GunniJak í Danmörku
11.2.05
  Thad er engin afsokun til fyrir letinni i mer ad blogga, sorry!! .
.
Bloggad fostudaginn 11. Februar 2005.



Föstudagur 04-02-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 ????° Hálfskýjað Hæsti C° í dag: NV 04 16,8° HeiðskírtKvöld: NV 08 12,5° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 06,0°

Eins og við var að búast voru veðurguðirnir hliðhollir okkur Lúí, það var sama veðrið í morgun og undanfarið, heiðskírt en frekar kalt. Mætti hjá henni klukkan 10:30, en hún var ekki til fyrr en ellefu. Keyrðum sem leið lá til Algeciras, en þar byrjar hraðbrautin til Jerez de la Frontera. Lúí hafði aldrei farið nýju hraðbrautina, en hún hefur verið í byggingu undanfarin 2 ár. Nú eru bara ca. 10 km eftir af rúmum 100 km. en verið að vinna þar á fullu. Á að opna fyrir aðal ferðamannatímann í vor. Nú fer að verða spurning hvort ekki borgi sig að keyra 10 km leingri leið á beinni og greiðfærri hraðbraut til Jerez til að nota flugið en til Malaga eftir allt of lítilli hraðbraut með tolli og alles. Það er ekki búið að taka upp toll á hraðbrautinni til Jerez, en verður trúlega gert þegar hún er orðin tilbúin. Það má geta þess að gamni að vínið Sérrý er dregið af nafninu á borginni Jerez de la Frontera, en þar var það fundið upp fyrir hundrað og fimmtíu árum og verið bruggað þar síðan. Þetta er eiginlega léttvín blandað með eimuðu víni og útkoman er Sérrý. Það heitir Fino á spænsku. Eða Fino Blanko.
En þetta er önnur saga, við fórum ekki alla leið til Jerez, enda var ferðinni ekki heitið þangað. Við fórum í búð í bæ sem heitir Alcalá de los Gazules. Þangað fór ég stuttu efir að ég kom til Jimena, en bara hinum megin frá. Fann það að það var mánudaginn 3ja Janúar. Þið getið flett upp á því þar. Nú komum við að bænum vestan megin, en hann liggur rétt við hraðbrautina. Í búðinni keypti Lúí alls konar hnossgæti til að borða, en ferðalagið var í og með lautarferð. Eða Pikk Nikk eins og enskumælandi fólk segir gjarna. Svo var að finna stað til að fá sér kaffisopa. Við fórum útá mjóan veg frá Alcalá og ég var alltaf að benda á ákjósanlega staði. En ekkert gekk, það mátti ekki vera gróður af neinu tagi, mestar líkur á að það væru tómir þyrnar eða þá fullt af pöddum og ég vildi ekki setjast í eitthvað leirflag svo það var úr vöndu að ráða. Litli vegurinn náði alveg að hraðbrautinni og allt í einu kallar Lúí á mig að stoppa, hún sá þá 2ja metra vítt ræsi undir hraðbrautina og þar sagðist hún ætla að Píííí, en það er víst bara að pissa á góðri íslensku. Ekki hefði mér fundist þetta vera dagbókarmatur nema vegna þess að þarna inni hóf fröken Lúí upp raust sína og það var eins og hún væri komin í besta tónleikasal. Hún syngur asskoti vel Lúí, ég verð nú bara að segja það. Hún syngur Messósópran, alla vega hæstu röddin í kórnum sem hún er í og ég hef minnst á hundrað sinnum. Þarna fengum við Þumba, hún var að sjálfsögðu með, þennan fína konsert bara út á eitt piss. Geri aðrir betur.
Að lokum varð ég að gefa mig og við fengum okkur kaffi í einhverri hættulausri urð, en ég hafði verið svo forsjáll að taka með mér kaffi á brúsa. Rétt fyrir sunnan Alcalá er gríðarlega mikið manngert lón til virkjunar, það hefur fyllt upp nokkra litla dali og hraðbrautin liggur á ótal brúm og í gegnum ótal hæðir á milli, ýmist í jarðgöngum eða djúpum manngerðum gjám. Það eru ein 6-7 jarðgöng á leiðinni til Jerez, gaman fyrir mig af því ég er svo veikur fyrir jarðgöngum. Og brúm.
Rétt áður en við komum til Jerez beigðum við til vinstri inn á hraðbraut sem liggur milli Jerez og Sevilla. Alvöru hraðbraut sem við þurftum að borga 1.05 evrur í toll. (ca. 80.- Íkr). Rosalega held ég að það þurfi marga bíla til að það borgi sig að taka áttatíu kall af hverjum. Elstu menn muna eftir því að það var tekið veggjald af Reykjanesbrautinni fyrst árin. Að lokum var svo komið að það var dýrara að reka gjaldtökuna en það sem inn kom.
Cádiz var einu sinni eyja en nú er búið að byggja brú að henni norðanverðri og uppfyllingu að sunnan. Þar eru rosalega miklar mynjar frá öllum tímum sem menn geta lesið í. Mörg þúsund ára kastalarústir og svo framvegis. Við fórum alveg út á nyrsta odda gamla bæjarins og stoppuðum við æfaforna kirkju sem er við ströndina. Ég með Þumbu í eftirdragi, en hún var skíthrædd við hávaðann af umferðinni og allt og alla. Þannig að hún var mest í fanginu á mér. Við hliðina á kirkjunni var nýlegt hús og reyndist það vera byggt yfir æfafornar rústir. Maður þarf marga daga og margar bækur til að skilja og sjá allt það merkilegasta.
Svo héldum við sem leið lá suður með ströndinni og beygðum af aðalveginum og komum að litlum bæ sem heitir Cabo Roche og er aðallega sumarleyfishúsa bær. Þar fórum við niður í fjöru og borðuðum Löns, sem ég veit nú eiginlega ekki hvað þýðir. Það er hvorki hádegismatur né kvöldmatur á íslenska vísu, en er borðaður á mismunandi tímum eftir því hver á í hlut. Þarna var hundrað metra breið strönd með skjannahvítum sandi svo langt sem augað eygði í hvora átt. Þumba var hálf hrædd við sjóinn, vissi ekkert hvað þetta var. Svo héldum við aftur upp á aðalveginn og fórum sem leið liggur heim, um Tarifa og Algeciras. Í Algeciras höfðum við lokað hringnum og þegar heim var komið höfðum við lagt að bakai ca. 300 km og ca. 25 lítrum af bensíni. Geri aðrir betur á fullvöxnum steisjonbíl.
Ég kom heim sæll og glaður eftir gott ferðalag og fór að sofa um kl. 23:00.
Laugardagur 05-02-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 ????° Hálfskýjað Hæsti C° í dag: NV 04 16,8° HeiðskírtKvöld: NV 08 12,5° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 06,0°

Föstudagur 14-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 07,2° Hálfskýjað Hæsti C° í dag: SA 06 15,4° LéttskýjaðKvöld: A 00 07,7° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 06,3°
Fór um 10 leitið á markaðinn. Það er alltaf útimarkaður í Jimena á föstudögum, fyrsta sinn sem ég kemst á útimarkaðinn síðan ég kom hingað núna. En sleppti honum helst ekki í fyrra þó ég þyrfti að labba alla leið. Var með Þumbu í beislinu á markaðinum, krakkarnir kunna sko að meta það. Og ég viljugur að rétta hana upp í fangið á þeim. Keypti mér jogging buxur og vinnuskirtu, en auðvitað of lítið, nema hvað. Kaupi aldrei föt á markaðinum oftar. Jú, sokka, keypti mér 6 pör á 3€. Og svo smá dót til að setja í umslag með snuffinu á mánudaginn. Skilja sem eiga að skilja. Fór svo eftir markaðinn heim til Lúíar til að fá lykilinn að Jane húsi, en Lúí var þá ekki heima og lykillinn ekki á sínum stað. Hitti nýja dýralæknirinn fyrir utan hjá sér, hún bauðst til að sprauta Þumbu fyrir mig. Sé til með það. Keyrði krókóttu leiðina frá Jane húsi, en ég var að gá hvort Lúí væri þar, og rétt fyrir ofan Al Anon sá ég búð sem ég hef aldrei tekið eftir áður. Vantar spirittkerti svo ég leit inn. Fékk kertin, og það sem meira var, líka kaffikvörn!!! Kannski klikkun, en kvörnin kostaði ekki nema 20 evrur eða um 1.700.- Íkr! Þetta er ekkert plat eða djönk, bara alvöru kaffikvörn og hún er með vinkildrifi ofaná þannig að maður snýr henni með lóðréttu hjóli eða sveif en ekki láréttri, það var það sem gerði malaríið svo erfitt áður fyrr, það er okkur ekki eðlilegt að vinna lárétt. Og það fyndna er að fyrir nokkrum dögum keypti ég kaffi í SúperMarkaðinum okkar í Estation, en þegar ég kom heim voru bara kaffibaunir í honum. Var búinn að opna hann svo ég gat ekki skilað.
Fór svo heim og lagði mig þar til Villibro kom, hellti upp á könnuna og gaf honum kaffi úr nýmöluðu. Namm namm! Aftur til Lúíar um 6 leitið og stoppaði smá stund yfir smá Anis dropa. Svo fórum við Þumba í Jane hús og ég var þar á netinu alveg til klukkan eitt í nótt!! Hafði loksins að koma öllu blogginu inn á netið, mikill léttir. Hafði ekki bætt við nýju bloggi síðan ég kom hingar, tæpan mánuð. Ég nennti ekki að gera það skipulega, skellti bara öllu saman í einni bendu og bunu inn á Blogspot. Skárra en ekkert. En engar myndir ennþá, næ engri mynd út af myndavélunum mínum. Sofa um kl. 02:00.

Laugardagur 15-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 08,3° Hálfskýjað Hæsti C° í dag: A 00 14,4° HálfskýjaðKvöld: A 00 10,2° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 08,6°
Willibro kominn þegar ég vakna, Justus og Lúkas með honum. Voru með rosalega flotta fjarstýrða jeppa. Ég var latur fram eftir degi, mókti og dútlaði mér til skiptis. Eldaði dýrindis kjötsúpu úr kjúklingi og alls konar dóti og afgöngum sem ég átti til. Við Þumba fórum svo um 5 leitið til Castellar og í þetta skipti vorum við heppin, Kíkó, Díana og Celsia voru öll heima. Celsia, en hún er 22ja mánaða núna, gekk alveg af göflunum þegar hún sá Þumbu, hún er þá svona æst í ketti litla skinnið. Hún var voða góð við Þumbu, en mín var nú samt búin að fá nóg að lokum og lagðist við útidyrnar og mændi á mig. Við stoppuðum alveg til kl. hálfátta. Kíkó er búinn að vera mikið slæmur í bakinu, en er eitthvað skárri núna. Þau fóru til Þýskalands í sumar og það var einhver sem átti að passa Própertíið á meðan, en sveikst um þannig að flestar plönturnar dóu og þess vegna er allt dautt og draugalegt þar núna. Þau eru ekki búin að ná upp páveri til að byrja aftur. Svo eru bæði kýr og Geitur búin að vera að valsa um þarna og skemma það sem þurrkurinn hefur ekki náð að eyðileggja. Ég bauð þeim hjálp ef þau vildu. Kom aðeins við að vegarpöbbnum næst okkur og fékk mér einn bjór og kolkrabbatapas, aldrei slíku vant var krabbinn ekkert seigur. Gallinn við hann alla jafna er að hann er ólseigur.
Sunnudagur 16-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 14,4° Kvartskýjað Hæsti C° í dag: SA 08 15,9° KvartskýjaðKvöld: A 00 12,0° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 11,9°
Þumallína lenti í ægilegum hremmingum í dag. Ég var að þvo bílinn minn (Jú, víst!) og hafði hana með mér eins og alltaf. Hér er þvegið með háþrýstidælu sem gefur svona langa og þunna bunu. Maður setur eitthvað af € í þar til gerða rauf og svo er hægt að velja um: Heita sápubunu, heitt vatn og hreint vatn. Þetta er í þriðja sinn sem ég fer með Grána minn í bað hérna (Jú, víst!) og hef alltaf bundið Þumbu við girðingu sem er á lágum vegg alveg við þvottastaðinn. Þarna var stelpa um tvítugt sem var að bíða eftir að kærastinn þvægi bílinn þeirra og hún dundaði við að leika við Þumbu svo ég var alveg áhyggjulaus. Eftir dátla stund lít ég upp og þá er engin Þumba og engin Stelpa. Auðvitað væri sagan best þannig að stelpan hefði stolið Þumbu og stungið af og svo hefði orðið æðislegur kappakstur um allar þröngu og bröttu göturnar í Jimena og hinn bíllinn hefði klesst á vegg og enginn komist lífs af nema Þumba sem ekki hefði fengið skrámu. En þannig var það nú ekki. Stelpan fór að hjálpa kærastanum en Þumba farið upp á lága vegginn og stokkið niður hinumegin. Það sem þessi auli fattaði ekki var að það var á aðra mannhæð niður hinu megin. Sem betur fer var hún búin að fara framhjá einum staur í girðingunni og þar með var bandið ekki orðið nema ca. 50 cm langt, en þarna hékk þessi vesalingur í beislinu. Ég hefði ekki boðið í mína ef hún hefði verið með ól og bundið í hana, púff! Ég bara dró hana upp og henni hefur örugglega ekki orðið meint af, líkamlega. Og ekki nóg með þetta, þegar ég var búinn að þvo fór ég út á plan sem þarna er og ætlað til að þurrka og dedúa við bílana. Bensínstöðin og þvottavélin eru i Estacion og lestarteinarnir eru beint fyrir neðan vegginn títtnefnda. Þumba var bara í sjokki inni í bíl eftir sjálfsmorðstilraunina og átti sér enskis ills von þegar lest fer framhjá í 5 metra fjarlægð og flautar um leið og hún fer framhjá. Þetta er ekkert smá flaut vegna þess að ég heyri það hérna heima hjá mér í Stellu í 5 kílómetra fjarlægð. Þumbu brá svo rosalega við þetta að hún gerði það sem hún hefur aldrei gert áður, hún stökk undir gólfið afturí Grána. Það er bara ca. 8 cm hátt bil og þar undir gat hún flækt bandið þannig að ég varð að taka sætið úr bílstjóramegin til að ná henni út. Poooor Þumba!!! En nú er hún búin að ná sér, er að böggast í aumingja Skúla Órans og hann leikur við hana eins lengi og hans langa lína endist. Nú bíð ég bara eftir að Þumba skrækji og hætti að ergja aumingja Skúla Órans.
AnaBel kom með pabba sínum að gegna í dag. Spotti fann eitthvað kvikindi til að böggast í og þau feðgin ærðust við það, hann mátti ekki sinna sínu eðli og náttúru og reyna að veiða sér í soðið. Ekkert má nú til dags. Rétt eins og kettirnir. Ég var voða hreykinn að segja Willibrounum að Skúli Órans hefði veitt þennan fína fugl. Og étið hann upp til agna. Ég vissi ekki hvert liðið ætlaði, þetta var voðalegra en flóðin í Asíu!! Vesalings litlu smáfuglarnir sem eru ekki nema 10 milljón hérna yfir veturinn, ljótt að éta litlu skinnin. En svo verða allir uppnumdir og fyllast gleði og hrósyrðum í garð Skúla Órans þegar hann kemur með mús í kjaftinum. Og tegir og engir úr henni lífið á löngum tíma, sér til ánægju og skemmtunar. Þá taka allir þá í gleði hans og hamingju. Og ég er viss um að það eru ekki nema ca. 10 mýs á öllu svæðinu. Skúla Órans svæði að segja. Annars skeði soldið mjög skemmtilegt um daginn. Hann hafði veitt mús og hann kom með hana sprelllifandi í kjaftinum til Þumbu og lét hana fyrir frman hana. Hún áttaði sig ekki strax á hvaða gersemi og fengur þetta var og músin hljóp í burtu. Þá sótti Skúli Órans hana aftur og þá voru genin búin að raða sér rétt upp í Þumbu og hún tók aldeilis til hendinni. Og ég get svarið það að hún tók utan um hana eins og hún væri með manns, eða réttara sagt konu hendi. Þumbinn kom sér vel. Músin slapp einu sinni aftu en Höfðinginn sótti hana aftur og leifði Þumbu að murka úr henni lífið. Djöfull getur náttúran verið miskunnarlaus og grimm. Vissuð þið að Kanarnir slökkva ekki skógarelda sem kvikna af "eðlilegum" örsökum í þjóðgörðunum þeirra? Milljón dýr deyja en um leið er haldið uppi nauðsynlegu hreinsunarstarfi fyrir önnur milljón dýr. Og til eru fræ sem ekki spýra nema þau séu búin að lenda í eldi. Ef aldrei kviknaði skógareldur myndi þessi jurt, minnir að það sé eitthvað tré, deyja út. Náttúran er skrítin. Báðar.

Mánudagur 17-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 12,6° Hálfskýjað Hæsti C° í dag: S 07 14,8° Alskýjað í GíbraltarKvöld: A 00 11,0° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 05,9°

Ég á digital hitamæli með þráðlausum sendi. Það þýðir að ég get haft hitanemann hvar sem er innan 100 m radíus. Ég hafði hann í gasflöskukassanum framan á Stellu á ferðalaginu hingað suður á bóginn, en núna liggur hann ofaná nyrðra hjólinu á Stellu. Þar hitnar lítið sem ekkert af sólinni og vindurinn getur blásið frjáls um hann. Morgunhitinn miðast við hitann þegar ég fer á fætur, einhvertíman á bilinu milli 06:00 og 12:00. Mælirinn sýnir hæsta og lægsta hita síðastliðna 24 tíma, eða frá þvi ég stillti hann inná það síðast. Ég set næturhitann á daginn sem var að líða, sem þýðir að næturhitinn núna í nótt fer á hitann í gær. Þá byrjar alltaf nýr dagur að morgni, en ekki þegar hitinn var lægstur um nóttina. Svo færi ég inn hæsta hitann á sama tímabili og lægsta hitann og að lokum hitann þegar ég fer að sofa, á tímabilinu 20:00 til 03:00. Þannig að þið sjáið að þetta eru hárnákvæmar og vísindalegar ránnsóknir og skýrsluhald.
Vaknaði um klukkan sjö og dreif mig á fætur eftir að hafa komið hitastiginu soldið upp fyrir frostmark. Vaskaði upp, þreif allt og fékk mér að lokum BalaBað. Svo skellti ég mér sem leið lá til útlanda. Það er að segja til Breska Heimsveldisins. Þar þurfti ég að reka ólöglegt erindi sem fjórar þjóðir fléttuðust inní. Hefði komið upp vandamál við erindi þetta var ég auðvitað Íslendingur og þar með hefðu íslensk lög náð yfir mig persónulega. Trúlega hefði Breska Heimsveldið ekki átt neina sök, það sem ég var að gera þar var lölglegt hjá þeim, en bannað og ólölglegt hjá hinum þremur löndunum. Ég fór í gegnum tollinn hjá Spánverjunum þegar ég kom aftur heim, hefðu þeir orðið áskynja um mitt ólölglega athæfi hefðu þeir átt að gera eitthvað í málinu, en þeir urðu ekki varir við neitt og óvíst að þeir hefðu nennt að eltast við glæp upp á 11€. Nú, ég sendi svo glæpinn til fjórða lands, sleppi því að geta þess hvaða land það er, og þarmeð var fjórða landið komið inn í málið. Rosalega hefði þetta orðið svakaleg milliríkjadeila ef upp hefði komist!! Og auðvitað var "útlandið" Gíbraltar.
Mig er búið að dreyma um að eignast kassettu upptökutæki, ekki Dictafón heldur fyrir fullvaxnar hljóðsnældur ein og það heitir víst á íslensku. Ég er búinn að athuga verð á nokkrum stöðum, til dæmis CarreFor og víðar og þetta hefur verið á bilinu 35 til 40€. Ég labbaði alla aðalgötuna í Gíbraltar og sá svona græju víða og verðið var svipað þessu. Að lokum kom ég í búð þar sem tækið kostaði 45€ og með batteríum og einni kassettu 52€. Allt í lagi með það, það er hægt að taka á hálfum hraða sem þýðir að á 90 mín kassettu komast 6 klukkutímar af efni. Það sem ég hef hugsað mér með þetta tæki er að tala inn ferðalýsingar jafnóðum og ég ferðast. Ég er að lenda í því núna að vita hvorki haus né hala á stöðum sem ég var að ferðast um í fyrra. Nú ætla ég að setja allar myndir frá þessum ferðalögum inn á Fotki.com og þá er skemmtilegra að vita hvaðan myndirnar eru. Jæja, þar sem ég labba áfram eftir verslunargötunni í Gíbraltar rekst ég á búð þar sem verið er að selja svona tæki á útsölu á skitnar fjandans 12€, já tólf evrur. Djöfull varð ég reiður, ég var einfaldlega rændur þarna og ekki í fyrsta sinn sem ég verð fyrir svona ergilegu fjárhagstjóni. En skýtt með það, tækið er gott og ég prófaði það í fyrsta sinn í dag.
Ég fór inn á breskan Fiss & Sjipps stað og fékk mér þjóðarrétt Tjallanna. Held ég hafi aldrei fengið mér svona áður, en alltaf dreymt um það. Við erum jú búin að selja þeim nokkur milljón tonn af þorski og ýsu til að búa til þjóðarréttinn. Mér fanns svosem ekki mikið til koma, við hefðum kallað þetta djúpsteiktan fisk með frönskum. Og ekkert með, alls ekkert. Ég gat sótt mér Worschestersósu til að sulla á kartöflurna og ekkert annað. Ha, KoteilSósa? Hvað er það? Jú, mig minnir að ég hafi heyrt um svoleiðis fyrir löngu síðan þegar ég bjó á Íslandi, en hún var alla vega ekki á boðstólnum þarna. Ég keypti nokkur póstkort og fleira og sendi til Bergrúnar yngismeyjar á Lágafelli og svo til Ástu Kr. frökenar í Danmörku.
Þegar maður fer til Gíbraltar á maður um tvo kosti að velja. Keyra eins og fínn maður á sínum einka bíl, en þar er hængur á. Það er einhver kergja á milli Tjallann og Spanjólanna með Gíbraltar og hefur verið síðasliðin 100 ár. Spánverjar vilja eignast Gíbraltar aftur en kletturinn sá með næsta nágrenni er bara alls ekki falur. Til að halda uppi ergelsinu og leiðindunum, þó án þess að til árekstra komi eru báðar þjóðir sammála um eitt: tefja afgreiðslu bíla um landamærin eins mikið og þeir geta. Bretarnir skoða alla bíla í krók og kring og góna í korter á hvert einasta vegabréf og teygja lopann á allan hátt. Svo hefna Spánverjarnir sín í bakaleiðinni með því að reyna að vera ennþá lengur að afgreiða bílana til baka inn í Spán. Þetta þýðir að það getur farið allt upp í 3 klukkutíma hvora leið. Þannig að það taka lang flestir þann kostinn að leggja bílunum sínum Spánarmegin, labba í gegnum vegabréfaskoðun og toll og taka taxa eða strætó í bæinn. Það er engin töf fyrir gangandi fólk, tjallinn vill jú fá til sín ferðamenn. Að vísu var kallaður inn í lítið herbergi þegar ég var að koma frá Gíbraltar og skoðaður, þuklaður og þreifaður á alla kanta. Beið bara eftir að helvítis dóninn tæki mig hreðataki, en það hefðu nú orðið hans síðustu mistök í þessu lífi. Ég var með hluta af þessu áðurnefnda ólöglega á mér, en aulinn klappaði mér ekkert um vasana, bara innanlærs og undi handarkrikana. Þannig að ég slapp í gegn eftir allt saman!!
Ég tók strætó, þetta eru nokkrir kílómetrar að fara. Og yfir flugbrautina í Gíbraltar!!! Þarna er risastór og löng flutbraut sem er byggð að mestu út í sjó og hún nær frá strönd til strandar svo það verður að fara yfir hana til að komast í bæinn. Það er stórt torg við annan endann á verslunargötunni og það eru litlar verslanir í stórum húsum allt í kringum það. Og svo búð við búð ca. 2ja kílómetra verslunargötu sem gengur út af torginu. Ég sá enga matvörubúð, enga bóka eða ritfangaverslun og enga svona skranbúð með sitt lítið af hverju. Þarna voru ca. 40 tóbaksverslanir, 30 "Ríki", 50 skartgripabúðir, 50 búiðir með myndavélar, kíkira og soddan, ásamt hljómtækjum og svo milljón fatabúðir. Af öllum stærðum og gerðum. Ef þú, lesandi góður, ætlar til Gíbraltar til að versla, labbaðu þá einn hring um torgið og svona 100 metra inn í verslunargötuna og þá er ekkert nema beinar eftirlíkingar eftir. Sem má alveg spara sér.
Svo skrapp ég á netkaffi í Algeciras, það er enni nema ca. 10 km. krókur að skreppa til Algeciras. (Algeþiraþ upp á Spánversku). Það var ekkert hljóð að tölvunum þar svo ég gat ekki séð/hlustað á Spaugstofuna og annað skemmtilegt, kem þarna aldrei aftur vegna þess að það eru mörg InternetKaffi í sömu götunni þar sem er hljóð og allt tilheyrandi. Það kostar yfirleitt 1€ klukkutíminn á netkaffi á Spáni. Eins og ég sagði áður þá var ég að prófa kassettutækið í fyrsta sinn og nú ætla ég að skrifa orðrétt það sem ég sagði um ferð mína á Tapasstaðinn: "Ég fór á Tapasstað og fékk mér einn Tapas og bjórglas. Afgreiðslukellingin ætlaði ekki að vilja selja mér Tapasinn sem ég bað um, gaf það í skin, hún reyndar talaði nú hvorki ensku né Spænsku, held hún hafi bara talað Arabísku, já hún gaf í skin að þetta væri ekki fyrir svona hvítskinnunga eins og mig að éta þetta, en þetta var nú bara svona...., ja, ég hefi átt að vera með hákarl eða skötu til að bjóða henni, hún hefði ekki lengur sagt að Tapasinn væri sterkur".
Kom heim um kl. 17:00, gjörsamlega búinn í fótunum, aðallega hnjánum og bara svakalega þreyttur yfirleitt. Þumba var ákaflega fegin að sjá mig, lofaði henni að fara ekki aftur frá henni nema þá kannski til Gíbraltar.


Þriðjudagur 18-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: N 00 08,3° Heiðskírt Hæsti C° í dag: NV 06 17,2° HeiðskírtKvöld: NV 12 12,6° LéttskýjaðNótt Lægst C°: 08,6°

Fór að sofa klukkan 20:30 í gærkvöldi og fór á lappir klukkan 10:30 í morgun. Þá var Willibro löngu kominn og mér rétt tókst að hella upp á könnuna áður en hann kom í kaffi. Helvítis vinir mínir, hundarnir, eru búinir að stela frá mér kaffibaununum svo við verðum bara að drekka gamalbrennt og malað kaffi. Þeir og Kettirnir stela bókstaflega öllu frá mér. Þeir eru að verða búnir að éta hluta af staðalbúnaði Stellu, það er að segja rauðu fínu bollana. Nota þá nú samt ennþá, eigandi hundanna skal fá að drekka úr þeim þó ekkert verði eftir nema haldið, ef þá það. Núna, klukkan hálf eitt, er ég á leið til Janes ADSL til að skella þessu bloggi inn á netið og reyna að koma nýja fína kortalesaranum mínum í samband. Verð að sækja drævera inn á netið held ég, næ engum myndum ennþá. Hells Helld :-( Kvöld. Ekki fann ég mína heittelskuðu Lúí í dag, hún er með lykilinn núna, einhver vandræði með vatnið hjá nágrannanaum og hann þurfti að komast inn til Jane til að loka fyrir vatnið hjá sér. Þetta var í fyrradag og Lúí lofaði að skilja lykilinn eftir heima hjá henni, en hann var ekki þar. Ég hef sko lykil að Lúí húsi. Svo við Þumba bara röltum um hverfið og þegar Lúí ekki kom fórum við á Pöbbinn á móti fyrrverandi-tilvonandi Internetkaffinu hans, æ nú man ég ekki nafnið, en hann er allavega danskur. Svo fórum við heim eftir að hafa keypt sand og kattamat í stórmarkaðinum. Willibro kom með alla strákana sína, það var jarðarför úti í stóra blómabeðinu. 4ra ára hundur sem þau áttu heima dó, líklega með heilaæxli. Hafði kvartað um verk í eyra og allsherjar höfuðverk undanfarið. Svo bara slökknaði á honum í nótt leið. En þetta er sveitafólk og þekkir bæði lífið og dauðann. Þannig er það bara.



Setti allt hér fyrir ofan inn á netið þann 18. jan í einum pakka.
Danski Internetkallinn heitir Allan
Miðvikudagur 19-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: N 00 08,8° Heiðskírt Hæsti C° í dag: N 06 18,9° HeiðskírtKvöld: N 10 14,1° HeiðskírtNótt Lægst C°: 08,0°
Ég varð fyrir morðtilraun í dag. Og ekki bara ég, hefði ég drepist hefði það bara orðið manns-lát en ekki manns-skaði, en Þumba varð fyrir barðinu á þeim sama. Kannski ekki að yfirlögðu ráði, hefði þetta tekist hefði viðkomandi trúlega verið dæmdur í einnar viku tugthús vegna þess að vera valdur að manns og kattardauða af hugsunarleysi.
Willebro hefur verið að búa til fjall hérna rétt við hliðina á mér. Hann var kominn með mannvirki á hæð við Gíbraltar, eða kannsi aðeins minna. Willa fjall var að vísu ekki úr eins varanlegu efni og Gíbraltar, en fjall samt. Hans fjall var nefnilega úr skít. Með ýmsum bindiefnum eins og hálmi og spónum. Nú hafa einhverjir spekingar talið honum trú um að það sé bráð-óhollt fyrir tún og flög að bera í þau skít. Það er að segja ef það er sag í skítnum. Sagið sogi til sín öll bætiefnin og áburðinn úr "moldinni" en gefi ekkert af sér. Rosalega á ég erfitt með að gleypa þetta hrátt. Ég var annarsstaðar búinn að lýsa "moldinni" hérna sem er ekkert annað en jökulleirklessa. Það má bæta því við að ég gerði tilraun um daginn, það flaut útúr bala sem ég var að láta renna í og fyllti nokkur hófför. Ca. 15 cm djúp. Hafa komið í síðasta skýfalli. Ég breiddi yfir þau pappaspjald, og viti menn, vatnið stóð ennþá í þeim 12 tímum seinna. Hlyti það nú ekki að vera til bóta að fá smá sag samanvið þessa drulluklessu þó ekki væri nema til að lofta aðeins í hana? Og slatta af hrossaskít með? Ég skal ekki trúa öðru. Nei, Willi kveikti í helvítis fjallinu!!! Trúi mér sem vilja. Og þið megið giska fimmtíu sinnum af hvaða átt vindurinn blés, en haugurinn var/er fyrir norð-austan Stellu. Auðvitað sló honum öllum beint inn til okkar Þumbu! Sem betur fer vorum við komin á fætur og gátum flúið að heiman um leið og reykurinn fyllti allt hjá okkur. Stellu sjálfa og fortjaldið. Ýmindið ykkur að búa í gamaldags íslenskum reykkofa!! Ekki vantaði það að lyktin var kunnugleg, mér datt strax í hug hángiket! En nei, ekkert svoleiðis, bara fjandans óþægindin.
Ég ákvað að dunda mér bara í Jane tölvu fram eftir degi, en það var um 10 leitið sem Willi kveikti í. En þá var Lúí mín ekki heima og hafði ekki skilið lykilinn eftir svo ekkert varð úr tölvuvinnu. Þá fórum við til San Pabló, en þangað eru um 7 kílómetrar til að gá hvort Lúí væri að vinna í nýja húsinu sínu með 360° starvjúinu, eða stjörnuútsýninu. Nei, ekki var hún þar. Þá klifruðum við alla leið upp til Gásin, en þangað eru ca. 20 km frá San Pabló. Og allt á fótinn, svipað og Kambarnir ef hvergi væri nema 100 metrar á milli beyja og allar eins krappar eða krappari en neðsta beyjan. Og allar beyjurnar undantekningalaust blindbeyjur. En vegurinn er góður, nýbúið að leggja nýtt teppi á hann alla leið og rennisléttur. En hann þætti mjór á Íslandi, engin öryggissvæði til hliðanna og bara 10-25 cm hár malbikskantur. Það er bara malbikað aftur og aftur og ekkert gert fyrir kantana. Það er samt gaman að keyra þessa vegi, en þetta er lýsingin á 60% allra vega í Andalúsíu, á meðan maður þarf ekki að keyra þá alltof oft.
Ég var ekki í neinu stuði í Gásin, nennti ekki að fara út úr bílnum nema ég stoppaði við hraðbanka til að ná mér í aur fyrir frímerkjum svo ég geti loksins komið póstkortunum til Danmerkur í póst. Þá var veskið mitt uppi í hillu í Stellu. Og ég átti ekki nema tværi og hálfa evru. Bara rétt fyrir Tapas og einum bjór í San Pabló í bakaleiðinni. Þegar ég kom aftur til Jimena Var Lúí komin heim og ég fékk lykilinn. Var að dunda mér í tölvunni fram á kvöld, kuldi og hungur rak mig að lokum heim um hálfátta leitið.En þar gaf á að líta, kominn stormur og neistaflugið stóð beint á Stellu. Mér var bara brugðið, þó ég teldi ekki nokkra hættu á að kviknaði í, heldur var þetta svo óhugnanlegt. Nú voru góð ráð dýr. Ég fann hvergi nokkursstaðar Gemsann minn, veit ekki hver fjandinn hefur orðið af honum. Svo ég gat ekki hringt í nokkurn mann. Ég hafði bílinn í skjóli og fór sjálfur inn til að fá mér eitthvað í svanginn. Hitaði upp rosalega góðan pottrétt frá því í hádeginu og át hann í kófinu. En viti menn, þá snéri hann sér aðeins á áttinni og reykinn lagði aðeins frá Stellu. Svo ég fór bara að dunda mér í tölvunni og var að láta tímann líða fram undir miðnætti, en vindurinn breytti sér ekkert svo við Þumba fórum bara að sofa. Ég stillti klukkuna á tvo tíma og þá var allt í lagi og svo aftur á tvo tíma alla nóttina, en ekki kom vindurinn með reykinn aftur. Það versta er að það logar í svona haugum í marga daga, kannski verður allt í kófi á morgun.

Fimmtudagur 20-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: NV 05 10,5° Heiðskírt Hæsti C° í dag: V 05 18,9° HeiðskírtKvöld: V 04 10,4° HeiðskírtNótt Lægst C°: 06,2°
Vakna við að Willi kallar á gluggann hvort hér sé einhver lifandi, ég sagði það ekki vera og nú skildi hann fara að undirbúa jarðarför, honum hafi tekist það sem hann var að reyna, myrða okkur Þumbu. Hann sagði mig ljúga þessu og ég skildi ekki voga mér að drepast fyrr en ég hefði hellt upp á kaffi. Og ég held að Kári karlinn hafi verið að stríða Willa vegna þess að hann feykti reyknum akkúrat yfir okkur á meðan við drukkum kaffið háltíma seinna. Ég fór svo með honum að hjálpa honum að tæma hestakerruna af drasli í almenningsgáma sem ég vissi ekki um. Hafi ég einhverntíman sagt í dagbókinni að það væru engir slíkir þá bakka ég með það hér með. Það´eru nokkrir gámar og flösku kúlur rétt þar sem farið er yfir járnbrautarteinana í Estacion. Við skiluðum Landróvernum aftur á Búgarðinn og svo fór ég heim á eftir honum og hjálpaði honum að drösla slatta af hurðum á milli húsa heima hjá honum. Fékk svo ríkulega að borða á eftir, GunniJak gerir allt fyrir mat. Höfundur: Jane
Ég ákvað að fara í tölvuna hennar Jane og gerði það, en á leiðinni upp brekkurnar sá ég Volvóinn hans Rods fyrir utan Stúdíóið og stoppaði til að rabba við hann. Hann er alveg heilsulaus, en er að reyna að herða sig upp í að listaverkast. Ákváðum fund á mánudagsmorgunn. Svo var ég í Jane tölvu til klukkan 7 að sömu ástæður ráku mig heim og í gær. Hungur og kuldi. Kom við í Supermarkaðinum í Estacion og keypti slatta af kexi á Oferta eða útsölu. Ásamt fleiru. Nói og AnnaBella voru með pabba sínum og þau voru svo sein fyrir að við drukkum úti við kertaljós. 15 stiga hiti og stafalogn. Kexið kom sér vel. Þegar þetta er skrifað er klukkan korter yfir ellefu og mér finnst ég finna reykjarlikt, kannski verðum við Þumba að flýja í nótt.
Föstudagur 21-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: N 00 07,2° Heiðskírt Hæsti C° í dag: NV 04 19,3° HeiðskírtKvöld: NV 04 11,2° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 06,6°
Ekki varð nú af því að við Þumba köfnuðum í nótt, en það hefur ábyggilega slegið nokkrum sinnum fyrir, Stella var full af reykjarstækju, ekki að það ylli öndunarörðugleikum heldur bara fýlu. Ég skrapp til Gíbraltar í dag, segi ykkur ekki aðalerindið. Skammast mín soldið fyrir það. Kannski ég kjafti frá þegar ég er farinn áleiðis heim, en ekki núna. Tek samt skýrt fram, ykkur til vonbrygða, að það kemur ekkert ólöglegt né ósiðlegt inn í dæmið. Alls ekki.
Það var sólskin og logn í allan dag og alveg sjóðheitt í sólinni þó hitinn hafi ekki farið mjög hátt í Celsíusum. Ég tók strætó niður að höfn og labbaði svo alla leið að strengjalyftunni sem nær alla leið upp á topp á Klettinum. Ætlaði einn túr með henni, en þá var bara lokað. Það er ansi margt lokað á veturna þar sem gert er út á ferðamenn. Allstaðar í Evrópu. Líka á Íslandi. Labbaði alla göngugötuna til baka. Keypti mér hleðslutæki fyrir myndavélar, kallinn í búðinni sagði að það væri hægt að hlaða allar gerðir af þekktum myndavélabatteríum í því. Líka mitt!! Var fjandi dýrt, en ef ég skemmi það ekki með einhverju fjandans fikti þá ætti þetta að vera góð fjárfesting. Fékk mér breska samloku með fleski og frönskum. Rosalega gott. Það var verið að blása gler í kristal búð/verskstæði við torgið. Ótrúlega gaman að sjá fallegan vasa verða til. Það voru 3 menn í hálftíma að búa til einn vasa!! Aldrei hefði mér dottið í hug hvernig þetta er gert ef ég hefði ekki séð það sjálfur. Tók svo strætó að landamærunum og var ekki stoppaður af tollurum í þetta skiptið. Setti bara upp fýlusvipinn strax og strunsaði framhjá þeim. Best að láta kúk mæta skít, strax.
Þumba mín var orðin leið á að sjá ekki pabba sinn allan daginn. En ég hefði ekki viljað skilja hana eina eftir í bílnum í 6 tíma, þá væri skárra að vera heima að böggast í hundunum og ergja hina kettina í þennan tíma. Ég er um þessar mundir að leysa upp miða af flöskum handa Byddu systur. Mikið verk og skemmtilegt. Það held ég hefði orðið geggjaður í svona söfnum ef ég hefði byrjað fyrir nokkrum áratugum. Ég er aðallega að sækjast eftir spænskum miðum, jú ég er jú á staðnum. Ætla samt ekki að drekka úr öllum þeim flöskum sem ég safna af eins og í fyrra. Bidda var hérumbil orðin gjaldþrota í fyrra þegar hún fékk reikninginn fyrir veru minni á Vogi.
Það kom nýr hestur í dag frá PólóHyskinu í SótóGrande. Þar er toppurinn á snobbinu á sólarströnd, þar leggja menn skútunum sínum við dyrnar á íbúðunum sem þeir leigja eða við hóteldyrnar. Húsin eru byggð hringinn í kringum höfnina og langt útí hana víðast hvar. SótóGrande er bær með nokkur þúsund íbúum þegar öll húsin eru full, en það eru hlið með stöngum og varðmenn á öllum vegum til bæjarins og ef þeir þekkja ekki fólkið sem kemur að hliðunum og það getur ekki gefið upp erindi eða nefnt einhvern sem það er að heimsækja, þá, því miður vinur, snúðu við og .............. Oj bara.

Laugardagur 22-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: V 00 07,3° Heiðskírt Hæsti C° í dag: V 04 19,0° HeiðskírtKvöld: V0 4 10,1° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 6,6°
Fór í Janes hús um ellefu leitið og það er skemmst frá að segja að ég sat þar við tölvuna hennar og mína í 10 klukkutíma. Var aðallega að basla við að koma heimasíðunni minni, gunnijak.com, í gagnið. En ég gerði ótrúleg byrjendamistök þannig að ég er alveg stopp og er að bíða eftir hjálp frá Bravenet vini mínum. Nenni ekki að fara útí það nánar. Svo var ég að setja upp tengingu á milli minnar tölvu og Jane tölvu og hafðist það eftir mikið basl. Mest var ég þó að rúnta um netheima, það er svo gaman að hafa ADSL og þennan fína hraða. Annars er tölvan hennar Jane óttaleg drusla, eldgömul Compaq fartölva, en samt skárri en mín. Fyrr má nú líka fyrrvera.


Sunnudagur 23-01-05
Veður dagsins:
Morgunn: A 00 11,0° Heiðskírt Hæsti C° í dag: A 00 17,4° HeiðskírtKvöld: A 00 12,5° HálfskýjaðNótt Lægst C°: 10,3°

Átti stefnumót við tvær dömur klukkan tíu uppi við Kastalann í morgun. Það hefur lengi verið siður að hópur fólks taki sig saman og planti nokkrum trjám í brekkurnar kringum Kastalann okkar hér í Jimena. Kíkó hennar Díönu er búinn að planta þarna 20 ár í röð. Ég var að búa mig á stað þegar ég tek eftir því að Kexið er dottið í'ða. Hún ráfaði til og frá datt að lokum. Ég fékk ægilegan móral, hélt að hún hefði étirð þýfi sem hundarnir komust í í morgun. Þannig var að ég keypti slatta af svínaketi og þrjá kalkúna hálsa. Þeir eru sérlega ljúffengir til að sjóða í súpu. Ég tók allt ketið upp á borð og var að skera það til þegar ég tek eftir því að hliðið að hestahólfinu hérna fyrir neðan Stellu er opið og hrossin komin út úr því. Mér bregður og stekk út til að reka þau inn aftur, en það gekk ekki strax. Þá sá ég það að þetta skipti engu máli, Villi væri að koma í morgungegningarnar fljótlega og gæti rekið hrossin inn. Hliðið mætti þessvegna vera opið alla nóttina. Þau komast ekkert frá. Ég flýti mér aftur inn, en of seint, allir hundarnir voru fyrir utan Stellu að rífast um ketið mitt fína. Ég gat auðvitað ekkert gert, of seint að bjarga ketinu og ekki ráðlegt að skipta sér af 50-80 kílóa hundum rífast um mat. Ég varð samt logandi hræddur um að hálsarnir stæðu í þeim, en ekkert gerðist fyrsta klukkutímann svo það er alveg pottþétt að ekkert í þá átt gerðist.
Kexið fór fljótlega að kasta upp, þremur svínaketsbitum en engum hálsinum. Svo fór að ganga niður af henni líka. Ég hringdi í ofboði í Willibro og Önu og þau komu að vörmu spori. Þeim datt strax í hug að það hefði verið eitrað fyrir þeim, en ég vildi ekki trúa því. Ég skrapp um 11 leitið upp að kastalanum og hitti Diönu og Celsiu þar í gróðrusetningum. Brekkan er ekkert nema urð og grjót og fólk er að pikka í urðina með fílhömrum og ná sér svo í smá mold annarsstaðar til að setja í kringum tréð. Þarna var Celsía búin að planta einu tré og svo getur hún fylgst með því alla ævina þessvegna. Þumba kom með mér og var alveg í sæluvímu að geta göslast innan um svona mikið af fólki og gróðri. Ég sleppti henni lausri fyrir rest, en náði henni ekki aftur. Þá mútaði ég 10-11 ára gömlum strák til að elta hana uppi fyrir mig og það tókst um síðir. Ég fór svo aftur heim, enda áhyggjufullur vegna Kexins. Stuttu eftir að ég kom aftu kom dýralæknir og setti upp nál í æð og gaf henni glúkósa með ýmsum bætiefnum. Svo sprautaði hún, dýralæknirinn er kona sem býr í næst næsta húsi við Lúí, 10 sprautum í vöðva með jafn mörgum lyfjum. Kexið lyftir ekki höfði og liggur alveg bakk. Það er kolsvart sem kemur frá frá henni að aftan, ég hef aldrei séð svona kúk og ekki aðrir viðstaddir heldur. Ég sat svo hjá Kexinu fram á kvöld, það þurfti að fylgjast með drippinu að hún flækti það um sig og svo erum við líka svo miklir vinir. Ef ég ætlaði að fara frá henni vældi hún í mér og krafsaði í mig og bað mig auðsjáanlega að vera hjá sér áfram. Ég lagði mig um miðnætti en stillti klukkuna á 02:00. Já vel á minnst, trúlega hefur Spottinn étið það sama og Kexið vegna þess að hann stökk út í buskann á meðan Kexið var að kasta upp og enginn var að fylgjast með honum og hefur ekki sést síðan. Þetta vekur upp ugg um að hann hafi líka orðið veikur en brugðist við á þennan hátt. Þau Kexið voru alltaf saman, átu saman, sváfu saman og trúlega hafa þau komist saman í það sama.
Mánudagur 24-01-05

Kexð rosalega veik í morgun og í allan dag. Ég fór ótal oft út í hesthús til að fylgjast með henni í nótt, drippið vildi flækjast um hana og ég lagaði það eins og ég gat. Klukkan sex var það svo búið og ég skrúfaði fyrir rennslið.
Við Rod Riverman ætluðum að hittast klukkan 10:00 í morgun, en ég vaknaði ekki fyrr en klukkan tíu og svo var ég að dúllast í kringum Kexið. Kom í stúdíóið klukkan hálf tólf, en þá var þar enginn Rod en Volvóinn fyrir utan. Við Þumba biðum í bílnum í hátt í klukkutíma, en þá kom Rod. Hafði skroppið upp á "Hrepp" til að ljúka 10 mínútna verki að hann hélt en varð í hálfan annan tíma. Okkur varð ekkert úr verki, ég ósofinn og áhyggjufullur og hann útúr öllu stuði vegna þess að erindið á Hreppnum var honum eitthvað ekki að skapi. Ég ætlaði að vera búinn að fá hleðslutækið fyrir myndavélina mína í morgun, en ég er að bíða eftir því frá eBay, auk þess hleðslutæki fyrir AA batterí. Það var ekki komið. Ég ætla að taka myndir af öllum listaverkunum hans Rod til að setja þau inn á heimasíðu sem verið er að búa til fyrir hann.
Ég kom við á Pósthúsinu í bakaleiðinni og þar átti ég pakka frá Þýskalandi. Í fyrravetur pantaði ég mér notaða rafhlöðu í fartölvuna mína og pínulitla myndavél sem hægt er að nota sem vídeókameru. Fyrir mistök var pakkinn sendur til Íslands að Lágafelli en ekki hingað. Hann var svo aftur sendur til Spánar, en þá var ég farinn aftur til Íslands og fyrir einhver mistök var hann sendur aftur til Þýskalands. Ég var hálfpartinn búinn að gleyma þessu, eða allavega að afskrifa. Fæ ég ekki meil frá þeim þýsku og þeir segja mér að ef ég borgi 40 evrur í viðbót fyrir alla fyrirhöfnina skuli þeir senda mér dótið. Ég borga og kassinn kom. Það er eins og að spila í lottó að kaupa notaða rafhlöðu í fartölvu. Og því miður fékk ég bara lægsta vinninginn, "nýja" rafhlaðan var ekkert skárri en sú gamla. Svo ennþá get ég ekki startað henni upp á rafhlöðunni, verð að hafa 220 volt til þess. Svo get ég unnið í háltíma - þrjú korter á rafhlöðunni. Myndavélin er ægilegt krútt, og það er satt sem þeir segja, hún er eins og stór tússpenni og auðvelt að hafa hana í brjóstvasanum.
Dagurinn fór svo í að snúast kringum Kexið mitt, það sker í hjartað að sjá bestu vini sína kveljast, en ég er viss um að hún kvelst mikið. En sem betur fer sefur hún líka á milli. Það var anski kalt í nótt og ég var alltaf að reyna að breiða ofan á hana ullarteppi sem hún á, en það líkaði henni ekki. Hristi það alltaf af sér.

Þriðjudagur 25-01-05


Kexið heitir réttu nafni Biscuit, en það þýðir kex. Hún er á litinn alveg eins og Sæmundur í hversdagsfötunum, en það var mjólkurkexið frá Frón stundum kallað. Kallinn sem átti Frón hét Sæmundur. Og Kremkexið var kallað Sæmundur í sparfötunum. Ég þýddi nafnið hennar Biscuit minnar og kalla hana aldrei annað en Kexið mitt. Henni virðist það vel líka. Hún er rosalega hænd að mér og stundum þegar ég ligg á teppi á gólfinu hjá henni og ætla að fara þá vælir hún á mig og krafsar í mig af veikum mætti með framfótunum. Plís, dont gó gunnijak. Hún er ekkert skárri í dag. Við erum að reyna að pína ofan í hana vatni, reyndar fyrst glúkósablöndu, en þegar hún var búin þá vatni. Eina leiðin til að láta hana drekka er að sjúga vatn upp í sprautu og spýta því svo upp í hana. Hún kyngir, en líkar þetta mjög illa. En vitanlega er það spurning um líf eða dauða að hún drekki. Annars þornar hún bara upp.
Ég átti stefnumót við Castellar mæðgur í Própertíinu klukkan ellefu, en auðvitað varð ég of seinn. Kom þangað um 12 leitið. Það er skelfilegt að sjá allt þarna, allt að skrælna, grasið vex í götunum og allt í niðurníðslu. Bróðir Kíkó gaf honum fullan bíl að hleðslugrjóti og sá sturtaði því bara á miðjan veginn í kringum húsið hennar Lúíar. Ég byrjaði á að henda grjótinu til hliðar svo hægt sé að keyra í kringum húsið. Kláraði ca. þriðjapart, en þá var ég þrotinn af orku. Celsía litla er ótrúlega skemmtilegur krakki, hún hefur tekið þvílíku ástfóstri við Þumbu að það er með ólíkindum. Og það er gagnkvæmt held ég. Nú rifjast upp fyrir aumingja Þumbu minni meðferðin sem hún fékk frá Prinsinum í Danmörku. Celsía tekur þó á henni með meiri kvenlegri nærgætni! Ég sleppti Þumbu lausri í Própertíinu, hún týndist nokkrum sinnum en kom alltaf til baka þegar ég kallaði á hana. Annars er hún orðin rosalega stríðin við mig ef ég missi hana frá mér einhversstaðar í bænum, lætur mig elta sig endalaust. Mér líður eins og hundi á sveitabæ sem lætur hrafninn ginna sig endalaust. En ég á nú samt leynivopn sem sú litla er ekki enn búin að læra að vara sig á, ég næ í straumbreytirinn í bílinn, það er snúra við hann og innstunga í sígarettukveikjarann í bílnum, hún getur ekki stillt sig þegar hún sér þessa gildru og gengur alltaf í hana.
Þær mæðgur þurftu að mæta á einhverja dagheimilisskemmtun í Castellar klukkan 14:00 þannig að dagurinn varð anski stuttur. Ég skrapp niður í appelsínulundinn og fékk mér Óransa í fullan höldupoka og vökvaði um leið tréð hennar Celsíu, síðan fórum við Þumba heim. Kexið alveg óbreytt. Hún lá reyndar hérna við Stellu á svörtum ábreiðum. Hlýtt í sólinni. Svo þegar henni var orðið of heitt færði hún sig undir Stellu í skuggann. 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com