GunniJak í Danmörku
5.3.04
  Hæ þið! Nú er ég að gera það sem ég hef aldrei gert fyrr, ég skrifa beint í Dagbókina. Það er svo dýrt að vera tengdur á meðan maður skrifar. Þetta verður stutt núna, ég var að koma heim um hálftíu leitið. Fór alla leið til Portúgal! Var þrjá daga þangað en keyrði alla leið til baka í dag. Það er svona eins og frá Reykjavík til Húsavíkur. Enda er ég svo þreyttur að ég get ekki meir þennan daginn. Ég er að spá í að vera heima á morgun og hvíla mig og vinna eitthvað í myndum og Dagbóka. 
1.3.04
  Pistill. Leiðrétting. Fæ lítið af meilum. Fjallaþorp. Óæti og veisla. Vantar húsbíl, ef þið eigið einn auka, sedið mér hann. .
Áður en ég fer að segja frá afrekum mínum í dag er hér smá pistill um Dagbókina og leiðrétting á misskilningi sem viriðist hafa orðið.

Ég er að skrifa þessa dagbók fyrir sjálfan mig en ekki ykkur. Ég ætla að eiga minningarnar um þennan vetur svo lengi sem ég hef heilsu til að geta lesið. Eins er með myndasíðuna. Hún er fyrir mig. Bara mig. EN, það er nú svo með marga hluti sem við gerum, og líklega flesta, að við viljum deila ánægjunni af þeim með öðrum. Ef ég ætti hús og færi út og málaði það væri það bara fyrir mig gert. En, ég myndi deila ánægunni af því með öllum sem það sæju. Eins er það með dagbókina MÍNA, ég vil deila henni með sem allra flestum og ég skrifa hana þannig að fyrst og fremst hafi ég gaman af henni og svo ekki síður þið sem deilið henni með mér. Eins og ég hef sagt áður er netið svo dásamlegt vegna þess að enginn er neyddur til að nota það. Hvorki til að lesa dagbækur, skoða myndir eða annað. Þá er ég vitanlega bara að tala um þá sem nota það sér til dægrastyttingar. Þegar maður gerir hluti sem maður er ánægður með og jafnvel pínu grobbinn af, svona í laumi, er manni það ennþá meiri ánægja ef einhverjir fylgjast með því sem maður er að gera. Þess vegna var ég að vona að þeir sem lesa dagbókina myndu senda mér örfáar línur einstöku sinnum. En ég verð að segja alveg eins og er að ég hef orðið fyrir vissum vonbrigðum. Frá flestum sem ég veit að lesa dagbókina hef ég ekkert heyrt þessa 4 mánuði sem ég hef skrifað hana. Vitanlega er alls engin skylda að svara þessum bréfum, af því þetta er raunverulega ekkert nema sendibréf sem ég er að skrifa ykkur, það hef ég marg oft tekið fram, en það væri samt gaman að heyra aðeins oftar í ykkur. Það eru nokkrar undantekningar og þakka ég því fólki alveg sérstaklega fyrir meilin frá þeim. Ekki síst þeirri manneskju sem hefur skrifað mér fleiri og lengri bréf en þrisvar sinnum allir hinir til samans. Ég held að hún sé farin að keppa við mig að skrifa eins mikið eða meira en ég. :-)

Eins og þið hljótið að hafa tekið eftir hef ég forðast eins og heitan eldinn að nefna neitt persónulegt um annað fólk og ég held mér hafi nokkurn veginn tekist það. Hafi mér samt orðið það á þá er það algjörlega óviljandi og bið ég afsökunar á því hér og nú. Veit samt ekki til þess. En ef það er eitthvað sem þið viljið spyrja um eða fá nánari skýringar á þá vinsamlega sendið mér meil og ég svara um hæl. Það er uppi smá misskilningur hjá ættinni minni útaf smá stúf sem ég skrifaði um hana Unu systur mína daginn sem hún dó. Þetta átti bara að vera smá hlýleg kveðja til hennar þar sem ég verð ekki við jarðarförina hennar. Í þessum pistli segi ég að hún sé búin að vera að berjast við Krabbann í nokkur ár og virðist þetta hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. Ég skil það samt alls ekki vegna þess að ég veit ekki betur en að hún hafi verið að berjast við Krabbann í nokkur ár. Það var ekki tilviljun að ég skrifaði Krabbann með stórum staf, þar á ég við, ef þið hafið ekki skilið það, að Krabbinn er eitthvað stórt og, eins og ég sagði í pistlinum, hundrað sjúkdómar eða meir. Þar með hélt ég að allir skildu það sem ég var að segja, hún systir mín var fyrst að berjast við ristilkrabba og svo lungnakrabba. Ég er nú ekki betri bróðir en það og fylgdist ekki betur með henni en það að ég man ekki nákvæmlega hvenær þessi barátta hennar við Krabbann byrjaði, en mér finnst að það hljóti að rúmast inni í merkingu setningarinnar "Í nokkur ár". Þessi setning er svo teygjanleg.

Mér hefði þótt miklu skemmtilegra ef einhver hefði sent mér meil og bent mér á að þarna hefði ég líklega sagt vitleysu og ég hefði þá getað svarað þeim hinum sama, leitrétt þetta og sett svo stutta skýringu hér inn. Þarna kem ég aftur að því hvað það væri lítið mál fyrir ykkur að stinga niður fingri og senda mér nokkur orð. Það þarf ekki að kaupa skrifblokk, ekki penna, ekki umslag, ekki frímerki, það þarf ekki að fara út á pósthús og það þarf ekki að sleikja nein eiturefni með tungunni. Bara berja nokkur orð á lyklaborðið og ýta á takkann: SENDA!

Jæja, í dag fór ég í stuttan túr, svaf frameftir og var latur. Fór á stað sirka hálf þrjú og ætlaði bara að skreppa í þorp sem ég hef nokkrum sinnum keyrt í gegnum þegar ég hef verið að fara niður á ströndina, með Lúí eða Jane, þá er hægt að stytta sér leið með því að fara um mjóan en malbikaðan sveitaveg. við þennan veg er aðallega appelsínurækt og það er svo gaman að sjá bændurna sitja við vegkantinn og selja appelsínur. Ég stoppaði hjá einum í dag og keypti stútfullan höldupoka á 4 evrur eða rúmar 300 krónur. Líklega 5 kíló. Þegar ég kem að bænum sem heitir San Martin Del Tesorillo var lítið um að vera og ég sá ekki nokkra sálu á stjái. Þetta er þorp á stærð við Hvolsvöll, hei, hvað fyndist ykkur um það ef Hvolsvöllur héti: "Hvolsvöllur rétt há Þríhyrningi", ótrúlegt hvað spánverjar nenna að hafa sum bæjarnöfn löng. Ég keyrði út úr bænum hinum megin og sá á kortinu að þaðan liggur vegur til Estacion de la Frontera (!?) ca 20 km svo ég ákveð að láta þetta duga í dag og keyri sem leið liggur í áttina heim.

Eftir nokkra kílómetra endar malbikið og það fór um sæluhrollur og ég fylltist heimþrá þegar bíllinn byrjaði að hossast og rykið þyrlaðist upp fyrir aftan hann. Þetta voru nú samt ekki nema nokkrir kílómetrar þá kom malbikið aftur, og það sem skrýtnara var, veguinn beygði ekki til vinstri heim til Jimena heldur upp úr dalnum hægra meigin og upp á háan háls. Þá allt í einu blasti við mér snjóskaflinn sem mig minnir að ég hafi nefnt í albúminu "Jimena og næsta nágrenni" í myndaalbúminu. Þá er þetta eitt af "hvítu þorpunum" í Andasúsíu þar sem ekki er til eitt einasta hús nema hvítt. Þessu þorpi, sem heitir "bara" Casares og er tildrað upp á mjóa klettasnös. Ótrúlegt bæjarstæði, ef maður sæi ekki kastalann upp á kletti á öðrum enda bæjarins. Þær eru brattar göturnar í Jimena, en bara láréttar miðað við göturnar í Casares. Og mjóar maður, ég komst í sjálfheldu á Setta í einni götunni, hún hefur verið ca. 80 gráðu brött og 3 cm hvoru megin fyrir speglana og svo krókótt að það sáust aldrei nema 3 hús framundan að næstu beyju. Það var merki við neðri endann á götunni sem sagði að þetta væri blindgata, en við Setti vildum aðeins kanna málið. Sem betur fer bakkaði ég nokkur hundruð kílómetra þegar ég var á trukk að búa til stíflugarðinn í Búrfellsvikjun og er þar af leiðandi ekki í vandræðum að bakka eftir speglum, en í þetta skiptið var mér nú eiginlega nóg boðið. En það tókst og ég mátti gjöra svo vel og keyra alveg niður á jafnsléttu í hinum enda bæjarins til að finna bílastæði og labbaði svo alla leið upp í kastalann, þetta var heilmikið labb og mér var orðið hálf kalt, enda bara í peysunni. Þarna hafa ekki verið nema ca. 7-8 celciusar, enda fólkið blátt af kulda í mörgum peysum, úlpum, treflum og vettlingum. Hvernig ætli þetta fólk klæddi sig í norðlenskri stórhríð í ónefndu landi?

Ég tók um 100 myndir í dag, en því miður er ég bara ekki orðinn nógu góður af kvefinu til að orka að koma þeim inn í Fotki, en svakalega hefði það verið gaman. Þarna uppi í kastalanum tók ég alveg gommu af myndum, útsýnið þaðan er með ólíkindum. Svo þegar ég byrja að paufast niður aftur rekst ég ekki á PÖBBB!! Þarna efst uppi í bænum og aðeins örfá hús í kring. En svo sá ég hvað pöbbinn hét og þá náði ég samhenginu, Kastalapöbbinn. Þegar inn kom sá ég að þetta var ekki Tapas bar heldur var bara mallað eitthvað í eldhúsinu. Ég skildi ekki glóru hvorki hjá gamla kallinum sem var að vinna þarna eða á matseðlinum svo ég bjó bara til stóran kúf með höndunum og benti á magann á mér til að hann skildi það sem satt var að ég væri að drepast út hungri. Eftir smá bið kom kall með smá klíning af alls konar óæti, skorpulifur, nei, fyrirgefið, ég meinti skorpulæri sem ég hef sagt ykkur frá og er bæði hart, seigt og algjörlega braglaust, nokkrar þykkar ostsneiðar af svo hörðum osti að það koma skörð í hnífinn við að skera hann og svo einhver pylsa, jafnhörð og skorpna ketið. Með þessu var gomma af brauði og skál full af ólífum. Hér má skjóta því inní að ég er farinn að éta ólífur mér til ánægju og er ég að týna eina og eina uppí mig á meðan ég skrifa þessar línur. Og vitanlega bjór. En kallskrattinn settist við næsta borð og úðaði í sig þriggja tommu þykkri og víðáttumikilli ketsneið með brauði. Ég gat ekki stillt mig um að góna á hann og honum var farið að líða hálf illa og á endanum bendir hann á sneiðina og setur upp spurningarmerki. Ég var næstum búinn að hrista af mér hausinn svo mikið nikkaði ég. Sækir þá ekki blessaður kallinn jafnstóra ketsneið handa mér líka. Og nú var veisla á Kastalakránni. Ég gat ekki betur séð en þetta væri lambaket, en því miður var búið að krydda allt upprunalegt bragð úr því. En rosalega var það vel kryddað og sterkt á bragðið. Kallinn var búinn að segja mér að diskurinn kostaði 6 evrur og svo drakk ég einn bjór og eina appelsín (Hræddur við Setta) og þegar ég fór setti kallinn um 7 evrur. Ég rétti honum 10 evra seðil og sagði honum að hann mætti eiga afganginn. Mikið varð sá gamli glaður!!

Þarna eru kaupmenn ekki eins miklar hópsálir og í Jimena, ég gat keypt mér í matinn, húsaleigubæturnar komu nefnilega inn á reikninginn minn á föstudaginn og björguðu mér frá hungurdauða. Ég keyrði síðan þvert yfir dalinn og til Gausin, það er svona eins og Hellisheiðin hvoru megin og svo fór ég beint heim. Og þó, renndi niðreftir til Rod og Lis en þau voru ekki heima og þaðan fór ég beint heim. Ég er með stór plön fyrir næsta vetur, ég ætla að kaupa mér húsbíl næsta haust og ferðast í honum næsta vetur. Ég er orðinn hundleiður á því að vera alltaf að keyra sömu leggina kvölds og morguns til að komast að öllum skemmtilegu stöðunum sem mig langar og ég ætla að heimsækja. Til dæmis í kvöld. Það var komið myrkur þegar ég fór frá Casares og þá hefði verið kjörið að leggja einvhersstaðar á góðum stað, elda sér eitthvað og kíkja svo í tölvuna og á netið og fara svo bara að sofa, vel og lengi og vakna snemma og halda áfram að ferðast og njóta lífsins. Þá verð ég búinn að koma mér upp gerfihnattamóttakara á bílinn og get þá farið á netið í bílnum. Óháður fjandans Telefónika og öllu því hyski. Nú er klukkan orðin hálf fjögur og tímabært að fara að halla sér, hm hm..
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com