GunniJak í Danmörku
Heimsmet. Kláraði Rod. Kanamágur í klípu. Vildégværi Prúdencio.
.
Heimsmet! Fór á fætur klukkan 09:00! Verð að viðurkenna að ég lét sauðféð mitt vekja mig. Meeee! Skrapp í bæinn að kaupa þynnir fyrir Jötungripið en svoleiðis munaður reyndist ekki til í Jimena né nærsveitum. Ég lími korkinn, bæði á gólfið og á veggina með Kontaktlími. Það má sko ekkert klikka, þá er GunniJak í djúpum s***! Það hefur sloppið hingað til. Jæja, Rod kom um 2 leitið og ég skrifaði myndirnar allar á disk handa honum og nú getur hann sent þær til wefsíðugerandans. Hann lét mig fá nokkrar júrur, gott núna þegar maður á ekki að éta. Eða ekki bensín á blikkdósina til að sækja fröken Lúí til Malaga þann 30. Svo heimsótti ég fröken Jane hina Bandarísku, hún var búin að fá nýja reim á þurrkarann sinn og ég bretti upp ermarnar til að setja nýju reimina í. En þá kom babb í bátinn, systir Jane og hennar maður eru í vikuheimsókn hjá henni og mágurinn hafði tekið sig til og rifið allan þurrkarann í spað til að flýta fyrir. Það útaf fyrir sig var virðingarvert, en hvað haldið þið að þessi vesalings Kana garmur hafi gert, hann kippti úr sambandi ca 15 vírum án þess að merkja neitt eða reyna að leggja það á sitt vesæla brandararíska minni. Ég setti reimina á sinn stað (Hann hafði verið búinn að reyna það en gafst upp, sagði að reimin væri of stutt, kanabull) og sagðist svo ekki snerta þetta meir. Jane fékk mig til að lofa að koma kl. 10 í fyrramálið og reyna, með hjálp mágsins, að koma þessu saman. Mágurinn var semsé ekki heima í dag. Loksins þegar ég fór frá Jane, eftir smá snarl, var ég svo þreyttur og sifjaður að ég varð að fá mér kríu. Reyndar varð það að heilu kríuvarpi og ég byrjaði ekki að vinna uppi fyrr en kl. 19:30, letihaugur!! En ég vann líka í tveimur skorpum alveg til eitt í nótt. Nú er klukkan hálf þrjú og ég má til að fara að sofa. Mikið öfunda ég Prúdencio sem sefur a.m.k. 21 tíma á sólarhring. Ég er ekki að grínast, hann sefu mest allan sólarhringinn. Vaknar til að fá sér að éta og drekka, skreppur út til að losa sig við það sem hann þarf ekki að nota og svo er sofið og sofið og sofið. Ég ætla að vera köttur í næsta lífi. Hann er nú orðinn 17 ára þetta grey og kannski er skrokkurinn eitthvað farinn að gefa sig.
Klára Rod á morgun. Múrarar eða ekki múrarar, það er málið
.
Rod bankaði hér um 12 leitið og náði okkur Prúdencio báðum í bælinu. Skömm, en ég hafði góða afsökun. Ég sofnaði ekki fyrr en klukkan 05:00 í gærkvöldi/morgun, mér varð svo mikið um hernaðarafrekið mitt frá því í gærkvöldi. Nú verður rekinn endahnúturinn á verkið og ætlar Rod að koma á morgun og sækja diskana. Það verður fróðlegt að sjá þetta hjá leigumiðlaranum hans, hvort mínar myndir verði flottari en þær sem voru hjá hinum miðlaranum. Þær voru teknar og unnar af "Prófessional" ljósmyndara en ekki Fjölvirkja. Ég sendi ykkur linkinn seinna til að þið getið sjálf dæmt um muninn.
Ég var bara duglegur á loftinu í dag, en þetta er þvílíkt föndur að það tekur engu tali. Fella hverja flís, eins og ég hef sagt áður eru múrarar hér á Spáni alveg þjóðflokkur út af fyrir sig. Engin bein lína neinsstaðar. Allt í hlykkjum og skrikkjum. Ekki bara hér í húsinu hennar Lúíar, heldur allstaðar þar sem ég hef komið.
Rauðvín á aðfangadag hvað segja feðgarnir við því? Takk fyrir mig. Næstum framið morð, á sjálfum jólunum!
.
Jóladagur, gleðileg jól! Ég ætla að byrja á að afgreiða gærdaginn/kvöldið. Ég man ekki til að hafa nokkurn tíman áður bragðað vín á Aðfangadagskvöld áður, en ég fékk mér nú bara rauðvínslögg með fiskinum sem ég steikti mér. Fyrsta sinn sem ég elda fisk hérna. Nammi namm, ég veit ekkert hverskonar fiskur þetta var, þó líkastur steinbít ef eitthvað var. Allavega steikti ég hann með roðinu. Og svo til að restin af rauðvíninu skemmdist ekki, hellti ég bara afgangnum af því. Í mig. Snemma að sofa, hékk samt soldið á MSNinu fram eftir kvöldi. Hér með skora ég á alla sem eru með MSN að logga sig inná mig, ég er strantos2@hotmail.com Ég var að snakka við gamla vinkonu mína sem ég fann fyrir fáeinum dögum á MSNinu.
Ég vil hérmeð þakka allar kveðjur sem ég hef fengið um jólin, á SMS, Meili, símtöl og ekki síst á gamla löturpóstinum. Þakka ykkur öllum. Mar er ekki einn í heiminum á meðan einhver man eftir manni. Án þess að ég sé að segja að ég hafi vott af heimþrá, öðru nær. Ég sakna einna mest Kisa míns á Lágafelli, hann er búinn að gefast upp á að bíða eftir mér í Ullarkofanum og er fluttur inn í bæ. Ég skrapp upp á loft um kvöldið og tók eina múrhræru, ég verð að halda áfram að múra á hverjum degi svo ég klári einhverntíman að laga "skemmdirnar" eftir mig síðan ég braut skrifborðið. En í dag aftur á móti er ég að líma kork á gólfið, það eru komnar 6 flísar! (af 167765 :-( Svo var ég bara í rólegheitum að vinna við myndirnar hans Rod við ána og svo kom Rut í heimsókn og við vorum að basla við að prenta út á hennar fartölvu, hafðist að lokum eftir mikið vesen.
Það er eitt sem mér líkar alveg afleitlega hér og það er fjandans hundgáin alla daga og kvöld og sumar nætur. Það er ótrúlegt hvað þessi kvikindi hafa þrek til að gelta mikið og lengi. Ég ætlaði að fara að sofa um kl. 01:30, en þegar ég er að festa blund byrjar eitt versta kvikindið að gelta og gelta og gelta. Alveg þindarlaust. Hann tekur 4ra gelta skorpur, dregur andann og svo aftur 4ra gelta skorpu og svona án nokkurra stoppa til klukkan 03:00, en þá rauk ég fram úr bælinu, klæddi mig og rauk út með grjót í báðum höndum og járnstöng að auki. Fann hundinn, grýtti hann og barði og viti menn, hann hélt kjafti eftir þetta. Ég hef sjálfsagt meitt greyið og þykir mér það mjög sárt, en ég er viss um að hann hefur ekki fundið eins mikið til í skrokknum og ég á sálinni, bæði af því að geta ekki sofið og líka var ég að drepast úr móral af að hafa slasað hundgarminn alvarlega. Ég vildi að ég hefði haft eiganda hans fyrir framan mig þá hefði ég ekki haft móral af smá meiðslum. Þetta eru dýra-sadistar sem láta hundana sína kveljast af einmanakennd og leiðindum allan sólarhringinn. Þeim er ekkert sinnt, aldrei hef ég séð neinn fara út að labba með þennan hund, enda er ég viss um að enginn gerir það. Skemmtilegt jólaverk að tarna, eða hittó!
Vetur á Spáni, Gleðíleg jól öll sömun!!
Hiti 13º um hádegi
.
Ég hef ekki sett inn myndir í ca viku, bráðum bæti ég úr því
.
Nú er erfitt á Spáni, allt í einu kominn vetur. Við fáum samt varla hvít jól, en hitinn núna um hádegisbilið er 13º!!! Þvílíkur kuldi! Kannski af því það er gola líka, mér er allavega skítkalt. Það kom ung of falleg stúlka í heimsókn til mín áðan og ég get svarið það að puttarnir á henni voru eins og íspinnar. Þetta var hún Rut mín sem kemur hér annan hvern dag til að æfa sig á píanóið og skoða póstinn sinn.
Áðan sendi ég öllum netvinum mínum jólakveðju og smá jóladjók með. Ykkur öllum óska ég gleðilegra jóla! Hafið það gott í kvöld og á morgun og alla daga.
Ég vil SKÖTU SKÖTU SKÖTU SKÖTU SKÖTU SKÖTU!!!!, Enn við ána, Jane ekki í þurrki
.
Sama veður.
Ég vil fá SKÖTU SKÖTU SKÖTU, núna strax, ARRrrrgggg, ég vil skötu núna ARARAGGGGGGGGGggggggggg!!!!! (Þetta mundi virka betur á vídeói, GunniJak liggur á maganum á gólfinu og lemur höndum og fótum og enni í gólfið og öskrar eins og lungun leifa og grenjar á milli, þetta virkaði flott fyrir ca. 56 árum, kannski færir það greyinu skötu núna!!) Ææ, ósköp væri nú gott að fá smá skötubarð að éta. Það er það eina sem ég sakna í sambandi við jólin. Ég ætla ekki að gera mér neinn dagamun á morgun, fæ mér kannski fisk til tilbreytingar. Ég er mikið jólabarn í mér, en er samt orðinn það gamall að mér er nokk sama hvort það eru jól eða ekki þegar ég er einn að vepjast í ókunnugu landi í 20º hita með kaktusa og pálmatré í kringum mig. Þetta eru engin jól hvort eð er. Bara ef ég hefði fengið skötu :-(
Ég fór fjórðu ferðina til Rod og Lis í dag. Ég reyni að teygja þetta verkefni eins og ég get vegna þess að ég passa að koma alltaf um 2 leitið þegar þau eru að fara að fá sér að borða. Í dag var það skinka, skrömbluð egg, brauð og súpa, ásamt ýmsum ostum og nammi. Nú held ég að ég hafi náð góðum inni skotum á myndavélina. Það er mesta basl að taka bjartar myndir inni í herbergi á móti glugganum og með útsýni út á svalir. Ef herbergið er bjart verður útihlutinn yfirlýstur og ef útihlutinn er passlega bjartur er herbergið dimmt. Ég held ég reddi þessu í Photoshop.
Þurrkarinn hennar Jane bilaði og ég skrúfaði hann sundur og fann út að reimin var slitin. Hún ætlar að útvega nýja reim, en það þarf að rífa þurrkarann í spað til að koma þeirri nýju á sinn stað. Seinni tíma vandamál.
NARNIA og fólkið/fyrirbrygðin þar
.
Sama veður
.
Lítið að frétta í dag. Seint á fætur og seint að sofa. Þetta verður líklega svona þar til Lúí kemur aftur, en ég skammast mín soldið þegar ég heyri "jiiihúuu" fyrir utan gluggann minn og komið fram undir hádegi og við Prúdencio ennþá kúrandi í bælinu. Svo ég hef notað þetta sem vönd á mig til að drullast sæmilega snemma á lappir. En nú er bara ekkert jiiihúuu til að vekja mig svo ég sef fram undir hádegi. Ég er að lesa bókaflokk á ensku sem heitir NARNIA. Ég veit ekki til að þessar bækur hafi verið þýddar á íslensku. Þetta eru 7 bækur í vasabroti, ca 175 bls hver. Narnia er skrifuð fyrir börn, en er engu síður lesning fyrir fullorðið fólk. Sérstaklega ef það er ungt í anda! Fyrsta sagan byrjar á því að fjórir skólakrakkar, ca um fermingu, fara inn í fataskáp og komast þaðan inn í allt aðra veröld þar sem fátt er eins og i mannheimum. Dýrin tala og það er endalaus slagur á milli þess góða og illa. Það er ljón, hinn mikli Ashlan, sem er eins konar yfirleiðtogi í þessum heimi, en hann birtist ekki nema mikið liggi við. Bókin endar svo á því að krakkarnir koma aftur út úr skápnum og það höfðu ekki liðið nema nokkrar mínútur í mannheimum en hálf mannsæfi í Narníu. Allar bækurnar gerast í kringum krakka frá mannheimum sem fara til Narníu á dularfullan hátt. Bækurnar eru myndskreyttar með fallegum pennateikningum, ca á tíundu hverri blaðsíðu. En því miður er ég með seinustu bókina og veit ekki á hverju ég á að byrja næst.
Múrbrot á haugana, San Pabló óvart, latur að vinna
.
Sama veður
.
Já, ég fór seint á fætur og var latur fram eftir degi. Fór samt seinnipartinn og bar allt múrbrotið niður og út í bíl. Ótrúlegt magn af músteinum og steypu sem hefur verið notað í hálft skrifborð! Í öllum húsum sem ég hef komið í á Spáni eru húsgögnin hlaðin úr múrsteini. Ég skil þetta ekki, þessi húsgögn eru svo foráttuljót að engu tali tekur. Ég mun fljótlega setja inn myndir af húsgögnunum í svefnherberginu og þar getið þið séð þetta. Ég er mjög óánægður með að hafa ekki fengið að brjóta nema helminginn af skrifborðinu, afgangurinn er svo ljótur og eins og út úr kú. Ég tók myndir af þessu og setti inn á netið til að Lúí sæi hvað þetta er ljótt og gæfi mér grænt ljós á að brjóta hinn helminginn líka.
Ég var búinn að fylla bílinn af grjóti og vissi ekkert hvað ég átti að gera við það. Þegar við Lúí fórum til San Pablo að sækja vatnið sá ég mikið jarðrask á leiðinni og Lúí sagði mér að þarna væri verið að byggja nýja vatnsveitu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og renndi þangað, en auðvitað var búið að búið að girða svæðið af og setja læst hlið. Í staðinn fékk ég salibunu til San Pablo, sem er hálfgert úthverfi frá Jimena, enda í sama hrepp og undir sömu stjórn. S.P. er mun nýtískulegri bær en Jimena, húsin almennt yngri og flestar götur beinar og sæmilega breiðar, enda staðurinn að mestu byggður á láréttu landi en ekki lóðréttu eins og Jimena. Fór seint að sofa, lá á netinu til kl. 02:30.