GunniJak í Danmörku
Alltaf að skrifa diska. Rússa-Trölla-Tusku taska ofurþung eins og ég. Farinn að hafa ágyggjur af yfirvikt
.
Ég bjó ekki til nóg af diskum og miðum til að gefa vinum mínum hérna. Bjó til nokkra til viðbótar og miðana og allt. Ansi mikil vinna. Þreif baðherbergið eins og það lagði sig. Og svo var bara að byrja að pakka. Lúí var búin að gefa mér Rússneska ferðatösku, en það eru risastórir pokar úr ofnu plasti, rosalega stórir, rosalega sterkir og rosalega ljótir. Þessi er svipuð og Rússneska Ferðataskan hennar Jane, nema miklu minni og þegar ég skellti í hana fyrsta dótinu rifnaði hún eftir endilöngu. Hún er (var) röndótt í íslensku fánalitunum og það var bara hvíti hlutinn sem rifnaði og við nánari skoðun var hann svona rosalega fúinn. Skrítið? Þá fór ég bara til Jane vinkonu minnar og hún gaf mér Rússann sinn. Ég er búinn að vera að vinna í því í allan dag hvernig ég get verið kominn til Malaga fyrir flug annað kvöld. Malcolm vinur minn niðurfrá fer til Malaga klukkan 10:30 í fyrramálið og það virðist liggja í augum uppi að það einfaldasta hjá mér væri að fara með honum, geyma dótið mitt á flugstöðinni og eyða deginum í Malaga þar til ég þyrfti að fara að bóka mig inn. En það var nú aldeilis ekki hægt, töskurnar mínar, eins og allur annar farangur er fullur af sprengjum og hryðjuverkadóti og þessvegna er búið að loka öllum skápum og geymslum á öllum flugvöllum, busssteisjónum og lestarstöðvum á Spáni. Þannig að ég varð að afþakka þetta góða boð.
Ótrúlegt hvað mikið ég á eftir að gera, ég gerist áhyggjufyllri með hverju kílói að dóti sem ég treð í töskurnar. Ég bifa varla þeirri rússnesku í kvöld. Verður bara að koma í ljós.
Skúra skrúbba bóna. Velkomin í dýragarðinn!! Jane kom með gesti, "systur" sína og Ástralalla. Skoða ísbjörninn.
.
Vaknaði klukkan 5 í morgun og gat ekki sofnað aftur. Skítt. Lagðist á netið og nennti engu. Sofnaði svo klukkan hálf átta og svaf til eitt. Ekki gott í öllu annríkinu. En ég er búinn að vera duglegur í dag, kláraði vegginn fræga endanlega. Skúraði og skrúbbaði, meðal annars skápinn undir vaskinum. Skrúfaði saman hillu sem á að vera þar fyrir sápur og annað. Svo var opinn dýragarður hér í íbúðinni minni í kvöld. Besta vinkona Jane er í heimsókn hjá henni, sú sem ég hitti kvöldið sem Jane bauð okkur Lúí í mat nokkrum dögum eftir að ég kom hér fyrst. Með henni er hér á ferðalagi maður frá Ástralíu og hann langaði þessi ósköp til að sjá Polar Bear. (Ísbjörn). Það loðir við mig þetta nafn sem Lúí gaf mér stuttu eftir að ég kom. Annars langaði hann nú bara að sjá Íslending, þetta er eitthvað sem er svo fjarlægt áströlum. Svo þau komu hingað þrjú saman og ég gaf þeim kaffi og meððí. Þau höfðu öll mikinn áhuga á Íslandi og ég sýndi þeim helling af myndum frá Íslandi á tölvunni. Fyrsta og eina skiptið sem fleiri en einn heimsækir mig hérna. Var að hugsa um að skreppa til Castellar í dag, en í annað skiptið á tveimur dögum hætti ég við það og núna endanlega. Diana og Quico koma til Jimena á morgun og ég hitt þau bara hér. Kannski heimsækja þau mig og kannski fer ég með þeim út að borða.
Rod ekki tilbúinn í stórverkefni. Búið að loka Tölvuskólanum. Aftur. Skáeyg veisla með fröken Lúí Kastel.
.
Aftur er síðasti skóladagurinn í Fótósjoppskólanum í dag. Briony bað Rod að búa til fyrir sig aðgöngumiða að öðrum dinner, ég man ekki hvort ég hef sagt frá því áður, skítt með það. Hann sagði að það væri ekkert mál fyrir sig með nýja tölvu, flottan prentara og Diploma (útskriftarskjal) frá virtum Photoshop skóla. En til öryggis bættum við einum tölvutíma við og þá kom í ljós að hann er ekki alveg tilbúinn í þetta verkefni. Eiginlega bara rosalega langt frá því. Kannski næsta vor en ekki núna. Svo við fórum bara í upprifjun og hann er orðinn býsna klár í því sem við höfum á annað borð farið í. Þau Lis flytja í Stúdíóið í dag og verða til hausts. Þetta eru 5 herbergi og eldhús og bað svo það væsir ekki um þau, en skelfilega hrátt og eitthvað kuldalegt. En þau eru eins og Smári og Nína, ástin er enn jafn heit eftir 20 ár. Þau eru búin að leigja húsið helling í sumar, líklega bara af því hvað það eru flottar myndir af því á netinu!! Sælir eru hógværir því þeir geta klórað sér gegnum götin. Ég bauð Lúí út að borða í kvöld á Kínverska staðinn sem ég borðaði á á afmælinu mínu. Það hefur staðið til allan tímann sem ég hef verið hér og núna var að duga eða drepast. Ótrúlega góður matur eins og alltaf hjá þeim skáeygu. Komum heim klukkan hálf tólf en fórum klukkan níu. Passlegur tími til að éta á kínverskum stað.
Sprækur eins og lækur. Miða miðana við viðmiðun annarra miða miðara og má þá vel við miða.
.
Ekki fann ég fyrir slappleika í dag frekar en ég hefði verið á Vogi í allt gærkvöld. Er búinn að vera í allan dag að búa til diskaumslög á alla diskana sem ég gaf fólkinu í gærkvöldi. Mér tókst aðeins að sýna þeim sýnishorn af þeim og svo tókst mér um 2 leitið í nótt að búa til síðasta umslagið og líma síðasta miðann á diskana. Þetta eru um 100 miðar í allt og ég er búinn að tæma heilt sett af bleki úr stóra prentaranum mínum. Gott að hafann þegar hann er í lagi og ekkert sauðfé að angra hann. Ótrúlegt hvað þessir gemlingar geta verið óþægir og erfiðir. Það vita þeir sem hafa þurft að gegna þeim. Ég skrapp í bæinn í kvöld og keypti mér 20 diska í hylkjum í viðbót við það sem ég átti og kom aðeins við að bankahornspöbbnum í leiðinni. Allir eitthvað luntalegir í dag, meira að segja kaupmaðurinn minn sagði ekki orð við mig í dag. En það er allt í lagi, ég er hress eins og fress og læt enga og ekkert angra mig. Er að skrifa þetta klukkan fjögur að nóttu, ég hef rosalega mikið að gera á morgun og á föstudaginn vegna þess að ég flýg frá Malaga á laugardagskvöld klukkan hálf tíu. Ótrúlegur brottfarartími. Ég var svo heppinn í gærkvöld að Malcolm vinur minn er einmitt að fara til Malaga á laugardaginn um hádegið og þá hef ég allan daginn til að dandalast um Malaga. Ætla að skilja töskurnar eftir á flugvellinum og fara laus og liðugur í bæinn.
Kveðjupartý. Stórveisla fyrir GunnaJak. Tveggja tíma ræða. Kjúlli. Tár.
.
Vakna seint og er þungur á lappir. Rosalega stressaður yfir gjöfunum til gestanna í kvöld. Mér tekst samt að skrifa alla diskana, 21 að tölu. Gerði soldið í dag sem ég hef ekki gert nema einu sinni áður, bað Lúí að lána mér bílinn sinn. Ég þurfti að skreppa í bankann til að búa til peninga og svo í stórmarkaðinn. Tafðist uppi því Tom var þar. Þurftum margt að spjalla. Ég bauð honum í partíið. Ég mætti svo fyrstur manna klukkan hálf sjö til að hjálpa Jane að lengja borðstofuborðið svo það tæki alla gestina. Hún var ekki alveg viss um hvenær hún hafði boðað hvern, suma 7 og aðra átta.
Fyrst kom Lúí, en hún kom beint frá lækninum sem kippti af henni nöglinni á fingrinum sem borgarstjórinn beit í um daginn og ég er búinn að segja ykkur frá. Hún þurfti sko sannarlega einn sterkan til að deyfa sig niður. Aumingja Lúí, þessi putti er búinn að kvelja hana mikið. Svo fóru gestirnir að tínast inn einn af öðrum og klukkan níu var sest til borðs. Ég þarf nú varla að taka það fram að það var fljótandi vín allan tímann sem partíið stóð, mest taldi ég 7 sortir í einu á borðinu. Allt frá bjórgutli til fínasta koníaks. Ég var nú svo kærulaus að ég flakkaði bara milli tegunda og komst upp með það heilsulega séð. Fyrst var súpa, rosalega krydduð og sterk, en líka önnur sem mér fannst nú hálfgert skolp miðað við þá sterku. Og hún var full af allskonar góðgæti sem ég kann engin skil á, rautt, grænt og blátt. Þær eru rosalega súpurnar hennar Jane. Ég prófaði að blása á kerti og það gaus bara upp blár logi!!!
Svo var heilgrillaður kjúklingur með þvílíku af meðlæti að ég hef bara ekki séð annað eins. Lúí kom með sumt af því og þvílíkt sælgæti allt saman! Aumingja GunniJak lagði ekki af í dag, því miður. Svo var bara setið við borðið fram eftir nóttu og rabbað um daginn og veginn. Og drukkið maður lifandi. Hvað þeir torga útlendingarnir á Spáni!! Því miður var enginn innfæddur þarna, bara aðfluttir Spánverjar, sumir reyndar búnir að eiga hér heima upp undir 30 ár, en útlendingar samt. Svo týndist fólkið heim í smá slumpum og ég er ekki frá því að það hafi fallið tár á kinn í tveimur tilfellum þegar ég var kvaddur. Mér hefur aldrei á ævinni liðið eins og þarna, það er eitthvað við það þegar maður finnur að manns er saknað. Já vel á minnst, yfir borðhaldinu barði ég af alefli með gafflinum í glasið til að halda ræðu. Ég byrjaði á því að segja þeim að ég væri búinn að bíða eftir því í allt kvöld að ég væri beðinn um að halda ræðu. Í öllum bíómyndum þar sem væri verið að gera einhverjum sérstökum til hæfis tækju allir sig saman og kölluðu í kór: Ræðu Ræðu Ræðu!!! Sagði að mér fyndist ég smáður og fyrirlitinn vegna þess að þetta hefði ekki verið gert hér. Og það stóð ekki á því, allir kölluðu í kór: Ræðu! Og ekki stóð á því. Verst að ég fékk ekki nógu gott hljóð, það þurfti að gera athugasemdir við hverja mína setningu, ef ekki um innihaldið þá um Réttenskuna. Ég hætti nú samt ekki fyrr en allir höfðu fengið smá skítkast frá mér, en ekkert skítlegt samt. Ég sé það á næstu jólum hverjir senda mér jólakort. Fólk gerði gott orð að ræðunni til að byrja með, en ég hafði alls ekkert hljóð eftir seinni klukkutímann. Er búinn að brjóta um það heilann í allan dag hversvegna allir voru hættir að hlust. Og Jane var búin að taka af mér glasið og hnífinn og aðra hluti sem hægt var að berja og berja með. Skítt með það, það var rosalega gaman í kvöld og éxg erb ekkerbts flluuulluir áðð r´´aráðði, eeððða þaþaþnnannanig,,,,,
Kunna ekki á klukku. Jane í stuði. Með guði. Minnist ekki oftar á pöbb.
.
Hangir að mestu þurr í dag. Ég herti mig upp um eitt leitið til að fara í búðina. Leit til Jane fyrst. Ég dinglaði bjöllunni og hún kom til dyra og tók sig upp gamalt bros, en ekki hjá mér vegna þess að ég sá yfir öxlina á henn að klukkan var nákvæmlega tvö! Ég spurði hana hvað hefði komið fyrir klukkuna hennar, heldurðu að spánverjarnir, eins og flesti Evrópubúar hafi flýtt klukkunni í nótt!! Ég rauk í burtu með það sama og rétt náði í búðina, við Prúdi eigum semsé ekkert til að éta. Og hann engar evrur svo við rétt björguðum lífi okkar. Svo labbaði ég aftur til Jane og við vorum svo að skipuleggja partíið næsta klukkutímann. Svo fór ég bara heim aftur, með smá viðkomu á vissum stað sem þið verðið bara að giska á, ég er orðinn svo þreyttur á að vera alltaf að tala um þessa pöbba, hvað þá þið
Innilokunarkennd. Kúk og piss. Prentari til að prenta á þerripappír og eldhússrúllur. 2.800 myndir.
.
Fór BÓKSTAFLEGA ekkert út úr húsi í dag. Það er búin að vera ausandi rigning undanfarna 2-3 daga og ekki hundi út sigandi í dag. Ég henti Prúdencio samt út og skipaði honum að gera númer 1 og númer 2 (Kúka og pissa) til að hann gerði það ekki inni hjá mér. Ekki af gefnu tilefni, það hafa aldrei orðið slys hjá honum í mínum húsum. En hann er rosalega ragur að fara út í rigningu og það þarf að gefa honum drag í rassinn þegar hann stingur nefinu útfyrir og ætlar inn aftur. Ég var í allan dag að setja myndirnar inn á diskinn og skrifa hann loks í kvöld í nokkrum eintökum. 2.800 myndir takk!! Það ætti að vita eitthvað um Ísland þetta lið þegar það hefur skoðað þær allar. Svo bjó ég til rosalega flott á miðann á diskana, myndir og texta. En þegar ég ætlaði að fara að prenta þetta út kom babb í bátinn. Fíni dýri prentarinn minn er of fínn og dýr til að prenta á svona drasl eins og diskamiða, prentunin varð eins og verið væri að prenta á klósettpappír dró blekið út í eitt og árangurinn var einhverjar móðuklessur. Fjandinn. Neyðist til að fresta því að prenta á miðana, fæ að prófa að prenta þetta á Rods prentara.