GunniJak í Danmörku
10.11.03
  Dáinn prentari, stolinn skór, rigning og lýsing á bænum. 10-11-03
Ég hef orðið fyrir tveimur skakkaföllum og tjóni. Fíni 65.000.- prentarinn minn dó á leiðinni hingað. Ég get engum kennt um nema sjálfum mér, það er vitanlega tóm vitleysa að flytja prentara í linri stórri ferðatösku. Það eru margir búnir að henda henni fram og til baka þegar ég fæ hana í hendurnar í Gíbraltar. Og þó ég hafi fyllt búnaðinn inni í honum með sokkum (hreinum) dugði það ekki til og sjálfur prentbúnaðurinn sem þeytist fram og til baka þegar verið er að prenta er úr skorðum genginn. Trúlega er allur prentarinn ónýtur, þarna er um að ræða nákvæmni upp á hundraðasta hluta úr millimeter og þar að auki er þetta lang dýrasti hluti prentarans.
Hitt tjónið var ennþá ergilegra og ég get ekki með nokkru móti kennt mér um það. Þegar ég ætlaði að fara út að labba á föstudagskvöld fann ég ekki nema annan skóinn minn. Sama hvar ég leitaði, hann fannst alls ekki og er ekki fundinn enn. Ég hef hundana sem alltaf eru hér á flakki um að hafa stolið honum. Skórnir voru fyrir innan dyrnar en hurðin opin. Hér eru öll hús opin á kvöldin og útidyrnar opnast yfirleitt beint inn í stofu. Hér er ekkert til sem heitir forstofur. Bara eins og Ullarkofinn!! Skótjónið er margfalt hjá mér vegna þess að inni í þeim eru rándýr innlegg frá Gísla Ferdinandssyni og skórnir eru strigaskór úr leðri. Ég meina, þeir líta út eins og strigaskór en það er notað leður í staðinn fyrir striga. Nú verð ég að kaupa mér nýja skó og prentara, verst að þetta var ekki inni í fjármálaáætluninni hjá mér. Nú get ég ekkert étið það sem eftir er mánaðarins. Poor GunniJak! Ok, allt í lagi, ég veit, ég ætlaði ekkert að éta hvort eð er. Enda er ég í strangri megrun. :-)

Í nótt er leið rigndi eins og hell væri úr fötu. Það kemur mér ekki á óvart, Lúí segir mér að það rigni hér flesta daga yfir veturinn. En hvað er rigning ef það er 15-20 celsíusar með henni og líka að hún skuli detta beint niður úr loftinu í lóðréttu falli en ekki Hórukuntusali (orð sem ég kann ekki að stafa og þýðir lárétt) eins og á gamla góða Fróni. Hvað er þá að rigningu. Lúí var að segja mér að fá mér regnhlíf, ég hélt hún væri að djóka, en vitanlega er það ekki svo vitlaus hugmynd. Hér þarf ég ekki endilega að leika Maríu Poppinsdóttur þó ég fái mér regnhlíf.

Ég fór í mikla ljósmyndaferð um nágrennið í gær. Búinn að fixa þær til og gera netvænar og skýra þær líka. Tilbúnar að fara á netið. Nú er kominn Monndei þannig að símakallarnir hljóta að koma í dag. Að vísu má búast við mikilli þrautagöngu áður en ég er kominn í gott ADSL samband. Þegar línan er komin inn þarf ég að fara til Algericas, sem er stutt frá Gíbraltar og fá þar ADSL tenginguna og þangað verð ég að fara til að láta setja ADSL búnaðinn í tölvuna mína. Ég þarf að labba klukkutíma til að komast á lestarstöðina hérna og svo er ca klst. ferð til Algericas. Hér í Jimena eru engar almenningssamgöngur þrátt fyrir að þetta er 9000 manna svæði. Það er nánast ómögulegt að búa hér án þess að hafa bíl. Bærinn er svo langur og mjór. Öll aðalþjónustan er í hinum enda bæjarins og hæðarmunurinn er eins og mest allir Kambarnir. Nema auðvitað miklu brattara. Ótrúegt svæði til að byggja á. Og það er nóg pláss niðri á láglendinu, ekki vantar það. Ástæðan er sú að með þessu móti var bærinn undir verndarvæng Kastalans.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com