GunniJak í Danmörku
13.12.03
  Í svefnherbergi Lúíar, Taka myndir við ána og rosa partý Sólskin og stillt veður, hitinn um 20º um hádaginn.
.
Ef einhver hefur áhyggjur af því að ég geti ekki látið dagana líða skal ég segja ykkur frá deginum í dag. Í gær var ég búinn að plana daginn þannig að ég átti að mæta í svefnherbergi frökenar Lúí kl. 10:00 að morgni, klukkan 14:00 átti ég að vera kominn að húsinu við ána til að taka meiri myndir og kl. 20:00 var ég boðinn í partý. Erfitt að finna tíma til að láta sér leiðast! Já, Lúí er að umbylta svefnherberginu hjá sér, við vorum að mála og skrapa vegg í dag sem svo á að líma á kork. Svo þarf að brjóta aftanaf rúminu hennar, hér eru flest flet hlaðin úr múrsteinum og múrað. Það er svo mjótt bil fyrir aftan rúmið og það alltof langt svo þetta er planið. Hún þurfti svo að fara í tónlistartíma eftir hádegið, en ég fékk mér að éta og strax á eftir labbaði ég niðrað ánni. Mer finnst þetta slaga hátt upp í Kambana, og þó varla, en miklu brattara. Leiðin meðfram ánni í þessa áttina er ansi ævintýraleg, bráðum fáið þið að sjá myndir frá þessu ferðalagi. Á einum stað er klettur úti í ánni sem heitir "Fílsklettur" vegna þess að það er alveg eins og þarna sé fíll að baða sig. Nú voru hjónin í húsinu heima og ég byrjaði á því að fá mér að éta, nema hvað!! Svo voru teknar yfir 100 myndir og núna verður verkefnið hjá mér að laga, bæta, klippa, prenta og senda á netið úrvalið af þeim. Þessar myndir verða í læstri skrá til að byrja með þangað til búið er að velja úr þær bestu. Ég var kominn heim úr þessum leiðangri um kl. 18:00 og það passaði að þegar ég var búinn að fara í sturtu, elda og borða var klukkan orðin 20:00. Ég átti smá lögg af Fino Blanko og skellti henni í mig með steikinni áður en ég fór í partíið. Ég er búinn að kynnast þvílíkum helling af fólki hérna, mest í gegnum Lúí og svo kynnist maður kunningjum og fjölskyldum kunningjanna og svo framvegis. Náunginn sem hélt partíið var að vígja húsið sitt, rosalega flott og stórt á tveimur hæðum. Ég var svo kurteis að skilja myndavélina eftir heima, en það er þess virði að heimsækja hann aftur og taka myndir. Allt hvítt, hver einasti blettur á húsinu úti og inni, allt fokking hvítt!! En rosalega flott samt. Ég hélt að þarna yrðu 3-4 kunningjar okkar, en þegar ég kom upp á stigaskörina, stofan er uppi, blasa við mér 20-30 manns!! Ég hefði snarsnúið við og hlaupið heim til mín ef ég hefði ekki haft þessa lögg af Fino Blanko (Sérrý) í belgnum svo ég lét slag standa. Og ég sá sko ekki eftir því, maður lifandi!! Ég held ég hafi bara ekki hitt eins stóran hóp af eins skemmtilegu fólki fyrr eða síðar. Þarna voru að vísu frekar fáir alvöru spánverjar, en allra þjóða kvikindi. Pólar Björninn frá Íslandi, fólk frá Þýskalandi, Englandi, Noregi, Frakklandi, Hollandi og sjálfsagt frá fleiri löndum. Mest af þessu fólki er í einhverskonar tónlistarbralli, en ekki allir. Þarna var gnótt af mat og drykk og notaði þessi sem er í megruninni það allt af góðri list. Það er rosalega gaman að vera frá Íslandi hérna í Jimena, maður bara rífur af sér feimnina og þá er eins og fólkið sér að hitta einhverja nýja dýrategund. Enginn sem ég hef hitt hefur áður hitt íslending. Ég býð bara eftir spurningunni, hún er alveg að koma, "Búið þið í snjóhúsum á Íslandi?" Hún hlýtur að koma einhvern daginn. Lúi var að singja með kórnum sínum á konsert þetta kvöld og var ekki búin fyrr en um miðnætti. Þá var aðeins farið að draga af mannskapnum sumir farnir heim, en þá kom Lúí með meiri hlutann af kórnum með sér og þá fyrst lifnaði nú yfir partíinu! Það var þvílíkt sungið og meira segja voru þarna maður og kona sem dönsuðu svona ekta kastanettudans með öllum handahreifingunum og því sem við átti, einn spilaði á gítar og annar grét hástöfum með. Ég kalla það að gráta vegna þess að lögin eru svo átakanleg að maður fær tár í agun. Þið tókuð eftir því að ég sagði lögin en ekki textinn, það þarf ekki að skilja textann til að langa til að fara að gráta með, he he he!!! Einhverntíman hafði ég aulast til að syngja Sprengisandinn fyrir Lúí, þarna hefndist mér fyrir það. Hún henti í mig gítarnum og ég átti engrar undankomu auðið þegar 30 manns leggjast á mann og fyrst ég mátti til þá dró sá gamli ekkert af sér og það var ekki hætt fyrr en allir kunnu lag og , jú það má segja lík textann. Alltar og allstaðar vekur Sprengisandurinn jafn mikla athygli og skemmtun. Mig vantaði ekkert nema Jón Baldur og Gústa til að þetta væri fullkomið. En þá hefðu þeir spánversku sko fengið skammtinn sinn.
Partíið var til ca. 03:00 og þá fóru allir að týnast heim til sín, glaðir og ánægðir. Þarna var enginn edrú og enginn fullur. Flæðandi vín upp um alla veggi en enginn drukkinn samt. Og að það heyrðist eitt einasta styggðar eða nöldur orð hjá öllum þessum hóp í 7 tíma, ekki eitt einasta. Við getum sko lært margt af spánverjum, til dæmis að halda partý. Þarna hitti ég konu frá Noregi sem mér líkaði sérlega vel við og vorum við á rabbi lengi nætur. Hún er flóttamaður hér á svipuðum forsendum og ég, þolir hvorki landa sína né kuldann á veturna, en elskar hvort tveggja á sumrin. Það er miklu léttara að tala við fólk sem hefur enskuna að máli númer 2. Ég er allur að liðkast í enskunni en spænskuna ætla ég að láta algjörlega í friði. Ég hef ekki nokkurt minni til að fara að læra nýtt tungumál í ellinni. Enda þarf ég einga fjandans spænsku, ég nota bara táknmál og svo er hlegið að allri vitleysunni. Ég segi spánverjunum að ég skilji ekki spænsku og þá koma þeir gjarna með langar runur á þvílíkum hraða að allt verður eins og suð í slípirokk á 10.000 snúningum. Þá er ekki um annað að ræða en að skella á móti þeim jafn mikilli íslensku, nema bara á mun minni hraða, því miður. En þetta dugar yfirleitt til að sljákka aðeins í þeim. Þetta var spænskusögustund GunnaJak.
 
12.12.03
  Hitatölur, ath. allar í +, Vinna, Skrifarinn virkar ekki 11-12-03
Hitinn kl. 10:00 í morgun 10º Kl. 16:00 21º Kl. 02:00 í nótt
(Ég fékk hitamælirinn minn í kassanum).
Uppfærði myndir í kvöld, af Prúdencio, af Kassanum, og myndir frá ferðinni með ánni

Ég er búinn að fá vinnu. Að vísu bara eitt verkefni, en verkefni samt. Það er fólk sem á hús niður við ána sem ætlar að leiga það í sumar og vantar prófessional (atvinnumanns) myndir af því til að láta leigumiðlarann fá. Ég labbaði þangað, en enginn var heima svo ég tók bara myndir utan af húsinu en verð að skreppa aftur þegar fólkið er heima og taka fleiri myndir, og þá líka inni. Myndirnar sem ég tók fara kannski inn á netið í kvöld, klukkan er orðin tvö og ég veit ekki hvað ég nenni að gera. Annars hefur lítið skeð, ég hef verið í tölvunni í allan dag og svo að reyna að skrifa diska, en það er einhver böggur í skrifaranum, kannski að hann hafi skemmst eftir allt saman. Þá fíkur nú fyrst í GunnaJak.
 
10.12.03
  Bankinn, KASSINN KOMINN!, krumpaður, Skrapp til Algeciras, Prúdi plataði mig Oj bara 10-12-03
Ég þurfti að skreppa í bankann minn í morgun, komst ekki inn á heimabankann þeirra. Það reyndist vera af því að í fyrsta skipti sem maður fer inn á bankann er manni boðið upp á að breyta leyniorðinu og til þess þarf að skrifa það gamla og svo nýja orðið tvisvar. Þetta voru of margir reitir fyrir einfaldan sveitamann frá Íslandi, en eftir að ég fékk skýringu á þessu og gerði eins og mér var sagt þá komst ég inn og þetta er jafn flott og þægilegt eins og hjá Íslandsbankanum mínum á netinu. Jæja, nema það að ég labba framhjá pósthúsinu eins og vanalega, sting hausnum innfyrir dyrnar og næ augnsambandi við einhvern til að leyfa honum að hrista hausinn. Svona er þetta búið að ganga í 5 vikur eða 35 daga. Þangað til í morgun, kallinn kallar á mig og spyr mig hvort þetta sé ekki kassinn minn. Jú, mikið rétt, þarna var hann kominn. En hann var ansi ólíkur sjálfum sér. Allur bögglaður og rifinn, hafði verið teipað yfir verstu rifurnar en annarsstaðar sá í fötin mín. Hann hafði ekki verið tollaður, svo ég slapp með allar Etöflurnar, heróínið, hassið og amfetamínið mitt. Von að mig væri farið að lengja eftir kassanaum!! Ég fór með hann heim og myndaði hann allan í bak og fyrir og myndirnar eru komnar inn á netið. Svo ætla ég að senda Íslandspósti meil og krefjast þess að haldið verði áfram að rekja slóð kassans, þó hann sé kominn til skila. Svo ætla ég að fara fram á bætur fyrir töfina og slæma umgengni um kassann minn. Ég held að það vanti ekkert og viðkvæmasta stykkið, nýr utanáliggjandi skrifari sem kostaði ca. 35.000.- Íkr og ég keypti nokkrum dögum áður en ég lagði af stað, er í lagi. En þarna voru líka tveir harðir diskar og þeir eru viðkvæmir, ég á eftir að prófa þá. Ég fékk skilaboð frá pósthúsinu í dag að ég ætti að skrifa undir eitthvað plagg uppá það að ekkert hefði horfið og ekkert skemmst í kassanum, þvílík bjartsýni hjá þeim, halda að þeir geti bara slegið öll vopn úr höndum mér með einni undirskrfit, ha ha ha, þeir eru svo fyndnir!!

Ég skrifaði um það einn af fyrstu dögunum sem ég kom hingað að ein flott kona bauð okkur Lúí í mat af því hún var að fara til USA daginn eftir og svo fórum við Lúí þangað seinna og tæmdum kæliskápinn hennar. Þessi kona heitir Jane og hún bað/bauð mig/mér að koma með sér til Algeciras í snögga ferð. Ég neita góðum konum sjaldan um neitt svo ég skellti mér með henni. Hún á nýjan Renault og er bráðflinkur bílstjóri svo þetta var ekki svo mikil lífshætta. Við fórum ekki fyrr en undir kl. 5 til að koma passlega í seinni vinnutörnina hjá verslunarfólkinu í Algeciras. Hún var að sækja gemsann sinn úr viðgerð, en hann hafði bilað þriggja daga gamall hjá henni. Hún fékk bara nýjan, ekki slæm þjónustan hjá Vótafón á Spáni. Svo á heimleiðinni fórum við í risastóra verslanamiðstöð sem er milli Jimena og Algeciras. Hún ætlaði að fá glerkönnu á uppáhellingarkaffikönnuna sína, en hún fékkst ekki þar. En, ég sá fjandans prentarann sem ég var búinn að leita að í tvo daga rétt áður. Fjandinn, ég vissi ekki einu sinni af þessari verslanamiðstöð, og til að stríða mér enn meira þá er lestarstöð þar rétt hjá. Við komum til baka um kl. hálfátta, ég varð eftir niðri í bæ og verslaði smávegis og labbaði heim, til að fá meiri hreifingu þennan daginn. M.A. keypti ég hálfskílós stykki af nautalærisklumpi á 270.- Íkr og eins líters fernu af Hvítvíni á 60.- Íkr og skellti hvoru tveggju í mig þegar ég kom heim. Nema því af nautinu sem Prúdi vinur minn át. Hann er alveg búinn að yfirgefa fóstru sína og fluttur til mín. Ég hef rifu á glugganum og það er kattahurð á dyrunum uppi svo hann er algjörlega sjálfráður gerða sinna. Ég vaknaði í nótt við að hann var búinn að hreiðra um sig í hálsakotinu á mér, mér líkaði það allvel og hugsaði að hann væri sveimér orðinn dæll við mig, hann er nefnilega ekki mjög mikill kelikisi. Svo ég hreyfði mig sem minnst til að ónáða hann ekki, voðalega notalegt að þurfa ekki að sofa einn og hafa einhvern alveg uppi í hálsakoti. Jæja, eftir langa stund stendur hann sjálfur upp og labbar niðrá gólf, þá sá ég það að hann hafði verið búinn að troða á sér óæðri endanum upp í hálsakotið á mér og ég verið svona svakalega hamingjusamur að hafa þar á honum rassgatið. Ég sofnaði ekki í marga klukkutíma af skömm og leiða og ángri útí kattarkvikindið. Sem betur fer var myrkur svo ég sá ekki á honum háðsglottið þegar hann lagðist upp á stólinn sinn. Prúdencio kvikindi, ég ætla einhverntíman að gera þetta við hann og þá verður staðan 1-1 en ekki 1-0 eins og núna.
 
8.12.03
  Letihaugur að þvo í nýju þvottavélinni 08-12-03

Rólegur dagur hjá mér í dag. Fór varla út fyrir hússins dyr. Prófaði nýju/gömlu þvottavélina og hún svínvirkaði. Lúí fékk hana notaða fyrir lítið, einhver snobbhæna fann út að hún passaði ekki við litinn á nýja dagkreminu, eða var það næturkreminu sínu svo hún seldi hana fyrir lítið. Westinghouse maður, hún er sko ekki neitt made in Taiwan eða svoleiðis. En ég varð að setja upp snúrur inni á baði hjá mér vegna veðursins. Mér er alveg sama þó að rigni, hér er ca. 16 stiga hiti og það er fyrir mestu. Það hringdi einhver fullur kall í mig í dag frá íslandi, hann hafði fengið skakkt númer. Ég var fljótur að skella á þegar hann ætlaði að fara að röfla eitthvað, nei sko ekki á minn kostnað!!
 
7.12.03
  Uppdeit, Fékk fisk að éta, Þvottahús 07-12-03

Ég setti helling af myndum inn á Fotki í dag. Ég bjó til skrá þar sem ætla framvegis að setja inn mynd af trénu sem albúmin eru í og skrifa þar í hvert sinn sem ég set inn nýjar myndir, þannig að ef þú manst hvenær þú fórst síðast inn á Fotki sérðu í sjónhendingu hvort eitthvað hafi bæst við síðan þá og þarft ekki að fletta öllum albúmunum. Ég vona að þetta komi vel út, ég hef hvergi séð neitt svona og hef ég þó flakkað gríðarlega mikið um svona myndasíður. Þið ættuð að gera það líka, maður finnur og rekst alltaf á eitthvað athyglisvert.

Matur í Jimena de la Frontera!!! Húrra, fyrsta skipti sem ég finn Matsölustað!! Ég var orðinn dauðþreyttur að sitja við tölvuna um 8 leitið í kvöld og glorsoltinn. Allar búðir eru lokaðar á sunnudögum og ég á eitthvað lítið að éta og hef ekkert hreyft mig í allan dag svo ég rauk á stað og niðrí bæ. Það hefur lítið rignt í dag og ekkert seinnipartinn og í kvöld. Þar rakst ég á bar sem ég hef ekki tekið eftir og þar sem enginn kúnni var þar inn fór ég og leit á smárétta-, að ég hélt, -borðið og viti menn, það var fullt af hráum fiski af ótal gerðum og stærðum. M.a. fiskur sem líktist stórlúðu, sneiðar ca. 2 cm á þykkt og náðu báðum megin útaf venjulegum matardisk. Sneiðin var steikt eins og ég steiki fisk yfirleitt, bara í feitinni án nokkurs jammelaðis eins og rasp og/eða hveiti. Með þessu var haugur af grænmeti og brauði. Með þessu drakk ég 2 stór fleytifull glös af Vino Blanco, það eina sem ég er búinn að læra í Spænsklensku og þýðir Hvítvín. Ég varð að vísu að borga fyrir þetta 9 € sem eru ca. 800.- Íkr, en mér er alveg sama, þetta var svo vel útilátið að ÉG varð meira að segja saddur.
Fyrr í þessu bréfi skrökvaði ég að þér lesandi góður, ég hafði víst hreift mig. Ég boraði fyrir og skrúfaði upp króka fyrir snúrur í þvottahúsinu og svo var skipt um þvottavél í dag, sú gamla hafði gengið snurðulaust frá því að húsið var byggt, eitthvað yfir 20 ár! Ég tengdi þá nýju og núna er hún að þvo í fyrsta sinn, föt af mér. Og svo auðvitað slagurinn við Vatnið, ekki má gleyma honum. Þannig að ég hlýt að vera búinn að brenna víninu og matnum, trúi ekki öðru.
Ég lofa ykkur ekki að skrifa svona mikið á hverjum degi eins og ég hef gert undanfarið og ennþá síður að setja svona mikið af myndum inn á vefinn. En ég geri eins og ég get og nenni og má vera að og vil.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com