GunniJak í Danmörku
6.11.04
  Tvær ferðir til FerjuSlef og ein í StóraLauk. Flott veisla. Einn maður drukkinn. .
.
Vakinn með látum klukkan tíu og skipað á lappir til að skreppa í búðina fyrir veislustjórana. Eftir japl og jaml og fuður förum við ÁK til Ferrislev. Áttum m.a. að kaupa GullSpray til að mála listaverkið. Við finnum málningarbúð og ég ætla að snarast út úr bílnum, en opps, ekkert veski. Mátti gjöra svo vel og fara aftur heim (13 km) til að ná í veskið. Þegar við komum til baka gátum við keypt allt sem við vorum beðin um, eða það hélt ég a.m.k. Fengum okkur að borða í pulsuvagni rétt hjá Brugsen, hún dónapulsu en ég djúpsteiktan fisk. Ekki smakkað fisk lengi. Þegar við komum heim kom í ljós að ég hafði gert heimskumistök. Átti að kaupa Sidar eitthvað gos sem lítur út og freyðir eins og krampavín, en er óáfengt. Í staðinn hafði ég keypt venjulegt gos, sítrónu sull, enda þekkti ég ekki þetta trix með Sidarið. Þetta er notað handa þeim sem vilja lyfta glasi en kæra sig ekki um áfengi. Ekki vildi ég láta eiga þetta hjá mér, skutlaði ÁK upp í íþróttahöll á handboltaæfingu og renndi svo til Lögstör og keypti þetta Sidar dæmi. Líka stormkerti til að hafa við innkeyrsluna og fleira smádót.

Ég kóperaði sögu hesthússins í myndum yfir á Fartölvuna mína og fór með hana út í hesthús. Þar lét ég hana sýna byggingasögu hesthússins í slideshow, það er að segja, hún renndi myndunum stöðugt upp á skjáinn, hver mynd var 5 sekúndur á skjánum og svo framvegis, hring eftir hring, endalaust. Eða þar til ég slökkti á henni um kl. 02:00. Þessu var vel tekið og höfðu margir gaman af að sjá hvernig hesthúsið hafði þróast frá fjósi í hesthús.

Klukkan sex fóru fyrstu gestirnir að týnast í partýið og um sjö leitið var komið á fjórða tuginn. Við urðum að bæta við sætin, þá komu gamlir kirkjubekkir sem eru hérna úti í hlöðu að góðum notum. Partíið byrjaði með uppistandandi Krampavínsdrykkju. Svo settist fólkið við borðin og fram voru bornar tartalettur. MMMMMMM! Seinna komu svo ofnréttir og franskt brauð, það er að segja litlu kringlóttu sneiðarnar. Seinna um kvöldið poppuðu svo Ásta Kristín og Zenia vinkona hennar og allir fengu popp eins og þeir gátu í sig látið. Ég er búinn að setja myndir úr partíinu inn á myndasíðuna mína, klikkið bara hér.

Þetta var afskaplega skemmtileg veisla og öllum sem héldu hana og tóku þátt í henni til sóma. Enginn Fullur með stórum staf, nema þá helst undirritaður. Ekki held ég að mér hafi nú samt tekist að verða mér til alminlegar skammar, en það væri nú samt betra að spyrja veislugesti að því. Fólkið fór að týnast heim upp úr miðnætti og klukkan tvö voru ekki aðrir eftir en Zenja og fjölsk. og Electricman. Við Bjarki þurftum að ræða mikið við hann um plús, mínus, jörð og núll. Ég held að það hafi ekki komið nein niðurstaða í það mál. Ég hef hvergi séð jarðtengda kló eða innstungu hér í landi, en hann vill meina að það sé bæði jörð og núll á tveimur vírum. Skil ekki enn.

Við Blíða fengum okkur gönguferð um þrjúleitið inn í Bejstrup, líklega hefur það bjargað mér frá mestu þynnkunni. Verst að ég týndi í þeim túr inllegginu úr öðrum sandalanum mínum. Fór að sofa um þrjúleitið.

s
 
5.11.04
  Listaverk. Hress. Hestar í hestastíur, nema hvað! .
.
Ekki var nú allri járnsmíðavinnu lokið. Ég var í mest allan dag að smíða listaverk sem kemur á fremri hornin á stíunum. Sauð saman 10 skeifur sikk sakk, tvær og tvær saman og svo hverja ofan á aðra. Nú skal ég fara að skella inn myndum af smíðinni, lofa því (upp í ermina á mér). Það er á fullu undirbúningur undir veisluna miklu annað kvöld. Hestarnir eru sóttir í kvöld og settir í nýju stíurnar eftir að búið er að bera undir þá hálm. Þeir eiga að standa á hálmi í vetur, svo er bara mokað einstaka sinnum. Öll smíðin miðaðist við það að hægt væri að moka með vél undan þeim. Það kostaði heilmikla aukavinnu, en hún verður fljót að borga sig ef hægt verður að moka með einhverskonar mokstrarvél.

Heilsan er öll að koma til, farið að losna upp úr lungunum og ég allur að hressast. Þetta er búið að verá óþverrakvef, beinverkir og allskonar óþægindi sem fylgja venjulegu kvefi. Ég finn ekkert til í skrokknum, hnén eru eins og þau hafa verið best og ég er með minnsta móti stirður í útlimunum. Ég segi ekki að ég sé allur eins og stálfjöður, en allavega með betra móti.

Electric man kom í kvöld í heimsókn og hann benti okkur á að mála listaverkið með gullspreyi. Því var vel tekið.
 
4.11.04
  Karbítblað í osti. Rokkað fram og aftur um Sjáland. Rauðhús. Kínarúlla .
04-11-04

Búið að skera alla bitana og koma þeim á réttan stað klukkan 10:00!! Bjarki fór nefnilega í Maskinfabrikk í morgun á meða ég var ennþá sofandi á mitt græna eyra og keypti karbítblað í rokkinn. Það er að vísu djö… dýrt, en það hefði samt verið ennþá dýrara að þurfa að kaupa hundrað eða þúsun lin blöð. Karbítblaðið sker sig í gegnum bitana, með tvöfaldri járnalögn, eins og verið væri að skera ost. Flórarnir verða með ólíkindum flottir þegar steinbitarnir eru komnir í þá. Bjarki bauð mér að skila rokknum sem ég þáði með þökkum. Áttum að vera búnir að skila honum fyrir hádegi í dag. Mastan hennar Heiðrúnar stóð í hlaðinu og lét ég rokkinn í skottið á henni. Ég ákvað að fara í vinnuna til Heiðrúnar og skipta um bíl. Það er nefnilega enginn barnastóll í Grána mínum. ( ”mínum” eftir 1. nóvember) auk þess sem ég vil ekki vera að flækjast á sparibílnum á bænum. Svo fer ég inn í bæ og er eitthvað að dedúa og búa mig til farar, já og fara í bað eftir allt sögunarrykið. Þegar ég kom út sé ég að Gráni er inni í bílskúr og verð voða feginn að þurfa ekki að skipta um bíl. Sest upp í hann og keyri með bros á vör til Magga.

Ansi yrði hún nú langdregin dagbókin mín ef ég segði svona nákvæmlega frá öllu sem ég geri, en það var ástæða til þess í þetta skiptið. Þegar ég kem í MilluGarð fatta ég það að rokkurinn er ennþá í skottinu á Möstunni í 30 km fjarlægð. Auli, Sauður, Gleymskupúki!! Ég mátti gjöra svo vel og snúa við og, eftir nokkrar villur, sækja helvítis rokkinn. Var búinn að ætla mér að leggja fyrir utan afleggjarann og læðast í Möstuna og taka rokkinn og segja engum frá, en þá hringir síminn og Bjarki, sem enn er heima að drepast í bakinu, í mig og biður mig að tala við sig og erindast fyrir hann. Þar fór það.

Maggi var að steypa í gólfið á sínu hesthúsi og er smám saman að koma mynd á það. Þeir eru nóg duglegir, hann og Jói færeyingur, það vantar ekki, en það eru bara ekki nema 24 tímar í sólarhringnum í Millugarði (Vanþróaður staður, ætli Siemens geti ekki breytt þessu fyrir þá, þeir kannast við hann sjálfan held ég!) og af þeim fara 8 í að sofa, 8 að vinna annarsstaðar, 3 í að elda, éta, skila restinni af fæðinu, og svo framvegis. Svo þarf að sinna hestabúskapnum, börnunum, konunni og svo framvegis og þá eru komnir 30 tímar. Reikni nú hver sem getur. Þetta er svipað á fleiri bæjum, til dæmis númer 103.

Eftir kaffi og rúgbrauð fór ég út að keyra. Endaði í Rauðu Húsum, eða Rödehus við sjóinn norð vestan á Jótlandi. Þar er risavaxið sumardvalarsvæði með öllu. Sundhöll, íþróttahöll, verslun og hátt á annað hundrað sumarhúsum. Ásamt allskonar leiktækjum og skemmtilegheitum. Ráfað aðeins um og fór svo til baka. Kom við í einni búð og keypti mér þrenn gleraugu á hudnraðkall danskan, eða tólfhundruð íslenskar. Ein venjuleg lesgleraugu sem ég nota við tölvuna, ein númer 2,0 til nákvæmnisvinnu og 3.5 sem eru bara eins og hvert annað stækkunargler, nema að maður hefur báðar hendur fríar. Svo fór ég á Kínastaðinn í Aabro þar sem við fengum okkur að borða á föstudaginn var og fékk mér eina kínarúllu. Kostaði 25 kall og eina kók, en hún kostaði 19 krónur. Næst fæ ég mér bara vatn með kínarúllunni. Kom heim um klukkan hálf fjögur.
 
3.11.04
  Inflúensan má hætta að hlakka til að hitta GunnaJak. Sprautaður. Flórbitarnir komnir á staðinn. Vantar skífu .
13-11-04
.
Á fætur klukkan tíu. Fór út og kláraði ýmislegt smávegis, til dæmis að setja upp lykkjur og króka útum allt til að binda hesta í. Fór svo í sturtu upp úr hádegi og keyrði ÁK upp í höll um tvö leitið. Við tókum Þumallínu með okkur, hún fór svo með hana inn í skóla. Það er svona frítíma leikir hjá þeim um þetta leiti á þriðjudögum, frá 2 til 5. Ég fór með henni inn í skólann og krakkarnir ætluðu bókstaflega Þumbu að gleypa. Síðan fórum við Þumallína til Lögstör, eða StóraLauks og ég fór á heilsugæslustöðina og fékk Inflúensusprautu. Get ekki með góðu móti séð mig fyrir mér með AsíuInfúensu liggjandi í einhverju hjólhýsi í einhverju landi einhversstaðar. Við Þumba fengum okkur brauð, ost og Hindberjadrykkjarjókúrt. Hún reif allt í sig, en annars var hún hálfhrædd í bílnum. Á heimleiðinni endaði hún nú samt á því að liggja bara í sætinu við hliðina á mér of fékk sér napp. Þegar ég kem heim er heldur betur handagangur í öskjunni, Michael er kominn á gröfunni hingað með 10 steinbita í flórinn. Við hjálpumst öll við að drösla öllu inn og þá sjáum við Bjarki að það er vonlaust verka að ætla að skera sundur bitana með gamla góða slípirokknum. Svo hann skreppur til Magga Frænda og fær lánaðan fullvaxinn slípirokk og nokkrar skífur. Flestar samt járnskurðarskífur. En við prófum þessar fáu steinskífur sem fylgdu með og þær bókstaflega leystust upp við að reyna að saga sundur bitana. Það þarf að kljúfa bita á móti heilum í öll 6 bilin, auk þess sem það þarf að skera þversum í lítinn bút við innri endann. Við bara hættum og áttum náðugt kvöld.
 
2.11.04
  Bjarki í bakinu. Náðum ekki bitunum. Búinn að sjóða, húrrrra! .
12-11-04
.
Bjarki fór ekki í vinnu í dag heldur, hann vakti mig klukkan hálf ellefu og spurði hvort ég hafi ekki ætlað að snúa sólarhringnum við aftur. Ég fór sneyptur niður, reif í mig morgunmat og fór svo út. Bjarki fór til Álaborgar í hnikk og kom hressari heim. Við ætluðum að sækja steinbitana sem eiga að fara í flórana í dag, en aldrei þessu vant þá klikkaði Micael og mætti ekki á réttum tíma. Svo skall á myrkur og við frestuðum framkvæmdum til morguns. Ég var að smíða til klukkan 9 í kvöld og er núna loksins búinn með alla rafsuðuvinnu!! Kannski búum við til listaverk til að setja á hornsúlurnar, en það er þá ekki vinna, heldur bara leikur.
 
1.11.04
  Stella, hjóhýsi og systir. ÁK og GunniJak til StóraLauks, ýmsar búðir og matur. Sæunn í símanum. .
01-11-04
.
Framúr klukkan 10:00, Bjarki fór ekki í vinnu í dag, er að drepast í bakinu. Ég er ekki hissa þó hann langi til að komast í líkamlega hægari vinnu en að vera trésmiður og þess vegna finnst mér ekkert skrítið að hann langi til að fara í skóla. Skelfilegt að sjá hann stundum. Og það versta er að það er ekkert hægt að gera fyrir bakið á honum.

Við ÁK fórum til StóraLauks um 3 leitið. Byrjuðum á að finna rörabúð, eða píparabúð, í Manstrup, en hún var lokuð. Fórum þá í Rúmfatalagerinn, en hann heitir FAKTA hérna, og var ég að skoða hlýjar og ódýrar sængur. Þar gat ég fengið sængur allt niður í 800kall íslenskan! Frestaði samt að kaupa neitt. Næst fundum við aðra píparabúð, en fengu ekki það sem við vorum að leita að, lokum á öll rör sem standa opin upp á endann. TD í hliðonum og á hornum. Svo lagði ég bílnum í gönugötuna og við ráfuðum á milli búða. Í bókabúðinni keypti ég diskmiða og ljósmyndapappír og ÁK keypti afmælisgjöf og ég gaf henni yddara sem verðlaun fyrir að hafa ekki rellað neitt. Að lokum fengum við okkur svo að éta, hún upprúllað hvítlauksbrauð með fyllingu og ég venjulegan hamborgara. Þó einn af þeim bestu. Ég fór beint út að smíða og var að til kl. 22:00. Þreyttur mjög. Og hálf lasinn eins og undanfarið, en þó aðeins hressari.

Það kom kona með Stellu merkinguna á Hjólhýsið. Hún setti nafnið á allar hliðar á hjólhýsinu og tekur það sig sérlega vel út. Bjaki gerir upp við hana með einhverslags hestastússi, járningum og fleiru. Ég hringdi í Stellu systir og sagði henni frá að ég hefði (mis)notað nafnið hennar, hún var hin ánægðasta. Sagði mér að Stella þýddi stjarna á latínu og væri til í flestum tungumálum. Í ýmsum útgáfum að vísu.

Sæunn hringdi og var að segja mér frá pósti sem ég ætti. Hún las hann upp fyrir mig í símann og hann fór allur í ruslafötuna. Hún sagði mér að Minna mín væri búin að fara til Íslands og komin heim aftur, hesti ríkari.


 
31.10.04
  Sýning í Höllinni. Stórkostleg hljómsveit. ÁK handbolti, tap 7-2 gegn FerjuSlefurum .
31-10-04
.
Svaf hálfilla sl. Nótt. Var að smíða fram yfir hádegi, en þá klæddum við okkur uppá og fórum upp í ítþróttahöll. Þar er haldin mikil sýning svipuð sýningunni sem haldin er að Hrafnagili á hverju sumri. Höllin var full af básum þar sem allt mögulegt var til sýnis og sumsstaðar sölu. Þarna sýndu verslanir á svæðinu vörur sínar, allskonar þjónusta auglýsti sig og svo var handverksfólk með sitt lítið af hverju. Íþróttahúsið er frekar lítið, en það var semsagt fullt af básum, nema smá horn þar sem var svið. Þarna hélt hljómsveit tónleika, rosalega skemmtileg hljómsveit sem saman stóð af pari sem er búið að vera að skemmta saman í yfir 20 ár og svo trommu og bassaleikari. Parið var 44 ára, ekki til samans samt, og þau sungu og léku alls konar gömul og góð lög af öllum skalanum. Pönk, rokk, ballöður og svo seinast en ekki síst, bandaríska slagara. Konan spilaði á gítar og kallinn á Digital-Rafmagns-harmonikku. Þau voru gríðarlega skemmtileg á sviðinu og fluttu tónlistina afspyrnuvel. En ég gæti best trúað að ýmsir hafi verið Bjarka og Heiðrúnu, já og ÁK líka, sammála með að bandið hafi verið skemmtilega hallærislegt! Bara þessi konsert er búinn að borga ferðina til Danmerkur. Allt annað skemmtilegt hérna í Danmörku er bara bónus.

Heiðrún keyrði ÁK að höllinni um hálftólf, en hún var að fara að keppa í handbolta í Fersislev. Foreldrarnir skiptast á um að keyra handboltakrakkana á handbolta keppnirnar og er krökkunum smalað saman við höllina. Svo þegar ÁK kom til baka hittumst við öll í höllinni.

Ég fór svo beint út að smíða þegar heim var komið, búinn með alla suðuvinnu nema plöturnar undir stóru hliðin og að loka rörunum.


 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com