GunniJak í Danmörku
Móki, mók, mókum, mókið. Lasleikar. Veikindi
.
.
Ég ligg í hálfgerðu móki í allan dag, líður svosem ekkert rosalega illa, þó nóg til að vorkenna sjálfum mér rosalega. Það eru allir lasnir á heimilinu nema húsbóndinn, það virðist ekkert bíta á hann, 7-9-13. AK kastaði nokkrum sinnum upp í nótt og mamma hans sá fram á að þurfa að vera með hann heima, en þetta er sérstaklega erfitt fyrir hana þar sem hún er nýbyrjuð í nýrri vinnu. Hún hringdi í dagmömmuna og hún sagði henni bara að koma með guttann, það væru allir meira og minna lasnir hjá henni og munaði ekkert um einn lasarus í viðbót. Svo Heiðrún komst í vinnuna. Svo þegar hún sótti hann hafði hann verið eldhress allan daginn. Nagli, aftur og enn.
ÁK heima, enda bæði grá og guggin. Við vælum svo og vorkennum hvort öðru í allan dag. Aumingja ...................o.sv.frv!!!
Uppgangur og Niðurköst. Ógeð.
.
.
Mæðgurnar heilt veikar í dag. Uppgangur og niðurköst. Ábyggilega sama pestin og AF hefur verið með á Leikskólanum. Sjálfur er ég rosalega slappur og finn það að ég er að verða lasinn líka. Læt mig samt hafa það að smíða smávegis í hesthúsinu en gefst fljótlega upp og legg mig með lengsta móti. Bjarki eldar ljúffengan mat í kvöld, en ég segi honum að trúlega muni ég forsmá hann, þó síðar verði. Og það stóð heima, um kl. 22:00 kemur gusan, ég rétt kemst fram á klósett. Hélt ég væri bara að heilt drepast. En, undarlegt nokk, það kom bara einu sinni upp og kalla ég það vel sloppið. En ég er að drepasta í alla nótt í magaverkjum og niðurgangi. Hellsógeð.
Álaborg. Dr. Saxi jákvæður. GunniJak slappur. Beint heim. Handbolti hjá HeimaSætunni.
.
.
Fór aleinn til Álaborgar í morgun! Svindlaði aðeins og keyrði ÁK og hjólið hennar í skólann. Enda var hún hóstandi og aum í morgun. Rigningarslabb og rok. Fór svo beint til Álaborgar. Villtiist ekki nema einu sinni, lenti í undirgöngum undir sundið í staðinn fyrir að fara yfir brúna. Sá hana tilsýndar og fór upp á gðtuna frá brúnni og þá rataði ég á bílastæðið hennar Heiðrúnar. Ég átti ekki að mæta fyrr en klukkan hálf eitt en var kominn í bæinn klukkan 10:30. Fór inn á Túristamiðstöðina í borginni og keypti mér bók um öll helstu hjólhýsasvæði Evrópu. Fór inn á kaffihús og dundaði við bókina og skoðaði mannlífið. Rosalega eitthvað syfjaður og illa fyrirkallaður. Fór svo hálftíma fyrir tímann til doksa og hann hreinsaði upp hlustina og sagði mér að koma aftur eftir viku og halda áfram að setja dropana í eyrað. Mér er farið að líða miklu betur í eyranu og vonandi fer þetta að batna.
Ég var búinn að hlakka til að eiga dag í Álaborg, aleinn og ótruflaður. En ég var bara alls ekki í stuði í dag og keyrði beint heim aftur. Kom ekki einu sinni við hjá Magga frænda og er þá mikið sagt. ÁK var heima þegar ég kom og allt í einu klukkan tíu mínútur fyrir fjögur rekur hún upp skræk, það er handboltamót í dag!! Átti að mæta kl. hálf fjögur. Ég brenni í ofboði með hana upp í íþróttahús. Ég var ekki í stuði til að fara með henni inn, eitthvað meira en lítið slappur, en ekki veikur. Legg mig til fimm, en þá skrepp ég eftir henni. Þeim gekk miklu betur núna gegn FerjuSlefsStelpunum, 5-4 fyrir hinar.
Hittinn. Grillaður GunniJak. Lasleikar.
.
.
Afmæli Kötu, SvönuBjarkar og Kristínar Bjargar í dag. Ekkert við því að gera. Hittinn hann bróðir minn. Ég klára að gera við grillið á Fíat traktornum í dag. Það er að segja, ég hætti í hálfnuðu verki vegna þess að kannski borgar heimilistryggingin hans Bjarka skaðann. Það hangir samt prýðilega saman orðið og ég spreyja það og fer með það og skelli því á traktorinn. Passar illa, enda stykkið kringum það illa farið líka.
Ég að smíða milligerðir. Heiðrún fer í KikkBox en ÁK treystir sér ekki. Hún er svipuð og í gær. AF er búinn að vera hálf lasinn í dag hjá Dagmömmunni, sem og hin börnin. Harkar bara af sér, enda algjör nagli. 6 tomma.
Kalt. Týndur. Gleymdur. Grafinn. Líður vel með það.
.
.
Mest lítið að frétta í dag. Kominn kuldaþræsingur, ég held ég fari að síga suður á bóginn fljótlega. Ég sá farfugla hópa sig í dag og fljúga oddaflug. Það merkir ekki nema eitt, orðið of kalt fyrir GunnaGreyiðJak.
Ég fæ engin meil, engin bréf, engin símtöl og eingar heimsóknir frá Íslandi. Bara gleymdur og týndur í útlöndum GunniJak. Annars eru þetta engin útlönd, ef ekki væru trén þá er þetta bara eins og að vera í ókunnri sveit á íslandi þar sem fólk bara bullar. Annars alveg eins. Munurinn hér og á Spáni er þó sá að hér tala ég ekkert nema íslensku, en enga á Spáni.
Lauk Staur. Smíða.
.
.
Vakna kl. 05.00 til að keyra Bjarka til LaukStaur. Hann var ekki á vinnubílnum um helgina og ég skutla honum til að hann geti komið heim á vinnubílnum eftir vinnu. Kom aðeins við í búð á leiðinni heim. ÁK var að vakna þegar ég kom heim.
Smíða milligerðir í allan dag með mínum venjulegu hvíldum og pásum. ÁK eitthvað lumpin í dag, fór þó í skólann og fer skánandi með kvöldinu. Við skreppum til kaupmannsins á horninu og kaupum með kaffinu.
Hansthólm, engin Norræna. Fallbyssuhreiður, en engin egg í því. Skranbúð og skemmtigarður.
.
.
Heim komu sumir um síðir í nótt, eiturhressir að vanda. Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. Mikið væri nú heimurinn öðruvísi og betri ef vímuefni (Áfengi Tóbak Dóp Kaffi, nei annars, kaffið passar ekki hér þó svo að frúin sé ekki enn búin að læra að drekka það) væru notuð í svipuðum mæli og hér á bæ. Inklút GunniJak. (InnKlútur, enska og þýðir: að meðtöldum höfðingjanum.....) Ég er farinn að hlakka til að hella mér í stjórnlausa drykkju á Spáni eins og í fyrravetur. Verst að það fellur ekki vel að ferðamátanum sem ég er búinn að velja mér. Eins og segir í fallega versinu: "Eftir einn ei aki neinn/Taktu tvo og keyrðu svo". Kannski sný ég bara dæminu við og fer að drekka á sumrin og vera í afvötnun á veturna. Nei andskotinn, það er svo hrikalega dýrt, verð að bæta núlli aftan við hverja upphæð miðað við Spán. Og svo eru jafn lélegir drykkjusiðir í Lágafelli og hér. Sem og önnur eiturefnanotkun.
Af tillitssemi við skemmtanafríkin bauð ég krökkunum í bíltúr eftir hádegi. Við ákváðum að fara til Hanstholm, en þar leggur ferjan Norræna að. Hún var að vísu á ferðinni í gærmorgun, enda var erindið ekki að skoða hana. Aftur á móti sáum við ferju sem tvær Norrænur hefði getað verið innaní án þess að reka sig í. En ferðalagið byrjaði á því að við keyrðum sem leið lá vestur Jótland og komum þar að sem fenjaflói mikill teygir sig inn í landið. Þar yfir hefur verið gerð gríðarleg landfylling undir veg. Og fyrir innan landfyllinguna hafa skapast óvenjulega góð skilyrði fyrir líflegt fuglalíf. Á miðri leiðinni yfir flóann er búið að koma upp sérdeilis skemmtilegri aðstöðu fyrir fuglaskoðara. Þarna eru tvö hús með stráþökum, í öðru eru sýningarskápar með uppstoppuðum fuglum af svæðinu, mikill fróðleikur á veggspjöldum og svo seinast en ekki sýst, þá er vídeóvél sem snýr útá fuglasvæðið og hún sýnir fuglalífið "læf" eða á rauntíma á risaskjá. Myndavélinni er svo hægt að stjórna með fjarstýringu og súmma að og frá. Til dæmis er hægt að fylgja sama fuglinum fram og til baka og súmma inn í augasteinana á honum. Í hinu húsinu, en það stendur hinu megin við breitt sýki sem er innan við alla uppfyllinguna og brú á milli, eru kíkirar til afnota fyrir gesti. Hægt er að opna alla gluggana sem snúa út á fuglasvæðið og skoða að vild. Svo er þar einn risakíkir sem súmmar í kornið í auganu á fulglinum úti á mýrinni. Mýri já, mér fannst ósköp lítið til þessara fugla koma, nokkru kvikindi sem syntu, flugu og bardúsuðu eins og fuglar gera í milljóna tali um allan heim, líka heima á Íslandi. Ég hef aldrei getað litið á fugla sem einhver skrítin fyrirbrygði heldur bara venjulegan hluta af umhverfinu. Nær væri að búa til svona útsýnishús við endann á einhverri göngugötunni eða torginu og súmma á mannfólkið. Þar sæum við mun undarlegri, skrýtnari, athyglisverðari og því miður stundum ónáttúrulegri hluti en í einhverri ómerkilegri mýri. Allavega er ég búinn með lífstíðarskammtinn minn af því að horfa út á einhverjar mýrar.
Næst stoppuðum við í Hagkaup við veginn og keyptum okkur efni í PikkNikk, man ekki í augnablikinu íslenska orðið. Stoppuðum svo næst rétt áður en við komum til HanstHólm, uppi á höfðanum fyrir ofan bæinn. Eða öldunni réttara sagt, varla hægt að tala um höfða. Þar eru rústir af undirstöðu undan riiiiiiiiiiiiisastórri fallbyssu úr seinna stríði sem Þjóðverjar settu þarna upp. Ég er alveg að fara að skella myndunum frá þessu mannvirki inn á Fotki og þá er sjón sögu ríkari. En mannvirkið er alveg ótrúlega stórt. Því miður er löngu búið að bræða byssuna í einhverja þarfari hluti en einhver vopn og stendur bara grunnurinn eftir. Þarna eru borð til að næra sig við og gerðum við það óspart, enda allir orðnir svangir. Svo löbbuðum við drjúgan spotta að leiksvæði sem er rétt við risavaxið neðanjarðarbyrgi sem ég held að sé undir öðru fallbyssustæði. Byrgið var opið, en lítið hægt að skoða það vegna myrkurs. Þarna rétt hjá er sannkölluð leikjaparadís og flest leiktækin úr efni beint úr skóginum sem er allt um kring. Þarna skemmtum við okkur heillengi, eða þangað til þolinmæði GunnaJak þraut endanlega. Samt voru feðgarnir (uppi) búinir að fylla tvisvar á (þolinmæði) kortið. Dugði ekkert þó ég segði að það væri að koma rigning, "Róla meira, Renna meira, Vega meira" og svo framvegis. Loks fórum við á stað og það passaði, gerði ekki hellidembu með þrumum, en ekki eldingum. Við urðum alveg hundblaut og gat ég ekki annað en hlegið að aumingja Arnari mínum ljúflingnum, hárið klesst niður að augum og svo rann niður andlitið á honum. En það var mjög hlýtt, ca. 18 gráður svo þetta kom ekki að neinni sök. ÁK bara hristi sig, enda er eins og að stökkva vatni á gæs þó hún lendi í rigningu. Þarna tæmdist myndavélin og ekki eru til myndir frá aðal viðkomustaðnum, Hansthólm. Enda kom það ekki að sök, við fórum ekkert út úr bílnum þar. Keyrði bara einn bryggjurúnt og búið.
Á heimleiðinni stoppuðum við í risastórri Antik-Rusla-Skranbúð við veginn uppi í sveit. Við ÁK gátum ekki stillt okkur um að líta inn, enda hafði hún komið þarna áður. AF sofandi í stólnum sínum svo við skelltum okkur inn. Og þvílíkt dót til sölu maður!! Og ýkjulaust, þetta hafa verið að minnsta kosti 400 fermetrar á tveimur hæðum í eldgömlu húsi. Og hillur frá gólfi til lofts og þröngir ranghalar á milli. Það eru engin takmörk fyrir því hvað þarna var að finna gamalt og nýtt. Aðeins í líkingu við smádótahlutann af Góða Hirðinum, en bara miklu stærra. Munurinn á þessum tveimur stöðum er þó aðallega verðmunur, og aldrei þessu vant var munurinn Íslandi í hag! Dótið var nefnilega rándýrt upp til hópa. Og fljóta eigendurnir á því að þetta sé AntikBúð og antik sé dýrt. Ég keypti mér stóra kaffi/te drykkjarkönnu á 20 dk, hefði kostað 50 kall í GH. Það var komið fram undir kvöoldmat þegar við komum heim, allir sælir og glaðir með túrinn.