GunniJak í Danmörku
Morgunógleði. Engar ráðstafanir. Endaði með ósköpum. Veðrið gott.
.
Jæja, takið nú eftir. Nú eru að koma í ljós afleiðingar langdvala minna í svefnherbergi Lúí Kastel. MORGUNÓGLEÐI! Ég mátti búast við þessu, og ég eins og krakki að gera engar ráðstafanir. Alls engar. Auli og get kennt sjálfum mér um. Alfarið. Lúí hafði marg aðvarað mig, en ég hlusta víst of sjaldan á blessaðar konurnar. Ekki nema von að enda með slysi.
Þegar ég byrjaði að halda dagbókina ætlaði ég að hafa efst á hverjum degi veðrulýsingu. En eins og þið sjáið og hafið tekið eftir hefur það alveg farist fyrir. Ástæðan er samt hvorki leti né ómennska heldur hefur veðrið bókstaflega ekkert breyst í margar vikur. Sólskyn og oftast alveg heiðskírt, hitinn í kringum 18º á daginn og oft um 20º og allt niður í 5º á nóttunni, þó sjaldan niður fyrir 8-9º Svona er þetta búið að vera dag eftir dag og ég er hættur að nenna að líta á hitamælinn. Þetta er algjör bónus og alls ekki samkvæmt ritúalinu. Nú eiga að vera endalausar rigningar og hráslagi. Ég var alla vega aðvaraður með það. Mestur er bónusinn þó fyrir mig að vera laus við slaginn við vatnið. Þó það sé gaman að búa til ávetur og láta vatn renna þarna en ekki hérna þá hugsa ég að það verði leiðigjarnt til lengar. Einsa og að leika sér í sandkassa. Gaman fyrst en verður leiðigjarnt og þá vill maður fara í rólurnar. Spyrjið bara krakkana.
Já, þetta með morgunógleðina. Þegar ég vaknaði í morgun var mér þetta líka litla flökurt og rétt komst á klósettið. Hefði ekki haft það á Lágafelli, þar þyrfti ég líka að fara meiri háttar göngutúr á svoleiðis munaðar stað. Nema hvað, til að gera langa sögu og ógeðfellda stutta þurfti ég að fara ca. 6 sinnum í svona leiðinda leiðangur. Og með þessu fylgdu þvílíkar kvalir, ég hef ekki fengið svona uppköst í áratugi. Heldur fór að brá af mér undir kvöld og núna er ég að skrifa þetta, með hléum til að leggja mig, um 11 leitið að staðartíma. Og ég held að þetta sé liðið hjá. Ég var að pæla í því í allan dag hversvegna ég fékk þetta. Ekki vottur af hita, engin steinsmuga, ekkert nema æla og magakvalir. Ég vildi ekki trúa því að ég yrði svona veikur af nokkrum aukagrömmum af mat í gærkvöldi og nokkrum auka millilítrum af Vino Tinto, ég væri þá með hausinn ofan í klósettinu allflesta daga!! Lúí kom svo með lausnina, auðvitað blasti hún við, þegar búið er að segja manni hana. Það hlaut að enda með ósköpum allt þetta jötungrips vesen á mér. Ég er búinn að líma úr 6 lítrum til samans!! Og bara í gær, inni í skápum, heilan líter. Enginn gluggi opinn og ekki opið út á svalir nema stundum. Ekki furða að illa færi. Má þakka fyrir ef ég slepp jafngóður. Eða betri, ef það er hægt, sem ég efa. Lúí hjúkraði mér og keypti handa mér ryðuppleysir* og eldaði ofan í mig súpu gaf mér brauð og matarsóda og allt sem ég fór fram á. Munur að vera ekki einn í útlandinu eða heiminum yfirleitt.
Ég hef á tilfinningunni að sumum hafi létt að það var ÉG sem fékk morgunógleðina.
*Kóka Kóla er til tveggja hluta nytsamlegt: Sem Lyf við ógleði og öðrum magakvillum og sem ryðuppleysir. Spyrjið Halldór Bónda á Lágafelli. Við gerðum tilraun og hún heppnaðist fullkomlega. Hálfónýt verkfæri komu, eftir nokkra mánuði liggjandi í Kóki, eins og ný úr kassanum upp úr baðinu. Og þennan djöfuls óþverra drekkur fólk sér til ánægu og yndisauka, bæði ég og aðrir. Oj bara.
Dúfnaskítur. Dúfnagarg. Dúfnamengun. Út að borða með Lúí. Ekkert kransæðakítti.
.
Mættur á mínútunni hjá USA Jane hinni fögru. Best að nota bara nafnið hennar, þó hún sé falleg þá er bara dónaskapur að tala of mikið um það. Það sem var að hjá henni var það að undir þakskegginu hjá henni er risastór kassi með loftkælingu. Hér fer hitinn auðveldleaga í 30-40º á sumrin (verði þeim rétt að góðu!) og fólk úr tempraða beltinu þolir bara ekki við. Þess vegna eru allir útlendingar með loftkælingu. En vandamálið hjá Jane var það að það sátu alltaf dúfur á kassanum og þær eru óþolandi bæði vegna hávaða og óþrifnaðar. Hún var búin að biðja annan vin sinn að setja net fyrir kassann svo dúfurnar komist ekki inn, en það var svo illa gert að þeim bara fjölgaði. Hún hefur ekki fest blund í hálfan mánuð svo málið var orðið mjög aðkallandi. Auðvitað gerði ég við þetta af minni alkunnu snilld og var kominn inn í næsta svefnherbergi um kl. 13:30. Ég hélt að Lúí myndi berja mig fyrir að vera að flækjast í annarra svefnherbergjum áður en ég væri búinn að gera skyldu mína í hennar, en í staðinn bauð hún mér út á hverfispöbbinn í Dinner eða Löns. Man aldrei hvort er hádegismatur. Við fengum okkur djúpsteiktar rækjur með frönskum og brauði. Rækjurnar komu í frussandi feiti á borðið, alveg fljótandi. Kannski 40% af innihaldi skálarinnar. Lúí sagði að við ættum að klára feitina líka. Bruddum brauðið niður í hana og átum þegar bitarnir voru alveg gegndrepa. Það hefð ekki verið eftir arða handa lús á disknum. En, við fengum hvorki kokteilsósu né kartöflukrydd af neinu tagi með frönskunum. Ég reyndi hvað ég gat að fá kryddið og ekki vantaði það að ég hafði túlk sem talar betri spænsku en innfæddir. Nei, ekki til. Og þegar ég reyndi að kenna þeim að búa til kransæðakítti hlógu þau að mér eins og aula, sögðu að vísu að þetta væri kannski góður brandari, en að nokkrum dytti í hug að blanda saman mæjonessi, tómatsósu og sinnepi, nei, svo vitlaus gæti engin manneskja norðan og sunnan miðbaugs verið!!
Ég var í fantastuði þegar við komum til baka og kláraði fjandans skápana. Þá held ég nú að það leiðinlegasta sé búið og ekkert nema gaman eftir. Dundaði mér alveg til 19:00, held að það sé helst til mikið. Var orðinn aumur í hnjánum. Ég bjó mér til dýrindis rétt úr kjúklingaleggjum sem einhver gaf mér. Er búinn að gleyma hver, þvílíkt minnisleysi. Þetta var svona pottréttur með.... Nei nei, ég er ekki að koma með uppskriftina, hvað gengur á, ég skal bara hætta að tala um mat! :-( En ekki vín vegna þess að með þessu fékk ég mér smá rauðan leka, bara pínulítið, minnir mig!! :0)
Appelsínugulur nebbi
.
Ég var í óvenju góðu stuði í svefnherbergi Lúíar í dag. En það dugar bara ekki til, þetta fj..(ásláttarvilla) blessaða herbergi er eins og drekinn í gömlu sögunni, þegar höggvinn var af honum einn limurinn spruttu fram tveir í saðinn. Í dag og sjálfsagt líka á morgun verð ég að líma kork innan í fataskápana hjá Lúí. Ég set mjög fljólega inn myndir af verkinu, það er ekki nokkur leið að láta íslendinga skilja hvílík undra húsgögn eru á Spáni nema á myndum eða koma og sjá. Ég fór í kvöld útí Própertíið og týndi mér fullan höldupoka af appelsínum. Ég ét þvílíkt af þeim að hið hálfa væri nóg. Fá smábörn ekki gulan nebba af of miklu appelsínuáti? Ég veit þau fá það af of miklum gulrótum, en mig minnir að appelsínurnar hafi sömu áhrif. Kannski verður nefið á mér eins og glóðarkerti eftir dvölina. Ef einhver hefur vogað sér að hugsa eða segja að það sé það nú negar þá verð ég bæði sár og reiður. Ekki orð um það. Fallega konan sem ég var að tala um áðan gaf mér í gær appelsínuúrsafasnúara og fullan poka af appelsínum. Þannig að ég ætti að geta búið mér til helling af óransdjús. Ég var búinn að lofa að koma til fallegu konunnar í dag og laga í kringum loftkælinguna, en ég var svo þreyttur að ég gat það ekki. Lofa að koma kl. 10:00 í fyrramálið. Þá verður hún ekki heima, en það er bara betra þegar verið er að vinna fyrir þessar elskur. Ég veit hvort eð er allt miklu betur en þær svo það verða bara sárindi ef þær vilja fá að ráða einhverju. Amen. (Kvenrembur allra tíma sameinist gegn þessari setningu!!!!)
Jane hin fagra. Borvél upp í bor... Bor eða ekki bor. Geri allt fyrir mat enda megrunin ónýt.
.
Það bankaði undur falleg og yndisleg kona á dyrnar hjá Lúí um eittleitið, ég var að vinna við gólfið og stökk til dyra, enda Lúí í sinni vinnu. Þessi fallega kona bauð mér í mat kl. 14:30 og ef Lúí væri komin fyrir þann tíma ætti ég að taka hana með. Það stóð á endum, 14:25 er ég að klára að taka til eftir mig þegar Lúí kemur heim með þeim orðum að hún sé að deyja úr hungri en sé allt of þreytt til að elda. En áður en hún komst svo langt að biðja mig að elda ofanísig (Ekki að ég hafi nokkurntíman gert það) bauð ég henni út að borða. Eða þannig. Við kýldum svo vömbina hjá áðurnefndri konu og Lúí fór aftur að vinna eftir matinn, en fallega konan bauð mér upp í svefnherbergið sitt. Sagðist hafa heyrt um það að ég sé góður í svefnherbergjum. (Casanova!)
En þá kom þruman úr heiðskýru svefnherbergisloftinu: Það þyfti að laga í kringum loftkælinguna hjá sér og svo læki þakið.Veröldin hrundi til grunna, annað svefnherbergis æfintýri, eins og ég hafi ekki nóg með Lúí. En Fjölvirkjar segja aldrei nei og ég fór að vinna við það sem hún bað um. En konukindin átti engin verkfæri og ég sagði henni að hún yrði að fara og kaupa þau. Hún tók vel í það og ég fór með henni. Eins gott, það var valtað yfir hana í Litla býkó í Estonia. Ég reifst og skammaðist í gegnum konuna, en hún kann hrafl í spænsku. Hún keypti borvél, vildi endilega BOSH, það væri svo gott merki. Dýrasta vélin í búðinni. Allar leiðbeingingar utan á pakkanum á spænsku. Mér er sagt að það sé bakk á henni og högg og stiglaus hraði. Ég skoðaði og skoðaði myndina af borvélinni á pakkanum, en gat ekki séð neitt af þessu, mér sýndist hún vera 2ja hraða og búið. Ég ætla að rífa upp pakkann, en afgreiðslustelpan, sem á þessum tíma var orðin eitthvað pirruð út í mig, bannaði mér það, sagði að ef vélinni yrði skilað eða eitthvað kæmi fyrir hana á leiðinni heim væri ekki tekið á móti henni ef búið væri að opna kassann. Þá fauk í Fjölvirkjann og ég reif upp kassann, óþarflega harkalega og rak borvélina upp í trínið stelpuaulanum og bað hana að sýna mér höggið, bakkið og stigleysið. Já já, sagði hún, þetta er allt i þessum takka. Aumingja fallega konan var komin í panik að verða að þýða allt þetta vesen. Ég heimtaði að fá að sjá ódýrustu borvélina sem hafði að vísu ekkert frægt nafn, en ég heimtaði að opnaður yrði kassinn sem sú vél var í. Stelpugreyið í afgreiðslunni rauk til og opnaði hann með góðu, betra en að láta þennan gráskekkjaða villimann rífa hann í tætlur. Þarna var komin fínasta hobbývél með öllum fídusum og þriðjungi ódýrari en Bossinn. Ok. Svo vantaði auðvitað bora í borvélina. Þá fór í verra. Það voru til 4ra bora box, bæði stein og járnborar. Þá missti fallega konan útúr sér að það vantaði líka trébora. Almáttugur. Þá vildi afgreiðslugerpið endilega selja okkur 4 staka bora sem héngu þarna á statífi vegna þess að þetta væru TréBorar!!! Almáttugur aftur. Þarna lenti þeim sumsé saman gerpinu og fegurðinni. Það sem þær rifust, hvað væri stein, járn, plast, tré, ket borar og hvað ekki. Að lokum missti ég þolinmæðina og hellti mér yfir þær á mergjaðri íslensku eins og hún er notuð úti á sjó og í vegavinnu og endaði með því að segja þeim að stein h.... k..... og við keyptum svo bara þessa 2 pakka, enda dugar það prýðilega roskinni einhleypri konu sem ekki veit einu sinni í hvorn endann á að reka borinn. Svo ætla ég að heimsækja hana fljótlega og prófa þetta dýrðarverkfæri. Vonandi dugar það til að gera við loftkælinguna. Er ekki alveg viss um það, hún heitir hvorki BOSH né Wurtz. Held hún heiti Fapsljfiawerhgoaipwerh.
Er ekki dónaskapur að keyra yfir Sítrónur?
.
Það gerðist ekkert markvert í dag. Ég var uppi að dunda á meðan Lúí var í vinnunni. Kláraði að setja korkinn á gólfið, húrra! En það segir ekki nema hálfa söguna. Ég á eftir að setja gólflista, úr sama efni og ég setti á gólfið, á mestalla veggina, setja kanta á rúmið og náttborðið, mála helling og setja loftlista á korkinn. Endalaus verkefni í Svefnherbergi Lúí Kastel. Ég byrjaði á nýju lesefni í kvöld, bókinni "Drive over Lemons" eða Keyrt yfir sítrónur. Hún er um englending sem erfir dálitla fúlgu og hann og konan hans ákveða að kaupa hús í Andalúsíu á Spáni og flytja þangað í hlýjuna. Hann fer svo einn til að kíkja á hús og lendir á fasteignasala, konu, sem er meiri seljari en sannleikari. Nema hvað, hann er allt í einu búinn að kaupa eitthvað í líkingu við Uppsalina hans Gísla heitins ef við reynum að miða við eitthvað íslenskt. Enginn vegur, ekkert vatn, engin hús, enginn sími, ekkert nema dásamlega fallegt land með appelsínu- og sítrónu- lundum og skógur og fallegur dalur og svo framvegis. Ég er kominn þar í sögunni þegar hann hringir heim og segir tíðinin. Hann gleymdi nefnilega einu þegar hann var að kaupa, að hann hafði lofað sinni heittelskuðu að hún myndi búa við sömu þægindi á Spáni og í Bretlandi. Og ofan á allt annað á að stífla í dalsmynninu og setja allan dalinn undir vatn. Aumingja hann, ég vildi ekki vera í hans sporum. En ég er nú bara búinn að lesa 10 síður af 200. Kannski rætist úr fyrir honum.
Húsasmiðjan - BÝKÓ. Ýsa í dulargerfi og lambaket de la langa-langa-langa-langamma.
.
Ég fór enn eina ferðina í Býkó í morgun. (35 km.) Lúí fór í fjallgöngu og þurfti ekki að nota bílinn svo hún sendi mig í Húsasmiðjuna. (Ég má ekki gera upp á milli.) Það vantaði ýmislegt, meiri gólfkork, lista, kant á efstu tröppuna á stiganum og svo framvegis. Svo fór ég í Hagkaup sem er í næsta húsi. Það er sama búin og við Jane fórum í og ég fór í á leiðinni til Malaga. Það er 5. janúar og ég er að verða búinn með matarpeningana þennan mánuðinn svo ég keypti ekkert nema ýsu í soðið. Hún var að vísu soldið skrýtin, vantaði á hana fingrafarið eftir skrattann og það var engin rönd aftur eftir bakinu heldur. Hausinn kom hátt upp fyrir ofan augun og kafturinn var lítill. Svo þótti mér það skrítið að upp úr bakugganum sem náði frá haus að sporði stóðu ógnarstórir gaddar sem voru svo beyttir að þegar ég var búinn að gera að ýsunni (hún var hvorki blóðguð né innanúrtekin, helvítis letihaugar eru þessir spánversku sjómenn, það er lítið verk að vera sjómaður ef ekki þarf að snerta fiskinn úti á sjó!) var ég alblóðugur eins ég hefði verið í sláturhúsi. Lamba-megin. Ég sauð ýsuna og þá kom í ljós að eitthvað hefur komið fyrir fiskinn sjálfan, hann var feitur eins og lúða og rauðleitur eins og Karfi. En smakkaðist eins og steinbíur. Kannski ég hafi ekki lesið rétt á skiltið yfir Ýsunni, þar stóð skýrum stöfum: "Dóndóýsingólandófiskó" sem ég get ekki ýmindað mér að þýði neitt annað en: ÝSA.
Ég fékk mér að borða á sama stað og þegar ég kom þarna síðast, nema að núna fékk ég mér lamb. Þetta var svoka skækill, vel útilátinn en nú er ég búinn að kaupa mér lambakjöt í síðasta skipti á spænsku veitingahúsi. Púntur. Ketið var alveg mauksoðið og orðið þurrt. Sósan hefði sómt sér í hvaða hundadalli sem er og svo var allt grænmetið mettað í olíu. Hvað þeir elska þetta matarolíu hérna er alveg gengdarlaust. Það voru franskar með og ef ég drap fingri á eina lengju rann úr henni olían. Og grænmetið, púff, eins og það hefði strandað í því olíuskip. Ég skammast mín svo fyrir hvað ég borgaði fyrir þetta óæti að ég skal aldrei seigja neimum að þar hafi farið 15 júgrur.
Þegar ég kom heim fór ég beint að vinna við svefnherbergið og var að til 16:00. Lagði mig, vaknaði, lá á netinu einn tvo tíma og fór svo að sofa í alvöru.
Út að borða með Rod riverman. Konsert í Estacion. Lúí söng einsöng.
.
Ég vaknaði "snemma" í morgun, fór í bað og í sparifötin vegna þess að mér var boðið út að borða í hádeginu. Það var Rod við ána sem bauð. Við fórum til San Pabló á mjög flott veitingahús og fengum okkur lamb! Það hefur verið ljóti grislingurinn! Þetta var hálft læri handa hvorum og þar að auki var það matreitt de la mamma. Líklega hefur það verið steikt í skúffu og svo soðið, allavega var það alveg í mauki. En prýðilega kryddað og bragðgott. Með þessu fengum við franskar og blandað grænmeti. Þegar við vorum orðnir mettir impraði Rod á því að ég tæki að mér að búa til bækling fyrir mótmælendur flugvallar í Jimena. Ég tók vel í það og við ætlum að hittast um næstu helgi, en þá ætla ég að vera búinn með VINNUNA í svefnherbergi frk. Lúíar. Þetta er spennandi verkefni þar sem ég þarf að fara til 5 þorpa í nágrenninu og taka fullt af myndum. Svo á ég að búa til syrpu úr öllum þorpunum og koma fyrir í einni mynd. Rod er myndlistarmaður og ég hef ekki unnið fyrir erfiðari og skemmtilegri mann nema ef vera skyldi stórvinur minn Jón Baldur. Hann er rosalega vandlátur kúnni og gaman að vinna fyrir fólk sem ekki er ánægt nema með það besta sem hægt er að gera. Sama á við um Rod. Þegar ég kom heim lagði ég mig fram undir kvöld, en þá fór ég á konsert i Estasion. Kórinn hennar Lúíar og lítil strengjasveit héldu tónleikana. Bæði voru spiluð hljómsveitarverk og kórverk. Þetta eru allra þyngstu tónleikar sem ég hef farið á. Enda gerði ég það bara fyrir Lúí mína. Tónleikarnir byrjuðu kl. 20:00, ég bankaði hjá Lúí kl. 19:15 og bað um far, en hún sagði nei, á þeim forsendum að hún væri svo tens að hún gæti ekki hugsað um neitt nema sönginn og myndi trufla hana! Svo ég bara labbaði, en ég giska á að þetta séu ca. 3.5 km. Ég kom korteri of seint og það sem verra var, það voru öll sæti setin og ég varð að standa, eftir þetta rölt var það ansi erfitt. Svo ég laumaðist út þegar líða tók á tónleikana og ætlaði að fara á kínverska matstaðinn sem ég fór á á afmælinu mínu og labba svo heim, en mæti þá kunningja mínum einum sem sagði mér að kannski myndi Lúí syngja einsöng í næst seinasta laginu. Ég sneri við hið bráðasta og náði að heyra hana syngja einsöng! Þannig var að kórinn söng einskonar forsöng og svo söng Lúí næsta vers, svo kórinn og svo önnur úr kórnum einsöng, þannig var það fjórum sinnum. Ég hefði aldrei fyrirgefið mér ef ég hefði misst af þessu. Hún hefur gullfallega og háa sópran rödd. Vonandi kemst hún ekki í þessar línur með einhverjum sem gæti þýtt þetta fyrir hana á ensku eða spænsku eða frönsku, þá væri ég í ljótum málum. Kunninginn sem ég mætti sór að segja henni ekki að ég hafi verið búinn að laumast út! Ég fékk svo far með Malcolm heim. Skemmtilegur dagur að ekki sé minna sagt. En, ekki rignir enn, ég skal skamma Lúí á morgun fyrir að hafa látið mig steypa til eniskis!!!