GunniJak í Danmörku
28.2.04
  Korkskógar. Algar óvænt. Acros. Ubrique. Causin. Cortel de la Frontera. Kalt á fjöllum .
Fór í 250 km bíltúr í dag. Fór veginn sem liggur um Korkskóginn og liggur útúr vestur hluta Jimena, þeim enda sem ég á heima. Hrikalega er Korkskógur fallegur, þetta er eiginlega ekki skógur, heldur tré á strjálingi. Það er yfirleitt langt á milli trjáa og þau vaxa frá dalsbotnum upp í miðjar hlíðar á meðal háum fjöllum. Þessi vegur liggur að risastórum uppistöðulónum og endar þar samkvæmt mínu korti. Ég ætlaði bara að forvitnast og sjá þessi vötn og þar er enginn bær og engir vegir á kortinu. Þá kem ég að tveimur stórum brúm og breiðum vegi og þegar ég hef ekið eftir honum um stund er ég kominn inn í lítinn bæ sem heitir Algar. Þá var nýbúið að brúa uppistöðulónið en ekki komið inn á kortið mitt. Þaðan fór ég til Acros de la Frontera, en missti eiginlega af þeim bæ vegna þess að ég valdi slaufu framhjá honum og nennti ekki að snúa við þegar ég var kominn á Kúrsinn til Ubrique, en það er stór bær í dalbotni, með fjöll á ALLA kanta. Það er engin lárétt leið út úr bænum. Ég hélt samt að ég hefði fundið eina slíka, fylgdi bara ánni sem liggur um bæinn, ekki rennur hún uppí móti, og flottur malbikaður vegur meðfram henni. En allt í einu kem ég að vatni og vegurinn endar, já bókstaflega endar niður Í vatnið. Svona eins og gömul steinbryggja á flóði. Þá er þetta enn eitt uppistöðulónið og vegurinn hafði einhverntíman legið þarna niður í ennþá dýpri dal, en sá er núna fullur af vatni. Það var hálf ömurlegt að sjá tré standa upp úr vatninu frá bakkanum og mörg hundruð metra útí því. Ég átti í basli með að finna rétta leið út úr bænum, ég er ótrúlegur rati að komast leiðar minnar í þessum blessuðu Spánarbæjum. Frá Urbeque fór ég svo sem leið lá til Cortes de la Frontera og þaðan til Gausin og beint heim. Ég lagði á stað klukkan 11:00 og kom heim um klukkan sjö í kvöld. Góður dagur og góður túr. Og veðrið eins og best verður á kosið. Nema smá vindur, en það skipti mig engu. Það er hitamælir í mælaborðinu á Setta og ég get fylgst með hitanum úti. Uppi í fjöllunum komst hitinn lægst í 6,5 stig en hlýjast var í Jimena, 13 stig. Það hefur kólnað aðeins undanfarið, er orðið eins og júní og seinniparturinn í ágúst heima.  
27.2.04
  Ferðalag 1. Gausin og El Colmenar. Krappar beyjur og upp og niður. .
Svaf fram að hádegi en reif mig þá á lappir og lagði á stað í fyrsta ferðalagið á Setta. Bíllinn er af SET gerð, smíðaður á Spáni og ég kalla hann bara Setta. Fór langleiðina til Gaucin, en beygði til vinstri og fór að litlum bæ sem heitir El Colmenar. Þar er járnbrautarstöðin fyrir Gaucin. Ótrúlega falleg leið niður snarbratta fjallshlíð. Hæðarmunurinn milli Gaucin og El Colmenar er ca. tvisvar Kambarnir, en vegurinn er heldur betur hlykkjóttari. Víða Gætu spánverjarnir tekið af beyjur, en ég held þeir bara kæri sig ekkert um það. Allstaðar eru sveitbæir á strjálingi, uppi á fjöllum og niðri í dölum og allstaðar á milli. Ég var í miklu myndastuði og tók helling af myndum á leiðinni til bæjarins. Þegar þangað var komið lagði ég bílnum og var á vappi um bæinn í eina tvo tíma. Endaði inni á Tapas stað, ég átti 3 evrur og fékk mér einn bjór og tapas fyrir 2 evrur. Mér er sagt að það sé í lagi að drekka einn lítinn bjór á spáni án þess að missa teinið, Prómillin voru upphaflega miðuð við það. Ég er soldið latur þessa dagana að koma inn myndum, ég er búinn að vera á kvöldin og skríð vanalega beint upp í rúm, eftir að ég fékk kvefið. Plagar mig aðeins í dag, en ekki mikið.
 
26.2.04
  Guð blessi meðalið Brennivín. Vildu ekki einu sinni skeina sig á fimmþúsundkallinum mínum. Algeciras og Gíbraltar. .
Mikið getur nú blessað brennivínið verð dásamlegt þegar það er bara notað sem meðal. Ég var hreint með ólíkindum hress í morgun. Vitanlega var ég lasinn, en ekkert í líkingu við það sem áður var. Í fyrsta sinn síðan ég kom hingað fékk ég lánaða blikkdósina hennar Lúíar. Ekki taka illa upp við mig þó ég kalli Renó 4 blikkdós, englendingar kalla hann nefnilega Tin Can sem er bein þýðing á Blikkdós. Það var rigning og ég lasinn og nennti ekki í bankann, en ég er svo blankur að ég á ekki fyrir mat og það sem verra er, ekki krónu og þvísíður evru á bankabókunum mínum. Svo ég ætlaði að búa til evrur úr fimmþúsundkalli íslenskum. Mér var gefinn hann í afmælisgjöf, en hann var sendur í Lágafell og þaðan var mér sendur hann til Spánar. Þetta hefur verið svona nokkurskonar neyðarbrauð ef allt um þryti. Og núna þurfti ég svo sannarlega á aurum að halda, er að fá bílinn í dag og við Prúdencio eigum ekki neinn mat. Jæja, ég fer í bankann "minn! Caja san Fernando og það var eins og ég hefði rétt þeim notaðann klósettpappír, gjaldkerinn tók í blá hornið á seðlinum og svipurinn var eins og á einhverjum pabbanum fyrir 60 árum ef sá hefði haldið á skýtableyju. "Hvað er þetta fyrir nokkuð" spurði hann á lýtalausri spænsku, enda spánverji. Sem betur fer "var minn maður í bankanum", Lúí gaf mér hann í upphafi vegna þess að hann er eini bankamaðurinn í Jimena sem talar hrafl í ensku. Hann gekk á milli, ég varð reiður og ætlaði Í gjaldkerann með orðum allavega, og þýddi, svona nokkuð höfðu þeir aldrei séð. Það var farið í tölvuna og fundinn listi yfir peninga sem þeir skiptu. Þar var Höskuldarland og svo Írland, en ekkert Ísland á milli. Þetta er hrópleg móðgun, landið þar sem fyrsta alþingi í heiminum var stofnað, þar sem haldið var besta Blogg allra tíma eftir Krist. Og svo framvegis, miðað við höfðatölu. Ég fór sneyptur út og í næsta banka, nema þar var enginn listi í tölvu, heldur áttu þeir bók upp á þykkleika símaskrár með myndum af öllum, eða réttara sagt flestöllum peningaseðlum í heiminum. Öllum nema getiði hverjum?
Og þar fór á sömu leið, tökum ekki skrælingjaseðla, ef þetta er þá raunverulegur peningaseðill yfir höfuð!!!

Við Jane lögðum af stað til Algeciras um fjögur leitið, hún þurfti að garfa í farsímanum sínum í Vodafone búðinni. Enn og aftur. Þetta var fjórða ferðin hennar þangað og önnur ferðin mín með henni. Það er mjög merkileg saga af mjög ómerkilegu fólki bak við þessa símasögu. Nenni ekki að segja ykkur hana núna, en þetta er á við besta reifara. Næst fórum við til Gíbraltar og ég var skráður annar ökumaður á bílinn, einnig fórum við með hann á þjónustumiðstöð leigunnar og létum hreinsa eitthvað gums sem hafði hellst niður í gólfið afturí. Ég skildi við Jane við landamærin að Gíbraltar um kl. 19:00. Fyndið, landamæri Bretlands og Spánar liggja alveg við flugstöðina þannig að fólk labbar bara yfir. En það getur verið allt að klukkutíma bið að komast á bíl yfir landamærin. Ég segi Bretland, vegna þess að Gíbraltar er hluti af Breska Heimsveldinu. Svo keyrði ég bara beinustu leið heim og fór beint í bælið vegna þess að ég er enn að drepast úr kvefi og það gerir mann þreyttari en ella. Gott veður í allan dag, en smá rigning þegar þetta er skrifað kl.  
25.2.04
  Whiskey, hunang og sítróna. Engillinn minn Lúí Kastel. Lífgjöf. Engin erfisdrykkja. Hún eyðilagði það. .
Það fór eins og mig grunaði, sofnaði klukkan hálfátta í morgun og svaf fram að kaffi með stuttum hléum. Lúí kom að dyrunum hjá mér um 2 leitið og leist ekki á útlitið á mér. Fölur, augnafljótandi með horinn í skegginu niður á höku. Hún sagi bara Oj bara, á ensku, og bað mig að bíða aðeins. Svo skrapp hún upp á efri hæðina og kom til baka með sítrónu, hunangsdollu og hálfa Whiskyflösku. Þetta rétti hún mér án þess að segja orð og labbaði aftur upp til sín. Lúí Kastel í hnotskurn, alveg eins og hún er. Ég blandaði mér rosalega sterkt og rosalega heitt dýsætt toddý í stóra bollann minn. Drakk það eins hratt og ég gat, fór í peysu og undir sæng. Svo vaknaði ég eftir hálfan annan tíma og það var bókstaflega allt á floti. Ég hugsa að það hafi runnið af mér 5 lítrar!!! Og núna líður mér miklu betur á sál og líkama. Sendi Jane Meil upp á morgundaginn og hún er þá jafn lasin og ég. En ætlar samt að drífa sig á morgun. Hún bauð mér að sleppa bílnum af því ég væri lasinn, en ég hélt nú ekki, Við Víkingarnir Á NorðurSlóðum Látum Nú Ekki SmÁ Lasleika Trufla Okkur!!! Ha, hvað sagðirðu, eitthvað ósamræmi milli daga? Það veit ég ekkert um. Ég er búinn að gleyma hvað ég skrifaði í gær.
Hellirigning í allan dag. Áveitan virkar.
 
24.2.04
  Ég vil súrmat í erfisdrykkjuna mína. Vorkunnarveiki. Önnur kennslustund með Rod Riverman. .
Fárveikur í morgun. Ég huga mér ekki líf. Spítali. Sjúkrabíll. Útför. Dáinn. Grafinn. Gleymdur. Bless.

Nei, kannski ekki alveg, en MJÖG nálægt því. Hafið þið tekið eftir því hvað fólk verður misjafnlega mikið veikt þegar það er veikt? Og þá meina ég jafnveikt? Ég er einn af þeim sem verð veikur þegar ég er veikur. Og ég vil að allur heimurinn sýni mér fulla hluttekningu og skilning og samúð. Einu sinni bjó ég um tíma með heilbrigðisstétt. Þá var sko ekki gaman að vera veikur. (Ég er ekki að segja að það sé það nokkurntíman, nema til að búa til frí frá leiðinlegri vinnu, svo leiðinlegri að hún sé verri en veikindin). Ég hafði hana alltaf grunaða um að láta það bitna á mér þegar hún var búin að eiga erfiðan dag á spítalanum, með sparibrosið uppi allan daginn en bölvandi og ragnandi undir niðri, öllu og öllum. Þá var gott að eiga einhvern "veikan" heima, sem að hennar áliti var aldrei veikur af því það var fullt af fólki á spítalanum miklu meira veikt. Þá var jafnvel betra að fara í vinnuna að grafa skurð með milli 30 og 40 stiga hita.

Ég er með hálsbólgu, algjörlega stíflaður, höfuðverk og vorkunnarveiki, en það er sjúkdómur sem herjar á fólk eins og mig. En engan hita. Þar skilur á milli feigs og ófeigs, þannig að líklega mun ég nú hafa þetta af. Kannski er ég búinn að vinna mér inn eitt líf í bónus eins og Prúdencio, þó held ég varla. Vel á minnst, hann er betri en nýr og bilar aldrei, eins og ekkert hafi komið fyrir hann. Étur, drekkur og sefur á milli þess sem hann skreppur út í ca. 10 mínútur í hvert skipti.

Rod kom í morgun og við unnum við kortið til tvö. Þá var ég alveg búinn að vera og skreið í bælið um leið og hann fór. Mókti til kvölds. En ég hef enga þolinmæði til að liggja í bælinu og er alltaf kominn að tölvunni áður en ég veit af. Svona gengur þetta til skiptis og þetta er skrifða klukkan 6 á fimmtudagsmorgun og mig syfjar ekkert. Sef bara í dag. Í dag á Stella systir að fara í þriðju lyfjameðferðina og við skulum öll senda henni okkar bestu strauma henni til styrktar. Þetta er ægileg þrekraun hjá henni í hvert skipti og henni veitir ekki af öllum þeim styrk sem hægt er að veita henni. Hvernig ætli Dagbókin hennar Stellu liti út ef hún skrifaði hlutfallslega jafn mikið um sín veikindi og ég mín? Púff!!
 
23.2.04
  Kennimaðurinn mikli GunniJak. Ætla að verða veikur, einhverntíman. Sundlaugar Tom og granninn. Guð að ljósmynda. .
Rod kom hingað samkvæmt áætlun klukkan tíu og var til hálf tvö. Hann var að taka sína fyrstu kennslustund í Fótósjopp. Hann/við erum að búa til kort fyrir hann til að senda væntanlegum leigjendum, á meili eða í löturpósti. Inn á það er leiðin heim til hans merkt og helstu staðir í Jimena með viðeigandi symbolum. Ég man því miður ekki íslenskt orð yfir þetta, en það eru litlar myndir sem sýna á einfaldan hátt hvað er á hverjum stað. Til dæmis skiptilykill fyrir verkstæði o.sv.frv. Ég átti ekkert merki fyrir milluna hans Rods svo ég bara bjó það til í CorelDraw. Já, hann er farinn að byrja að skilja af hverju ég er svona lengi að vinna í Fótósjoppinu, við erum báðir haldnir sama sjúkdómnum og Jón Baldur vinur minn, Fullkomnunarsíki. Ég hef nú minnst aðeins á þetta áður. Hann ætlar að koma aftur í fyrramálið og klára kortið en svo á næsta kennslustund að fara fram heima hjá honum við ána.

Ég er að verða lasinn. Ég veit ekki hvaða sjúkdóm er búið að velja handa mér, en best gæti ég trúað að það verði bara kvef. Ég er ekki hræddur við að fá einhverja Asíuflensu, ég lét jú sprauta mig áður en ég fór út. Kannski fæ ég bara legsig. Hver veit. Í tilefni af þessum lasleika fór ég ekki út út úr húsi og hafði hægt um mig.

Það eru í gangi nágrannaerjur hér fyrir ofan okkur. Tom vinur minn, sem ég fór í partíið til stuttu eftir að ég kom hingað, er að byggja sundlaug. Kallinn í húsinu við hliðina er orðinn gamall á sál og líkama og sér ofsjónum yfir þessum framkvæmdum og gerir allt sem hann getur til að leggja stein í götu Toms. Til dæmis voru nokkur hálf og alónýt tré á lóðinni hans Tom og hann sagaði þau öll niður. Eitt þeirra slapp þó vegna þess að það var nákvæmlega á lóðamörkum og kallinn sagði að þetta væri persónuleg gersemi frá sér, en tréð er steindautt og er búið að vera það lengi. Um daginn var verið að steypa fyrstu steypuna, þrifalag undir aðal vegginn og eins og Spánverjar gera yfirleitt var bara steypt í pússningar tunnuvél og steypunni trillað upp langa og bratta brekku í hjólbörum. Hver sagði að það væri komin ný öld á Spáni? Þeir kláruðu ekki sandinn og mölina og það stóðu tvær hrúgur á veginum kringum húsið hennar Lúíar og kallinn var alveg æfur yfir því að hann kæmist ekki með bílinn sinn að húsinu. Hann kallaði á Lögregluna og kallagreyin sem eru að byggja sundlaugina máttu gjöra svo vel og færa hrúgurnar niður með húsinu hennar Lúíar svo nú kemst HÚN ekki að húsinu sínu. Þetta væri nú samt varla í frásögur færandi ef ekki væri það að fyrir neðan húsið kallsins eru staflar af timbri, grjóti og alls konar drasli og bara drulla á milli og hann hefur aldrei í manna minnum farið með bílinn sinn þarna niðurfyrir. Það er gengið beint inn í húsið hans af götunni fyrir ofan og þar er allt steypt og snyrtilegt og honum dytti aldrei í hug að fara að leggja pútuna sína í svaðilför í neðra.

Guð er búinn að vera að leika sér að taka myndir af Andalúsíu í dag og í gær. Ég var að furða mig á því um daginn af hverju hann væri alltaf að taka myndir í skýjuðu og dimmu veðri en ekki á daginn í glaða sólskyni. Mér var bent á skýringuna um daginn, hann er að taka myndir í björtu en þá þarf hann bara ekki að nota flass og við tökum ekkert eftir því að hann er að taka myndir.
 
22.2.04
  Ekkert. .
Tekur því varla að skrifa fyrir daginn í dag. Ekkert sérstakt gerðist og ég fór ekki út fyrir lóðamörkin í dag. Annars er þetta með lóðamörkin soldið skondið. Ég hef minnst á það áður að það liggur risastór þjóðgarður meðfram öllum bænum í Jimena, það er að segja þeim megin sem við búum. Þessi þjóðgarður var "búinn til" árið áður en Lúí byggði húsið sitt hér. Hún hefði ekki fengið að byggja það árið eftir af því þá hefði svæðið sem það stendur á verið friðað. Og nú liggur þjóðgarðurinn meðfram húsinu hennar þannig að um leið og við stígum út um útidyrnar, uppi og niðri, erum við kominn inn í þjóðgarðinn og meigum raunverulega ekkert gera. Enda pissa ég aldrei úti nema í myrkri af ótta við að spilla þjóðargersemi Spánverja!
Fór smávegis í vegginn í dag, en hef verið eitthvað lumpinn eða óvenju latur í dag. Það hefur verið þrumuveður af og til í dag með tilheyrandi úrfelli. Það er samt ekki enn farið að koma inn til mín vatnið þannig að ég veit ekki hvernig "nýja" áveitukerfið sem ég setti upp í fyrra reynist, það hefur nefnilega ekki komið dropi inn til mín það sem af er þessu ári. Merkilegt veðurfar. Og nú er ég viss um að ekki styttir upp frá 26. feb til 9. mars. Þá verður Gunni á Bílaleigubíl og þarf á sólskini að halda.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com