GunniJak í Danmörku
21.11.03
  Konunglegur Kjúklingarass, bankamaður, matar(ó)menning og hundur í tjóni. 21-11-03

Ég skrapp í bæinn upp úr hádegi og fór á útimarkaðinn. Ég hef undanfarið gengið í eldrauðri flíspeysu merkti Reykjagarði. Ég hef sagt öllum að þetta merki (Púturassinn) sé konunglegt Royality from Iceland, og allir trúa því. Einhverntíman vogaði frú Lúí sér að segja að ef ég ætlaði að falla inn í mannlífið í Jimena væri þessi flík kannski ekki mjög vel fallin til þess. Ég sagðist ekki hlusta á svona bull, annar hver maður í Jimena væri í Reykjagarðsflíspeysu. Svo fór ég nú að athuga þetta betur og ég verð víst að viðurkenna að ég fann engan annan þegar til kom. Svo í gær segir hún mér að hún hafi farið inn í banka og þar hafi verið tvær rosknar konur, önnu frá Þýskalandi en hin Sviss. Og þær hafi verið svo dónalegar og háværar að hún skammaðist sín fyrir að vera af sama kyni og þær. "Og þær voru báðar í svona skærrauðum físpeysum eins og þú, týpical (Dæmigert). Svo fór hún að tala um veðrið. Nema hvað, ég fór í þeirri rauðu á markaðinn en fór með hana heim í poka. Byrjaði strax að nota 9 € (810.- Ikr) blússuna mína. Hún er rosalega flott, svona dökkbeissanseruðútígrátt með fullt af vösum og hægt að nota hana báðum megin. Þegar hún er orðin svo skítug öðrumegin að hún festist við vegg ef ég hendi henni í hann þá er bara að snúa henni við og byrja hreinlætið upp á nýtt.
Ég var að labba niðrí bæ í morgun og þá er kallað hinumegin götunnar "Gunnar Gunnar" og þá var þetta Kallinn í bankanum mínum (bankinn heitir "Caja San Fernando") og var hann að segja mér að passwordið og kenniorðið mitt inn á Netbankann þeirra væri tilbúið. Svo snéri hann við og við löbbuðum, drjúgan spöl í bankann og við gengum frá þessu. Svona hefði getað gerst á Hvolsvelli en ekki í Reykjavík. Og vitanlega ekki í Madrid. Þó gæti ég alveg trúað Kristni R. Ólafssyni til að rekast á einhvern bankakall og snúa honum með rönguna út. Förum ekki lengra út í það. Nú vantar mig ekkert nema símalínu, símanúmer, aðgang að Internetinu, tölvu sem virkar og geðheilsu til að nota þetta allt saman til að komast inn á netbankann minn í Jimena. Flott!
Ég varð fyrir vonbrygðum með matsölumenninguna hérna. Það eru nokkrir rosa flottir veitingastaðir þar sem gestirnir hafa þjón á hverjum fingri og það eru lögð 10 amboð, 5 diskar og 4 glös fyrir þig. Svo á hinn veginn er svona hitaborð á ÖLLUM pöbbunum. Þau eru yfirleitt 1-2 metrar á lengd, eftir stærð pöbbsins, og ca 25 cm á breidd. Þarna eru frá 10 til 30 smáréttir eftir því hvað barinn er stór. En skammtarnir eru ekki nema upp í aðra nösina á Prúdencio (Kötturinn hennar Lúí, sem ég er auðvitað búinn að hæna að mér). Hver skammtur er, eins og ég hef sagt frá áður, eins og hálf pulsa á stærð. Ég skrapp inn á einn svona stað áðan á heimleiðinni af markaðnum. Ég var alveg að gefast upp af þreytu og þorsta. Ég fékk mér einhverja dularfulla kássu, aðallega vegna þess að ég gat ekki betur séð en það væri blóðmör í henni. Og ég held að svo hafi verið. Allavega var þetta brúnt og með hvítum skellum, en sá/sú sem bjó slátrið til hefur sturtað smá úr öllum kryddstaukunum sínum út í slátrið þannig að það var ekkert líkt þeim eðalmat sem við þekkjum. Kannski hefði þetta verið gott ef það hefði verið í pulsulíki og ekki í sláturlegum felubúningi.
Kl. 17:04:32 að staðartíma í Jimena de la Frontera í Cádiz sýslu á Spáni:
Alltaf batnar það. Síminn hennar Lúí hefur verið að detta út öðru hvoru undanfarið og stundum heilu dagana. Að lokum kallaði hún til viðgerðamann frá, hverjum haldiði?, nema Telefónika sjálfum. Hann stökk uppá kojustokkinn hjá frúnni, en þar er inntakið og ein svakaleg símaflækja, og fór að mæla fram og til baka. Ekki veit ég hvort hann hefur verið dýraÓvinur, allavega greip hann í skottið á "hundinum" og kippti honum úr sambandi. Voff á Spænsku og síminn kominn í lag. Þá er eitthvað mikið að módeminu í tölvunni minni og bara að krossa sig og vona að það gangi betur þegar ég fæ línuna. Þessi maður lofaði okkur því að ég fengi línuna í næstu viku og þegar við vorum búin að lýsa viskiptum okkar við fyrirtækið sem hann vinnur hjá var hann kominn með tár í augun og farinn að snökta af vorkunnsemi og skömm. Alla vega felldi hann niður reikninginn upp á 6.000.- Íkr (Það er ekki allt ódýrt á Spáni). Við, eða réttara sagt ég, hefði auðvitað átt að greiða útkallið þar sem þetta var engan veginn Telefónika að kenna og ekki á hans vegum. Ég reif niður alla línuna í snarhasti þannig að nú hef ég ekki einu sinni óvirka snúru til að horfa á. Jú annars, ég ætla að hafa hönkina á skrifborðinu hjá mér. Betra er á illt að horfa en ekkert nema tölvuna sína.
 
20.11.03
  Þunglyndi, Telefónika, dauður hundur, kassinn minn og matarboð 20-11-03

Jæja, nú eru komnir 10 dagar síðan ég skrifaði í dagbókina mína. Það er að segja, ég skrifaði heilan helling um daginn á meðan ég var að basla við að koma heimasíðunni minni í gang. 5 daga með nokkrum sögum í ívafi, en vegna smá misskilnings milli mín og Dreamwaver, en það er forritið sem ég nota til að búa til heimasíðuna, þá eyddi ég allri dagbókinni. Ekki bara því sem ég skrifaði þann daginn, heldur öllu sem stendur hér fyrir ofan. En síðan "ekkert kemur fyrir mig" og brann svo ofan af mér, passa ég mig á að taka bakkupp og þessvegna slapp þetta. Má segja að ég hefði átt að taka bakkupp áður en ég misskildi forritið, en ég vissi bara ekki hvað það er heimskt og vitlaust. Treysti því að það væri skynsamara en ég, en svona fór. 1 - 0 fyrir mig.
Ég er búinn að liggja í þunglyndi undanfarna daga. Fyrsta skipti síðan ég fékk blessaða gleðipilluna fyrir 4 árum. Nú ryfjast upp fyrir mér hvernig mér leið alla ævina fram að því. Skelfilegt að hugsa til þess hvað mikið er hægt að þjást af þunglyndi. Og fáir eða engir sýna samúð, fyrst og fremst vegna þess að það er ótrúlega auðvelt að fela þunglyndi, það kemur bara fram á öðrum sviðum og þá er maður gjarnan rakkaður niður fyrir aumingjaskap.
Nei nei, ekki fara að hafa áhyggjur af mér og mínu þunglyndi, ég hef engar áhyggjur af því sjálfur. Það er af gefnu tilefni núna, ef gleðipillan tæki af manni fídusinn geta orðið þunglyndur af gefnu tilefni væri hún farin að hafa áhrif á eðlilega starfsemi líkamans og hæfilegt þunglyndi er það að sjálfsögðu. Já, það er ýmislegt sem hefur gengið á afturfótunum hjá mér. Ég er til dæmis ekki farinn að fá kassann sem ég sendi á undan mér ennþá, ég hef miklar áhyggjur af því. Það er svo mikið af mínu dóti í honum af því ég álpaðist til að setja prentarann í töskuna mína og eyðileggja hann svo. Kannski hefur tollurinn áhyggjur af öllum 120 geisladiskunum sem í honum eru. Kannski má ekki flytja svona mikið af diskum milli landa. Samt er þetta allt saman dót sem ég hef sjálfur brennt (Skrifað) á diskana. Svo er í honum hellingur af fötum og ótal smádót sem maður getur ekki án verið.
Svo er það Telefónika. Þvílíkt fyrirtæki. Þvílík þjóðarskömm. Í dag eru 16 dagar síðan ég kom og enn er ég ekki búinn að fá símalínuna inn til mín. Einu virku dagarnir þennan tíma sem þeir hafa ekki logið að mér og svikið mig eru 3 fyrstu dagar þessarar viku og ástæðan er sú að þeir hafa algjörlega hunsað mig þessa daga. Þeir lofuðu í síðustu viku að hringja eftir helgi og við Lúí ákváðum að bíða þar til þeir hringdu að fyrra bragði. Jú, þeir hringdu í morgun og sögðust koma í dag. Lúí var að heiman í allan dag og ég mátti hengslast hér heima yfir eingu eins og flesta virka daga síðan ég kom, en vitanlega komu þeir ekkert frekar en vanalega. Svo þegar Lúí kom heim spurði hún mig óskup fallaega hvort Þeir hafi nokkuð komið. Þá sá hún andlitið á mér blána og bólgna upp og hendurnar fóru að skjálfa og glampi kom í augun, þá flýtti hún sér inn til sín og skellti í lás!!
Nei, í alvöru talað, þetta er grafalvarlegt mál. Ekki það að mig vantar hreint ekki neina and....... símalínu. Ég þarf ekkert Internet. Ég fæ að skjótast í tölvuna hennar Lúí og sækja og senda póst til vina og vandamanna. Og meira að segja á tímabili vorum við hætt við að ég fengi mér línu. Ég lagði "hund" upp til hennar og við ætluðum bara að nota sömu línuna og gefa skít í Telefónika. En við nánari athugun held ég að það gangi ekki, það verða tómir árekstrar. Þetta er bæði síma og net-línan hennnar þannig að ég hefði ekki tíma nema á nóttunni. Og síðan ég kom hingað hef ég farið að sofa fyrir miðnætti og vaknað kl. ca 10:00. Og ég vil fyrir alla muni ekki breyta því.
Ég er ekki að kvarta yfir því hvað þetta hefur tekið langan tíma, Spánverjar eru þekktir fyrir sínar Síestur og Manjana er þeirra uppáhaldsorð. Fyrir þá sem ekki vita þá er Síesta tíminn milli tvö og fimm á daginn. Þá bara deyr Spánn. Allir sem geta loka sínum fyrirtækjum og aðrir stökkva úr vinnu og allir hvíla sig. Svo eftir fimm vaknar Spánn af værum blundi og fólk vinnur gjarnan til 8-9 á kvöldin. Bara eins og í sveitinni mínus Síestan!! Manjana þýðir raunverulega "á morgun" en merkingin er miklu dýpri, "á morgun eða bara einhverntíman". Semsagt, ég er ekkert að fjarviðrast útí það þó þeir skollar hjá Telefónika hafi ekki komið ennþá. Hefðu þeir bara sagt að því miður gætu þeir ekki komið fyrr en 1. des og staðið við það þá. Vitanlega hefði ég orðið hundfúll og kannski reiður í bland, en ég sagði það áður en ég kom hingað að ég ætlaði að aðlaga mig að Spáni en ekki reyna að aðlaga Spán að mér. Og eins og þeir sem þekkja mig best vita þá er síestan kannski ekki sem verst fyrir mig og ég held að þetta með Manjana sé mér ekki neitt á móti skapi. Allavega held ég að Dinni frændi minn fallist á það eftir að hann var búinn að bíða í heilt ár eftir að ég fixaði fyrir hann mynd, enda skýrði hann fyrirtækið mitt "Hraðþjónusta GunnaJak" þegar hann loksins fékk myndirnar. Nei, það er ekki þetta sem ég er að kvarta yfir, heldur lygarnar og svikin dag eftir dag og nú viku eftir viku. Þetta fólk getur ekki verið svo heimskt að það geti ekki skipulagt daginn þannig að það geti ekki staðið við neinar áætlanir í hálfan mánuð, en lofa samt alltaf að koma daginn eftir, eða jafnvel seinna sama dag, en það hefur skeð tvisvar. Og ég ætla mér ekki að aðlagast því. Enda trúi ég því ekki að þetta sé hinn rétti Spánn. Telefónika er víst gríðarlega sterkt fyrirtæki hér um slóðir og Lúí gengur svo langt að segja að þeir "eigi" Andalúsíu. Eigi hér annað hvert fyrirtæki og ríki og drottni.
Já þetta með hundinn. Ekki var sú tilraun til að létta mér lundina. Ég lagði semsagt línu með ærinni fyrirhöfn ofan af efstu hæð niður í kjallara með ærinni fyrirhöfn og dáltlum kosnaði. Setti dós upp á vegg og tengdi tölvuna við. Ekki datt mér í hug að tengingin virkaði í fyrstu tilraun, en viti menn, drrrrrrrring og ég var kominn í samband við Internetið á minni tölvu í mínu verelsi! Húrrrrra! Gaman hjá GunnaJak. Vitanlega kemur hér eitt fjandans EN, en þegar ég ætla að fara inn á sjálfar netsíðurnar og inn á póstinn minn þá gerist ekki neitt, alls ekki nokkur skapaður hlutur. Ég meira segja meilaði í sjálfan Kolla og hann stóð á öndinni og barði gæsina og botnaði ekki neitt í neinu. Hafði aldrei vitað svona tilfelli áður og kannski aldrei aftur. Þetta var fyrir nokkrum dögum og hér sit ég í mínu hósiló og er með línuna hennar Lúí tengda við tölvuna en get ekkert gert. Það eina sem okkur Kolla dettur í hug er að setja Windows XP upp aftur, en þá er Windows diskurinn ásamt hinum 119 diskunum mínum er einhversstaðar milli Grensássvegar í Reykjavík og Grossa de la Mondera í Jimena de la Frontera.
Getiði hvað, það er tvennt af mínum uppáhaldsmat eins gott eða betra hérna en heima! Ég hefði aldrei trúað því að ég fengi eins góða eða jafnvel ennþá betri tómata hér en heima, en það er staðreynd. Þeir eru miklu stærri og kjötmeiri og þar að auki er skinnið á þeim jafnvel ennþá þynnra og mýkra en á okkar, að ég hélt, heimsins bestu tómötum. En það er annað verra, ég hef ekki rekist á agúrkur neinsstaðar, hvorki hjá kaupmanninum á horninu eða í "stórmarkaðinum", ég set hann innan gæsalappa vegna þess að hann er álíka stór og Kuffalæið 11-11-11 á Hvolsvelli. Hér búa aftur á móti 9000 manns en eitthvað ca 500 á Hvolsvelli. Leiðréttið mig ef það munar miklu. Hitt eru ORA grænar baunir! Ég keypti eina litla dós af baunum svona til að skerpa í mér íslendinginn og njóta þess að fá hvergi eins góðar baunir og ORA. En viti menn, ég treysti mér til að plata hvern sem er að þetta væru ORA grænar baunir, sem eins og allir vita, eru þær bestu í heimi. Ég segi ekki að þessar séu alveg eins góðar, en það munar svo til engu, þannig að nú verða ORA grænar baunir í öllum pottréttunum mínum.
Föstudagskvöldið 14. nóv bauð Jane vinkona Lúíar, sú sem sótti okkur til Gíbraltar, í kvöldmat. Frönsk vinkona hennar var þarna líka, þær ætluðu báðar að fljúga út morguninn eftir. Boðið var til þess að "Tæma ísskápinn" áður en hún færi út. Jane er bandarísk eftirlaunakelling á besta aldri. Hún á hús og bíl bæði hér í Jimena og í Nef York. Hún skiptir sér á milli þessara staða, 30% í USA. Hún er fiðluleikari og er í hljómsveitum bæði hér og í USA. Jæja, boðið byrjaði með krampavíni og snakki og snakki (snakk = ruslfæði & snakk = snakka saman). Svo kom forrétturinn sem var súpa úr stórum hvítum baunum og alls konar dóti. Í aðalrétt fengum við svo arfa í öllum mögulegum útgáfum, soðinn, hráann, steiktan, fræjaðan og svo framvegis. Nammi namm. Á eftir allskonar ávexir, aðallega samt ANANAS!! Ég var að óska mér þess að Halldór vinur minn og bóndi á Lágafelli væri kominn að éta með mér ananasinn. En eins og flestir vita át ég einu sinni yfir mig og hef ekki getað smakkað hann síðan, það er eitthvað svipað á komið með Dóra. Það er ekki meira um þetta boð að segja en það að daginn eftir fórum við Lúí, eftir að Jane var farin, og raunverulega tæmdum ísskápinn og skiptum þýfinu á milli okkar. Hún fékk allt sem var óætt en ég krásirnar!! Ég er semsagt ekki alveg kominn inn í allar matarvenjur spánverja.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com