Nýtt blogg í einu lagi fyrir heilan mánuð, sorry!
.
.
.
.
14-01-2005
Núna loksins kem ég blogginu mínu á netið. Jane er í Ameríku og ég stelst í ADSL tölvuna hennar á meðan.
Ég get orðið notað tölvuna mína í Stellu, klaufamistök að hafa ekki getað það á leiðinni til Spánar. Ég hef það rosalega gott og Þumba líka. Það stirnir á feldinn á henni og ég held að hún sé alsæl hérna.
Ég ætlaði að setja bloggið alminlega inn, á réttum dögum og svo framvegis, en ég hef ekki komið því í verk svo það var betra að skella því bara svona inn en að draga það endalaust. Það er ekkert nýtt að frétta sem ekki kemur fram í blogginu, ég er svakalega spældur yfir hvað ég hef verið latur að skrifa. Og báðar myndavélarnar eru óvirkar og ég kem ekki nokkurri mynd inn á tölvuna mína, hvað þá á netið. Tómt vesen. Nú hendi ég öllu tölvudraslinu og fæ mér bara Legó kubba í staðinn. Dúbló.
Þið heyrið fljótlega frá mér aftur:
GunniJak.
Þakka öll SMSin sem ég hef fengið. Takk! :-)
Þriðjudagur 04-01-05
Ég ætla til Algeciras í fyrramálið með hana Ruth mína þá norsku sem ég skrifaði mikið um í fyrra og það er hellingur af myndum af henni á fotki.com/gunnijak. Hún er að fara að heimsækja mömmu sína áður en hún fer aftur heim til Noregs, en mamma hennar er einhverstaðar langt norður með ströndinni, allavega verður Ruth í 11, já ellefu klukkutíma í rútu til að komast þangað. Og ef ég hefði ekki keyrt hana hefði hún þurft að taka lest héðan til Algeciras klukkan 07:35 í fyrramálið í stað þess að við leggjum á stað klukkan 10:30.
Í Algeciras ætla ég að fara á NetKaffi og koma þessum mínum stopulu skrifum á netið. Ég veit um mörg Internet Kaffi í Algeciras síðan í fyrra þegar ég var að vepjast þar um á ónýtum löppunum stuttu eftir að ég kom til Spánar. Hugsið ykkur, það kostar bara eina evru klukkutíminn á netkaffi, svipað og að tala í síma á dýrasta tíma í heimasímann. (Evran er ca. 90 kall núna).
Það var konsert hjá kórnum hennar Lúíar í kvöld og ég var að koma heim. Það var svipaður konsert 4. jan í fyrra og þá var ég líka þar. Konsertinn var haldinn í æfagamalli klausturkirkju í Estasion. Þar ku vera feikna góður hljómburður. Með kórnum lék 6 manna strengjasveit sem Jane Carhart frá Ameríku stjórnaði. Hún Jane mín þið vitið, sem var að kaupa sér hús á Ítalíu. Kórinn var frekar stór núna, ca. 20 manns. Og ég var að pæla í því á meðan hann söng hvað ég væri málkunnugur mörgum í honum og komst að þeirri niðurstöðu að það væru 5 manns sem ég myndi ekki heilsa á götu. Fjóra þekki ég ekki en sá fimmti er svo leiðinlegur að ég myndi látast vera að taka eftir öðru skárra. Þarna hitti ég gommu af fólki sem allir sem einn buðu mig velkominn Heim.
Það leigja rúmensk (Fólk frá Rúmeníu, ekki englendingar sem eru bara tjallar í rúminu, til að yfirbyggja misuskilning). Þau eru rosalega bláfátæk og fara aldrei neitt og gera aldrei neitt sér til upplyftingar. Lúí þurfti að fara snemma á konsertinn svo hún bað mig að sækja rúmenana og keyra þá á konsertinn og heim að honum loknum. Sem ég gerði með bros á vör. Að sjálfsögðu, ég myndi gera hvað sem er fyrir Lúí mína, á meðan ekki rignir. Böööö :-(
Það dó hestur hérna rétt áður en við Villibrough fórum að undirbúa okkur á konsertinn, en eins og fram kemur hér að neðan er hann í kórnum og bróðir hans stjórnar honum. Hann er þónokkuð frægur á heimsmælikvaraða, það er að segja bróðirinn. Já, ég leit út um gluggann og sá að tveir hestar sem alltaf hafa verið í sama hólfinu á daginn voru komnir heim á hlað. Það hefur ekki gerst áður, hólfið er opið en þeir koma bara á þeim tíma sem þeim er gefið og yfirleitt þarf að sækja þá til að setja þá inn. Ég fer að athuga þetta og þegar ég er kominn í jakkann og skóna og lít út er annar hesturinn lagstur á hlaðið. Ég greyp með mér gemsann og hljóp á stað, og viti menn, eftir nokkur krampaspörk er sá gamli bara dauður, dáinn, farinn yfirum á, vonandi, íslensk tún og farinn að kjást við íslenskar merar. Þessi hestur var orðinn yfir 30 ára gamall og hafði aldrei orðið misdægurt. LilliBro kom eins og skot þegar ég hringdi í hann, en of seint til að kveðja gamlan vin. Þau áttu ekki þennan hest en hann var hér á nokkurskonar elliheimili og eigendurnir borguðu gommu fyrir að honum liði vel seinustu árin. Þetta hefur okkur Sæunni verið að detta í hug að gera heima á Fróni. Setja upp elliheimili fyrir gæðinga sem eigendurnir hafa ekki tíma eða aðstöðu til að sinna í ellinni, en tíma ekki að fella. Nema hvað, við gátum ekkert gert nema draga þann gamla frá þannig að það sé hægt að keyra framhjá honum. Tveimur tímum seinna var LilliBro kominn upp á sviðið að syngja einsöng fyrir fullu húsi og var ekki að sjá að honum væri brugðið. Hraustmenni að utan og innan. Eftir konsertinn var haldið partý í Caravan Park resturantinum og það gekk maður undir mann að bjóða mér með, en ég stakk við fótum og fór hvergi. Fór svo sjálfur heim að lúlla hjá litlu tuðrunni minni. Það er ennþá það kalt á nóttunni að hún kemur öðru hverju og skríður undir sængina til mín, en stoppar þar ekki lengi. Sefur yfirleitt á fótunum á mér. Stundum held ég að hún fái að fljúga eitthvað út í loftið ef ég sný mér skyndilega. En sú stutta kemur bara aftur. Ekkert mál.
Mánudagur 03-01-05
Fór í mikinn leiðangur í dag, eða við Þumba réttara sagt. Veðrið var svo gott að við hömdum okkur ekki. Keyrði sem leið lá í gegnum National Parkið, veginn sem liggur "upp" úr Jimena. Hann liggur norður eftir öllu, allt þar til hann sameinast almenna vegakerfinu við Arcos de la Frontera. Ca. 30 km fyrir norðan Jimena eru krossgötur. Til hægri er leiðin til Urbeque og beint áfram til Algar og áður nefndan Arcos de la Frontera. Allt þetta fór ég á bílaleigubílnum í fyrra, og miklu lengra. Þetta eru bara næstu staðir frá krossgötunum. Nú beygði ég aftur á móti til vinstri og keyrði þvert yfir þjóðgarðinn til Alcalá de los Gazules. Rosalega fallegur bær sem ég hafði ekki heimsótt áður. Hann liggur eins og svo margir bæir í Andalúsíu og Spáni öllum uppi á hárri hæð og þó aðallega utan í henni með kirkju gnæfandi á hæsta toppnum. Oftast er þar kastali, en ekki þarna. Ég keyrði alla leið upp á topp á hæðinni að kirkjutröppunum sem eru við lítið torg. Þar skruppum við Þumba inn á lítinn pöbb og fengum okkur smá Tapas og einn bjór. Bjórinn er seldur í litlum glösum hérna og allir segja mér að það sé í lagi að fá sér einn þó maður sé keyrandi. Ef ekki væru einfaldlega ekki nema 5% Andalúsíubúa með bílpróf. Þumba át frá mér mest allt Tapasið, enda gerði ég þau skemmtilegu mistök að fá mér smokkfiskTapas, en hún er vitlaus í smokkfisk. Varð að fjárfesta í öðrum handa mér, dýrt spaug, heil evra skammturinn( (90.- Ikr).
Jæja, nú var að finna leiðina niður aftur, en gatan upp var nánast VertiKölsk, eða lórétt á góðri íslensku. Og þar sem hún var einstefna varð ég að finna aðra leið. Ég fann aðra lórétta götu niður og allt í lagi með það, þangað til allt í einu var merki um að gatan lokaðist í neðri endann. En þar var önnur gata til vinstri og lá hún aftur upp á torgið, og vitanlega lóðrétt líka.
Ég má til að skjóta hérna aðeins inní smá sögu um Skortinn eða Grána. Það er að segja Escortinn minn góða. Áður en ég lagði af stað frá Danmörku varð ég var við að hann hóstaði aðeins og kokaði (Eins og útlenskur túristi væri að éta hákarl með skötu!!) við vissar aðstæður. Það var orðið kalt í Danmörku og ég leiður á viðgerðum og reddingum á Stellu og Grána og vildi fara að koma mér á stað svo ég leiddi þetta hjá mér og Bjarki líka. Gjóuðum bara augunum hvor á annan þegar þetta skeði í akstri og létum sem ekkert væri og að hinn hefði ekki tekið eftir neinu. Strax í upphafi fannst mér Gráni ótrúlega máttlaus með Stellu aftaní sér. Hún er nú ekki svo mikil Bolla að hún héldi honum svona mikið niðri. Hann hélt ekki hraða á jafnsléttu í fjórða gír. AF FIMM!!! Endalausar skiptingar milli 3ja og 4ða og aldrei í 5ta nema vel niðrí'móti. Alla þessa 4.212 kílómetra var ég að lullast þetta á milli 60 og 80. Oftast í kringum 70. Og mátti samt allstaðar keyra á 80 og gefa mér 10 svo það átti að vera í lagi að keyra á 90. Fjandinn. Það er ekki nema einn af milllljón sem hefði haft þolinmæði í þetta. Það var skárra á vegum með 2 akreinar í hvora átt, það kostaði ekkert nema bölv og formælingar sem ég sem betur fer heyrði ekki, en á vegum með bara eina akrein í hvora átt var þetta hrein og bein martröð, bæði fyrir mig og þá sem á eftir komu. Það var ekki um nema eitt að ræða, ég var endalaust úti á útskotum, afleggjurum og stundum bara úti í móa að hleypa bílum framúr. Sök sér í brekkunum, en á jafnsléttu, jeremías á nærbuxunum!!! Segi það aftur, það hefðu ekki allir haft þolinmæði í þetta. Og hugsið ykkur svo fílinginn þegar ég var svo kannski búinn að keyra í 30 til 50 kílómetra eftir einhverjum veginum og komast að því að ég var að keyra Í VITLAUSA ÁTT!!!!! 30 svoleiðis kílómetrar þýða 60 kílómetra vegna þess að ég varð að keyra aftur til baka.
Gangtruflunin í Grána lýsti sér í því að þegar ég gaf honum inn í of háum gír kokaði hann og hóstaði og hefði kæft á sér ef ég hefði ekki skipt niður og verið fljótur að því. Þetta ágerðist smám saman eftir því sem á ferðina leið og niður Spán var þetta orðið verulegt vandamál. Eins og að halda einhverjum geðvondum í góðu skapi og mega ekki segja neitt eða gera neitt nema nákvæmlega það rétta, annars hefði allt farið í bál og brand. Þetta var allra verst ef ég þurfti að fara á stað í brekku, ef ég gerði eins og góðum bílstjóra hæfði hikstaði hann bara og kæfði á sér. Svo ég varð að gefa töluvert inn og sleppa svo kúplingunni hægt og rólega. Nú fær einhver sting í kúplingspressuna á sér, svona einfaldlega gerir maður ekki!! En hvað átti ég að gera? Jú, með því að vanda sig og gera allt til að lenda ekki í því að þurfa að taka á stað í brekkku slampaðist þetta allt saman og til Jimena komst ég klakklaust að kalla. LilliBro dró stellu upp á "fjallið" svo ekki skemmdi það Grána. Samt hófust varndræðin fyrst fyrir alvöru þegar hingað var komið og engin Stella að bögga garminn. Fljólega eftir að ég kom hingað heimsótti ég Rod Riverman, en eins og kom fram í blogginu í fyrra á hann heima niður við ána og vegurinn til hans er bara að 3 húsum og er hreint út sagt svakalegur. Með brattari vegum sem ég hef keyrt. Og efst í efstu brekkunni er HLIÐ!!! Í þessu pældi ég ekkert á niðreftir leiðinni og þegar að hliðinu var komið í bakaleiðinni var ekki marga kosta völ. Að bakka á annan kílómetir niður snarbratta brekku á örmjóum vegi kom ekki til greina. Svo ég bara tók á stað í brekkunni. En þarna fann ég kúplingsfnyk í fyrsta sinn í mörg ár. Það bara sauð á öllu saman. En heim komst ég. Eins og þið vitið er Jimena meiar og minna lóðrétt og engin leið að komast hjá því að þurfa að taka á stað í brekku, þó aldrei eins og á leiðinni frá Rod.
En jæja, áfram með söguna þar sem ég var staddur á gatnamótum, lokað framundan en lóðrétt gata 90° til vinstri í örmjóu húsasundi. Ég reyndi að taka beyjuna eins hratt og ég gat, en ekki dugði það, minn fór bara að hósta eftir nokkra metra af brekkunni. Þá bakkaði ég og reiknaði nákvæmlega út hvað ég mátti fara hratt í beyjuna og keyrði alveg uppað húsinu hægra megin. Og svo var gefið í, upp á von og óvon. Því miður varð óvonin ofaná. Pæng og Hviss og skellur, ég sá ekki úr bílstjórasætinu að það var ein fjandans trappa á húsinu sem ég "sleikti" hægramegin. Og ekki semmdi það að það var oddhvöss marmarahella á tröppunni. Felgan í haug og hnefastórt gat á dekkinu. Og bíllinn að sjálfsögðu hálf á hliðinni, gatan var svo brött. Fljótlega komu bílar úr öllum áttum og biðu allt í kring. Mikið langði mig að grafa stóra holu og skella bæði mér og Skortinum oní hana og moka yfir. En ég gat ekki gert henni Þumbu minni það svo ég bara skipti um dekk og var snöggur að því. Bakkaði aðeins og hleypti einum, aðeins áfram og hleypti öðrum og svo frmavegis. Þegar ég var oriðinn einn aftur og kellingartuðran í húsinu á móti var kominn með svo mikinn hálsríg að hún lagðist veinandi á rúmið fann ég út að kannski gæti ég snúið við. Gatan sem ég hafði komið niður var svona ljós lórétt, en hin, til vinstri, alveg dökk lóðrétt. Mér tókst að snúa, en bara fet áfram og fet afturábak, hundrað sinnum. Og Gráni garmurinn bara með Vöðvastýri. Þetta tókst og upp komst hann, en kúplingin fyrrverandi, hún var ekki upp á marga fiska. Gerðist afar lítið þegar ég lyfti fætinum af kúplingunni. Svo ég bara lagði honum, setti beislið á Þumbu og svo fórum við í klukkutíma göngutúr um nágrennið. Hún er smám saman að læra að vera með beisli, en ég verð alltaf að láta hana halda að hún ráði ferðinni, annars væri alltaf farið í vitlausa átt eða að klóaförin hennar væru á öllum stéttum í Andalúsíu eins og rákir eftir ÍsaldarJökul ef ég dragi hana gegn hennar vilja. Heilaga vilja.
Jæja, þegar ég kom til baka hélt kúplingin ágætlega, en það er bara sentimeter frá því hún byrjar að taka þar til kúplingin er frí. Þeir sem eru leiðir á þessu tæknikjaftæði láta bara sem ekkert sé. Enda er það búið. Í bili. Ég ætlaði rosalega fotta leið til baka, en til þess hefði ég þurft að keyra aftur upp í miðjar hlíðar á bænum til að komast út úr honum hinum megin, svo ég bara sleppti því og fór sömu leið til baka. Þetta er fjallaleið í gegnum þjóðgarðinn og endalaust upp og niður, en það er allt í lagi ef ég kominn á stað og skipti stöðugt um gír við minnstu áreynslu þá gengur allt bærilega. Og heim komumst við Þumba og Gráni.
Sunnudagur 02-01-05
Lúí Kastel kom í heimsókn og bað mig að elta sig í bæinn. Hún lagði Renónum fyrir utan verkstæði og ég keyrði hana heim. Tók með mér þvott í eina vél og var hjá Lúí í dægilegu eftirlæti þar til þvottavélin var búin og hún þurfti að mæta á kóræfingu. Skutlaði henni og Ruth þangað, í Estacion. Í dag labbaði ég einn hring í "Própertíinu", en það er staðurinn sem Cíkó og Díana og dóttir þeirra litla, Celsia, eiga. Og eins og oft áður, það er hellingur um þetta fólk í skrifum og myndum frá því í fyrra. Ég varð mjög dapur á þessari gönguferð, auðséð að lítið hefur verið gert þarna í sumar og núna í vetur. Lúí sagði mér að Cíkó hafi verið veikur í baki í marga mánuði og lítið verið þarna á stjái þess vegna. Ætla að heimsækja þau í Castellar við fyrsta tækifæri.
Föstudagur 04-12-04
Veðrið í dag:Dumbungur og frekar kalt.
Jæja, ekki fór það svo að ég færi í dag. Þrátt fyrir að hafa vaknað klukkan þrjú í nótt. Það var bara einfaldlega of mikið eftir og svo ákváðu Bjarki og Heiðrún að fara á jólaglöggið hjá fyrrverandi vinnuveitanda hans, en það var hringt frá honum og ítrekað skriflegt boð um að koma. Semsagt, ég var fram að hádegi að klára að ganga frá dótinu mínu uppi á lofti og pakka öðru niður. Svo mundi ég allt í einu eftir því að ég átti eftir að skrifa Windows XP diskinn handa Bjarka og það var þvílíkt staut og stapp, DVD drifið les ekki skrifaða diska svo ég varð að skrifa hann með því móti að taka allt inn á harða diskinn og skrifa svo þaðan. En þar sem ekki var pláss á harða diskinum varð ég að byrja á því að skrifa dót og eyða því svo af harða diskinum. Þegar þessu öllun var lokið og ég búinn að leggja mig til uppbótar fyrir nætursvefnleysið þá var klukkan komin hart nær kaffi svo það var of seint að fara hvort eð var. Ég var búinn að kveðja alla í morgun með kurt og pí og það varð heilmikil undrun þegar ég var svo heima þegar fólkið kom heim. Ekki veit ég hvað gerðist á meðan ég lagði mig, en svei mér þá ég var bara hálf dáinn þegar ég vaknaði og var það alveg til kl. 23:00 þegar ég fór að sofa. Fæturnir úr blíi, höfuðið úr hafragraut og hendurnar flæktar saman. Kláraði samt að hafa allt tilbúið til brottfarar. Arnar Freyr var með allra hressasta móti eftir að foreldrar hans fóru. En hvað er ein kók á borð og gólf og smá dót dreyft með óreglulegri afstöðu milli hlutanna miðað við það að drengurinn er heilbrygður og fullur af lífsorku. Enda ekki nema 2ja ára greyið. Hann mun líklega sakna mín, við höfum verið að verða betri og betri vinir hægt og sígandi þessa þrjá mánuði. Við ÁK erum þó ennþá betri og meiri vinir, en við erum líka búin að þekkjast í 4 ár.
Húsbændurnir komu heim um hálfellefuleitið og hefði hvort þeirra sem var getað keyrt heim. Það er nú ekki sukkið á þeim bæ. Heiðrún keypti handa okkur Pitsu sem við svo hituðum í ofni. Við ÁK vorum svo að föndra jólastjörnur á milli þess sem ég var að böggast í henni, enda ekki seinna vænnna, fer í fyrramálið. Hún saknar mín þá ekki eins mikið ef hún fer grenjandi undan bögginu í mér að sofa!! Nei nei, bara smá grín úr DanaVeldi. Hún hefur bara einu sinni grenjað undan mér í Danmörku, það var í veislunni góðu í HestaStallinum. Þá stangaði ég hana, bara svona í galsa eins og gengur. En þurfti hún þá ekki að vera nýbúin að reka sig í á nákvæmlega sama stað og meiða sig. Þannig að þetta var býsna vont. En þar sem þetta flokkaðist undir slys þá var það fljótt fyrirgefið.
Ég var alveg búinn áðí, eins og krakkarnir segja, klukkan ellefu og fór þá að sofa, vitandi vits að ég myndi ekki sofa af nóttina. Svo ég kvaddi alla til öryggis í kvöld.
Laugardagur 04-12-04
Veðrið í dag: Vestlæg átt mestan hluta dagsins, 5-7 vindstig þokumóða eða mengun en úrkomulaust
Það fór eins og mig grunaði, vaknaði klukkan hálf fimm og fór þá framúr og klæddi mig. Kláraði að ganga frá "öllu" mínu dóti og dreif mig svo á stað klukkan hálf sex. Keyrði sem leið lá að Bensínstöðinni "okkar". Þá fattaði ég það að ég var ekki viss um hvar veskið mitt væri. Tók kassa sem ég hafði týnt smám saman ofaní allar mínar eigur af skrifstofunni. Og viti menn, veskið var á botninum á kassanum. Það var alltof lint í öðru dekkinu á Stellu svo ég stoppaði á næstu bensínstöð til að fá loft. (Ekkert loft á hinni stöðinni) Þar var loftið bilað svo ég stoppaði við þá næstu. Pumpaði í og mældi á öllum dekkjunum á hjólhýsi og bíl. Hún yrði ansi löng dagbókin ef ég færi svona nákvæmlega í allt ferðalagið, en þetta er af gefnu tilefni. Þegar ég stoppaði þar sem ég fékk loftið uppgötvaði ég að ég hafði gleymt tröppunni sem maður stígur á til að komast upp í Stellu, á okkar bensínstöð. Og hurðin á Stellu hafði verið opin alla leiðina. Semsagt, ég fór með kassann út í Stellu til að taka upp úr honum og finna veskið, en þegar ég hafði borið hann út í bíl aftur slökknaði á litlu heilabauninni á GunnaJak sem settist beint inn í bílinn og keyrði af stað.
----------------------------------------------------------------
Ofanritað er skrifað laugardaginn áður en ég lagði af stað í suðurferðina miklu. Í dag er miðvikudagurinn 22 desember. Ég kom tölvuskömminni loksins í gagnið í dag og nú er bara að vera duglegur að fylla í dagbókina. Heldur svo áfram hrakfallasaga GunnaJak:
----------------------------------------------------------------
Ég stoppaði hjá brúnni yfir Limafjörðinn þar sem heitir Oddesund, ca 60 km fyrir sunnan Thisted. Þegar við Þumba vorum búin að teygja úr okkur ætlaði ég að fara af stað, en í því hringir síminn. Það var Bjarki og spyr hann mig hvort ég hafi nokkuð verið stoppaður af löggunni eða þurft að kaupa bensín á bílinn. Ég varð hvumsa við, en hann sagði mér að kíkja í veskið mitt, jú jú, það vantaði allt plastdraslið eins og það lagði sig. Lítill polli með fima fingur hafði fengið veskið mitt lánað og tekið úr því Ökuskírteinið, Debetkortið og örorkuskírteinið mitt. Það var ekki eins og hann hafi falið þetta, nei ó nei, lá bara á miðju eldhússborðinu, en eitt blað yfir öllu saman. Nú voru góð ráð dýr, Debitlaus hafði ég ekkert að gera suður á bóginn, en á annað hundrað dýrmætir kílómetrar aftur til Bejstrup. Heiðrún mín elskuleg, höfðinginn mikli baust til að keyra á móti mér með kortin og ég átti engra kosta völ annað en að þyggja það. Ég var búinn að keyra ca. 80 km stoppuðum í ferðinni til Hansthólm. Kannski keyrði ég heldur greitt, en Gráni var rosalega viljugur að vera laus við Stellu úr rassinum á sér. Ég held að hann hefði stoppað þarna ef hann hefði vitað hvað beið hans næsta hálfa mánuð, poor Gráni!! Jæja, ég ætlaði mér heim til Minnu og sofa (rétt)hjá henni um nóttina og það tókst. Án meiri vandræða? Ef þú heldur það kæri lesandi ertu annaðhvort AULI eða að þú þekkir ekki GunnaHrakfallabálkJak. Og þar sem þú ert varla að lesa þetta nema að þekkja áðurnefndan Jak þá ertu líklega ekki auli. Nema að þú sert auli sem þekkir GunnaJak. Þú um það.
Á kortinu er afskaplega auðveld leið frá Oddesund og heim til Minnu minnar heittelskaðrar. Bara að taka veg númer bla bla bla þangað til maður beigir inn á veg númer bla bla bla og svo veg númer............. o.sv.frv. En nú skeði það sem átti eftir að vera eins og rauður þráður í gegnum ferðalagið mitt frá NorðurJótlandi og til Jimena á Spáni: Ég beigði alltaf á réttum stað, en það var vegurinn sem var vitlaus!!! Eða kortið. Eða að skiltin hafi bent í vitlausa átt. Eða að skiltin, kortið og vegurinn hafi ekki passað saman. Allt nema það ómögulega, að GunniJak hafi ekki farið eftir skiltunum, veginum og/eða kortinu. Það eru útilokuð öll mistök hjá GunnaJak. Alveg eins og hjá Trausta veðurfræðingi, spáin var rétt, það var veðrið sem var vitlaust. Enda eigum við Trausti veðurfræðingur eitt sameiginlegt, við erum fullkomnir og gerum ekki mistök.
Þetta var smá útúrdúr, en að lokum fann ég bæinn hennar Minnu eftir að hafa verið á ferðalagi á ýmsum slóðum fram og til baka þar sem ég gæti aldrei fundið aftur í nokkra klukkutíma, leið sem hægt er að fara á ca. 2 tímum. Þegar ég kom á bæinn hennar Minnu bankaði ég og út kom myndarleg kona og ég kynnti mig á þennan veg: "jeg skul vere din nyje svigeson" sem útleggst á Frónsku að ég væri hinn nýji tengdasonur hennar. Hún leit á mig í forundran og skelfingu og mátti lítt mæla um stund, en svo breiddist breitt bros yfir andlit sveitkonunnar og hún spurði hvort ég væri Gunni frá Íslandi. Ég varð að viðurkenna það og þá sagði hún að Minna hefði verið búin að aðvara alla á heimilinu um að ef það birtist einhver furðuskepna sem liti út fyrir að geta verið íslendingur þá skyldu þau passa sig á að taka hann ekki alvarlega. Hann væri til alls vís og best að halda sig i hæfilegri fjarlægð. Ekki tók tilvonandi tengdamamma það alvarlegar en svo að hún stökk upp um hálsinn á mér og bauð mig innilega velkominn á sinn bæ. Því miður væri Minna sín í brúðkaupi þetta kvöld og kæmi ekki heim fyrr en undir miðnætti. Það rann kaldur sviti niður bakið á mér og ég spurði hvort þetta væri hennar eigið brúðkaup og gripurinn þar með runninn mér úr greypum, en nei, sem betur fer var hún bara að vinna í brúðkaupinu og afla sér fjár fyrir hrossi sem hún keypti á Íslandi í nóvember.
Nú eiga þeir sem ekki þekkja aðstæður rétt á smá skýringu. Minna er núna 18 ára blómarós sem var smá tíma "í sveit" á Lágafelli í sumar leið, þá "bara" 17 ára og ekki með bílpróf. Bílprófsaldurinn er 18 ár í Danmörku og líkar mér það vel. Með okkur tókust miklir kærleikar eins og ég væri afi hennar og ég lofaði að heimsækja hana í Danmörku á leið minni til Spánar. Ég hringdi ekkert á undan mér og ég held að hún hafi ekki reiknað með að ég myndi standa við orð mín. Ég hefði samt aldrei farið niður Danmörku endilanga, en hún á heima beint í austur frá Esbjerg, án þess að líta við. OK, mamma hennar hringdi í veisluna, þrátt fyrir öflug mótmæli mín, og tilkynnti henni að kominn væri gestur langt að til að sjá hana og hún giskaði strax rétt, GunniHennarJak væri kominn. Ég kom heim til hennar um 10 leitið um kvöldið og hún kom svo heim um miðnætti. Ég var í góðu yfirlæti hjá foreldrum hennar á meðan, át og drakk og hafði það hyggleligt eins og Daninn segir. Mér líkaði strax ákaflega vel við foreldra hennar og bróðir, sem er nokkrum árum eldri en hún. Þetta fólk er með ólíkindum eðlilegt í allri framkomu og bara eins og þau væru gamalt sveitafólk frá Íslandi. Bærinn, húsin, heimilið og dýrin, alveg eins og þverskurður af eðlilegum íslenskum sveitabæ. Hundarnir og Kettirnir fara um allt, nema rétt stofan er frí fyrir hundum og þarna voru nokkrir litlar hvolpakrúsidúllur í stíu í forstofunni. Mamma þeirra er gömul og alveg staurblind og hefur verið lengi. Þetta verður samt síðasta stórvirkið hennar. Loksins þegar Minna kom heim ætluðum við að éta hvort annað, næstum því bókstaflega. Það var margt rabbað og rætt fram eftir kvöldi, fréttir frá Íslandi, en hún hafði verið þar löngu eftir að ég var kominn til Danmerkur. Skrapp í skólafríinu sínu og keypti sér hest á Lágafelli. Ég fór svo að sofa seint og um síðir í Stellu minni í fyrsta sinn og líkðai ágætlega. Að vísu var ég tengdur við 220 volt og volgur rafmagnsofninn, ef það væri alltaf þannig væri alveg himneskt að sofa í Stellu. En meira um það síðar.
Sunnudagur 05-12-04
Veðrið í dag:
Agerbæk: Morgunn: Kl. 06:00 V 13 8,5° Rigningarhraglandi
Vakna um 10 leitið og dríf mig inn í bæ. Þar bíður Minna mín eftir mér með dýrindis morgunverð og segir mér að mamma sín sé að vinna fyrir hana, hún vinnur á elliheimili svona með skólanum til að borga hestinn góða frá Lágafelli. Mamma hennar vinnur á þessu elliheimili svo það vorur hæg heimantökin. Minna fór ekki í vinnu af því hún ætlaði að leiðrétta smá misskilning frá því í sumar á Lágafelli. Hún sagði okkur að þau ættu kindur í "Forest" rétt heima hjá henni. Ég hló að henni og sagði að forest þýddi frumskógur með fullvöxnum trjám en ekki eitthvað kjarr í Danmörku. Nú skildi þetta leiðrétt í eitt skipti fyrir öll og stungið upp í stríðnispúkann GunnaJak. Hún fékk lánaðan bílinn hans pabba síns og svo var ekið sem leið lá inn í frumskóginn. Og ég verð, hér og nú, að biðja Minnu mína afsökunar, þarna er nokkurra ferkílómetra stór skógur sem auðveldlega má kalla frumskóg. Sum trén kannski ca. 30-40 m há, eða eins og 10 hæða blokk. Og bæði þétt og mörg þeirra fallega bein. Þarna eru ótal tegundir af trjám, en ég er ekki trjáafræðingur svo ég get ekki sagt ykkur hvaða tegundir þarna voru. Hún fór með mig á stað þar sem Þjóðverjar skutu niður flugvél bandamann og kom stór gígur í jörðina. Þarna hefur verið reistur minnisvarði um þá sem fórust og nöfn þeirra grafin á hann. Minnir að þeir hafi verið um 10. Þetta var risa-sprengjuflugvél. Enn í dag koma ættingjarnir og leggja blóm við minnisvarðann.
Við fórum vítt og breitt um skóginn, heimsóttum meðal annars aðal skógarvörðinn, en hann selur jólatré og alls kyns heimaunnið jólaskraut, meðal annars jólasveina úr tré sem fólk stingur niður í jörðina við heimili sín til að bjóða Orginal jólasveinana velkomna. Þarna eru seldar 12 tegundir af jólatrjám!! En í Danmörku eins og á Íslandi er Normannshlynur vinsælastur og dýrastur. Svo fórum við á hestabúgarð þar sem Minna æfir sig í reiðmennsku og umhirðu hesta, fullt af fullvöxnum mannhæðarháum hestum og svo íslenskum að sjálfsögðu. Veðrið var hálf leiðinlegt, en það kom ekki að mikilli sök, allt sem mann langar að sjá í Danmörku er innan seilingar.
Ég kvaddi þetta ágæta og skemmtilega léttlynda fólk með söknuði um kaffileitið og hélt áleiðis til Þýskalands. Bar lítið til tíðinda, villtist ekki frekar. Ég var ansi syfjaður þegar leið á kvöldið og átti orðið svolítið bágt þegar ég loksins stoppaði á hvídar-rein einhversstaðar í Þýskalandi. Man ekki lengur hvar nákvæmlega, en ég var á einhverri hraðbraut. Þýskaland er eina landið í Evrópu held ég sem ekki bannar að hjólhýsum og húsbílum sé lagt á Ratzepatse eins og það heitir á Þýsku.
Sunnudagur 19-12-04
Það var ausandi rigning í nótt, svona ekta spænsk rigning, en létti til með morgninum. Og þvílíkt svað maður minn, eftir eina rigningarnótt fór allt í svað í kringum okkur Stellu. Og þvílík ótrúleg drulla, og þetta kalla Spánverjar mold!!
Þannig háttar til hérna að það er búið að byggja hesthús eins og áður hefur komið fram og svo er búið að ýta upp heljar miklu plani framan við hesthúsið, ca 100 metra lárétt og 10 metra lóðrétt frá hesthúsinu. Hér er ég búinn að parkera Stellu og hér á að byggja íbúðarhús. Kannski verður byrjað í vor og einn daginn eigi ég fótum/hjólum fjör að launa þegar vinnuvélarnar koma að grafa fyrir nýja húsinu. Það sem ýtt var upp er aðallega mold sem búin er að sjálf-gróa í 2-3 ár. Væri komin hin besta rót og gras ef þetta væri íslensk mold á Íslandi. En þetta er spænsk "mold" á Spáni og bara smá fjandans kyrkingur á stöku stað og einhverjir gaddarunnar á milli. Og moldin, á Íslandi væri þetta kallað jökulleir og ekkert annað. Grá leirdrulla sem verður eins og steinn þegar hún þornar og að þykkri leðju eins og tyggigúmmí þear hún blotnar. Ég byrjaði á því að tína til spítnarusl til að búa mér til slóða til að komast að og frá bílnum og svo að og frá hesthúsinu. Ég var í svona vinnuklossum og ég get svarið það, hvort sem þið trúið því eða ekki að það hlóðst undir skóna hvert lagið á fætur öðru við hvert skref sem ég neyddist til að labba útá bert planið. Að lokum var lagið orðið ca. 8 cm þykkt og ég reyndi að ná því af á grasi eða á runnunum og svo á spýtu, en ekkert gekk. Þá fór ég úr þeim og reyndi að skafa drulluna af með sporjárni og það gekk að lokum, en það varð hreint sár eftir hverja sköfu með sporjárninu, ég meina það flettist ekkert af nema akkúrat þar sem ég skóf. Og að reyna að þvo þennan fjanda, hann leysist ekki upp í vatni nema á löngum tíma. Það eru heilmikil "tún" hérna í kringum okkur. Þau eru alveg eins og kalin tún á Norðurlandi sem ekkert hefur verið átt við í tvö þrjú ár, snarrótarbrúskar á strjálingi og smávegis gisið gras á milli. Í fyrra var ég að reyna að útskýra fyrir fólki hérna hvernig hús voru byggð á Íslandi í gamla daga. Lýsa fyrir þeim torfinu, skornu þökunum, hnausunum og snyddunni. Það þýddi ekki að reyna það, blessað fólkið sá bara fyrir sér einhverja rótarlausa leirdrulluköggla sem myndu springa í hita og skolast burtu í rigningu. Hvernig gat ég skýrt út brúnu mjúku og hlýju moldina okkar með svo þéttu rótarkerfi að varla er pláss fyrir neina mold á milli rótanna? Hér verður að plægja og vinna hvern einasta snepil á hverju ár ef nokkuð á að lifa í leirdrullunni. Og svo verður helst að vökva líka, hér kemur ekki dropi úr lofti mánuðum saman á sumrin og stundum eru margar vikur milli rigningadaga á veturna líka.
Núna eru 6 hestar hérna á búinu. Þeim er beytt á daginn á nokkurra hektara "tún" á daginn en settir inn á nóttunni. Samt verður að gefa þeim eitthvað sem fólkið hérna kallar "hey". Fyrst hélt ég að það væri að grínast, að kalla hálm hey, nei ekki aldeilis. En þetta svokallaða hey er heiðgult og gróft og alls ekki hin minnsta lykt af því, nema kannski neðstu böggunum og ég þarf ekki að lýsa fyrir þeim sem þetta lesa hvaða lykt það er. Svo er mokað í hrossin alls kyns fóðurbæti með þessu heyi, einhverstaðar verða þau að fá næringu. Núna eru allir akrarnir nýplægðir og unnir og tilbúnir undir sáningu. Samt hef ég ekki hugmynd um hverju er sáð til að fá upp þetta svokallaða hey. Ekki korn, þá væri þetta hálmur. Já vel á minnst, stundum er komið með einn og einn hálmbagga til að strá undir hrossin, sjáið fyrir ykkur hálm á íslandi sem búinn væri að hrekjast allan veturinn flatur, á túni að vísu, og væri svo þurkkaður og pakkaður að vori. Nei annars, ekki ímynda ykkur það. En svoleiðis var nú hálmurinn samt. ALDREI aldrei senda eða selja íslensk hross til Spánar, plís!!!!
24-12-04 Aðfangadagur jóla
Veðrið í dag:Léttskýjað að mestu, lítill vindur og hlýtt
Anabel og Justus komu með pabba sínum klukkan hálfellefu. Nú greyp ég tækifærið og fékk þau í lið með mér að setja upp fortjaldið. Kippti Stellu aðeins nær brekkubrúninni og þar með ofaníborna veginum. Aðeins minna svað þegar/ef fer að rigna eitthvað að ráði. Ég sléttaði undir botninn á fortjaldinu og svo reistum við það. Það gekk samt ekki vandræðalaust að raða saman súlunum, ótrúlegt hvað svona einfaldir hlutuir geta vafist fyrir manni. En með hjálp Lillebro tókst það samt að lokum. Þau fóru svo um hádegi en ég kláraði að setja í gólfið og ganga frá öllu. Ætlaði að fara að taka til inni hjá mér, en það var allt eins og í svínastíu, þegar fara að streyma að gestir, fyrst Marta mín elskuleg, eini Orginal spánverjinn sem ég kynntist verulega vel í fyrravetur, og hvað haldið þið svo að þessi orginal spánverji vinni við? Jú, hún er enskukennari!! Þannig að ég fæ lítið að kynnast Spánverjanum í henni. Minntist oft á hana í blogginu í fyrravetur.
Svo kom sjálf Lúí Kastel með appelsínur, krydd í léreftspoka á stærð við golfkúlu og rauðvínsflösku. Hún bútaði appelsínurnar og börkinn með ofan í pott, bætti kryddinu og rauðvíninu útí og hitaði allt saman á eldavélinni. Lillibro kom svo líka og saman drukkum við þetta í rólegheitum á sama tíma og fólkið heima á íslandi var að taka upp pakkana og/eða borða Hamborgarhrygginn. Þau þrjú eru öll í kórnum sem ég hef oft minnst á og nú tók Marta upp gítarinn minn og þau sungu alls kyns lög fyrir mig fram eftir kvöldi. Ógleymanlegt aðfangadagskvöld. Og fólk var að hafa ághyggjur af að mér myndi leiðast á Jólunum!!
25-12-04 Jóladagur
Veðrið í dag:Morgunn: 5,4° S 07m LéttskýjaðMiðdagur: 10,0° S 03m LéttskýjaðKvöld: 10,5° S 10m SkýjaðNótt: 3,5 Léttskýjað
Fór á fætur um kl. 10:30. Lillibro var seinn, enda jóladagsmorgunn og jólin byrjuðu ekki fyrr en í morgun hjá þeim. Allir krakkarnir nema Nói litli komu með pabba sínum. Þau færðu mér box með kökum og fallegt jólakort með. Líka jólatrésmynd sem þau sjálf höfðu útbúið. Það var rosalega gaman hjá þeim að leika sér í Fortjaldinu, enda þykir þeim sem þau eigi soldinn part í því, skiljanlega. Pabbi þeirra kom svo og drakk með mér kaffi og við öll í sameiningu kláruðum kökurnar! Reglulega gaman hjá mér og öllum held ég. Um klukkan þrjú fór ég svo í smá bíltúr að ég hélt. Ætlaði að skoða "The secret garden", eða leynihúsið hennar Lúíar. Hún hefur aldrei boðið mér að skoða það þrátt fyrir að ég hafi gengið eftir því. En ég fann það ekki, veit nokkurn veginn hvar það er, en fann ekki. Keyrði eftir vegi sem liggur eftir endilöngum dalnum þar sem San Pablo er, bærinn á aðra hönd en appelsínuakrar á hina. Vegurinn lá út úr dalnum í suður og það er skemmst frá að segja að hann endaði ekki fyrr en í San Martin langt fyrir sunnan Jimena. Þetta hafa verið ca. 20 km og mest af því algjör óvegur. Það er ENGINN akkúrat SVONA vegur á Íslandi. Alveg sléttur við umhverfið og ekkert nema drullusvað þegar blautt er, eða réttara heljar miklar sundlaugar. En sem betur fer er búin að vera þurrkatíð og "vegurinn" nokkurnveginn þurr. Ég held að það myndist ekki drulluhvörf, en vatni á engan veg burt. Þetta var bara 1. gírs ferð, mesta lagi að ég gæti sett í annan. Og það er ekki eins og þetta séu nein öæfi, nei og ekki, þarna eru bæir við bæi með allskonar búskap. 2-3 með mjólkurframleiðslu, gomma af nautaketstilbúningi og svo ótal tegundir af akuryrkju, flest sem ég þekkti ekki. Þó þekkti ég alla vega appelsínu lundina, þeir eru með svona Orance litum ávöxtum, þið vitið.
Ég var alveg agndofa yfir hvað þetta var langur vegur svona herfilegur, en mér yfirsást samt afleggjari sem liggur til Jimena þegar maður fer þar framhjá. Það sorglegasta við þetta allt saman er þó hvað það er hrikalega sóðalegt meðfram vegleysunni síðustu kílómetrana til San Martín. Þar eru hálfgerð fátækrahverfi í meira og minna niðurníddum gömlum húsum og allt um kring eru það sem við heima á Fróni og flestir aðrir en spánverjar kalla ruslahauga. Fleiri tonn af drasli úti um allt, milljón þvottavélar og aðrar "hvítvörur" (Sá þetta orð yfir búðardyrum á norður Spáni, það þýddi að þar voru seldar "hvítar" vörur eins og þvottavélar, þurrkarar og ísskápar, o.sv.frv.). Draslið var útum allt, vegurinn hlykkjaðist milli hauganna. Svo kom maður inn í San Martin og það er með sóðalegri bæjum sem ég hef séð á Spáni, kannski að Algeciras komist með tærnar þar sem Heilagur Marteinn hefur hælana. Svo varð ég að keyra heim í spretti til að fröken Þumba kæmist á klósettið, við ætluðum ekki að vera svona lengi svo ég tók ferðaklósettið hennar ekki með. Ég er helst á því að hún kunni ekki að nota náttúruna sem klósett, hún hefur aldrei um frjálst höfuð strokið garmurinn. Einu sinni var hún úti að leika sér hérna heima við hjá Stellu og allt í einu tekur hún strikið inn og beint á Klósettið. Hún hafði sitt klósettið á hvorum stað á ferðalaginu langa, annað í Stellu og hitt í Grána. Bæði búin til úr gömlum brúsum, yfirbyggð og flott. Í eitt einasta skipti dillaði hún við hliðina á klósettinu sínu í Stellu, en það var alfarið GunnaLetihaugJak að kenna, hafði ekki þrifið klósettið lengi og lítið orðið af góðum sandi til að "klóra yfir skítinn sinn" eins og máltækið segir. Ég skipti um sand og síðan hefur ekki orðið "slys" af þessu tagi. Þetta hefur amma hennar, Píla, 13 ára norski skógarkötturinn frá Íslandi, en núna búsett í Danmörku, kennt Þumallínu minni. Sú gamla hefur þennan sið og heldur eigendum sínum alveg við efnið að halda klósettinu hennar í góðu lagi. Það var asskoti kalt í nótt, hitinn úti fór niður í þrjár og hálfa Selsíusgráðu úti og í 6 samskonar gráður inni. Þá setti GunniJak upp 66°N húfuna og köttinn undir sængina og svaf svo eins og engill alla nóttina þangað til sólin byrjaði að skína um klukkan hálf tíu.
Sunnudagur 26-12-04
Veðrið í dag:
Morgunn: 7,2° S 12 m Léttskýjað Miðdagur: 11.0° Logn LéttskýjaðKvöld: 8.0° SV 10 m SkýjaðNótt: Lægst í 6,1°
Vaknaði um klukkan 10, Lillibro (Williebraug held ég að hann heiti eða eitthvað í þá áttina. Hollenska er nú ekki léttasta mál í heimi að skrifa! Hann á kunningja í Danmörku sem alltaf kallar hann LilleBro, svo ég bara tók það upp líka, honum líkar það ágætlega!!), já Lillebro var soldið seinn svo ég var byrjaður að gegna áður en hann kom. Hér er enginn "annar í jólum" eins og heima og ekkert sérstakt við daginn. Nema sunnudagur að sjálfsögðu. Ég er farinn að vingast við hundana og kettina, nema að mér finnst kattaskammirnar vera nokkuð aðgangsharðir. Ég má ekkert skilja eftir á glámbekk ef það er minnsta matarlykt af því, Þá er búið að rífa og tæta og hella ef ég skrepp frá. Skrapp í bæinn í dag og fór í 11-11 að fá mér eitthvað í svanginn. Aðallega arfa samt. Ekki veit ég hvað ég held það lengi út.
Mánudagur 27-12-04
Veðrið í dag:
Morgunn: 8,0° S 10 m Léttskýjað Miðdagur: 10.0° S 15 m LéttskýjaðKvöld: 9.0° SV 10 m SkýjaðNótt: Lægst í 7,2°
Það er fjandi kalt á nóttunni, ég er búinn að finna það út að það munar þremur gráðum úti og inni. Þannig að hitinn/kuldinn hefur farið niður í ca. 10 gráður inni í nótt. Þumba mín skríður stundum inn undi sængina mína á nóttunni, en er aldrei lengi þar. Skrítið, skil ekkert í því!! En þess á milli hjúfrar hún sig upp að mér. Svo um leið og hlýnar þá fer hún yfirleitt i kassann sinn.