GunniJak í Danmörku
Myrði Telefóniku einn daginn. Hægt. Pöbbar og aftur pöbbar og enn pöbbbar.
.
Helvítið hún TeleFóníka er búin að loka símanum hjá mér og þar með netaðganginum. Ég hélt ég slyppi í nokkra daga í viðbót, en ég á von á gommu að peningum upp úr miðjum mánuði. Spanjólarnir eru á eftir okkur á þessu sviði eins og flestum öðrum, nú má ekki loka fyrir símann hjá okkur á Klakanum nema eftir vissa rútínu og aðvaranir. En hér fær maður bara tólið í nasirnar þegar sjálfgefinn frestur frökenarinnar er útrunninn. Ég fór með tölvuna mína heim til Jane til að skoða póstinn minn og það var svosem eins og vanalega, ekkert nema Víagra og tippalengingar. Maður væri ekki kominn með neinn smáræðis hnall ef maður notaði öll þessi tækið og tól og allt meðalasullið sem til boða stendur. Ég ætla að ræða við Símann þegar ég kem heim og gera eitthvað í þessu ruslpóstsmáli. Þetta er ekki hægt að líða. Við Jane tókum nokkurra klukkutíma kjaftatörn eins og vanalega á meðan við úðuðum í okkur kaffi og bakkelsi úti á svölum. Það var skrautlegt veðrið í dag, það rigndi í glaða sólskini! En það var svo hlýtt að það gerði ekkert til. Og þetta var svona Írsk rigning, logn og bara smá ýringur. Hún ætlar að fara til USA nokkrum dögum eftir að ég fer heim, sem betur fer ekki áður en ég fer. Það eru hálf ónýtir dagar sem ég ekki hitti Jane mína. Skrapp á pöbb á leiðinni heim og fékk mér Tapas og tvo bjóra. Hef ekki komið inn á þennan pöbb áður, samt er hann í næstu götu, en það er alls engin merki um að þarna sé einhver starfsemi, það eru ekki einu sinni staflar af bjórkössum á stéttinni eins og yfirleitt er við pöbbana. Maður skildi halda að það sé mjög þröngur hópur sem stundar þessa ómerktu pöbba. Þarna inni var samt mjög flott, borðin voru stórar vínámur og allskonar kúreka dót upp um alla veggi. Ég er enn ekki farinn að heimsækja hverfispöbbinn minn, leit þar inn í dag, þetta er skelfilegur staður. Mikið yrði ég að vera orðinn skrítinn í kollinum til að fara þar inn. Það er alls ekkert þarna inni nema slétt flísalögð gólf og hvítkalkaðir veggir. Jú, kannski 2 eða 3 borð. Svo standa þarna inni 10 til 30 kallar og kjafta og garga hver í kapp við annan og virðist eini tilgangur þeirra vera að hafa sem hæst. Þegar ég kom heim fór ég í bókhaldið og setti inn í möppu alla merkilega pappíra en hinum henti ég. Svo bjó ég til og límdi á 25 diska miða með innihaldslýsingu. Svona er að vera laus við þetta fjandans net, það er lítið skárra en sjónvarpið, tekur frá manni allan tímann sem maður myndi annars nota til þarfari hluta. Kannski.
Digital skuggar á S10. Sokkar. 12 stykki. Eldiviðarskýlið endalausa.
.
Vaknaði klukkan sex og gat ekki sofnað aftur. Dreif mig fram úr og fór að laga myndir til að setja inn á netið. Myndavélin mín er biluð, það verða allar útimyndir bláleitar og ég get með engu móti stillt hana þannig að þetta sé í lagi. Vélin hefur verið í ólagi alla tíð síðan hún datt í fjóshauginn, ef svo má að orði komast, þó það hafi raunverulega ekki gerst þannig. Það er dökkur skuggi á miðjum myndunum og ef ég er að taka myndir af einhverju ljósu, til dæmis himninum, þá verð ég að lita himininn þar sem skugginn er. Raunar eru skuggarnir þrír, en það er afar sjaldgæft að þeir komi alli fram. Svo er biluð í henni minnisrafhlaðan þannig að hún gleymir hvernig hún var stillt þegar ég slekk á henni og þá verð ég að stilla hana upp á nýtt. Það er ný rafhlaða í henni, en það er eitthvað annað að. Það hæfir svosem skel kjafti og haltur styður blindan!! Fór í bæinn um 10 leitið og kíkti á útimarkaðinn. Verslaði ekkert nema 12 sokka á 3 evrur. Ekki mjög dýrt!! ca. 40 kall parið, eða 20 kall stikkið. Svo fór ég í bankann minn og náði í 35 dollarana sem ég ætla að bjarga mér fyrir horn með í síðustu skömmum mínum hjá Ebæ vini mínum. Nú er ég að bíða eftir 3 pökkum: Myndavélinni sem ég ætlaði að bjóða 4.600.- evrurnar í, Rafhlöðu í fartölvuna og pennamyndavél og svo bleki í nýja prentarann. Það kom blekið í gamla prentarann í dag og ég prófaði að prenta hágæða mynd og ég sé ekki betur en að hann sé í fullkomnu lagi. Ég ætla að biðja Rod Riverman að "geyma" fyrir mig nýja prentarann og skannann á meðan ég skrepp til Íslands. Ef honum líkar við tækin kaupir hann þau kannski af mér.
Ég tók törn á gólfinu í eldiviðarskýlinu í kvöld, mokaði gommu af mold upp úr gólfinu, en hana vantaði fyrir innan nýja vegginn, og svo setti ég sand í gólfið og hleðslusteina ofan á sandinn. Steypti niður fremstu röðina sem myndar efstu tröppuna upp í skýlið. Nú vantar mig bara nokkra hleðslusteina í viðbót til að klára.
Skeyta saman Portúgal og Andalúsíu. Própertíið er himnaríki á jörð
11-03-04
.
Tom vinur minn sem er að byggja sundlaugina hérna fyrir ofan var að steypa í dag og ég notaði tækifærið til að snýkja steypu í nokkrar fötur og notaði hana í kringum steina sem ég hlóð úr tröppu upp í eldiviðarskýlið. Þetta er allt að taka á sig mynd hjá mér, klára kannski fyrir páska!! Ekki veit ég hvað ég var í marga klukkutíma að bæta Portúgal við Andalúsíu en það tókst að lokum. Ég á nokkuð góða kortabók af Portúgal og ég notaði hana í ferðalaginu. Hún er í svipaðri upplausn og kortið, en ég varð að fixa stærðina á því og snúa því svo það passaði. Þetta verkefni var tölvunni raunverulega ofviða, en með því að restarta henni nokkrum sinnum til að endunýja innra minnið tókst mér að gera kortið gott að lokum.
Ég tók nokkrar bumbumyndir í dag. Vinkona Diönu í Própertíinu frá Þýskalandi er, ásamt litlum gutta með sér og öðrum innan í sér í heimsókn hjá þeim. Þau voru í Própertíinu í dag og ég lét loksins verða af því að mynda allt svæðið. Hef ætlað mér það frá því ég kom. Þessum myndum ætla ég að skella inn á netið sem fyrst, áður en sú þýska fer aftur heim. Mér samdist svo um að læsa myndunum af fólkinu til að allur heimurinn sé ekki að snudda í þeirra einkalífi og einkabörnum, en ég skal láta ykkur vita passwordið þegar þar að kemur. Kannski hef ég landslagamyndirnar úr Própertíinu opnar, þær sýna svo vel hverslags himnaríki þessi staður er.
Heimsmet í klaufaskap á eBay. Skanna kort
10-03-04
.
Svaf fram að hádegi, var svolítið lerkaður eftir undanfarna daga, en skrokkurinn samt alveg í lagi. Fór til Jane og tók bílinn vegna þess að skottið var fullt af dóti frá mér og ég var of þreyttur í gærkvöldi til þess að taka það þá. Notaði síðasta sénsinn og skrapp í Stórmarkaðinn og í bankann. Mig vantar 35 dollara til að ljúka seinasta klaufaskapar vandamálinu mínu á eBay. Er búinn að eiga í basli með Eforcity frá því ég byrjaði að versla á eBay og eftir margra mánaða japl og jaml og fuður buðu þeir mér að ljúka málinu með því að ég sendi þeim 35$. Ég fór í bankann minn og rétti fram hendina eftir þessu fé, en því miður, við eigum enga dollara. Bara evrur, en nóg af þeim. Ég varð semsé að leggja inn formlega og skriflega beiðni um þessi gífurlegu viðskipti, sem mér fannst á starfsfólkinu að væri bæði að sliga það og bankann. Má vitja þeirra á föstudaginn, þá verður búið að senda dollarana í brynvörðum bíl til Jimena de la Frontera.
Nú er aldeilis handleggur framundan hjá mér að koma öllum myndunum inn á Fotka vin minn. Ég skannaði Andalúsíu inn á tölvuna hjá mér í dag, þurfti að skanna 15 sinnum, kortið er svo stórt að flatarmáli. Á minna kort en tími ekki að missa gæðin, á stóra kortinu eru miklu fleiri vegir og staðir merktir inn og þar sem ég fór mest eftir sveitavegum í ferðalögunum mínum þá hef ég þá alla á stóra kortinu.
Mikið ferðast, en er að ljúka. 2500 km. 60 evrur eldsneyti!!! Rændur
.
Vaknaði ekki fyrr en klukkan 11:00 í morgun þó ég hafi farið að sofa um miðnætti. Ja, vaknaði og vaknaði, auðvitað var ég búinn að vakna hundrað sinnum og sofna jafn oft, en það er ekkert nýtt hjá mér, ég vakna í hvert skipti sem ég sný mér og svo vekja hroturnar í mér stundum sjálfan mig. Eða köfnunartilfinningin sem þeim fylgja. Ok. Rétt náði að skila lyklinum í afgreiðsluna fyrir 12:00. Ég hafði ekki hugmynd í hvaða átt ég ætti að fara til að finna bílinn minn aftur. Rambaði þó á það að sjá kirkjuna langt að og út frá henni fann ég bílinn. Og getið þið ýmindað ykku hvað kostaði að geyma Setta yfir nótt? Frá miðnætti til hádegis? 12 evrur, andskotinn, mér finnst ég hafa verið rændur. Evru á klukkutímann og það yfir nótt!! Það kostar eina eftru klukkutíminn á NetKaffi! Og ég er viss um að ég gæti fundið portkonu í Algeciras sem ekki tæki nema eina evru á klukkutímann, yfir nótt! Ég rauk út á bílnum og horfði svo hvorki til hægri né vinstri þegar ég yfirgaf borgina. Við Lúí ætlum að fara með lest til Ronda einhvern daginn og þá ætla ég að skoða brúna og aðra merkilega staði eftir því sem dagurinn endist. Ég kaus að taka veg númer, 366, en hann liggur um fjöll og dali frá Ronda til Malaga. Og eins og oft áður er hann miklu seinfærari en aðal vegurinn, en að sama skapi skemmtilegri. Og eins og vanalega gekk mér ekki sem best að finna veginn út úr bænum. Hann var á milli tveggja aðal vega og ég missti af honum vegna þess að ég var á vitlausri akrein, en gat snúið við og komist á rétt ról. Meira annað kvöld.
Jæja elskurnar mínar! Núna er klukkan tólf að staðartíma 9. mars í Jimena de la Frontera á Spáni og ég er nýlega kominn heim frá Malaga frá því að sækja frú Jane. Og þar með er lokið 12 daga leigu minni á Setta. Þetta er búinn að vera ótrúlegur tími, skemmtun allan daginn alla daga. Ég er búinn að taka ca 500 myndir. Eknir ca. 2.500 kílómetrar, eytt ca. 65 evrum í eldsneyti og gist 4 nætur á gistiheimilum. Ég mun aldrei oftar taka svona törn á nýjum bíl og svona stíft ferðalag. Raunverulega er þetta alls ekki minn stíll, mér finnst leiðinlegt að keyra en gaman að ferðast. Ég bara gat ekki hamið mig, það var alltaf eitthvað nýtt að sjá og ég vissi að þetta var eina tækifærið mitt á þessum "vetri" til að skoða mig um. Næsta vetur ætla ég að vera á húsbíl og þá væri ég að minnsta kosti tvo, þrjá mánuði að skoða það sem ég er búinn að fara yfir þessa 12 daga. Mér finnst ég hafa lent í ótrúlega fáum "Týpical GunnaJökkurum", það skilja þetta allir sem þekkja mig vel og hinum get ég sagt það að ég væri frábær til að gera úttekt á flestum lögmálum Mörfís. Kann ekki að skrifa'ða. Ég er rosalega þreyttur núna enda búinn að vera að frá kl. 11 í morgun og eiginlega ekki stoppað mínútu. Ég ÆTLA að vera rosalega duglegur að koma ferðalaginu inn í dagbókina næstu daga, en það er mikið að gera hjá mér, búinn að lofa mér á þrjá staði næstu daga og ekki nema þrjár vikur til stefnu. En ég geri hvað ég get. Já vel á minnst, ég ætla að svindla á dagsetningum á þessum dögum þannig að þeir verði efstir í nokkra daga þó aðrar nýrri færslur verði komnar. Þetta skýrist, en þið þurfið ekki að leita að ferðalags dögunum annarsstaðar en efst.