GunniJak í Danmörku
18.9.04
  Búið að flytja, húrrrra!!! Brutumst inn í matvörubúð. Ein áfengissaga. Fyrsta en ekki síðasta. .
.
Fór að sofa klukkan hálf ellefu í gærkvöldi, og eins og við var að búast vaknaði ég upp úr klukkan fjögur í nótt. Hells Hell! Velti mér í hálfan annan tíma og rauk svo uppúr bælinu og í tölvuna. Svo fóru íbúarnir að týnast fram einn og einn og að lokum var komið nóg af fólki í quintett við morgunverðarborðið. Upp úr átta fórum við Heiðrún og ArnarFreyr til Lauk-stera (Lögster) og ætluðum í Nettó. En það er laugardagur og ekki opnað fyrr en kl. 09:00. Við kíktum á fleiri búðir og að lokum komum við að einni þar sem fólk var að raða í hillur. Við smeygðum okkur inn þó ekki ætti að opna fyrr en klukkan níu og versluðum allt sem hugurinn girntist. Ég varð eftir í Hráslaga og ryksugaði stofuna og 2 herbergi inn af henni. Þið sjáið fyrir ykkur GunnaJak renna létt yfir parkettið á 10 mínútum, en nei, ekki aldeilis. Í fyrsta lagi eru þykk og loðin teppi á öllum gólfum og í öðru lagi eru svo stórvirkar kóngulær í Danmörku að það er allt fullt af þeim ásamt veiðarfæru þeirra. Þannig að ég ryksugaði alla veggi og öll loft og svo auðvitað að lokum gólfin. Vinkona ÁK sem við sóttum um daginn og mamma hennar komu í morgun til að hjálpa til. Þessi kona er hamhleypa til verka og til að gera langa sögu stutta var allt flutt úr húsinu og klárað að þrífa það, hátt og lágt áður en farið var að sofa. Ég leysti Heiðrúnu af hérna heima eftir hádegið og tók eldhúsið "heima" og svo hjálpaði ég Bjarka að flytja þunga hluti allan daginn eftir það. Þau eiga risastórt hjónarúm (á evrópskan mælikvarða) og hann hefur hingað til alltaf skrúfað það niður í mólekúl, en núna nenntum við því ekki og tókum það út á svalir og niður og svo heima uppá svalir og inn. Ekkert mál og bara hálftíma vinna. Sem betur fer kom nágranni hans sem er rafvirki og hjálpaði honum með þvotta og uppþvotta-vélarnar og þær voru tengdar um leið. Allt annað fluttum við á vinnubílnum hans Bjarka. Sem betur fer skilja vinnuveitendur hans ekki íslensku svo það er óhætt að segja þetta hér!!

Í kvöld var svo kveikt á kamínunni og við Bjarki fengum okkur sinn bjórinn hvor. Og ef einhver hefur saknað sífelldra brennivínssagna frá mér eins og á Spáni í fyrra verða trúlega fyrir vonbrygðum með að þetta er fyrsta og eina áfengið sem ég hef neytt í Danmörku. Því miður fyrir ykkur, en sem betur fer fyrir mig. Bæti úr því þegar til Spánar verður komið.
 
17.9.04
  Skúra, pakka, flytja. Heilsa og heilsuleysi. Hrjóta hrjótti hrjótt hrjóttum. .
.
Vakna með ÁK og þegar hún er farin í skólann rauk ég til og byrjaði að þrífa eldhússskápa í Hráslaga. Tók 5 stóra skápa (af16!) og þreif þá að utan og innan. Fór svo heim og lagði mig til 12:00 að Heiðrún kom heim í mat. Hún er að vinna rétt hjá og fær klukkutíma í mat. Svo fór ég aftur í Hráslaga og hélt áfram að þrífa. Setti ofan í nokkra kassa og flutti heim. ÁK fór heim úr skólanum með vinkonu sinni og mamma hennar sótti hana svo um 5 leitið. Svo erum við búina að vera að flytja, þrífa og basla í hinu og þessu í allan dag. Rosalega þreyttur í kvöld. Ég tek það samt skírt fram að ég vinn bara það sem ég treysti mér til. Fólkið hérna sýnir mér mikinn skylning og tekur tillit til þess að ég hef ansi skerta starfsorku. Þaebbarasolleis og þýðir ekkert að vera að væla yfir því.

Marbletturinn mjöðminni á mér, síðan ég datt við að hjálpa Friðjóni og kó, er horfinn og ég finn ekki til þar lengur. En hinumegin hefur eitthvað slitnað eða tognað og ég finn oft til óþæginda í og undir hægri síðunni. Ekkert óbærilegt samt, en svona ergelsi stundum. En það er verra með eyrað á mér, mér líður fjandalega í því, vessar alltaf út úr því. Ég er samt með roslega góðan AllóvaVera mjöð sem ég set reglulega í það, ég trúi sona passlega á þetta, en það getur alls ekki verið til hins verra og alltaf von um að það bæti.
Það var hringt í mig frá lungnadeildinni í gær og mér sagt að mæta til að fá hrotuprufutækið! Ég hef verið í svefn rannsóknum í sumar og nú er kominn niðurstaða um að ég þjáist af verulegum kæfisvefni. Læknirinn minn sagði mér að fá mér tæki til að sofa með, í seinasta lagi strax. En því miður, fyrir alls konar mistök á öllum stöðum, tókst mér ekki að ganga frá þessum málum áður en ég fór að heiman og hér er ég og get ekki annað og hrýt svoleiðis að fasteignaverð hefur fallið í 10 húsum í nágrenninu og búum við þó í miðri sveit! En ég er nú búinn að þjást af þessu í 50 ár og hvað munar um einn sláturkepp í sláturtíðinni og hálft ár í hrotum? Mér er spur.


 
16.9.04
  ÁK lifandi!. Smábarn með handakúta. Sofið í 103 rúmum. Hestar hross truntur gæðinar. Allt eins fyrir GunnaJak. .
.
ÁK eldhress í morgun. Gleymdi nestinu, en ég skutlaði því upp í skóla. Flottur skóli held ég og mér sýnist skólastarfið vera mjög lifandi og krakkarnir eru mikið í allskonar verklegu starfi. Úti og inni. Held að ÁK sé bæði dugleg og ánægt í skólanum. Hún fór í sund í dag. Það hefur pirrað hana svakalega mikið að hún, 10 ára skottan, hefur orðið vera með flotbelti og ekki mátt fara útí djúpu laugina. Hún er svakalegur vatnsköttur og alveg flugsynd og þetta er ekkert annað en niðurlæging fyrir hana. En krakkarnir hérna í Danmörku byrja á sundnámskeiðum 10 ára og þessvegna eru þessar reglur ekkert skrítnar. Nema hvað, í dag fór mín í sund-test, ekki beint próf, heldur var verið að skoða hvað hún gæti. Meðal annars þurfti hún að synda 200 m í einni striklotu án þess að snerta botninn, kafa í djúpu lauginni og eitthvað fleira. Danirnir voru alveg forviða hvað hún gat og núna er hún búin að fá leifi til að sleppa beltinu og má fara um alla laug.

Í kvöld tókum við öll rúmfötin og dýnurnar úr rúmunum og fluttum þau á 103 og allir ætla að sofa "heima" í nótt. Það er tilhlökkun að þurfa ekki að vakna í skítakulda á gamla staðnum. Á laugardag á svo að flytja alla stóru hlutina, þar með talin rúmin.

Hestar, hestar og aftur hestar. Hér snýst allt um hesta, þegar ekki er verið að vinna, sofa og éta. Þau eru með 7 hross á sínum vegum, öll íslensk. Bjarki er prófessional járningamaður og fer um allt til að járna. Þetta er drjúg búbót auk þess sem hann nýtur þess að dúlla við hesta. Heiðrún temur, ég hef ekki spurt mikið út í það, alla vega er hún með eitt trippi í tamningu núna. Hestarnir eru í girðingu ca. 2 km héðan. Í dag sóttu þau trippið sem Heiðrún er að temja og 2 tamda hesta og voru þau að dúllast eitthvað með trippið. Æ, ég er svo illa að mér í þessum tamningum, ég lít á hesta sem gæludýr til að hafa undir vanganum annarsvegar og svo á diskinum mínum hinsvegar. Lengra nær mín hestamennska ekki. Annar hesturinn sem kom heim í gær heitir Víkingur og á ÁK hann. Hann var alltaf í Oddakoti og vorum við vinir þar. Það var mikill hamingjudagur hjá heimasætunni þegar hún sótti hann á flugvöllinn og þekkti hann hana þegar hún kom að honum. Hún kom aftan að honum og lagði hendina á lendina á honum, þá leit hann við og kumraði til hennar og auðséð að hann þekkti hana, enda setti hann snoppuna í hálsakotið þegar hún kom nær.

Við Bjarki skruppum til Ferjuslef í dag, hann var að leysa út harðan disk i tölvuna. Hann kostaði ekki nema hálfvirði á við diska hjá Kolla og er hann samt með þeim alódýrustu sem völ er á á Íslandi. Ég er svo að byrja á að taka öryggisbakkupp af öllum þeirra gögnum sem þau eiga í tölvunni, áður en ég byrja á að reyna að koma í tölvuna harða diskinum. Nú vantar ekkert nema Kolla!
 
15.9.04
  Hráslagi. Járningar í DýraGarði. ÁK lasin. Flytja. Flytja. Flytja. .
.
Vakna áður en ÁK fer í skólann, ætla að gera það framvegis. Leiðrétting, áður en ÁK Átti að fara í skólann. Er með ljótan hósta og slappleika. Við erum farin að kalla gamla heimilið "Hráslaga" vegna þess að miðstöðin er búin að vera biluð um tíma og kominn svona TómraHúsaKuldi í húsið. Ég fór með hana beint í 103 í notalega hlýjuna. Ég held áfram að tengja tölvuna en hún leggur sig í sófann í stofunni, en hann er eina leguplássið á staðnum ennþá. Heiðrún kom heim í hádeginu og var ekki hress með dótturina. Við ÁK fórum á gamla staðinn og pökkuðum í marga kassa og fylltum Skortinn. (Eskortinn). Það smá saxast á dótið, flott fyrir íbúana að geta flutt svona smám saman. Þá er hægt að láta hvern hlut á sinn stað strax, betra en að þurfa að tæta upp úr hundrað kössum á einum degi.

Bjarki fór í járningaleiðangur eftir vinnu og bauð mér með. Hann dró undan einum, járnaði 2 fætur á öðrum og snyrti hina og tók 2 aðra í naglasnyrtingu, hófasnyrtingu meinti ég. Svona BjútíSjopp. Hér í Danmörku eru hestar bara í litlum hólfum og hreifa sig lítið. Fyrir bragðið slíta þeir ekki hófunum og sífellt þarf að vera að klippa burt það sem vex of mikið. Fólkið á bænum lifir á barnapössun og þarna er hálfgerður dýragarður. Merkislegast fannst mér samt að sjá Ösnu með afkvæmi. (Hvað heita Asnaleg afkvæmi aftur, man það ekki) Asninn var ótrúlega lítill miðað við asnana á Spáni. Þarna sá ég líka risastóran hund af einhverju kyni sem hvorki ég né Bjarki höfun séð á Íslandi. Í kvöld fór ég svo eina ferð til að ná í dót á hinn staðinn.
 
14.9.04
  Tölvan tengd. Villtur í hafi. ReykingaDanir í íþróttahúsinu. .
.
Jæja, þá er ég búinn að flytja tölvuna og tengja hana til bráðabyrgða. Bjarki er búinn að smíða tölvuborðið en ég legg allar snúrur og kapla. Bora göt í borðið og kem öllu snyrtilega fyrir.

Þið takið kannski eftir því að það vantar gærdaginn, þá var tölvan ekki tengd, en ég Dagbókaði samt helling á fartölvuna. Ég er ekki búinn að tengja þær saman, það er smá staut en ætti að ganga greiðlega. Skelli því inn um leið og ég get.

Ég er svo heppinn að Bjarki er kominn á fyrirtækisbíl og þar með hef ég hans bíl til umráða. Það er Escort Station, soldið gamall en í fínu lagi. Ég ætla og hef verið að dandalast smávegis á honum fyrir sjálfan mig og hann var orðinn bensíntæpur, svo ég ákvað að kaupa á hann bensín. Spyr ÁK um næstu bensínstöð og hún bíðst til að lóðsa mig. Fyrst gekk allt vel, beygja hér og beygja þar og beint áfram á milli. En svo finn ég á mér að það eru að renna á hana tvær grímur, og eftir nokkrar beyjur í viðbót viðurkennir hún að við séum rammvillt og hún viti ekkert hvar við erum. Við vorum hvorki með kortið né gemsann og nú var úr vöndu að ráða. Allt í einu komum við á breiðan og beinan veg, hálfgildings hraðbraut og þá segir ÁK að nú þekki hún sig, við séum alveg að komast til FerjuSleif (Ferrislev), hún viti það vegna þess að þær mæðgur hafa farið þangað á hverjum þriðjudegi í allt sumar til að fara í KikkBox. (Ég vildi ekki lenda í þeim reiðum!). Og mikið rétt, við fundum bæinn og skelltum okkur á næstu bensínstöð. En þá kom babb í bátinn, það var enginn lykill að bensínlokinu á lyklakippunni!! Og við áttum ekki nóg bensín til að komast heim! Við ákváðum að fá okkur ís á meðan við fyndum út úr okkar erfiðu stöðu. Mig vantaði klink til að skipta og fór að gramsa í litlu hólfi í mælaborðinu og viti menn, bensínlokslykill!! Eftir ísinn tókum við bensín og keyrðum beint heim, ef undan er skilin ein smá villa. Máttum ekki seinni vera af því ÁK átti að mæta á handboltaæfingu klukkan 04:00, en við komum heim korter fyrir. Ég keyrði hana á æftinguna og var að dunda við að tengja tölvuna í þrjú korter, en svo sóttum við ArnarFreyr hana korter fyrir fimm. Sáum hana í stórleik í markinu, varði eins og berserkur og fékk ekkert mark á sig.

Það er stór kaffistofa uppi á lofti við endann á ítþróttasalnum og þaðan sést yfir salinn. Það beið hópur af ca. 4. bekkjar krökkum þar og horfðu á sjónvarp á meðan. Líka nokkrar mæður sem voru að bíða eftir krökkum eins og ég. Þetta er svosem ekki í frásögur færandi nema af því að þær vour allar REYKJANDI! Og ÁK segir mér að það sé reykt á fullu í búningsklefunum líka. Íþróttahúsið er sambyggt við grunnskólann og þar er félagsmiðstöð fyrir krakka allt niður í 6 ára. Djös ógeð að reykja á svona stað. En það geta ekki allir verið bestir eins og íslendingar!!
 
12.9.04
  Flís sem passar eins og Flís við rass. Flakka. Flytja. .
.
Vakna klukkan níu. Fer með Bjarka heim til Mikaels, en hann er væntanlegur vinnuveitandi Heiðrúnar og hann á húsið sem þau eru að flytja í, og fengum lánaðan vagn og traktor og svo kom Mikael sjálfur á New Holland gröfu sem hann á. Bjarki átti tvö bílhlöss af "flís" hérna fyrir utan gamla staðinn. Flís er viðarkurl og börkur af trjám sem fara í sögun og aðra vinnslu. Þetta er eitt það besta sem hægt er að bera undir hesta. Ekkert ryk og 100% nátturuvænt. Ég hef aldrei séð eins stóran traktor fyrr, afturhjólið var nákvæmlega jafn hátt og ég!! (NallaCase). Þessu var sturtað á nýja staðnum og á að berast undir hesta þar. Svo fórum við eina flutningsferð og ég tók til og ryksugaði í öllum herbergjunum sem við máluðum. Það var ekki neitt smá flottur kvöldmaturinn hérna, purusteik að hætti Heiðrúnar. Rosalega gott og sósa de la mamma með. Nammi namm. Ég ég borðaði bara í hófi þó ótrúlegt sé, samt er ég ennþá fullur upp í háls klukkan 23:30. Saðsamt svínið að tarna.
Ásta Kristín á góða vinkonu ca. 30 km héðan og mamma vinkonunnar kom í dag upp úr hádegi og sótti hana. Svo í kvöld fórum við öll að sækja hana, flottur bíltúr um nýjar slóðir. Annars er ég einstakur rati að rata, það kemur víða fram í dagbókinni frá því í fyrravetur. Samt er ég aðeins farinn að fatta staðina sem ég sé, eftir að hafa farið 5-10 sinnum um þá, en alls ekki að ég gæti ratað að þeim og frá. Vantar trúlega í mig
rat-tölvukubbinn.
Ég horfði á formúluna í dag, það er að segja ég sat yfir henni og ýmist svaf eða dottaði. Ég er þar með hættur að horfa á hana þetta haustið, það eru alltaf þeir sömu sem vinna og núna urðu engir alminlegir árekstrar, alla vega ekki á meðan ég var vakandi. Þið megið bara eigana fyrir mér.
Það voru þrumur og eldingar í gær og svo úrhellis "Spænsk" rigning á eftir. En logn og mjög hlýtt. Í dag var aftur á móti rok og rigning öðru hverju í allan dag og sólskyn á milli. Og prýðilega hlýtt. Veit ekki um selsíusa.

 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com