GunniJak í Danmörku
3.1.04
  Næsta sumar hjá Maríu í Morokkó eða hjá Rut í Noregi eða hjá Jane í USA? Hver veit? .
Var í tölvunni í dag, er að basla við myndir sem ég ætla að skella inn á Fotki.com. Gengur hálf illa hjá mér, tölvan er soldið löt á Photoshop, en ég er samt mjög hamingjusamur að hún skuli duga í þetta yfirleitt. Ég keypti hana á netinu fyrir löngu síðan og hélt að þetta væri hálfgert drasl, enda verðið eftir því. Sá svo eftir því og reyndi á tímabili að selja hana aftur, en sem betur fer tókst það ekki. Og nú dugar hún prýðilega í allt sem ég þarf að gera hérna á Spáni.

Tók smá skorpu á svefnherberginu í dag, vildi samt ekki líma neitt vegna þess að á morgun er konsert hjá fröken Lúí og hún og vinkonur hennar í kórnum eru að æfa meira og minna í allan dag. Dásamlegar konur, ég geri mér bara ferðir upp í svefnherbergið til að geta hitt þær allar. María sem býr í Marokko, hún er Hollensk en er gift Marokkómanni, þær eru aldavinkonur hún og Lúí. Ég á heimboð til hennar í febrúar, hún á stórt hús og leigir frá sér herbergi. Kannski verð ég bara í Morokkó næsta vetur, hver veit! Ég ætla alla vega að kíkja á það.
Svo er það nú hún Rut hin Norska. Hún er nýlega skilin við kallinn sinn og er ýmist hér í Jimena eða í Noregi, en hún á hús á báðum stöðum. Hún hellti tei ofan í fína lapp-toppinn sinn, sem betur fer sykurlausu, en það fór allt í steik hjá henni samt. Hún bað mig að redda sér, ég sagði henni að láta tölvuna á stól uppvið ofn yfir nótt og koma svo með hana til mín. Daginn eftir kveikti ég á tölvunni fyrir hana og allt var í lagi. Auðvitað sagðist ég hafa gert hitt og þetta og fékk að minnsta kosti þakkir og hrós fyrir. Og heimboð í Noregi, en hún er að fara þangað eftir 3 daga þessi elska, sniff sniff :0( Kannski ég verði í Noregi næsta vetur!!
Ég hitti Jane í dag, hef ekki hitt hana síðan ég neitaði að eyðileggja þurrkarann hennar. Það ævintýri endaði með því að hún fékk spesialista frá umboðinu til að koma heim til sín og setja hann saman. Þurrkarinn í fínu lagi núna, en aumingja Jane 20 júgrum fátækari. Hefði mágurinn ekki verið svona hjálpsamur hefði þetta aðeins kostað hana nokkra dinnera, fáeina lönsa og tvo þrjá breikfasta. Hún á hús í USA, kannski ég verði bara hjá frændum mínum í Norður Ameríku næsta sumar? ;0(


 
2.1.04
  GunniJak á steypirnum. Toolverjar Spánverjar. Þyrfti að virkja Lúí til raforkuframleiðslu. .
Mig grunaði rétt, Lúí vakti mig kl. 10:00 og "skipaði" mér að koma út og hjálpa sér að steypa í veginn kringum húsið okkar, það spáði 3ja daga rigningu og nú væri komið að því sem ég hefði lofað að gera síðan ég kom, að steypa í veginn. Nú var erfitt um afsakanair, hún var búin að redda 1 M2 af steypumöl og 3 pokum af sementi svo ég mátti gjöra svo vel og hræra steypu úr 3 pokum og steypa undir vatnið sem flæðir hérna allt í kringum húsið og svo líka að gera götuna okkar slétta og fallega. Hún Lúí á einhverja svaka óbeyslaða orku sem hún fær útrás á í svona ati, hún tók á móti steypunni og sléttaði úr henni og vann undirvinnuna. Ég varð að handhræra steypuna með einhverjum steinaldarverkfærum sem ég hef aldrei séð á íslandi. Og eina skóflan hennar, fyrir utan venjulega stunguskóflu, var stuttskeft spýssskófla með haldi og risa stóru blaði. Svoleiðis græju hef ég nú bara ekki séð á Íslandi síðan við Óli gamli í Götu vorum saman í vegavinnu og rótuðum úr hlössunum með svona skóflum. Það var uppúr því að ég fermdist. Kannski er ég enn að bíta úr nálinni eftir það. Hver veit. En verkið okkar Lúíar var glæsilegt eins og búast mátti við og nú bíð ég bara eftir því að hún fái næsta kast og rjúki í næstu 3ja poka törn, af nógu verkefni er að taka. Og hún ætlar að láta mig steypa allan hringinn í kringum húsið sitt. Þvílík kjarnorku kelling, púff!


 
1.1.04
  Letibykkja ekki í fyrsta sinn. Hræddur við morgundaginn. .
Ég svaf til kl. 14:00 í dag og gerði bókstaflega ekkert í allan dag. Varla að ég nennti að éta, hvað þá annað. En aumingja Lúí var að vinna allan daginn, einhverjar afleiðingar þess að hafa verið í hálfan mánuð að leika sér í "útlöndum". Hún ætlaðist til þess að ég færi að vinna í svefnherberginu hennar, en ég vann þar á aðfangadagskvöld og á jóladag og nú sagði ég hingað og ekki lengra. Ég hef grun um að ég verði látinn finna fyrir letinni minni í dag, á morgun. Sé til.


 
31.12.03
  2003 + 1=, of erfitt. Malcolm húsráðandi og partýhaldari. 10 fólk, 5 þjóðir. .
Gammel År Dag, 2003 að verða búið og næsta ár, númer hvað sem það nú verður, að taka við. Ég var bara duglegur í herbergi Lúíar í dag, límdi heilmikinn kork á gólfið. Svo var bara slappað af og ég gerði bara eins og Prúdencio: Hvíldi mig fyrst, lagði mig svo, slappaði síðan af og þegar ég var orðinn þreyttur á öllu þessu striti fékk ég mér smá blund. Sá er þó munurinn á okkur að hann gerir ekkert annað, en ég er nú að reyna að dunda mér við ditten og datten. (Flott setning!).

Okkur Lúí var boðið í partý í neðsta húsið við götuna "okkar". Þar býr, með kærastanum sínum, Malcolm nokkur sellóleikari. Ég kynntist honum í fyrsta paríinu sem ég kom í hér í Jimena, og svo hef ég margoft talað við hann þegar hann hefur labbað hérna framhjá á leið heim eða að heiman. Þarna var 10 manns af 5 uppruna-þjóðernum. Það var mikið að éta og drekka, en hver kom með mat og drykk og svo átu og drukku menn hver frá öðrum. Þetta er mjög algengt hér á Spáni og ég vissi það ekki fyrr en eftir fyrsta partíið að ég átti að koma með vín og mat þá. Þetta er svo sjálfsagt að það er ekki tekið fram. Ég hef liðkast verulega í enskunni, ég get haldið uppi samræðum um nánast hvað sem er þegar ég er búinn að hægja aðeins á viðmælandanum og biðja hann að tala skýrt og nota ekki mikið af flóknum orðum. En ég missi stundum þráðinn þegar ég hlusta á annað fólk tala saman, þó ekki alltaf. Skil svona annað hvert orð, en það dugar oftast til að halda þræðinum, eða til að misskilja allt.
Húsið hans Malcolm er aldeilis æðislegt. Hann byggði við það fyrir nokkrum árum, en það er byggt alveg upp að smá klettabelti. Það var heilmikill klettur þar sem hann byggði, en í staðinn fyrir að annaðhvort sprengja hann burt eða fylla í kringum hann lét hann klettinn bara standa inni í stofu eins og ekkert væri!! Ég þarf endilega að kíkja heim til hans í björtu og mynda húsið hans utan og innan. Og ég hef sjaldan séð eins snyrtileg hús og hans. Eða þeirra réttara sagt, þó Rod, kærastinn, eigi ekki í húsinu þá á hann ábyggilega sinn hlut í snyrtimennskunni. Rod er því miður í Líbíu um þessar mundir og var þess vegna ekki heima um áramótin. Ég er hérna í soldilli útlendinganýlendu, kynnist spánverjunum þessvegna minna, enda skil ég ekki nokkurn spánverja. Sorrý fyrir þá, ´þeir vita ekki af hverju þeir missa!!!!!!!
Partíið var til ca. 03:00 og þá hélt hver heim til sín. Og ekki þarf að taka fram að það var enginn edrú og enginn fullur. Eins og fólkið hefur það á Spáni, almennt. Það eina sem vantaði var þó ekki hefði verið nema ein raketta, að að kveikja þó ekki væri nema í einum Mogga og einum pappakassa. En þar varð mér ekki að ósk minni. Eini klukkutíminn sem ég hef fundið fyrir heimþrá, en hún hvarf svo aftur klukkan eitt. Vonandi hefur einhver tekið upp skaupið handa mér, ég má ekki missa af því.





 
30.12.03
  Það kemur lýsing á þessu ferðalagi seinna, kannski á morgun eða hinn, myndavandamál! .
Ég var latur í morgun, komst ekki á stað fyrr en kl. 11:00 og renndi þá beint langleiðina til Algeciras í "BÝKÓ" sem þar er. Keypti ýmislegt til að nota í svefnherbergi Lúíar, td. lista, lím og þessháttar. Rétt við hliðina á Býkó er STÓRmarkaður, ég gat ekki stillt mig um að rétt líta inn. Keypti mér flotta dyramottu á útsölu, kostaði 5€ eða 450 kall íslenskar. Fékk mér svo að éta alvörumat á matsölustað sem er í sama húsi og markaðurinn. Fyrsta sinn sem ég kem á matsölustað á Spáni þar sem er heitur matur í döllum í hitaborði og maður getur fengið hvað sem er og hvað mikið sem er. Næsta mál var að komast niður á ströndina án þess að lenda á hraðbrautinni. Það endaði með því að ég var kominn inn í Alceciras áður en ég vissi af. Rambaði svo þaðan eftir smávægilegar villur niður á ströndina og keyrði svo sem leið lá með ströndinni alla leið til Malaga. Með smá undantekningu.
 
29.12.03
  Njósnir frá Engilsaxneskum. Matarbruni. .
Ég fer nú bara að segja það sama dag eftir dag. Fór ekkert út nema milli hæða í dag ef frá er talið að ég skrapp í búðina til að við Prúdi drepumst ekki úr hungri. Ég fer í fyrramálið til Malaga að sækja Lúí. Hún á að lenda 20:35, en ég ætla að taka allan daginn á Costa Del Sol. Það er að segja ströndinni milli Gíbraltar og Malaga. Eins og ég sagði ykkur síðast þá tók ég enga mynd á leitinni til Malaga og í bakaleiðinni var komið svarta myrkur. En nú á semsé að taka allan daginn í þetta ferðalag. Stoppa víða og sleppa alveg hraðbrautinni! Ég mundi hvort eð er aldrei finna hana, þó ég væri að keyra eftir henni eins og reynslan sannaði síðast. Góður vöðvi af nauti kostar heilar 8 júrúr kílóið, ég er alveg hissa, en kjúklingavængirnir bara 1,4 júrur. Og miklu betri. Eða þannig, berin eru súr sagði rebbi.
 
28.12.03
  Hálf rigning hálfhórusuntukal. Nennti ekki að Djeinast. .
Haldið þið að það hafi ekki rignt smávegis í dag, svona íslensk rigning bæði að magni til og líka var smá gola þannig að hún var kannski 45 gráður. En hitinn var svipaður og aðra daga um þessar mundir, 9-12º á nóttunni en allta að 18-19º á daginn.

Jane sagðist ætla að senda mér meil ef hún vildi að ég kæmi að reyna við þurrkarann, en ég fékk ekkert meil og fór ekkert. Fór ekkert út úr húsi nema á milli hæða, var að vinna af og til í allan dag, setti upp stóru hilluna og smávegis kork á gólfið. Ég var á fullu að líma kork á gólfið þegar Lúí hringir og biður mig að setja nýjar myndir á Fotki af því tölvan mágs hennar er ónýt og hún var að fara í heimsókn til einhvers gamals kærasta sem á tölvu í lagi. Ég flýtti mér að klára í kringum stóru hilluna og setja gólflista í hornið innan við rúmið. Svo tók ég aðeins til þar sem ég ætlaði að mynda. Skellti af ca. 10 myndum og dreif inn á netið. Síðan er ennþá læst, þegar Lúí er komin heim opna ég síðuna og allir geta séð hvað ég er myndarlegur. Það kemur sér oft vel að vera fjölvirki. Ég var að elda mér mat á meðan ég tók myndirnar, en það tók miklu lengri tíma en ég ætlaði í það svo grauturinn minn fíni þornaði upp og brann við botninn. Svældi honum samt í mig, skítt með að hann væri aðeins sangur.

 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com