GunniJak í Danmörku
27.3.04
  Loka skólanum. Nemandinn kann allt. Sem ég kann. Sem er ekki lítið. Miðað við aldur og fyrri störf. .
Nú er síðasti kennsludagur í skólanum. Rod kom heim til mín um kl. hálfellefu og tók litla prentarann og skannerinn. Hann ætlar að "geyma" þá fyrir mig þar til í haust. Litli prentarinn er bilaður, það kemur ekkert Magneta, en það er einn af litunum í honum. Bara svart, gult og rautt. Hann er ágætur í texta og eitthvað gróft, en ekki til annars. Svo stilltum við öllu upp og tengdum og allt gekk eins og í sögu þar til kom að skannanum, hann vildi ekki þýðast karmellutölvuna. En hvað ég skilann!! Það kemur ekki að sök í bili, en ég kann ekkert á Makkinntoss svo ég gat ekki gert neitt. Síðan var einn tími í prentun og annar á Fótósjopp og svo fórum við heim. Ég var að fixa myndirnar á diskinn þar til ég var farinn að dotta fram á lyklaborðið um 12 leitið.
 
26.3.04
  Við Rod skruppum í bæinn að kíkja á kellingar. En sáum bara prentara. Lögga með byssu og Rod með nýjan prentara. .
Labbaði að krossinum klukkan tíu eins og oftar þegar við Rod ætlum í leiðangur. Byrjuðum á að fara í Nýja Castellar en þar þurfti Rod að hitta borgarstjórann út af einhverjum húsamálum. Fulltrúinn sem Rod ætlaði að hitta var að leggja á stað í morgunkaffi og sagðist koma eftir hálftíma, Rod gæti beðið á meðan. Þetta hefði ekki verið gert á Íslandi. Þetta kostaði það að við fórum inn á næsta bar og dældum í okkur nammi, bara þetta venjulega. Eftir hálftíma fórum við svo aftur á skrifstofuna og þurftum að bíða hátt í annan hálftíma. Erindið tók Rod 6 mínútur. Á meðan við sátum þarna var ég að fylgjast með löggunni að gamni mínu. Löggustöðin er í sama húsi og sama inngangi og borgarstjórinn. Mikið er það sorglegt að sjá lögguna með alvæpni í svona litlum og friðsömum bæ eins og Nýja Castellar er. Skammbyssa, kylfa, handjárn, allt dinglaði þetta utan á aumingja jólasveininum og hann var eins og illa skreytt jólatré. Jæja, næst fórum við í búðina þar sem ég keypti blekið dýra á sínum tíma, svarta blekið í litla prentarann á 28 evrur eða 2.7000.- Íkr. Þar kom í ljós að þeir seldu bara Canon dót sem við litum ekki við. Svo fórum við í Hagkaup (Carrefor) og þar var úrvalið í lágmarki, en ég keypti mér pappír, ódýran og diskamerkingapappír. Að lokum, eftir viðkomu á Volvóverkstæðinu fórum við í stóra Mollið í Algeciras þar sem ég keypti skannerinn og prentarann minn. Þar valdi Rod sér Epson R200 prentara en þeir eru nýkomnir á markaðinn. Kostaði 150 evrur eða ca. 14 þúsund kall Íkr. Hann er 6 lita með sjálfstæðum blekhylkjum fyrir alla liti og græju til að prenta beint á geisladiska. En því miður er hann A4 en ekki A3, hann hefði þurft að þrefalda verðið til að fara upp í A3 eins og stóra prentarann minn. Við skelltum okkur á pöbb og fengum okkur í svanginn. Þar gerði Rod skemmtileg mistök, það er að segja skemmtileg fyrir mig. Það er hægt að fá fullan stóran disk af Tapas, en það er frekar dýrt. Við spurðum vertinn hvað stór diskur af sardínum myndi kosta og hann sagði 8 evrur. Það þótti okkur of dýrt svo við ákváðum að fá okkur frekar 2 tapas á tvær. Svo við pöntuðum sallad tapas og sardínutapas. Salladið og bjórinn fengum við strax og átum á meðan þeir mixuðu sarsínurnar. En, eitthvað hafði vertinn misskilið okkur því hann kom með hrokafulla fullvaxna diska af djúpsteiknum sardínum og frönskum! Vitanlega fórum við létt með að éta þetta og tvo bjóra hvor (tek það fram að hans voru 0% alkohol). En aumingja Rod mátti punga út með 20 evrur að lokum. En rosalega voru sardínurnar góðar. En aðeins og stórar, ca 15 cm, þannig að við urðum að taka innan úr þeim hrigginn og af þeim hausinn. Hefðu þær verið minni hefðum við getað étið þær með haus og hala. Komum heim um 5 leitið og eftir smá napp fór ég að finna til efni á disk sem ég ætla að gefa vinum mínum hérna í Jimena áður en ég fer. Það er nefnilega búið að skipuleggja bless-partí fyrir mig af vinum mínum. Það er á þriðjudagskvöld klukkan 7 og verður haldið heima hjá uppáhaldskokknum mínum, henni Jane.

Við erum búin að ákveða gestalistann, það verða um 10 manns í mat. Vantar 2, Michael sellóleikara sem ætlaði að leigja mér húsið sitt í haust og svo Elsku Rut mína frá Noregi. Þau verða fjarri góðu gamni, enda í útlöndum. Þeim er nær. Ég er ákaflega glaður og stoltur yfir þessu partíi, þau hefðu alveg getað sleppt þessu, en ég er nú ekki verr liðinn hérna en þetta. Ekkert blesspartý var haldið mér til heiðurs þegar ég fór frá Íslandi :-( Kannski í haust, hver veit! Ég er með gommu af myndum frá Íslandi á cirka 100 diskum, en þar er allt efni í risastóru formati (Fótósjopp) og ég verð að byrja á að flytja það yfir í tölvuna og það tekur óra tíma, tölvan lítil en skrárnar stórar. Svo þarf ég að minnka myndirnar með þar til gerðum tólum og svo að raða þeim upp í sérstaka skrá með enskum nöfnum. Þetta mun taka marga daga hjá mér, en ég ætla með lest til Granada daginn eftir partíið á miðvikudeginum. Nú vantar mig sárlega fleiri klukkutíma í sólarhringinn.
 
25.3.04
  Hvað ætlist þið eiginlega til að ég skrifi hér fyrst alls ekkert gerðist allan daginn, eruði eitthvað verri, ég bara spur??? .
Það gerðist nákvæmlega ekkert frásagnarvert í dag. Ég er núna að flokka og merkja diskana sem ég hef skrifað hér í Jimena, það er drjúgt verk og leiðinlegt, en nauðsynlegt ef maður ætlar að finna eitthvað. Ég keypti í gær 72ja diska tösku og það eru ca. 10 laus pláss eftir í henni eftir daginn.
 
24.3.04
  Skóli. Myndir af Rótum Andalúsíu. Labba alla leið heim til Rods. Eldaði og át þurran silung. .
Mætti í skólann á réttum tíma, klukkan tíu. Kennt af ákafa til klukkan eitt, en þá keyrði Rod mig niður að ánni þar sem ég fann skúlptúrana fyrr í vetur. Skildi tölvuna eftir í bílnum hjá Rod, en var með þrífótinn með mér og að sjálfsögðu myndavélina. Tók 76 myndir í fullri upplausn, en þá var kortið fullt, 128 megabæt. Labbaði síðan alla leiðina heim til Rods, það er að segja meðfram endilangri ánni þar sem hún rennur bakvið Jimena de la Frontera. Álíka of frá Lágafelli í Gunnarshólma eða frá Lækjartorgi og inn að Grensásvegi. Var enda alveg örmagna. Við Rod fórum inn á netið og fundum heilmikið um Epson vin minn. Aðallega prentara. Við ætlum svo til Algeciras á föstudaginn og þá ætlar Rod að kaupa sér prentara. Flott hjá okkur að vera búinir að mynda okkur skoðun á sem flestum prenturum áður en við förum í búðir. Um fimm leitið keyrði Rod mig heim og mikil lifandis skelfing hefði ég þegið að henda mér flötum upp í rúm þar sem letihaugurinn Prúdencio lá. En ég skuldaði Jane pening síðan í gær að hún hjálpaði mér að borga símareikninginn svo ég arkaði niðrí bankann minn og bjó til evrur handa Jane. Kom við á Bankahornsbarnum og fékk mér einn tapas og jafn marga bjóra. Kom við hjá Jane og borgaði henni og fór svo í búðina að kaupa mér smér til að hafa með silungnum sem ég keypti í Carrefor (Hagkaup) í gær. Get ekki verið þekktur fyrir að tíma ekki að borða smér með silungi eftir það sem á undan er gengið í mínu lífi og starfi. Þriðja smérdollan í 5 mánuði og aldrei keypt magarín af neinu tagi. En ég verð að viðurkenna að ég hef notað 4 lítra af Olífuolíu. 99% feiti=99% spik.

Sauð silunginn þegar ég kom heim. Vona að Erlingur bóndi á Brún í Reykjadal kaupi sér ekki silung ef hann fer í leiðangur til Spánar. Þessi silungur var eins og reiðingur (torf sem var notað undir klakka á hestum í gamla daga) miðað við bleikjuna hjá frú Elínu heitinni á Brún. Enda hef ég aldrei fengið betri silung annarsstaðar, hvorki fyrr né síðar. En hefði ég verið að borða silung í fyrsta skipti eða haldið að silungur ætti að vera svona og ég þekkti ekki annað þá var þetta ágætis matur. Ágætlega bragðgóður en rosalega þurr. Núna er klukkan hálf níu og ég heyrði í fröken Lúí loka dyrunum heima hjá sér sem þýðir það að hún er farin á sína vikulegu söngæfingu með kórnum sínum. Að æfa Requim. Ég hef sagt það áður, vildi ég gæti verið á konsertinum þegar verkið verður flutt í júlí. En þá vonan ég að ég verði að fylla turninn á Lágafelli með Halldóri bónda. Ég get ekki ímyndað mér að það sé nokkur möguleiki að gera það án mín. Við höfum helspað þessu af á nokkrum dögum við Halldór undanfarin tvö sumur og það er ekki hægt að gera það öðruvísi. Basta. (Hvar heyrði ég hvíslað um kirkjugarðana sem eru fullir af ómissandi fólki? Bara misheyrn. Og bull). xxxx3 - 1 -2ö0p hhhhhhhhhhhzz (Prúdencio labbaði yfir tölvuna mína og skrifaði þetta um leið, hvað ætli þetta þýði, kannski var hann að LÆÐAst).
 
23.3.04
  Borgaði af símanum!! Flókið. Sögustund fyrir Íra. Lee Roi Marlin, Carrefor, Kínastaður. 5 tíma ferð í búðina. .
Labbaði mig til Jane í dag um hálf eitt leitið. Hún var ekki enn búin að kaupa snittteininn svo við drifum okkur á stað, en því miður, það liggur við að þessir Býkó menn byrji síestuna klukkan 10 og endi hana klukkan sex. Lokað. Svo við fórum í bankann hennar til að ég gæti borgað símareikninginn minn. Mér tókst loksins að leiðrétta misskilninginn á milli mín, bankans og Telefóniku og átti þessvegna fyrir reikningnum. Það er ekki flókið að borga símareikning á Íslandi. Þú tekur seðilinn og réttir gjaldkeranum hann ásamt peningum eða debit eða kreditkorti. Klikk, og reikningurinn greiddur. En ekki á Spáni. Ég rétti gjaldkeranum reikninginn og fína Íslandsbanka debitkortið mitt, en í staðinn fyrir að "Klikk" horfði hann á mig eins og fávita eða glæpamann eða hættulegan útlending, hvað af þessu sem er nú verst í augum spænsks bankagjaldkera. Hann bara góndi á mig og babblaði eitthvað sem kannski var spænska, ég veit það ekki. Ég stökk út á stétt þar sem Jane var að blaðra við einhverja frændur mína frá Írlandi og kallaði á hjálp. Hún sagði að gjaldkerinn segði að bankastjórinn segði að lögin segði að útlendingar verði að eiga bankareikning Spánverskan til að geta greitt símareikninga. Hvar er nú anskotans ESB með alla sameininguna þar sem allir eiga að geta gert eins o.sv.frv? Ég er viss um að ég gæti borgað símareikninginn minn í Þýskalandi eða í Danmörku með íslensku bankakorti. En nú rifjaðist upp fyrir mér að ég mátti til að búa til spænskan bankareikning þegar ég kom hérna fyrst, einmitt til að geta borgað símareikninginn minn. Hefði ég mátt ráða hefði ég farið heim, millifært yfir á Caja san Fernando reikninginn og borgað reikninginn á morgun. En það var ekki við það komandi annað en Jane fengi að borga fyrir mig símareikninginn af sínum spænska reikningi, en það mátti hún samkvæmt lögunum. Bara af einhverjum reikningi spænskum reikningi. En þá átti hún ekki nóg inni á Debitinu svo ég fór í hraðbankann og tók út hámarksupphæðina af debetinu mínu sem er 300 evrur og hún lagði þær inn á Debbann sinn og þá gat hún borgað símareikninginn minn!!!!!! Mikið er þetta nú einfalt, finnst ykkur ekki? Síðan fór ég inn á pöbbinn sem hún sat fyrir utan og fékk bjór og tapas fyrir okkur bæði og ég slóst í hópinn að tala við Írana. Og það var eins og vanalega, þeir vissu allt um Njál og Snorra en ekkert um Ísland í dag. Bara þetta vanalega um snjóhúsin og ísbirnina. Ég gat ekki still mig um að segja þeim hvaðan íslendingar komu, það er að segja rjóminn af Norsku þjóðinni og svo "lögðumst við í víking til Bretlandseyja og fleyttum rjómann af írsku þjóðinni, ásamt Haltlands og Orkneyjingum líka. Gerðum þá að þrælum fyrst á meðan við vorum að temja þá og kenna þeim guðsótta og góða siði og síðan bjuggum við allir saman hlið við hlið í sátt og samlyndi." Aumingja fólkið varð alveg kjaftstopp og við Jane forðuðum okkur áður en þau fengu málið aftur, en henni sýndist samt í speglinum á Setta að kjálkarnir héngju enn niðrá bringu. Svo spurði hún mig hvort ég hefði verið að ljúga blessað fólkið fullt eða hvað, en ég sagði henni að þetta væri satt. Ég veit ekki hvort hún trúði mér, en ég er að hugsa um að leggjast í söguskýringar í sumar ef ég skildi aftur lenda í þessum kringumstæðum og þurfa að standa við orð mín.

Við ákváðum að það yrði ekki gert meira þennan daginn, en spurði hvort ég ætti erindi til Lee Roi Marlin í kvöld, sem ég sagði ekki vera en vildi samt endilega koma með henni ef hún vildi. Svo fór ég heim og prófaði hvort síminn væri kominn í samband, en svo var ekki. Ég fór þá upp á efri hæðina og upp á hæðina þar fyrir ofan og út á svalirnar. Þar sat frökenin og hjá henni einhver kallfauskur og voru þau að fletta blaðasneplum með annarri hendinni en með penna í hinni. Ég bað hana að hringja í Telefóniku og spyrja um opnunina og sagðist hún gera það seinna, en hún væri soldið bissi (upptekin) rétt þessa stundina. Ég skall fyrr en skildi í tönnum og fór niður, sármóðgaður. Svo reyndi ég klukkutíma seinna og þá var hún ein, en ennþá stressuð. Ég hélt yfir henni fyrirlestur um kurteisi og forgang og fleira. Hún hefði átt að henda þessum kallfauski út þegar jafn merkur maður og GunniJak væri á ferðinni. En þá sagði hún af sinni alkunnu hógværð og kurteisi að hún hefði nú samt haft ástæðu til að henda kallinum ekki niður stigann strax, akkurat á því augnabliki sem ég kom upp, þau hafi nefnilega verið að skrifa undir kaupsamning þar sem hún keypti af honum hús í Sab Pabló!!!!!! Í hundraðasta skipti varð aumingja GunniJak að lúta í gras fyrir Spánverjum og skammast sín með stöðuna 0-1 fyrir sig. Svo hringdi hún fyrir mig og helvítið hún Telefónika sagðist ekki opna fyrr en 48 klukkustundum eftir að búið er að borga. Ég skal berjana einhvern daginn.

Klukkan 19:00 fórum við Jane í kaupstaðinn og hún henti mér út í Carrefour sem er Hagkaup en fór sjálf í Lee Rooi Marlin sem ég hef sagt ykkur hundrað sinnum að er Húsasmiðjan. Ég var með filmu frá Lúí þar sem hún hafði tekið myndir af nýja húsinu og ég kom henni í hálftíma-framköllun. Svo fór ég að versla, og getið þið hvað, ég fann þarna fisk sem ég held bara að sé venjulegur tveggja punda silungur! Ég hlakka til að eld'ann og éta á morgun.
Alltaf skal ég ná að verða mér til skammar. Ég sá risastóra dollu með fullt af tölvuforritum, leikjum og dóti. Og fyrir ofan stórt spjald þar sem á stóð: OFFERTA og 2.55 evrur. Smá innskot, ég hef ekki orðið var við þá fyrirlitningu á kúnnanum hérna á Spáni að láta öll verð enda á 99,99 Hér bera kaupmenn meiri virðingu fyrir sínum viskiptavinum en það að halda að þeir haldi það að 99.99 evrur séu bara rúmar 90 evrur. Jæja, ég gríp þarna þrjá pakka sem áður kostuðu 6+6+12 evrur. Fínn afsláttur! Við Jane mæltum okkur mót á einum af þremur pöbbunum í Hagkaup (Þetta vantar alveg í okkar Hagkaup!) Og á meðan ég var að sötra einn öllara hafði ég ekkert þarfara að gera en að opna einn pakkann. En áður en ég gerði það varð mér litið á strimilinn. Sem betur fer. Og þar gaf á að líta, þrjú forrit á 24 evrur!! Ég rauk í Upplýsingabásinn og hellti mér þar, á íslensku, yfir eina gullfallega senjórítu sem þar sat í sakleysi sínu. Hún kallaði til sérfræðing úr tölvudeildinni og hann talaði smá ensku og gat sagt mér það að undir verðinu á Offerta (útsala) væri skrifað, að vísu með pínulitlum stöfum og að vísu á spænsku að útsalan gilti bara yfir fáa hluti í dallinum. Og þessi þrjú forrit væru því miður ekki þar á meðal. Og ég var að tala um að kaupmennirnir hérna fyrirlitu ekki kúnnann?? Ha ha, 1-1 fyrir GunnaJak! Kallagreyin buðust til að kaupa af mér forritin á sama verði og ég hafði keypt þau af þeim og leifði ég þeim það til að forðast frekari vandræði. Ég var búinn að sækja myndirnar og skoða þær í rólegheitum yfir öðrum öllara þegar Jane mætti. Hún skrapp svo í eina -tvær búðir í viðbót og svo sagði hún mér að hún hefði rekið augun í kínverskan veitingastað um leið og hún brenndi eftir hraðbrautinni hinu megin við hana beint á móti Húsasmiðjunni og Hagkaup. Við fórum að leita, og mikið rétt, þarna var þessi fíni skáeygi veitingastaður. Ég bauð Jane upp á veislu og við fórum inn og átum og drukkum alveg eins og við gátum í okkur látið. Maður ætti aldrei að fara einn á Kínverskan veitingastað, ef það eru fleiri en einn fær maður þessa líka mörgu rétti. Við fengum fjóra rétti, súpu og te á undan og ís og kaffi á eftir. Þvílíkur matur!! Ég VAR skáeygur í síðasta lífi. Og ég þurfti ekkert að skammast mín fyrir Jane með hníf og gaffal, hún prjónar eins og innfæddur kínverji. Við komum svo ekki heim fyrr en klukkan 12 á miðnætti. Það þætti saga til næsta bæjar ef Lágafellsbændur væru í 5 tíma að skreppa í búðina á Hellu, en þetta er eiginlega upp á meter sama vegalengd. Já, þá væri einhverntíman mjólkað seint á Lágafelli.
 
22.3.04
  Núna bar mánudaginn upp á mánudag, hvað verður það næst? Getiði hvaða dagur var hjá mér í morgun? Ha? Mánudagur? Já mikið rétt, það var mánudagur í morgun. Gott hjá mér. Við Rod mættum báðir á nokkurnveginn réttum tíma. Þess má geta að það er ekkert búið að breyta klukkunni og ég veit ekkert hvenær það verður gert. Ég er viss um að aumingja Rod fær martröð í nótt og dreymir um Læjera yfir, Læjera undir, Læjera aftan og framan við og svo blátt ofan í brúnt og Historí pensil og Art pensil og og og......... Hann er að verða búinn að móttaka það sem hefur tekið mig 10 ár að berja inn í hausinn á mér í Fótósjopp. Vorum að til 13:30 en þá þurfti hann að fara í stofnanir og ég fór með honum, á eftir fórum við svo í stórmarkaðinn og svo heim. Lagði mig og hélt svo áfram með prentverkið. Stakk mér út rétt fyrir myrkur og keyrði sandi í stéttina og hlóð voðalega flotta hleðslu þvert yfir hana þar sem vatnaskilin áttu að vera. Því miður kom Lúí mín Kastel áður en ég var búinn og sá allt þessu til foráttu. Ég þrætti í lengstu lög en varð að gefa mig þegar hún benti mér kurteislega á það að Polar Bear væri að fara heim til sín í íshellirinn eftir 8 daga en hún ætti kannski eftir að eiga heima í þessu húsi önnur 15 ár. Gegn þessum rökum átti ég ekkert svar, en hún hafði algjörlega rangt fyrir sér með stéttina, ég hefði leyst megnið af öllum vatnsvandamálum á planinu ef ég hefði fengið að ráða. En ég er búinn að sjá það mörgum sinnum að Lúí Kastel er alveg gjörsneydd því að vera verkfræðingur. Hún er bara hörkudugleg, en leggur meira upp úr puðinu en árangrinum af því sem hún er að gera. Konur og tækni eiga ekki saman. Æsið ykkur bara konur, mér er alveg sama. Þetta er bara svona. Púnktur.
 
21.3.04
  Rod mætir ekki á Mánudegi, þunnur? Eða bar mánudaginn kannski upp á sunnudag? Hver veit. .
Lét klukkuna vekja mig klukkan 08:30 og fór framúr, tók mér sturtu og át lélegan morgunmat. Ekkert til. Prúdencio búinn að éta allt. (Gott að hafa barn til blóra). Pakkaði tölvunni og inniskónum niður í tösku og arkaði niðrá stúdíóið hans Rod til að fara að kenna í tölvuskólanum. Og aldrei slíku vant var hann ekki kominn 10 mínútur yfir tíu. Þá mundi ég allt í einu eftir því að Lúí var að tala um að þeir ætluðu að flýta klukkunni um helgina og þá hugsa ég strax að vitanlega sofi Rod á sitt græna, ég sé 50 mínútum of fljótt á ferðinni. Bærinn var voðalega rólegur og hálf dauður, en ég fann samt opinn pöbb og þar fékk ég mér tjöru (Nokkurskonar kaffi) og ristað brauð og las Europa Sur spjaldanna milli. Eða þannig. Þetta var mjög ófullkomin setning. Í fyrsta lagi las ég ekki neitt heldur skoðaði bara myndirnar. Og Europa Sur er ekki bundinn inn í nein spjöld frekar en aðrir dagblaðasneplar. Annars er þetta blað Andalúsíubúa og yfirleitt kemur ein frétt frá hverjum bæ og /eða sveitunum þar í kring. Svo eru íþróttir og ef eitthvað sérstakt kemur fyrir í veröldinni eru fréttir um það. Og nafnið þýðir einfaldlega Suður Everópa.

Jæja, ég fór svo aftur að stúdíóinu klukkan "ellefu", en enginn Rod. Þá tók ég mér góðan göngutúr um nágrennið og kom aftur upp úr hálf, en enn var enginn Rod. Kannski hef ég misskilið hann eitthvað hugsaði ég og labbaði heim. Verst að druslast með tölvuna og inniskóna allt þetta labb. Ég hitti frú Lúí í hurðarglugganum og bauð kurteislega góðan dag. Og hún svaraði kurteislega í sömu mynt og spurði mig svo hvað ég væri að arka svona um bæinn á sunnudagsmorgni. Hels heldi, aftur geri ég sömu aulamistökin, aftur mæti ég á sunnudegi til að opna skólann. Auli auli auli, enda sagði frökenin það, "Ojle". Og ég var ekki að vakna svona ruglaður, nei ekki aldeilis. Við fórum til Ronda á laugardegi og ég var hundfúll daginn eftir að finna hvergi á netinu úrslitin í Formúlunni, það hefur jú alltaf verið keppt á sunnudögum og ég skildi ekkert í þessu. Ég rauk inn til mín í fússi miklu og stakk mér í bælið og breyddi sængina upp fyrir haus og svaf í þrjá tíma, í tómri geðvonsku og ergelsi. Ég ég vaknaði nýr og betri maður og rauk út og bætti nokkrum steinum í vegginn. Nú er bara ein törn eftir í honum og svo sjálf stéttin við hliðina. Í kvöld var ég að prenta dagbókina, betra seint en aldrei. Blekið kom loksins og nú er prentað allan sólarhringinn. Nú vantar mig bara batteríið í tölvuna og pennamyndavélina, en það er í sama pakka.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com