GunniJak í Danmörku
1000 kall netkosnaður, Lúí langar í hús, sóttum vatn og myndir fljótar á Fotki.com
29-11-03
Jæja krakkar mínir, nú ætla ég að skella dagbókinni inn á netið í dag. Ég er búinn að sitja í
13 klukkutíma við tölvuna og þar af 9 klukkutíma á netinu. Það gerir hátt í þúsundkallinn, eða um 10.000.- peseta. Það er þónokkuð um að fólk reikni ennþá í peseta þegar verið er að verðleggja hluti. Til dæmis er Lúí að spá í hús í San Pablo, það er sett á það 40.000.000.- Pst, en það er ca 241.000.- € eða ca. 21.700.000.- Íkr. Þetta er kvonfang sem biti er í!! Við fórum semsé til
San Pablo sem er ca. 4-5 kílómetra héðan í norður á leiðinni til Ronda, sem er nokkuð stór borg. Við vorum að ná okkur í
VATN, já ég sagði vatn. Það er allt í lagi með kranavatnið hérna, þannig að það er ekki heilsuspillandi, en rosalega mikið klór í því. Það er eins og að þefa upp úr gamaldags sundlaug. Þannig að það er vont að drekka það, ennþá verra að drekka það og langverst er þó að búa til tel úr því. Það fæst vatn í öllum búðum og kostar 1 € í 8 lítra brúsa ef maður skilar tómum. En margir sem eiga bíl fara til San Pabló til að ná í vatn og eru þá dregnir fram allir brúsar, flöskur og dollur til að fylla af vatni. Við sóktum ca 40 lítra gæti ég trúað og fór Renóinn létt með það. Lúí hafði heyrt um
hús til sölu í San Pabló og fundum við það eftir nokkra leit. Og það varð ást við fyrstu sýn. Þetta var gamall bóndabær með venjulegt húss andlit að götunni, en þegar inn var komið var það bara fjós. Ekki hefur verið óskapast við að búskapast í því lengi, þarna var ekkert kvikt nema dúfur og kóngulær. Bakgarðurinn var svakalega flottur, eða réttara sagt, það væri hægt að gera hann svakalega flottann. Húsið er á tveimur hæðum og gæti hún selt efri hæðina, ca 90m2 og lagt sitt hús undir og þá gæti hún eignast húsið. En það er raunverulega bara fokhelt þannig að hún veit ekki alveg hvernig hún ætti að fjármagna það.
Ég var svo fram á nótt að vinna í myndum og koma þeim inn á netið. Ég hef myndirnar nokkuð stórar, "Gerðu það með stæl eða slepptu því" eins og þar stendur. Og ég mun ekki setja eina einustu mynd inn á netið nema með nafni og stundum skýringum líka. Mér finnst þessar myndir opnast ótrúlega fljótt í þessum myndasörver, FOTKI. Er að fara að sofa, klukkan orðin 2 að nóttu. Veðrið er búið að vera svakalega flott í marga daga, veit ekki hvað hitinn er, en ef ég fér út á bolnum einum fata (og vitanlega næríum til að hylja dónaskapinn) fær maður ekki kuldahroll, en verður kalt ef maður sest niður lengi. Og þá er ég að tala um miðja nótt, á daginn er stundum striplings veður.
Fyrstu myndirnar inn á fotki.com
28-11-03
Ekki má þetta ganga svona til frambúðar, ég var
8 tíma á netinu í gær. Þar inní voru 3 tímar um miðjan daginn þegar ég gleymdi að slökkva á fjandans netinu á meða ég skrapp í bæinn. Þá varð ég sár. Ætlaði bara að kíkja á póstinn minn. Ég var að setja inn fyrstu myndirnar héðan frá Jimena í dag. Vitanlega gekk það í brösum fyrst, hefði það ekki verið hefði ég gengið í sjóinn, enda alveg ónormalt. Það hafðist að lokum og það verða ekki meiri erfiðleikar með það. Þetta er almenningsmyndaalbúm með nokkrum milljónum mynda. Og það er tiltölulega fljótlegt að skoða myndir þarna. Ég meira að segja borgaði fyrir aðganginn!! Sem tryggir mér ótakmarkað geymslurými fyrir ótakmarkaðan fjölda mynda sem aldrei verða strokaðar út. Þetta eru nokkrar krónur á ári og þá er ég líka laus við alla auglýsingaborða um leið. Í dag hef ég verið að vinna í myndunum, breyta þeim, texta og flokka. Svo strax klukkan 19:00 fór ég að pota þeim inn á netið. Einn pakkinn var einn og hálfan tíma ad lullast inn. Svona er að hafa ekki ADSL. Svo tókst mér fyrir rest að koma þessari síðu í gang. Búinn að vera að basla við það í tvo daga. Til að fara inn á myndaforritið mitt er slóðin þessi: http://public.fotki.com/GunniJak Nú er ég orðinn þreyttur, klukkan er að verða eitt hjá mér, ég þarf að breyta henni hérna.
Loksins eitthvað af viti frá Spáni
Bara að prófa mig áfram
Loksins komin lína
Frá GunnaJak á Spáni Núna er ég að basla við að dagbóka. Að dagbóka er orð sem Bidda systir mín hefur notað svo lengi sem ég man eftir mér. Hún hefur, held ég, dagbókað alla sína tíð, allavega eftir að hún kom í Gíslholt. Þessvegna ætla ég að skrifa orðið Blogg í síðasta skipti núna og nota þetta frábæra orð systur minnar, dagbóka.
8 tíma á netinu, kassinn ókominn og "Þa ebbara soleis"
27-11-03
Nú er bara legið og legið á netinu, verst að ALLAR mínar netupplýsingar eru í kassanum mínum sem ennþá er ekki kominn til skila. Já vel á minnst, í gær sagði ég að ég hefði fengið næst bestu afmælisgjöfina mína með línunni, en ég hafði og hef alltaf haft meiri áhyggur af fjandans kassanum en línunni. Ég vissi að línan kæmi að lokum, kannski ekki fyrr en daginn áður en ég færi heim til Íslands, en hún kæmi að lokum. En ég hef meiri áhyggjur af kassanum mínum, ég missi svo hrikalega mikið af persónulegu dóti á geisladiskum að það tjón er algjörlega óbætanlegt. Að vísu sagði mér einn nágranni okkar að hann hefði þurft að bíða eftir pakka á EXPRESS í þrjár vikur. Hann lét rekja feril pakkans og hann hafði fyrst farið til Portúgal og þar á 2 pósthús og svo til 4 borga á Spáni. Ef ég þarf að senda svona aftur hingað, sem vonandi verður næsta haust, ætla ég að búa til landakort og líma á kassann með nákvæmri staðsetningu á því hvar Spánn (landið) er, hvar Andalúsía (kjördæmið) er, hvar Cádiz (sýslan) er, hvar Jimena (þorpið) er, hvar Grossa de la Mondera (gatan) er, hvar númer 27 (húsið) er, og hvar GunniJak (fórnarlambið) er. Mér er sagt að ef bær er minni en 100.000 íbúar fari allt í flækju hjá Póstinum og þeir viti ekkert hvar aðrir staðir séu. Hér er pósthús, meira að segja rétt hjá og ekki einu sinni mikill hæðarmunur. Það er allt hið fornlegasta, gamall hokinn kall með kaskeiti og orðinn ansi boginn og snúinn, allar innréttingar eru fornar og húsið hundrað ára. En það er tvennt sem stingur í augun, annað er hinn afgreiðslumaðurinn, tiltölulega ungur í skærlitum einkennisbúningi og svo tvær stórar og fullkomnar tölvur með öllum búnaði. Meira segja strikamerkja lesara. Ég bað þá um daginn að lesa strikamerkið á fylgibréfinu sem ég hef í höndunum. Jú, það var auðsótt mál, en það sem kom upp á skjáinn var bara "Þessó pakkaró eró ekkó komó hingóaðó" Og það var sama hvað ég bægslaðist á öllum tungumálum, nema spænsku, þeir kunnu ekki að gera meira. Vitanlega gátu þeir spurst fyrir um pakkann og leitað að honum, nei kalla greyin kunnu ekki á sýstemið. Það er ekki nóg að eiga flottan bíl en kunna ekki að keyra. "Þa ebbara soleis" eins og elskuleg frænka mín í Lágafelli segir stundum til að loka máli og setja feitan púnkt fyrir aftan það ;_)
Línan inn, Telefónika skítur, Allan og allt virkar að lokum.
26-11-03
Í dag fékk ég næstbestu afmælisgjöf sem ég get hugsað mér, síminn er kominn inn til mín, húrra! Sami kallinn og kom og lagaði símann hennar Lúí kom og lagði línuna inn til mín. Spánverjar eru "línusóðar" eins og Kaninn, allar línur eru ofanjarðar og það sem verra er og ég hef ekki séð í amerískum bíómyndum er að þeir drusta línuflækjunum utan á húsin. Línan inn til mín var bara lögð utan á húsið frá næsta staur og svo var borað gat á vegginn við eldhússgluggann og línan lögð þar inn. Svo er bara dós og á henni tengi fyrir símasnúru. Ekkert mál. Þetta tók í mesta lagi 2 tíma, mér finnst að þessi litla aðgerð hafi kostað óþarflega mikil sárindi, stress og leiðindi. Éti Telefónika skít. Það er nokkurskonar máltæki hér í Jimena að þegar fólk labbar um bæinn og sér gerfihnattadisk, "nú, enn eitt fórnarlamb Telefónika". Þeir sem fá sér disk eru óháðir þessu skíta fyrirtæki. Allan, sem ég kem að rétt strax, byrjaði fyrir HEILU ÁRI SÍÐAN að koma á laggirnar Internetkaffi, en það er staður sem fólk kemur og fær að fara inn á Internetið fyrir ákveðið mínútugjald. Hann fékk mjög gott húsnæði á besta stað í bænum og er búinn að innrétta það á mjög snyrtilegan hátt. Það tók Telefónika 7 mánuði að láta hann fá línu inn og svo átti hann að bíða, kannski annað eins, eftir að þeim þóknaðist að láta hann fá ADSL háhraðasamband, en eins og nærri má geta þarf mikinn hraða og mikla bandvídd fyrir svona fyrirtæki. Þá gafst minn maður upp og fékk sér gerfihnattadisk sem bæði sækir gögn og sendir og er óháður fjandans Telefónika, nema bara með eina skitna heimilissímalínu til að geta prófað venjuleg módem. Þess má svo að lokum geta, þó það komi símanum ekkert við, að nú er hann búinn að bíða eftir að fá alla pappíra frá haug af opinberum stofnunum til að mega opna fyrirtækið. Það vill honum til lífs að hann skellti sér á fullu í gerfihnattadiskabransann og vinnur fulla vinnu við að bjarga óánægðum fyrrum tilvonandi Telefónikakúnnum.
Allan þessi er danskur og hefur átt heima hérna í Jimena í mörg ár. Þau Lúí eru góðir kunningjar og hún benti mér á það þegar ég kom að tala við hann um öll mín tölvu/net mál. Sem ég og gerði, maðurinn er afburða skemmtilegur og heill Kolli í flinkheitum með tölvur. Og nú kemur að rúsínunni í pulsuendanum, þegar ég var búinn að fá mína langþráðu línu inn til mín virkaði fjandans tölvan ekki. Alveg nákvæmlega eins og þegar ég lagði til mín "hundinn" frá Lúí, fullkomin tenging en ekkert hægt að gera. Svo ég geri það eina sem hægt var að gera í stöðunni, fór með tölvuna til Allans. Hann sagði eins og Kolli, aldrei hafa heyrt eða séð svona tilfelli. Annaðhvort væri svoan stuff í lagi eða ekki í lagi. Ekkert þar á milli eins og hjá mér. Þarna vorum við á annan klukkutíma að basla við þetta og vorum eiginlega búnir að gefast upp. Þá allt í einu datt honum eitt í hug, "hafa helvítin hjá Telefónika kannski sett upp SLD á línuna hjá þér?" Og viti menn, aumingja gamla góða tölvan mín er eina og eigandinn, skilur ekki neina spánversku. Þetta sem þeir í Telefónika gera, og skil alls ekki enda hata ég allt sem viðkemur tölvunni sjálfri sem hlutur, ég vil bara nota hana sem verkfæri, er hvergi notað annarsstaðar í Evrópu og er eitthvað í sambandi við, æ, eitthvað hjá þeim og mér er alveg sama um og þér líka. OK, Allan breytti nokkrum tölum og allt small í þollfarið!! (Þess má til gamans geta að Allan setti upp 5€ 450.- Ikr fyrir vinnuna, en ég þröngvaði upp á hann 20€) Já, vel á minnst, Allan setti mig inn á frían netaðgang hjá Tiscali sem er svona eins og visir.is og svoleiðis þjónusta uppi á fróni.
Og nú sit ég hérna í herberginu mínu við tölvuna mína og er tengdur netinu mínu. Ég get sent og sótt póst á tölvunni minni eins og ekkert sé.
Afmæli aldraða mannsins, Lúí og Drakúla og Kínamatur.
25-11-03
Jæja, hver haldiði að sé kominn á sjötugsaldurinn? Þið megið giska 32432 sinnum, en til að gefa smá vísbendingu þá er fyrsti stafurinn GunniJak :-( Ef það væri fánastöng hérna myndi ég flagga í hálfa stöng. Það er skelfilegt að vera svona ungur í svona gömlu boddýi. Fjandinn. (obs, segi ég þetta enn, sorry!) Nei nei, þetta er nú bara það sem allir verða að sætta sig við. Ég man eftir því þegar ég varð fertugur, það var raunverulegt áfall, mér fannst ég vera svo ungur, en núna er þetta allt í lagi. Bara að láta sem ekkert sé og vera ungur í anda áfram. Þá skiptir engu máli hvað skrokkurinn er gamall.
Ég hafði hugsað mér að bjóða fröken Lúí á kínverskan matsölustað í kvöld af tilefni dagsins, en þá þurfti Drakúla greifi endilega að fara að hengja bronsmedalíu um hálsinn á henni í kvöld. Hún er búin að gefa blóð, ég held 25 sinnum, leiðrétti það ef það er ekki rétt. Hér eru blóðgjafar heiðraðir í partíi hjá borgarstjóranum þegar þeir hafa gefið visst mörgum sinnum blóð, það er gull, silfur og brons. Svo ég fór bara einn, þarf ekkert að vera að drattast með einhverjar kellingar sem aldrei hafa tíma fyrir mann :-(
Kínastaðurinn er í næsta þorpi, Estacion, sem þýðir "þorpið við (járnbrautar)stöðina" Þar er járnbrautarstöðin, en sporið nær suður til Algerica rétt við Gíbraltar og svo til XXXXXXXXX þaðan sem járnbrautarnetið breiðir úr sér um allan Spán. Ég labbaði þangað, ca 3 kílómetra og svo heim aftur að máltíð lokinni, pínulítið reikull í spori. Þetta var heilmikið afrek miðað við heilsu og fyrri störf. Ég fékk mér týpiskan kínamat, Kínarúllur og Sérrý í forrétt og svo risarækjur ásamt fleiru úr sjónum og grænmetishrísgrjón með. Og í dessert svaka fínan og stóran ís. Og eins og vanalega hjá kínverjunum var þetta rosalega vel útilátið. Og endaði svo Þarna talaði ekki nokkur maður eitt einasta orð í ensku, varla spænsku heldur, en mig langaði að einhver vissi hvaða dagu þetta væri fyrir mig svo ég sýndi uppartnigstömunni ökuskírteinið mitt og reyndi að láta hana skilja fæðingartöluna mína, en það tókst ekki. Þá greip ég til örþrifaráða og söng fyrir hana ammælissönginn. Þá loksins kveikti þessi elska á því hvað ég meinti og þegar ég var búinn að skrifa 60 með luftpenna á borðið skildi hún allt saman og hjóp skríkjandi um allan salinn til að segja fólki þetta. Það stóð líka slatti af fólki við barinn. Svo kom strákur ú eldhúsinu með heljarmikla tré-þverflautu og hann spilaði og allir í salnum sungu afmælissönginn. Mér leið eins og prinsinum í Narnina og naut mín heldur betur.
Ég fékk mér tvö sjérryglös og tvö glös af hvítvíni með matnum. Og getið svo hvað þetta kostaði? 14 júrur eða 14*90= 1260.- Ikr!!! Hæ, allir til Spánar að éta á kínastaðnum! Já, ég gleymdi því, Staðurinn gaf mér svona bambusofið almanak með stórri mynd af pandabjörnum í afmælisgjöf. Og þó ég sé svo þreyttur núna að ég verð að lyfta með hinni hendinni undir puttana á mér á lyklaborðinu þá var þetta stórkostleg ferð.
Sundfit milli tánna og áveituframkvæmdir
24-11-03
Nú fer hver dagurinn að verða öðrum líkur. Ef ekki hefði gerst slys hjá mér, en ekki af mínum völdum, þá væri lítið að skrifa í dag. Ég sat við tölvuna mína og var að leggja hjartakapalinn og hlusta á InnanBæjarÚtvarpJimena þegar mig fer að kula óvenjumikið í fæturna. Ég er með eindæmum fótkaldur og verð helst að vera í ullarsokkum ef innihitinn fer niður fyrir suðumark. Nema hvað, ég fer að hreyfa fæturna til að fá hita í þá. Þá heirist bara skvamp og slabb og slubb! Þá var komið að því í fyrsta sinn á þessum vetri, en því miður ekki í það síðasta, að það kom vatn UPP ÚR GÓLFINU! Þetta vissi ég að gæti gerst, mörgum mánuðum áður en ég kom hingað. Það er búið að hellirigna hérna í 2 daga. Og þá meina ég HELLIRIGNA eins og ég hef áður lýst hérna í dagbókinni. Eitthvað hefur hún Lúí ekki vandað sig með grunninn á húsinu fyrst þetta kemur fyrir. Ég ætlaði meira að segja að hjálpa henni að brjóta upp gólfið og koma í veg fyrir þennan leka þegar við vorum fyrst að tala um að ég kæmi og ég myndi þá vinna upp í hlura húsaleigunnar. En svo hætti hún við það, ég held að það sé hálfgerður kirkingur í peningatrénu hennar, auk þess sem þetta yrði gríðarlegt rask. Og vitanlega hryllir hana við því.
Jæja, hingað til hafa íbúar íbúðarinnar bara farið í gúmmískó og látið þetta yfir sig gangt. Lekinn hættir og gólfið þornar á einum degi eftir að hættir að rigna. Og það þarf að rigna duglega í a.m.k. tvo daga til að byrji að leka. Ég á enga gúmmískó og vildi ekki viðurkenna fullan ósigur svo ég jós út allt vatnið. Það er enginn þröskuldur á útidyrunum svo vatnið á greiða leið út og verður hvergi dýpra en 5 millimetrar, þannig að ég þarf ekki að fá mér kút og sundfit. Þegar ég var búinn að ausa íbúðina fann ég hvar vatnið kom, við dyrastafinn inn á klósettið. Ég fór út og fann mér gamlar járn vinkilstangir, tók þær og klessti á þær SMÉRI og skelltil þeim á gólfið beggja vegna hurðaropsins og svo meðfram veggnum og út. Þetta svínvirkaði og íbúðin ásamt baðherberginu var alveg þurr nema þessi renna. Þetta þótti Lúí merkileg framtakssemi, en hún hefði ekki verið hissa ef hún hefði kynnst fleiri íslendingum í gegnum tíðina. Í dag fann ég mér svo 8 mm þykka og 2ja cm breiða tréspítulista og keypti sílikon og þegar/ef aftur þornar lími ég þá snyrilega á gólfið og bý til varanlega rennu. Það er bara einn galli á gjöf Njarðar, ef hellirignir í marga marga daga samfellt fer vatnið að koma allsstaðar upp úr gólfinu og þá dugar ekkert nema klofstígvélin. (GunniJak orðinn stuttur til klofsins? :-)