GunniJak í Danmörku
.
Myndir, myndir, myndir!!! Aftur og líka í gær!! Tvö albúm frá Lágafelli: Valberg og kusurnar. Kastalamyndirnar, ræsisviðgerðin og húsið MITT! Og í gær Costa del Sol og Heimsókn til Malcolms.
.
Ég er búinn að kaupa mér bíl, í alvöru. Flotta Möstu. Til að stríða aðeins segi ég ekki meira fyrr en í næstu viku!!.
.
Prúdencio er mikið veikur. Hefur ekkert nærst í 2 daga. Því miður er ekki hægt að senda hann á spítala og gefa honum vökva í æð svo við Lúí gripum til okkar ráða, fengum okkur nálasprautu án nála og sprautuðum upp í hann vatni, sem hann varð að kyngja. Ég sagði honum að um líf og dauða væri að tefla, en hann var samt hinn versti. Hann hefur aldrei verið tekinn upp nema til að hrekkja hann greyið og vill ekkert láta vesenast með sig. Svo hef ég sprautað upp í hann mjólk tvisvar í kvöld, einn, og það gekk betur. Við erum svo góðir vinir. Í dag er búið að vera bullandi þrumuveður, í að minnsta kosti 4 tíma alveg stöðugt og stöðguir glampar. Engar sá ég nú eldingarnar en sumar hafa slegið niður mjög nærri vegna þess að þruman kom strax á eftir eldingunni og með þessum líka djöfuls látum. Ég hélt að himinn og jörð væri að farast. Svo að lokum gerði þessa líka úrhellisrigningu, en stytti upp aftur. Það bjóst enginn við því. Svona er þá þrumuveður í útlandinu eins og maður hefur séð í bíómyndum. Ég þvoði þvott í gærkvöldi og hengdi hann upp í nótt. Þegar eldingarnar byrjuðu var þvotturinn ekki orðinn þurr svo ég lét hann eiga sig. Fólk sagði að ég væri heimskur, það kæmi rigning þá og þegar. Ég var úti í Própertíinu þegar þetta var. Quqo, Diana og litla daman voru þar. En það rigndi ekki fyrr en eftir 2 tíma og þá var þvotturinn minn orðinn þurr og fékk ekki nema einn dropa á sig. Til samans. Annars hef ég bara verið í tölvunni og unnið í myndum. Skrapp í búðina á meðan rigndi sem mest, undir regnhlífinni. Og auðvitað var logn og 18 stiga hiti, nema hvað. Fyrsta rigningin í hálfan mánuð.
Keypti myndavélina, ekki Hasselbathinn samt. Sér grefur skurð þótt grafi niður rör. Prúdencio lasinn.
.
NÝJAR MYNDIR!! Nýtt albúm sem heitir Costa del Sol og er frá því um áramótin þegar ég sótti Lúí til Malaga. Og fleyri myndir inn í albúmið: " Áramót hjá Michael og heimsókn í janúar"
.
Nýja símanúmerið mitt er 956 640 715 og velja fyrst 00 og svo númerið fyrir Spán, minnir að það sé 43. Hef ekki símaskrá.
.
Ég reiddi fram fé fyrir myndavélina í morgun og sendi Benco myndavélaviðgerðum meil og spurði hvort ég mætti senda vélina til þeirra í viðgerð. Og hvað þeir héldu að þetta væri. Kannski fæ ég bara stóra vinninginn eftir allt saman. Skolprörakallarnir voru með hávaða og læti fyrir utan hjá mér snemma í morgun og þegar ég leit út með stýrurnar í augunum sá ég að þeir voru að hlaða brunn rétt fyrir utan dyrnar hjá mér. Ég stakk uppá því við Lúí að skreppa nú eftir rörunum í ræsið sem ég ætla að leggja fyrir hana. Var búinn að segja henni að þau kostuðu allt að 60€, en hún trúði mér ekki. Sagði að svona rör kostuðu bara smáaura. Hér þekkast ekki 100 mm skolprör heldur eru þau 125 og eru límd saman en ekki stungið saman í gúmmíkanti. Ódýrara og líklega ennþá betra. Nema hvað, Lúí kom útgrátin, eða alla vega með tárin í €auganu, rörin kostuðu 59€ eins og ég hafði sagt henni. Konur!! Svo var ég allan daginn, með löngum hvíldum og stuttum "vinnum" að grafa í gegnum hlaðið og skella fyrstu hálfa-öðru rörinu í jörðina. Við erum ekki sammála með neitt þegar við erum að vinna úti við Lúí, hún orðinn meiri spánverji en spánverjarnir sjálfir og þar að auki Tjalli, en ég norðan frá heimskautsbaug úr snjóhúsunum þar. En við finnum alltaf meðalveg, það er að segja, ég fer mínu fram og hlusta ekki á hana, flott hjá GunnaJak! Mikið þreyttur aumingja GunniJak, en rosalega hress. En það er meira en hægt er að segja um aumingja Prúdencio, hann er sárlasinn og búinn að vera það síðan í gærkvöldi. Kannski bara elli, en hann var bráðsprækur í gærmorgun og varla hefur hann elst svona mikið á einum degi! Við erum alveg í öngum okkar, en getum lítið gert. Hann bara stynur og vælir og, getiði hvað, Sefur!! Hann verður orðinn hress á morgun.
Fékk smá afslátt af myndavélinni, niður í 90€. Fæ mér næst Hasselbath. Brotna. Á heila milljón með afslætti. Tek bíl á leigu.
.
Ég vakna með andfælum í morgun eftir að hafa dreymt um hálfrar milljón króna myndavél alla nóttina og afleiðingarnar af því að geta ekki reitt fram € fyrir henni. Rauk fram úr og kveikti á netinu, guði sé lof, boðin höfðu ekkert hækkað frá því í gærkvöldi. (nótt.) Mikið var ég feginn. Skrapp í búðina og keypti millistikki og fjöltengi fyrir símann hennar Lúíar og fór svo upp og gekk frá allri leiðsluflækjunni á náttborðinu hennar. Þvílíkur munur þegar allar flækjur eru horfnar bak við lista, kork og rúm. Jæja, þegar ég kom niður aftur um fjögur leitið kveikti ég á netinu og viti menn, ennþá hafði boðið ekki hækkað og aðeins 11 mínútur eftir. Mér létti stórlega. Hellti upp á kaffi, drakk það með brauði og papriku og kíkti öðru hverju á uppboðið, 3mínútur, 2 mínútur, 1mínúta, 1/2 mínúta og mér er orðið létt í skapi, en þá skeður það: 57,58,59,60,65,70,75,76 og þá stoppa boðin og á skjáinn kemur: Til hamingju GunniJak að vera orðinn eigandi að boði númer 456902345495! Semsagt, ég á orðið "nýja" gamla brotna myndavél á 90€ með sendingarkostnaði! 7,200 kall. Þetta er svakalegt happdrætti, ef það kostar lítið að gera við vélina og hún er góð að öðru leyti er þetta hreinn happdrættisvinningur og ég fæ góða vél á spottprís. Ég er búinn að fylgjast lengi með Canon S10 vélunum á eBay og þær eru að fara á þetta milli 2 og 3 hundruð €. Ef einhver sem les þetta getur sagt mér hvað búðin á Langholtsveginum þar sem gert er við allar gerðir myndavéla heitir þá vinsamlega sendi mér meil á gunnijak@simnet.is. Þeir gerðu einu sinni við gömlu vélina mína fljótt, vel og ódýrt. Ég kem því bara alls ekki fyrir mig hvað búðin heitir. Benson eða eitthvað álíka. Þeir eru með umboð fyrir druslur eins og Hasselbath! (Dýrustu og bestu myndavélar í heiminum, bæklingurinn þeirra kostar eins og dýrasta Minoltan). Þá myndi ég setja þak á hvað mætti kosta að gera við vélina og kannski vinn ég loksins í lottóinu. Þó held ég ekki, Það á ekki við GunnaJak að vinna nokkurn tíman nokkurn skapaðan hlut.
Ég hitti einn af vinum mínum á Íslandi á MSN í kvöld. Fór að segja honum frá bílaleigubílnum og að ég hefði ekki fjármagn til að geta tekið hann. Hvað viltu mikið vinur spurðann og ég sagði honum hvað bíllinn kostaði þessa daga og það skipti engum togum, á meðan við röbbuðum saman skellti hann ríflega leiguupphæðinni inn á reikninginn minn. Ef ég sæi þennan mann liggja einhversstaðar myndi ég sparka í hann. Nei nei, hann er einn af mínum bestu vinum og ég er enginn andskotans búss að bler eða álíka. Ég hef gert þessum náunga margan greiðann en það hallar samt örugglega á mig í okkar greiðaskipta jöfnuði. Þannig að á morgun fer ég til Jane og við göngum frá málinu, ef það er ekki hægt í gegnum síma, fax eða meil skreppum við vinkonurnar bara til Gíbraltar eins og ekkert sé. Kíkjum í búðir í leiðinni. Annars ættum við Jane alls ekki að fara saman í búðir nema hafa með okkur fjárhaldsmann sem passaði buddurnar okkar.
Dont feed the animals. Myndavél á hálft milljón Íkr, ódýr. Lítið sofið og illa það sem það er.
.
Ég skrapp í bæinn um tvö leitið til að liðka mig aðeins. Kom við hjá kaupmanninum mínum og keypti brauð, álegg og fleira og kom við hjá Rod i stúdíóinu. Mikið rétt, hann var að setjast að snæðingi. Hér er hádegismaturinn klukkan tvö, í byrjun siestunnar. Hann er að hamast við að búa til listaverkamót til að fara með til Gaucin og búa til listaverk í pressunni sem við skoðuðum um daginn. Ég er búinn að vera að rella í honum að fá að koma með og hann er að smá linast, ekki síst eftir það sem ég gaf honum að éta í dag, ég veit hvernig ég á að svíkja mig inná saklaust fólk!! Ég tók stóran hring og kom hvergi við nema á Pöbbnum mínum. 1 bjór, einn Tapas og Europa Sur, en það er lókal eða innansveitar blað fyrir Andalúsíu. Ég les nú lítið í því, en skoða myndirnar. Í kvöld lenti ég aldeilis í basli með eBay. Enn og aftur og enn er GunniJak að gera gloríur á eBay. Það var auglýst uppboð á myndavél, Canon S10. Mörg ykkar vita að það er nákvæmlega sama vélin og ég á. Þessi vél var þriggja ára gömul og hafði dottið ofan af borði og niður á gólfteppi, en eitthvað hefur bilað þannig að linsan fer ekki út og þar með er ekki hægt að taka neinar myndir. Ég þarf nauðsynlega að fara að endurnýja myndavélina mína, það er kominn skuggi á myndirnar og svo er hún bara orðin gömul og lasin. Þó hún komi enn að góðu gagni. Það var búið að bjóða 30 € ég fór á Maximum fídusinn og bauð 40. Maximum virkar þannig að ef einhver hefði boðið 31€ hefði Maxinn hækkað mitt boð upp í 32€ og svo framvegis þar til náð hefur verið hámarkinu sem ég setti, í þessu tilfelli 40€ Þarna ætlaði ég að hætta, það er jú áhætta að kaupa bilaðan hlut og það án þess að sjá hann einu sinni. En ég held að svona uppboð séu hálfgert gambling eða fjárhættuspil. Ok, ég bíð 45€ og svo ekki € meir. Svo ég fer í Maxinn og slæ inn fjörutíuogfimmogfimmtíu og slæ á enter og allt er komið í kring. En viti menn, þegar ég lít á töluna er ég búinn að setja Maxinn á 4.550.00€, eða cirka 409.500.00 Íkr!! Fyrir eina bilaða myndavél! Er nokkur góur maður á Íslandi sem getur hjálpað mér um þessa upphæð í krónum eða €? Plís! En sem betur fer var þetta Maxinn en ekki beint boð. Uppboðinu á að ljúka á morgun um fjögur leitið og ég bíð með hverja taug spennta, vegna þess að ég mun alltaf bjóða betur hvað hátt sem aðrir bjóða, það er að segja upp að hálfri milljón! Ég kem ekki til með að sofa vel í nótt. Og núna þegar ég er að fara að sofa er boðið komið í 57€. Ég ætlaði aldrei svo hátt, púff!
Leigja sér Ferrari eins og skósmiðurinn. Skrapp til Gíbraltar og í BÝKÓ.
.
Nú er nýjasta dellan hjá mér að leigja mér bíl. Ekki er öll vitleysan eins. Jane er að fara í ferðalag þann 26. þ.m. og verður til 09-03-04, eða í 11 daga. Ég sendi henni meil í gærkvöldi þar sem ég stakk upp á að ég hefði bara bílinn á meðan hún væri í útlandinu. Ég skrapp svo heim til hennar um hádegisbilið og við ræddum þetta fram og til baka. Hún hélt að ég yrði að borga allt að 250€. Ég bara trúði henni ekki, en vildi þó ekki þræta. Hún er jú alltaf með bílaleigubíla þegar hún er hér í Jimena. Hún sagði svo að við skildum ekkert vera að rífast um þetta, hún þyrfti að skutla fólki á flugvöllinn í Gíbraltar í kvöld og við skyldum bara koma við á bílaleigunni og kanna málið beint. Hún var að keyra kunningjafólk sitt frá Englandi og það var auðsótt mál að ég fengi að fljóta með. Jane þurfti líka að skipta um bíl vegna þess að skoðunin á Peugeotinum rennur út á morgun. Þegar við komum á Bílaleiguna lögðum við dæmið fyrir afgreiðslumanninn, og mikið rétt, tæpar 250 € þessa 11 daga. Það eru 22.500 kall eða 2000 kall á dag. Kannski er það ekki svo mikið. Hvað skildi bílaleigubíll kosta á Íslandi í dag? Hún fékk alveg glænýjan SEAT bíl, en þeir eru hálfgerðir Fíatar (eins og Ferrari) og settir saman á Spáni. Þetta er lítill bíll og dísill þar að auki. Það er bara borgað daggjald og hægt að keyra eins og maður vill. Ég treysti mér ekki í þetta og gaf það frá mér, hálfgrátandi samt. Á heimleiðinni komum við við í Lee Roi Marlin, en það er BÝKÓ sem ég hef oft minnst á. Jane fyllti heila körfu en ég keypti mér bara lítinn borðlampa á 15 € og krinlótt pínulítið hallamál til að rétta af myndavélina á þrífætinum. Svo fórum við bara beint heim. Ég fór seint að sofa, mikið að gera á eBay og víðar.
Klikkað andlit á Dagbókinni. Ef þið sjáið Kolla, ekki sparka í hann, sendið mér hann frekar. Röraleiðangur.
.
Dagbókin mín er eitthvað skrítin þessa dagana, er að reyna að koma inn kerfi til að þið getið sett inn athugasemdir um allt og ekki neitt beint frá dagbókinni. Þetta er bráð sniðugt, en flókið fyrir moðhaus að koma því upp. Vantar Kolla, sniff sniff!
Fór stóran hring í dag. Fyrst austast í bæinn til að kaupa mér snúru í hátalarana sem Jane gaf mér og um leið símasnúru handa Lúí, en ég ætla að klára að ganga frá leiðslum og tenglum hjá henni á morgun. Svo fór ég niðrí bæ og keypti beyju og té til að nota í drénlögnina sem ég ætla að setja undir stéttina sem við Lúí erum að fara að gera. Vinnukallarnir ganga frá fyrir utan húsið á morgun og ég ætla að plata þá til að grafa niður rörið og helst að útvega það líka. Mér finnst skolprör dýr hérna, þúsundkall þrír metrar. Og þó, kannski ekki. Kom við á pöbbnum mínum og fékk mér Tapas og einn bjór. Og svo var legið í tölvunni og á netinu og í tölvunni og á netinu og svo framvegis. Var hérumbil búinn að kaupa mér aðra Canon S10, notaða, en hætti við 200 júrur.
Vaskaði upp!!!! Góður í skrokknum eftir það.
.
Fór varla út úr húsi í dag, var allan daginn í tölvunni og svo tók ég íbúðina í gegn. Skúraði, skipti á rúminu, þvoði þvott og meira að segja vaskaði upp!!! Labbaði einn hring niður í bæ til að halda mér í formi. Já já sér er nú hvert formið segir einhver, en ég er bara rosalega fínn í skrokknum og finn hvergi til. Hnén eins og ég væri bara 50 kíló og annað eftir því. Bara að þetta endist. Líka eftir að ég kem heim.