GunniJak í Danmörku
23.1.04
  Engan flugvöll í Jimena. Mikil vinna við bækling. Ópel Korsa, blikkdós eða bíll í dulargerfi? .
Ég fór strax í það að fixa myndirnar sem ég tók í gær, en það var meðal annars af Jimena úr fjarlægð til að fella inn í aðra mynd sem ég er að búa til. Þetta er mynd sem á að vera þvert yfir forsíðuna á bæklingnum sem fólkið á móti flugvellinum er að láta mig útbúa. Í fyrra skiptið sem ég fór til Castellar tók ég 20 mynda panórama mynd af sjóndeildarhringnum þar sem flugvöllurinn á að vera og þar sjást líka öll þorpin í nágrenninu nema San Pedro. Það er oní dæld og sést hvergi langt að. Ég þurfti að breyta ótrúlega miklu á myndinni, til dæmis að fjarlægja hús, rafmagnslíkur, staura og alls kyns drasl og gróðursetja í staðinn tré, runna og gras. Svo sótti ég mynd af flugvelli á netið, skrumskældi hann og skekkti og breytti lit og upplausn, þannig að hann er skelfilegur á að líta. Næst náði ég í flugvél á netið, gerði hana svarta og ógnarlega og klippti svo allt saman. Eins og ég hef áður sagt var svo mikil mengun þegar ég tók myndirnar að fjarlæg fjöll voru bara ljósbláar þústir sem ekki var hægt að sjá hvað var. Ég mátti gjöra svo vel og taka hvern blett af myndinni og skýra hann upp og skerpa þannig að hægt væri að sjá hann og þekkja og teikna svo þorpin inn á kortið upp á nýtt. Með eðlilegum og óeðlilegum hléum tók þetta mig allan daginn og alveg til klukkan 07:00 í morgun, að ég var búinn og orðinn ánægður. Þegar ég var orðinn svakalega þreyttur í augunum skrapp ég niðreftir til Malcolms, en ég hafði frétt að það stæði bíll í hlaðinu hjá honum og hefði gert lengi. Jú, mikið rétt, Ópel Korsa einhverra ára eða áratuga gamall, en mjög heillegur. Ég spurði Malcolm um hann, en hann var í miðri jógaæfingu og hálf rak mig burtu, kallaði þó á eftir mér að ég mætti eiga bílinn! Okkur samdist um að ég komi á sunnudaginn seinnipartinn og þá athugum við þetta betur. Rafgeymirinn var tómus svo ég gat ekkert prufað. Það þarf ekki nema klukkuna til að tæma svona geymi á löngum tíma. Ekki ætla ég nú að þyggja bílinn, en kannski koma honum á götuna og nota hann þessa 2 mánuði og að þeim tíma liðnum getur svo Malcolm kannski gert sér eitthvað úr honum. Sjálfur á hann nýlegan óggaponsu sendibíl. Renó eða eitthvað soleiðis. Að öðru leiti svaf ég og dundaði mér í myndinni allan þennan tíma og kíkti á netið og böggaði Prúdensíó og eldaði og át og sk... og svo framvegis.
 
22.1.04
  Blek. Pólitík, hundtík. Castellar. Rod í torfærum á LandRóver. .
Nú er GunniJak kominn inn í miðja hápólitíska deilu hérna! Við Rod fórum í annan myndaleiðangur til Castellar í dag. Vorum að vona að það væri aðeins minni meingun en um daginn, en því miður var það ekki. En okkur vantaði betra útsýni yfir væntanlegt flugvallarstæði. Það er verið að gera upp kastalann í Castellar og þar á að koma hótel og byggðasafn. Græningjar eru á móti því að troða hóteli inn í 5-7 hundruð ára kastala, en peningarnir vinna hér eins og allsstaðar annarsstaðar. Efstu hæðirnar eru lokaðar fyrir almenningi vegna þess að það er flokkur manna að vinna þar. Við spurðum þá samt hvort við mættum ekki skreppa upp á þak í þessum sérstöku erindagjörðum, en það var ekki við það komandi. Þetta voru auðsjáanlega ekki græningjar. Þá hringdi Rod í borgarstjórann í Castellar og bað hann að biðja vinnuflokkinn að hleypa okkur upp, en þá kom í ljós að hann var sko aldeilis hlynntur flugvellinum, okkur grunar að hann eigi einhverra hagsmuna að gæta. Þannig að við fórum bara sneyptir burtu. Við fundum gamlan veg frá kastalanum sem Rod hafði aldrei farið, en reyndist svo hið mesta torleiði. Mér leið konunglega og hjarta Íslendingsins sló af stolti og heimþrá þegar hann loksins komst á eðlilegan sveitaveg. En Rod var ekki eins hrifinn, en ég sagði honum að þetta væri ágæt æfing fyrir hann áður en hann heimsækir mig til Íslands. Það vildi til að við vorum á löngum LandRóver! Við skruppum inn á næsta bar og fengum okkur ómelettu, bara úr eggjum en eingu öðru og helling af brauði og sméri með, svo og 2 fl. af vatni. Þetta kostaði allt rúmar 4 evrur eða um 400 kall! Á heimleiðinni fórum við svo í svona ritfangaverslun eins og, æ ég man ekki hvað hún heitir stóra tölvuogritfangabúðin í Skeifunni, jú, Griffill, nema þessi búð var ennþá hrárri. Þar keypti ég eitt svart blekhylki í nýja prentarann minn. Og getið hvað það kostaði? 28€, já það kostaði ca. 2.600 kall ÍKR! Segi ég einu sinni enn, það er ekki allt ódýrt á Spáni! Nú er á leiðinni til mín frá USA 6 blekhylki, þrjú svört og svo 3, sitt með hverjum lit. Þessi 6 hylki kosta 43€! Ef ég hefði keypt þau í Spænska Griffli hefðu þau kostað 80€ meira, þannig að ég er búinn að græða aftur 80€ sem ég tapaði á bílaviðskiptunum á eBay :-)
Ég lagði mig þegar ég kom heim um 17:30 leitið og svaf í 2 tíma. Erfitt að ferðast og þreytandi. Þessi ferð varð algjör fýluferð sem ljósmyndaferð, en hin besta skemmtun fyrir okkur báða.

 
21.1.04
  Jólapakki. Leila Salahova. Spil. Reikningar. .
Pakkinn frá henni frænku minni á Lágafelli kom í dag, húrra! Að vísu vantaði í hann omformerinn, en það er græja sem maður stingur í sígarettukveikjaragatið og út úr tækinu koma 220 volt. Að vísu voðalega lítil volt, bara eiginlega beibívolt, en nóg fyrir hleðslutæki, sjónvarpi og svo framvegis. Ég hef gloprað fjandans straubreytinum einhversstaðar og falið hann bæði fyrir sjálfum mér og öðrum. Alla vega fann Sæunn hann ekki þrátt fyrir vísbendingar á staðinn sem ég hélt að hann væri á.
Ég fékk bréf frá Rússlandi, frá henni Leilu minni Salahovu, en hún er SOS barn sem ég borga smáupphæð með í hverjum mánuði. En það er þar eins og hér, peningarnir vaxa, dafna og fitna við að fara yfir hagstæð landamæri. Ég fékk mynd af henni, hún er orðin stór stelpa, mig minnir að hún sé ca. 9 ára núna. Svo fékk ég heldur betur afmælisgjöf frá HHÍ, en þar á ég miða með númeri sem ég hef átt, með smá hléum, í ca. 35 ár. Semsagt helminginn af æfi HHÍ, en happdrættið var að gefa mér afmælisgjöf í tilefni af eigin afmæli en ekki mínu. Það voru tvenn spil með mismunandi myndum á hverju spili, málverk af æfagömlum árabátum og sjósókn. Svo fékk ég bréf frá Sveitinni minni þar sem mér er tjáð að ég verði að endurnýja umsóknina um húsaleigubætur fyrir 20. þ.m., ég sendi umsóknina á meili um hæl og það slapp til, ég held bótinni. Ég skrapp í bankann í dag að sækja mér peninga, lítið orðið eftir af matarpeningunum þennan mánuðinn, enda er ég alltaf að eyða í eitthvað annað þarfara en spikefni. Til dæmis keypti ég mér svakalega flottar terelínbuxur á útsölunni á torginu þar sem ég keypti Jimena bolinn um daginn. Heimsótti Rod í stúdíóið hans, ótrúlega flott, í æfagömlu húsi við aðalgötuna okkar. Hann er búinn að vera að basla við að taka myndir af listaverkum með filmumyndavél, en það gengur mjög illa. Myndirnar eru skjannahvítar með hvítu 3D mynstri og það kemur alltaf vitlaus birta hjá honum. Ég gerði nokkrar tilraunir í dag og þær lofa góðu. Ætla að vinna aðeins með þær í fótósjopp og fara svo í Prófessional leiðangur til að taka alvöru myndir af listaverkunum. Ég var heppinn, var með tvo fulla poka þegar ég kom út úr Hagkaup í dag og átti eftir að labba upp allar þessar brekkur svona klifjaður. En þá hitti ég einn nágranna minn og sníkti far með honum. Mikið feginn!
 
20.1.04
  Fellir, móðuharðindi. Enn og aftur í SvefnHerberginu, aftur og nýbúinn. Prúdencio í mat eða í matinn. .
Í dag og í gær hefur verið harðindatíð, í gærkvöldi, eða nótt, fór hitinn niður í 6 celsíusa og hvorugan daginn yfir 16 yfir daginn. Enda held ég að fólkið hérna í kringum mig sé bókstaflega að hrinja niður úr kulda, þetta nálgast fellir eins og sagt var í gamla daga. Vel á minnst, hvaða ár voru Skaftáreldar? Ég þarf að vita það af sérstöku tilefni og ef einhver vill upplýsa mig um það skal ég gefa ykkur skýringu, í smá sögustund. Email til GunnaJak

Ég átti eftir frágangsvinnu í títtnefndu svefnherbergi fröken Lúíar Kastel og ég notaði tækifærið og kláraði það mikið til á meðan hún var í vinnunni. Gott að vera búinn, en það er samt heilmikið sem okkur langar að ég geri hérna útivið. Hlaða smá kant, helluleggja að þvottahússdyrunum og fleira. En það kemur dagur eftir þessa viku svo ég er nú ekki að stressa mig á því og hún er ekki byrjuð á því heldur, en svo vel þekki ég nú orðið frauku þessa að þess verður ekki langt að bíða. Ætlaði svo niðrí bæ að ná mér í peninga úr hraðbankanum, en bara nennti því alls ekki, enda var ég að basla við tölvuna í mest allan dag. Ég held að Prúdencio hafi þessi rosalega róandi áhrif á mig, hann er nú einn sá allra latasti sem ég hef kynnst, bæði af ferfættum og tvífættum letingjum. Það sem kvikindið getur sofið maður, og þess á milli gerir hann í því að stríða mér og ætlast svo til að fá endalaust klapp og klór fyrir. Ótrúlegur!! Hann laumast alltaf til að leggjast ofan á tölvuna mína og ég bara bíð eftir að hann ýti á takkann sem á stendur: "Eyða öllu af harða diskinum og þeim lina líka", ég get lofa ykkur því að ef hann gerir það þá skal verða kattarsteik í matinn og þá ætla ég að bjóða öllum hundunum í hverfinu, sem hann hefur líka verið að stíða í gegnum árin, í mat með mér. En ekki Lúí. Ekkað nebbnaða.

 
19.1.04
  Mengun eftir Frankó sáluga .
Alveg ótrúlega latur í dag, enda fyrsti dagurinn í hálfan annan mánuð sem ég tek mér frí, með góðri samvisku. Var annars allan daginn, með hléum til átu og svefns, að garfa í myndunum sem ég tók í fyrra dag í Castellar. Ég verð líklega að fara aftur og endur-taka myndirnar, það var svo mikil mengun þennan dag að allt er í móðu. Og nú kemur smá sögukorn úr sögu Spánar: Þegar bretar tóku Gíbraltar urðu nokkur þúsund Spánverjar atvinnulausir vegna þess að bretarnir vildu ekki spánverja í vinnu af einhverjum pólitískum ástæðum. Þá var Frankó einræðisherra á Spáni og til að skapa þessu fólki vinnu var sett upp geysi mikill iðnaður í nágrenninu, milli Ageciras og Gíbraltar. Aðallega stáliðnaður og aðrar loftmeingandi verksmiðjur. Enn í dag er þetta meingaðasta svæði Spánar og ef hér ríktu vestlægar áttir væru sólarstrendurnar hálf eða al ónýtar. Stundum gerir sunnanátt og þá leggst mengunarský yfir vestanverða Andalúsíu og það var það sem skeði í fyrra dag. Og þetta var sögustund GunnaJak.

 
18.1.04
  Keðjusagarmorðinginn frá Jimena/Lágafelli/USA. .
Jane sendi mér meil í gærkvöldi og bað mig að koma og hjálpa sér að saga eldivið með keðjusög sem hún var búin að fá lánaða. Nú, ég geri allt fyrir mat og ég hef varla kynnst öðrum eins kokki og Jane, svo ég fór upp úr hádegi til að sjá hvað væri um að vera. Skógarhögg hlýtur að vera innifalið í Fjölvirkjastarfinu eins og flest annað. Annars vissi ég ekki að Jane hefði skógarítök, en allt getur nú skeð. Jane er búin að fá sér nýja kamínu í salinn niðri. Ég má til að kalla aðalherbergið hjá henni á jarðhæðinni sal þar sem hún er búin að rífa niður alla milliveggi til að mynda góðan hljómburð, en eins og ég hef áður sagt er hún prófessional fiðluleikari og sem slíkur dugar ekkert hálfkák. Jæja, þegar hún var búin að fá kamínuna sína á réttan stað, tengda við stromp uppúr báðum hæðum og búin að láta smíða eldiviðargeymslu undir stiga í salnum, pantaði hún brenni. Hér allt um kring er korktrjáa skógur og það er mikil atvinna í kringum það á þessu svæði. Meira um það seinna, en það fellur mikið til af ónýtum trjám og það er eldiviðurinn sem menn almennt nota hérna í Jimena. Fyrirtækin sem verka korkinn saga og kljúfa eldiviðinn og keyra hann heim til þeirra sem ekki geta sótt hann sjálfir. Þegar Jane svo fer að kynda í fyrsta sinn kom í ljós að hún gat ekki notað nema þriðjunginn af eldiviðnum sínum vegna þess að kamíinan hennar tekur ekki nema 46,8 cm eldivið en tveir þriðju af eldiviðnum var 46,9 og yfir. En hún dó ekki ráðalaus, samdi við nágranna sinn að fá lánaða hjá honum keðjusög til að saga allt frá þessum eina millimetra og uppúr til að koma brenninu í kamínuna. Nú féll mér allur ketill í eld. Sjáið það fyrir ykkur, vera með svona litinn bút í höndunum og ætla að saga af honum enn minni bút. Nei, GunnaJak leist alls ekki á það. Við fórum samt að hitta nágrannann, enda var leigan fyrir sögin sú að Jane ætti að útvega einhvern til að líta á tölvuna hans, sem var í lamasessi. Og eins og allir vita sem vit hafa á er tölvuvinnsla innifalin í Fjölvirkjuninni, en því miður bara Softver hlutinn, það er að segja forritin í sjálfri tölvunni en ekki Hardver hlutinn eins og í þessu tilfelli. Nú vantaði bara Kolla eins og oftar. Þannig að ég gat ekkert gert fyrir mann greyið enda fengum við heldur enga sögina. Guði sé lof. Nú voru góð ráð dýr. Annaðhvort varð að stækka kamínuna eða minnka timbrið. Ég stakk upp á því að skipta við Keðjusagarmanninn á löngum og stuttum eldivið og var því vel tekið. Hann á svo háa kamínu, eins og til dæmis Lúí á, að þau geta brennt heilan símastaur, eða allt að því, en Jane hafði slæmra manna ráð og keypti sér einhvern fjandans kripplíng. Hún á Rússneska ferðatösku (gat verið að Kaninn væri að gera grín að aumingja rússunum, þetta er risastór striga-poki/taska úr svona ofnum striga-plast ræmum, alveg ógurlega sterkt efni en hvorki þjált né fallegt) og við settum löngu bútana í pokann, bárum hann á milli okkar þessar þrjár húsalengdir og skiptum um innihaldið sem við svo báurm aftur til baka. Mikið hefði ég viljað gefa fyrir vídeómynd af þessum flutningum, hún í síðu pilsi og ég á inniskónum, hafði þá með mér til hennar og nennti ekki að skipta. Þetta urðu 5 ferðir i allt og ég er með alla limi óafsagaða og við bæði nokkrum milligrömmum léttari eftir puðið. En það var nú snarlega leiðrétt á eftir þegar við úðuðum í okkur þriggja rétta máltíð de la Spanja/USA.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com