GunniJak í Danmörku
Sílikon eða Acríl brjóst, Slagurinn við Vatnið, Matarboð hjá Lúí
06-12-03
Allan daginn í tölvunni, ef frá er dreginn slagurinn við Vatnið. Ég hái hverja orrustuna eftir aðra við gólfVatnið í íbúðinni minni. Það hellirignir ennþá og ég er alltaf að styrkja, lengja, hækka og þétta varnargarðana. Ég fór í búðina og bað um Sílikon, en búðarmaðurinn rétti mér Akrílkítti. Ég sagði honum að þetta væri ekki silikon, en hann stóð fastur á sínu. Það stóð stórum stöfum þvert yfir túbuna ACRILICO sem getur ekki þýtt neitt nema Akrílkítti. En svo stóð í pínulitlum hring (eins og rúmlega tíkall) Acrilica Siliconada, á þetta benti sölumaðurinn og ég varð að gefa mig. Lúí var með mér og reyndi að túlka mína skoðun, en þá fauk í kauða og Lúí tók ekki sjensinn á að við yrðum bæði lamin undir afgreiðsluborðið svo ég fór heim með fjandans Akrílkíttið. Þetta er álíka speki hjá afgreiðslumanninum eins og við værum að kaupa magarín og það stæði í pínulitlum hring: "bragðast eins og smjer", væri þá hægt að benda á orðið smér og segja að þetta sé heimsins besta smjör? Gallinn við Akrílkíttið er sá að það er vatnsuppleysanlegt og afar erftitt að nota það þar sem kominn er vatnselgur. Það endaði með því að seint í gærkvöldi skar ég niður frauðplastið sem var utanum prentarann og/eða skannerinn og bjó til nýja varnargarða og þétti með, hverju haldið þið, nema smjöri!! 5 : 0 fyrir GunnaJak. Að vísu eru þetta bara unnar orrustur en það er langt í frá að stríðinu sé lokið. Hingað til hefur ekkert verið gert til að veita vatninu frá sjálfu gólfinu og þeir sem hér hafa verið í vetrarrrigninum hafa bara verið í stígvélum. En ekki GunniJak, ég er bara á mínum inniskóm og ætla að vera áfram. Lúí er að vísu að hrella mig með því að það geti komið miklu meira vatn, en þá er bara að taka því. Ég vissi nákvæmlega hvað beið mín með þetta vatn þannig að það kemur mér ekkert á óvart.
Ég fór í
matarboð í gærkvöldi. Lúí bauð tveimur vinum sínum í mat,
USA uppgjafa sálfræðingi á eftilaunum og svo honum
Michael sem var búinn að leigja mér húsið sitt en hætti svo við að kaupa það á síðustu stundu. Og til að bjarga honum, mér og sjálfri sér frá allskonar hremmingum leigði hún mér íbúðina sína á smánarprís. Heppinn ég. Þessi Michael er prófessional sellóleikari og er mikill vinur Lúí. Hann er tónlistarmaður af guðs náð eins og gömlu kellingarnar hefðu sagt. Lúí á píanó og hann spilaði á það eins og Vladimir Asnaskaftið eða kannski betur. Ég er að kenna honum "Á Sprengisandi" og fleiri lög. Svo tóku stelpurnar lagið og Michael spilaði undir. Það var flott. Maturinn var einhverskonar rauð þykk grænmetissúpa með milljón tegundum að grænmeti og útí hana skellti hún helling af feitum fiski, einna líkustum steinbít. Rosalega gott, mmmmmmm! Annað skiptið sem ég fæ fisk í Jimena, hitt skiptið var líka hjá Lúí. Nú, vitanlega var drukkið hvítt og rautt með þessu, og glært á undan og eftir. Gott kvöld.
Latur, uppskrift að eiturbrasi
05-12-03
Var bara í rólegheitum heima í dag, ef frá er talinn smá (klukkutíma) göngutúr. Það er búið að hellirigna í tvo daga, en svo stytti upp um 15:30 og sá til sólar. Ég rauk út og á stað, en sem betur fer hafði ég með mér regnhlífina af því það fór aftur að hellirigna nokkru eftir að ég fór á stað. Það er alveg bráðfyndið að labba undir regnhlíf, ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Ég hef haft á tilfinningunni að ég kæmist ekkert út þegar rigndi af því ég á engan regngalla og því síður gúmmístígvél. En svo getur maður bara sett upp þessa fínu græju og labbað endalaust. Jú, það slettist aðeins á mann, en það er ekkert að ráði. Og ég sker mig ekkert úr með regnhlífina vegna þess að allir eru með regnhlífar. Nú er klukkan sex og ég er að elda einhvern rosalegan arfarétt. Ég skal gefa ykkur uppskriftina, en ekki reyna þetta heima hjá ykkur, það gæti endað með ósköpum: Hvítkál, kartölflur, gulrætur, svona grænar renglur með baunum innaní, einhver svartur ávöxtur sem er eins og risavaxin í pera í laginu, blómkál, súputeningur, sojasósa, hvítlaukur og mikið af honum og svo hálfur pakki af kjúklingasúpu frá Knorr. Látið gufusjóða með mjög litlu vatni í góðum potti með góðu loki. Búinn að sjóða hrísgrjón og mun snöggsteikja sveppi, svona eins og Flúðasveppirnir, um leið og hitt er tilbúið. Nammi, ég hlakka til. Svo þegar ég er búinn að því þá ætla ég að prenta út alla dagbókina og senda nokkrum, m.a. öllum systrum mínum, sem ekki eiga tölvu. Gaman hjá okkur. Bless.
Fína heilsan, Skanner og prentari, lestir, Algericas og kominn heim
04-12-03
Ég er búinn að vera inni hjá mér í allan dag og safna kröftum eftir daginn í gær. Ég er smá stirður í skrokknum, en finn ekki til í hnjánum eða fótunum yfirleitt. Ég væri á hækjunni minni eftir allt þetta labb og þreytu ef heilsufarið væri eins á mér núna og á meðan ég var uppi á klakanum. Og þá meina ég Klakanum með stórum staf. Eina skýringin sem ég get gefið á þessu er hlýjan hérna og þó á ég erfitt með að trúa því, vegna þess að veðrið hér hefur bara verið eins og á góðum sumardögum heima. Að vísu koma aldrei 30 góðir sumardagar í röð heima á Fróni, en það getur ekki munað svona mikið um hitann. Líka vegna þess að það er alls ekki hlýtt í herberginu mínu nema yfir hádaginn í sólskini. Það er prýðilegur olíufylltur rafmagnsofn hjá mér og hann gæti haldið 30 stiga hita hjá mér allan sólarhringinn. Ég hef hann undir tölvuborðinu hjá mér, mjög notalegt. En rafmagnið er rosalega dýrt hérna og ég er að spara fyrir hana Lúí. Leigan er jú svívirðilega lág og Lúí þarf að lifa eins og aðrir. Það er ódýrt að lifa hérna, en kaupið er líka í samræmi við það. Lúí er garðyrkjukona og vinnur hálfan daginn hjá föstum kúnnahópi. Ég veit ekki hvað hún hefur í kaup, en þetta er eina innkoman hennar plús það sem íbúðin mín gefur af sér.
Ég slengi bara fleiri fötum á mig ef að mér setur hroll á kvöldin. Á daginn hef ég bara opinn glugga og jafnvel hurð til að fá hitann INN. Já, kannski venst gamli frónverjinn þessu öllu saman og finnst það jafn sjálfsagt og hinum spánverjunum, en ég hef það nú samt á tilfinningunni að það verði bið á því. Það er erfitt að kenna gömlum Fjölvirkja að vera Spanjóli. Ég hef verið að hugsa um það ef spánverji á örorkubótum dveldi nokkra mánuði á Íslandi, eða réttara sagt, ef hann ÆTLAÐI að dvelja hér í nokkra mánuði og lifa af bótunum!! Púff, hann væri dauður eftir fyrstu 2 vikurnar vegna þess að þá hefði hann verið búinn með mánaðarpeningana sína eftir 10 daga og væri dáinn úr hungri eftir hálfan mánuð. Poor Spanjó!
Ekki fór það svo að ég færi tómhentur heim. Keypti bæði prentara og skanner. En því miður er ég óánægður með bæði tækin. Þó aðallega skannerinn þó ekki væri nema fyrir það hvað hann heitir: Hjúlei Pakkard, en það er nú ekki uppáhaldsvörumerkið mitt. Eins og ég hef sagt áður þá fann ég hvergi prentara sem mér líkaði og kostaði undir 250.- €. Hefði ég fengið prentara á bilinu 200-250.- € hefði ég keypt hann og geymt að kaupa skanner. En því miður, ég má til að eiga þessi tvö tæki og til að gera það næstbesta keypti ég þessi tæki á 99.- € hvort. Prentarinn er Epson sem er uppáhaldsmerkið mitt og ég hef átt bæði Epson skannera og prentara áður. Helsti kosturinn við Epson prentarana er að myndirnar úr þeim upplitast ekki, þeir ábyrgjast það í 10 ár. En það er verra með Hjúlei Pakkard, þar verður tengdammamma orðin fjólublá í framan eftir smá tíma. Ímyndið ykkur þegar hún kemur í heimsókn og sér mynd af sér þar sem andlitið er fjólublátt. Hún tæki dótturina og börnin og bílinn og húsið mér sér heim og skildi aumingja myndasmiðinn, fyrrverandi tengdason sinn, eftir með ekkert nema fjandans Hjúlei Pakkard prentarann sinn.
Skannerinn er vel nothæfur, en ekki eins fullkominn og skannerinn sem stendur ónotaður á skrifborðinu mínu heima í Ullarkofanum, engum til gagns, nema ef Borði minn liggur kannski á honum. Nei annars, hann lagðist bara á hann þegar ég var að nota hann og hann var passlega ylvolgur. Þetta er Prúdencio búinn að uppgötva, ég var að skanna heilmikið í gærkvöldi og það endaði með því að ég varð að ýta honum ofan af skannanaum þegar ég skipti um mynd.
Ég hef alltaf verið veikur fyrir
Járnbrautarlestum. Veit ekki af hverju, kannski bara af því þetta er eitthvað framandi fyrir íslenskan sveitastrák. Nú er ég búinn að auka ferðafjölda minn með lestum um 3/5! Einu sinni vorum við Svana og Pétur á ferðalagi um Þýskaland og fórum meðal annars um Rínardalinn rétt hjá Lóreley klettinum. Þar gistum við í smá þorpi eina nótt. Um kvöldið fór ég út að labba, meðal annars á lestarstöðina. Þar skoðaði ég allt í krók og kring og fylgdist með þegar lestir komu og fóru. Mikið öfundaði ég fólkið sem var að koma og fara. Það eru lestarspor beggja vegna Rínar þar sem hún rennur um dalinn. Mér fannst eitthvað heillandi að heyra drunurnar í þeim þegar þær brunuðu um dalinn. Þessi lýsing er eins og lýsing fullorðins manns á æskuviðburðum, en það er nú aldeilis ekki í þessu tilfelli, ég var á fimmtugsaldri þegar þetta var. Ég fékk tímatöflu á lestarstöðinni og þegar við vorum að borða morgunmatinn daginn eftir sagðist ég vilja fara með lest til Kölnar, en þangað var ferðinni heitið í fyrsta áfanga þann daginn. Og auðvitað létu þau það eftir mér, eins og flest annað. Ég stökk upp í lest og langþráður draumur rættist. Það sem kom mér mest á óvart og er ekki í bíómyndunum, en hvað lestin hristist og skrönglast mikið. En þetta var stórkostleg upplifun og ég sá ekki eftir þeim fáu mörkum sem lestarferðin kostaði. S & P biðu svo eftir mér á lestarstöðinni og allt fór vel.
Næsta lestarferðin mín var svo frá Stokkhólmi til Skövde í Svíþjóð. Það var sannkölluð lúxusferð, lestin mjög þægileg og leið áfram eins og bátur á lygnu vatni. Þetta er tveggja tíma ferð og það var veitingastaður í einum vagninum. Þegar ég fór frá Stokkhólmi tók ég HægaLest, það er að segja sem stoppaði víða og fór ekki mjög hratt yfir. En til baka fór ég með Express lest sem stoppaði bara þrisvar á leiðinni og geystist á miklum hraða, en þurfti samt ótrúlega oft að hægja á sér til að víkja fyrir annarri lestaumferð, til dæmis stoppaði hún alveg úti í skógi þar sem ég sá ekkert sem benti til mannabyggðar, en þegar ég spurði lestarvörðinn hvort eitthvað væri bilað þá bara hló hann að mér og sagði að verið væri að víkja fyrir annarra lesta umfer. Já, þegar ég minnist á skóg, það þótti mér verst við Svíþjóarferðalagið var að það var ekkert útsýni, bara skógur og skógur og skógur. Ekkert nema skógarbotn til að skoða. Einstöku sinnum glitti í hús á milli trjánna og stundum fórum við í gegnum falleg þorp, en meira segja þorpin voru orðin svo gróið að það var næstum eins og skógurinn í kring. Mikið skil ég vel fólk sem kemur frá þessum skógarlöndum þó það sé hrifið af blessaðri nektinni á Íslandi. Það sem ég hef séð af Spáni er allt fullt af trjám, en enginn skógur. En það er nú bara 40 km lína sem ég hef séð og svo umhverfi Jimena. En aðeins meira um spænsku lestina. Ekki er þægindunum fyrir að fara. Hver eining er með sér mótor, það er að segja það er enginn dráttarvagn með fullt af farþegavögnum dragandi á eftir sér, heldur knýr hver vagn sjálfan sig áfram. Mótorinn er eins í strætó undir miðjum vagninum. En munurinn er sá að olíu og pústfýluna leggur upp í vagnana og lyktin er eins og í 30 tonna fiskibát. Og hávaðinn eftir því. Mikið væri gaman að bjóða lestareigendunum í Srætó á Íslandi og segja þeim að útbúa lestarvagnana eins. Lestarstöðin í Algericas er við endann á teinunum. Teinarnir ná ekki nema að lestarstöðinni og þaðan verða lestirnar svo að bakka áfram til að komast til baka. Nei nei, þetta er ekki prentvilla að bakka áfram, það er nefnilega stýrishús á bæði fremsta og aftasta vagninum. Þannig að lestarstjórinn labbar bara yfir í hinn endann og keyrir af stað afturábak/áfram eftir því hvað þú hlustandi góður vilt kalla það. Lestarstöðin en mjög nýleg og ansi flott, ekki stór, bara fjórir pallar, en allt er snyrtilegt og vel um gengið.
Þetta var lestakaflinn í sögustund GunnaJak.
Þegar ég kom til
Algeciras um hálftólf byrjaði ég á því að leita að götukorti og tölvutímariti. Það ætti nú ekki að sýnast mikið mál, en ég gekk í 2 klukkutíma þvers og kruss um miðbæinn og sá mörg hundruð búðir af öllum stærðum og gerðum sem seldu flest milli himins og jarðar, nema götukort, tölvutímarit og tölvuvörur. Að lokum fór ég á leigubílastaur og byrjaði á því að spyrja hvern á fætur öðrum hvort þeir skildu ensku, en enginn gerði það. Svo ég bara svifti mér upp í einn og setti upp smá leikbragðsleikrit þar sem ég hélt ég hefði látið bílstjórann skilja að ég vildi kaupa tölvu. Hann lék að ég þyrfti ekki leigubíl til þess, ég ætti bara að fara bak við næsta horn. Ég út og fann þetta fína NetKaffi! En náungarnir þar gátu bent mér á tölvubút tiltölulega stutt frá. Ég þangað, en þegar ég sé búðina tilsýndar var verið að skella henni aftur, hvernig átti ég að muna eftir fjandans Síestunni!! Klukkan 2 og ekki opnað aftur fyrr en 5. Þá fór ég að svipast um eftir gistingu og fann lítið gistiheimili í einhverju Alsírbúa hverfi. Herbergið kostaði 15 evrur nóttin og fannst mér það sanngjarnt, meira segja á Spánska vísu. Ég lagði mig svo til 5 og fór þá aftur að finna búðina (Klukkutíma gangur). Ég ætla ekki að rekja neitt frekar mín tölvuhlutaviðskipti, nema að ég rápaði milli búða í hálfan annan dag. Ég var að labba eftir hafnargötunni þegar ég sá þennan ótrúlega flotta
Fólksvagen blæjubíl sem búið var að gera svona rosalega fínan. Mig langaði að taka af honum myndir og spurði eigandann sem stóð þar hjá hvort ég mætti það. Jú sjálfsagt svaraði hann á ensku. Eftir að hafa tekið myndir spurði ég hann um tölvubúðir í Algericas og benti hann mér á risavaxið Moll eða verslunarmiðstöð, en það væru 2 km þangað. Eins og fram hefur komið á ég mjög góða skó og lagði götu undir þá og labbaði alla leið. Þetta er risavaxin verslunarmiðstöð á 6 hæðum og þar fæst flest milli himins og jarðar. Tölvudeildin er sú lang stærsta sem ég fann og þar endaði ég á að kaupa prentarann og skannann. Að vísu eftir að hafa komið þar 3svar sinnum. Sinnum 2 km. Ég hélt ég gæti ekki lokið öllu sem ég ætlaði að gera þennan dag og var búinn að biðja um herbergið aðra nótt, en hætti við það þar sem ég hafði að klára allt. Tók leigubíl frá verslunarmiðstöðinni á gistiheimilið, pakkaði niður og fór með honum á Brautarstöðina. 5 evrur, ég held að enginn geti orðið ríkur á að keyra leigubíl á Spáni!! Þegar lestin var nýfarin á stað kom til mín maður og spurði mig hvort ég talaði ensku, "gerðu það, talaðu ensku" sagðann með grátstafinn í kverkunum. Ég lét vel af því (brattur) og sagðist hann þá hafa verið að koma frá Ronda og ætlað til "Jimonacritas la la jombreta or something" en hann hefði ekki getað opnað hurðina þegar lestin stoppaði og hefði þess vegna orðið að fara alla leið til Algericas og nú biði félagi hans sem ætlaði að sækja hann á brautarstöðina í Jimena og vissi ekkert hvað hann ætti að halda. Hann spurði mig hvort ég ætti farsíma og ég lánaði honum minn. Hann náði sambandi og var lengi að útskýra hvað hafði skeð. Ég held að hann hafi bara sofið eða ekki fattað hvar hann var þegar lestin kom til Jimena, maður opnar nefnilega hurðirnar sjálfu og ég trúi ekki að það hafi ekki tekist hjá honum, hafi hann reynt. Nú, hann þakkaði mér fyrir og fór. Ég hefði boðið borgun í hans sporum, hann vissi að hann var að hringja í gegnum Ísland. Svo þegar við komum á stöðina náði ég mér niður á honum á kostnað félaga hans og lét þá keyra mig heim að dyrum, með allt dótið mitt. Mikið var ég feginn að koma heim, Algericas er ekki aðlaðandi borg og ef/þegar ég fer þangað næst ætla ég að fara með morgunlestinni og fyrstu lest sem ég næ til baka. Þess má geta að það eru fjórar ferðir á dag til Algericas. Sú lest fer alla leið til Granada, en næsti stóri bær á leiðinni þangað frá Jimena er Ronda. Ég á eftir að fara þetta allt saman einhverntíman, þó ekki væri nema að gamni mínu.
Algericas, kem eda ekki kem, prentari eda ekki prentari
Enn er ég ekki búinn ad kaupa prentara. Nú er ég búinn ad maela goturnar hérna í tvo daga og búinn ad labba 11001 km og reyndar er ég búinn ad finna, med gódra manna hjalp, 6-7 búdir sem selja tolvubúnad, en hvergi fae ég Epson prentara sem mér líkar og raed vid ad kaupa. Allar thessar búdir samanlagdar eru svona eins og BT í Kringlunni, baedi hvad vardar staerd og gaedi. þad virdist vera regla á Spáni ad allir verda ad gera nákvaemlega eins og allir adrir. Allar thessar búdir eru med svo til nákvaemlega sama voruvalid, ekkert betra, ekkert verra. Í einni búdinni var madur sem taladi ensku, svoa álíka og ég, og hann útskýrdi thetta fyrir mér, ef einhvern vantadi dýrari og vandadri hluti myndu their panta thá med tveggja, thirggja daga fyrirvara. Enn einu sinni var stungid upp í mig. Ég er núna á netkaffi thar sem ekkert kaffi faest frekar en á flestum odrum netkaffihúsum. Ótrúlega ódýrt, ein júgra hálftíminn! Nenni ekki ad reikna út klukkutímann. Vìd Kolli vinur minn aetludum einu sinni ad setja upp netkaffi, aetli vid hefdum getad rekid thad fyrir 180.- klukkutímann? Varla. Í gaerkvoldi var ég ad svara Saeunni meili og thar var medal annars thetta:
Hñ gamla!
Nñ (ñ lesist sem ae)
Sit núna med fullan maga af Kínamat og 2/3 vino blanco á Inernetkaffi í Alcgerica rétt á móti Gíbraltar.
Já, ég var svo ljónheppinn ad rekast á kínverskan matstad og fékk mér heldur betur ad éta. Nammi namm, ég hlýt ad hafa verid med skásett augu í fyrra lífi. En mér gekk ekki vel ad sofa í nótt. Rúmfotin voru ansi framandi. Fyrst er sett lak á rúmìd. Svo er sett lak á rúmid. Svo er sett teppi á rúmid. Svo er sett teppi á rúmid. Svo kemur GunniJak og reynir ad troda sér á milli lakanna en undir teppin. Svo fer GunniJak ad sofa. Svo tharf hann ad snúa sér og thad oft. Í hvert skipti rìdlast upprodunin á rúmfotunum og ef hann reynir ad toga í eina drusluna dregs onnur í burti. Og til ad vanda sig verdur GunniJak ad vakna alminlega, en gengur svo ekkert ad sofna aftur, aliminlega. Aumingja GunniJak. Nú aetla ég ad stokkva í einhverja tolvubúdina og gera urslitatilraun til ad kaupa mér prentara.
Kvedja.
Bíll eða skór, á leið til Algeciras að kaupa prentara og Rás 2 og Gufan
02-12-03
Nú er klukkan 08:30 og ég ætla að dagbóka smávegis áður en ég fer á lestarstöðina í Estasion til að fara til Algercias, en það er borg rétt við Gíbraltar. Erindið þangað, best að byrja á byrjuninni: Þegar ég fór að skoða bankayfirlitið mitt á netinu í gær, 1. des, sá ég að ég hafði fengið smá desemberuppbót, ekki mikið, en ég hafði gleymt því að bótaþegar fá desemberuppbót. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þessum peningum í fjárhagsáætluninni svo mér datt í hug að kaupa mér bíl! Já, nú verður einhver hissa, en það er bara rosalega erfitt að vera bíllaus hérna. Brattinn og allt það og engar almenningssamgöngur auk þess sem hér eru rosalega fallegar sveitir og borgir allt um kring. Jæja, nema það að GunniJak steðjar á bílasölu og slær um sig eins og hver annar stórgrósser, veifar 300.- € (27.000.- Íkr) og segist vilja fá stóran og fallegan bíl fyrir þetta fé! Ég var búinn að undirbúa ræðu þar sem ég sagði að það væri ljótt að gera grín að öryrkjum og öreigum, ég vildi bara lítinn, ljótann gamlan, sparneytinn og góðan bíl. En málið komst aldrei á það stig, um leið og ég nefndi upphæðina sem ég átti útskýrði sölumaðurinn (Hann talaði ensku, einn af þremur sem ég hef hitt og talar ensku) að skilagjaldið fyrir gamla bíla væri 450.- € (40.500.- Íkr)! Þetta stakk vitanlega alveg upp í aumingja GunnaJak og það síðasta sem sölumaðurinn sagði um leið og ég labbaði út frá honum var að ég væri í rosalega góðum gönguskóm. Hvort hann er hættur að hlægja veit ég ekki, sé það þegar ég hef safnað mér 1.000.- € til að kaup bíl. En þessir aukaaurar lenda ekki í þeirri söfnun vegna þess að erindið til Algeciras (Alhgeþíraþ) er að kaupa prentara og helst skanner við tölvuna mína. Ég er algjörlega handalaus að hafa ekki þessi tæki. Ég sakna þess ekki að hafa sjónvarp, en prentaralaus, nei það gengur ekki. Ég þarf til dæmis að prenta dagbókina handa systrum mínum og kærustum og fleirum sem ekki hafa tölvu en langar kannski að frétta af aldraða manninum á Spáni. Lúí fer að vinna kl. 10:15 svo þetta passar allt saman vegna þess að lestin fer kl. 11:02. Nú er bara að vita hvort allar þessar sögur um seinar lestir eigi við hér á Spáni. Og eitt enn, skyldu lestirnar stoppa á mínútunni 02:00 þegar hefst og ekki fara á stað aftur fyrr en kl. 17:00 þegar síestunni er lokið? Og hvernig ætli þetta sé með flugvélarnar........? ;)
Rosalega er ég heppinn að hafa "lógal" útvarpsstöðina okkar í Jimena. Hún er eins og Rás 2, blönduð músik allan sólarhringinn nema hvað á Útvarp Jimena eru eingir spjallþættir. Verst að það eru stundum ansi þjólegir músikþættir þar sem karlar og konur syngja flammingólög af þvílíkri innlifun að maður er kominn með tár í augun af eintómri vorkunnsemi vegna þess að þetta blessað fólk er allt með grátinn í kverkunum. Óskaplega hlýtur það að vera óhamingjusamt, ég veit ekki um nema einn íslending sem er álíka vælukjói og það er Helgi Björns, hann er sígrátandi, allavega vælandi. Það eru tvö útvörp í íbúðinni. Lítið útvarp á náttborðinu mínu og svo stórt ferðatæki með geislaspilara og öllu. Á það tæki næ ég annarri stöð sem er líkari gömlu gufunni, Rás 1. Undarlegt, en ég næ bara sinni hvorri stöðinni á sitt hvort tækið. Sem betur fer er Rás 2 við kojustokkinn hjá mér, ég sofna stundum út frá henni. Ég er semsagt með bullandi spænsku yfir mér allan sólarhringinn og er að vona að hún síist svona inn í mig og allt í einu einn daginn er ég farinn að tala spænsku, úpps!!!
Kannski skelli ég einni mynd eða tveimur inn á Fotki á eftir, tými því varla samt á dýrari tímanum. Sýstemið er eins hér og heima, ódýrara á kvöldin og um helgar. Annars held ég að ég verði að fá mé ADSL, það er sagt að það borgi sig ef maður er meira en 40 klst. á mánuði á netinu, ég er trúlega kominn yfir 50 klst. á einni viku!!
Prúdi minn gerðist ansi nærgöngull við mig á meðan ég var að Dagbóka áðan, sjáið það
HÉR!
Upphafið að dagbókinni, síðasta færsla undir upphafskaflanum
30-11-03
Nú er komið að stórum áfanga hjá mér og ykkur líka. Alla tíð síðan ég eignaðist fyrst tölvu hefur mig langað til að halda dagbók. Oft reynt, en aldrei orðið úr því, aðallega af því mig hefur vantað gott form til að vinna á. Ég er búinn að gefast upp á heimasíðugerðinni minni í bili, mesta lagi að ég reyni að koma inn á hana link eða lykkju hingað á dagbókina. En þið skuluð spara ykkur glottið, minn tími mun koma eins og gráa glyrnan sagði um árið. Ég skal koma henni upp og gera hana sæmilega. Og þá færi ég þessa dagbók yfir á heimasíðuna. Til að komast í myndaalbúmið sláið þið inn þessari slóð: www.fotki.com/gunnijak Ef þið sjáið orð, orðhluta eða setningar rauðlitaðar þá er ég að vitna í mynd eða myndaalbúm sem á við textann. Ég er aðeins búinn að setja örfáar svona lykkjur ennþá, en ætla að gera meira af því og bæta þeim inn í það sem ég hef verið að skrifa. Þetta er eiginlega það eina sem ég kann ennþá að gera í þessari dagbók. En ég hef séð allskonar dagbækur frá þessu fyrirtæki með allskonar skrauti og útfærslum. Prófa að gera það seinna.
Kosturinn við að hafa dagbók og myndaalbúm á netinu umfram það að geyma þetta heima er fyrst og fremst sá að nú hafa allir möguleika á að fylgjast með dagbókaranum, ef þeir vilja. Hinn aðalkosturinn er nefnilega sá að þú ert ekki neyddur/neydd til að svo mikið sem gjóa öðru auganu í þessa mína netátt. Hvað vitið þið leiðinlegra en að koma í heimsókn til fólks sem er með ljósmyndaæði og skriftaráráttu? Einu sinni heimsótti ég mann sem átti nýlegan bíl. Hann hafði farið í langt ferðalag um Vestfirði og tekið á 10-20 36mynda filmur. Hann var búinn að láta framkalla allar myndirnar og bauð mér að skoða. Hann hélt sjálfur á albúminu og fletti hægt: "Hér er bíllinn minn að fara um borð í Baldur", jú, það glytti aðeins í bakborðssíðuna innan verða, en bíllinn fyllti upp í 95% myndarinnar. Næsta mynd: "Hér er bíllinn minn um borð í Baldri" Og ekkert sást nema rétt glitta í annað eyrað á 1. vélstjóra um borð, hitt var bíllinn. Og til að gera langa sögu stutta voru 3 albúm sneysafull af myndum af bílnum hans og engu öðru! Hefði nú ekki verið munur ef hann hefði skellt myndunum inn á netið, sent vinum og vandamönnum linkinn og þeir ráðið sjálfir hvort/hvenær/hvernig þeir hefðu skoðað þessar myndir. Ég hefði alla vega verið jafn margar mínútur á því á netinu og klukkutíma hjá honum, enda fletti hann hægt.
Eins er með textann, þú þarft til dæmis ekki að lesa eitt orð af því sem ég er að skrifa núna, hættu bara og fáðu þér kaffi, vertu í fýlu og eigðu þinn tjakk sjálf/ur! (Þetta með tjakkinn er dæmisaga um ýmindunarveiki fólks og læt ég hana flakka hér á síðunum við tækifæri). Eða lestu í þig allan þennan sanna fróðleik sé hér er á síðunum og vertu með ferköntuð augun í viku á eftir. Eða, og ég mæli eindregið með því, hafðu þetta bara alveg eins og þú vilt :-)
Og hefst þá dagbókin:
Passa Prúdencio og of mikið í tölvunni, nýtur og ónýtur
30-11-03
Ég var latur í morgun, var að passa Prúdencio í gærkvöldi og nótt, hann neitaði að fara heim (upp) til sín og lúllaði hjá mér í nótt. Það er allt í lagi með hann greyið nema að hann er farinn að slefa ef hann malar. Þetta kemur fyrir gömlu kallana og kellingarnar stundum, neðri vörin slappast aðeins og munnvatnið lekur fram úr. Annars er hann rosalega hress af ca. 13 ára ketti að vera. (80 mannára cirka) Ég sat við tölvuna í allan dag og fram á nótt og hafði að lokum að senda seinasta fjölmeilið, að vísu í pörtum, ég veit ekki af hverju ekki var hægt að senda öllum í einu. Það breytir engu, allir fengu sitt.
Fyrsta skipti sem ég finn til í hnjánum eftir að ég kom hingað er í dag. Ekkert labbað að ráði í 3 daga en setið 35 klukkutíma við tölvuna á sama tíma. Semsagt, tölvan og latur = ónýtur, labba og hress = nýtur.