem lengst hérna. Bara maturinn sem ég hesthúsa er orðinn dýrari en þó þau hefðu fengið Prófessional járnsmiði í verkið. Aumingja þau, tapa á minn kostnað.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com