GunniJak í Danmörku
21.12.03
  Múrbrot á haugana, San Pabló óvart, latur að vinna .
Sama veður
.
Já, ég fór seint á fætur og var latur fram eftir degi. Fór samt seinnipartinn og bar allt múrbrotið niður og út í bíl. Ótrúlegt magn af músteinum og steypu sem hefur verið notað í hálft skrifborð! Í öllum húsum sem ég hef komið í á Spáni eru húsgögnin hlaðin úr múrsteini. Ég skil þetta ekki, þessi húsgögn eru svo foráttuljót að engu tali tekur. Ég mun fljótlega setja inn myndir af húsgögnunum í svefnherberginu og þar getið þið séð þetta. Ég er mjög óánægður með að hafa ekki fengið að brjóta nema helminginn af skrifborðinu, afgangurinn er svo ljótur og eins og út úr kú. Ég tók myndir af þessu og setti inn á netið til að Lúí sæi hvað þetta er ljótt og gæfi mér grænt ljós á að brjóta hinn helminginn líka.
Ég var búinn að fylla bílinn af grjóti og vissi ekkert hvað ég átti að gera við það. Þegar við Lúí fórum til San Pablo að sækja vatnið sá ég mikið jarðrask á leiðinni og Lúí sagði mér að þarna væri verið að byggja nýja vatnsveitu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og renndi þangað, en auðvitað var búið að búið að girða svæðið af og setja læst hlið. Í staðinn fékk ég salibunu til San Pablo, sem er hálfgert úthverfi frá Jimena, enda í sama hrepp og undir sömu stjórn. S.P. er mun nýtískulegri bær en Jimena, húsin almennt yngri og flestar götur beinar og sæmilega breiðar, enda staðurinn að mestu byggður á láréttu landi en ekki lóðréttu eins og Jimena. Fór seint að sofa, lá á netinu til kl. 02:30.
 
20.12.03
  Enn og aftur við ána, PC eða karmellur, Brotið borð, Siesta, Vinna lítið Sofa mikið. .
Það tekur því ekki að tala um veðrið, það er búið að vera svipað í marga daga, 18º-20º á daginn en 7º-10º á nóttunni.
.
Mér var boðið í mat kl. 14:00 hjá Rod og Lis, en það er fólkið sem ég hef verið að mynda húsið fyrir. Þetta er þriðja ferðin til að mynda og auðvitað þurfti að draga ský fyrir sólu eftir hádegið. Samt rosalega milt og gott og fallegt veður með ca. 18º og stafalogni. Ég laumaðist á bílnum hennar Lúíar, nei, ég var ekki að svindla, ég tók tölvuna mína með mér til að geta skoðað myndirnar, sem ég er nú þegar búinn að taka, alminlega og sýnt þeim þær. Aumingja Rod vinur minn hélt að hann væri að kaupa TÖLVU um daginn, en fór eftir slæmra manna ráðum og keypti sér eitthvað Karmellukonfektdrullumall í staðinn. (Þið vitið þetta í stömpunum, Makkinntosss minnir mig að það heiti). Ég sem var búinn að lofa honum því að taka hann í tölvukúrs, Poor Roddi vinur minn! Ég get samt tekið hann í tíma í Photoshop, það var upphaflega gert á og fyrir Makkann en var svo "þýtt" yfir í PC og þróað jafnhliða á bæði kerfin síðan. Annars þetta með slaginn á milli Makkans og Pc, kannski var það eins og þegar Beta og VHS kerfin börðust um heimsyfirráð, verra kerfið sigraði. Beta er að flestra mati betra kerfi, en trúlega hafa verið meiri peningar á bakvið VHSið þannig að það vann en Beta greyið dó. Kannski var/er Makkinn betri tölva en PC, en hann varð einfaldlega undir í slagnum. Hann lifir samt góðu/einhverju lífi enn í dag, en gallinn er bara sá að það passar svo til ekkert á milli þessara tölva og Makkamenn eru sárafáir miðað við PC notendur og eru þar af leiðandi úti í kuldanum með svo margt. Þetta vissi Rod ekki fyrr en ég útskýrði það fyrir honum. Hann er myndlistarmaður og einhverjir aular sögðu honum að allir sannir listamenn notuðu eingöngu Makka. Þetta er yndislegt fólk, Lis er frönsk en Rod er skoti. Þau hafa búið víða um heim, en nú eru þau sest að hérna. Þau eiga hús í bænum þar sem Rod er með vinnustofu og þar búa þau á sumrin en leigja húsið við ána. Þau eru svo í húsinu við ána á veturna. Þetta gefur góðan pening þannig að þau þurfa ekki mikið meira, ef tekst að leigja húsið allt sumarið. Og þar kem ég inn í myndina. Ef ég get tekið nógu flottar myndir af öllu þarna niður við ána og unnið þær þannig að þær höfði til ríkra heimskra Bradararíkjamanna með hormónaspikið um lærin, þá er tilganginum náð.
Lis var með þessa flottu fisk1súpu, ef súpu skildi kalla. Það var frekar grautur, með óteljandi tegundum af dóti úr sjónum: Venjulegan fisk, rækjur, humar, krabba, skeljar ýmiskonar og svo grænmeti og kridd, m.a. rauðan pipar og cilli pipar. Ótrúlega gott, nammi namm!
Þegar ég kom heim um sex leitið réðist ég á skrif/tölvu-borðið hennar Lúí og braut helminginn af því í spað. Ég vil brjóta það allt, en þori ekki fyrr en Lúí er búin að sjá myndir af því á netinu. Skellti myndum á netið til að hún gæti séð þær og dæmt sjálf. Ég varð andvaka í nótt í fyrsta sinn á Spáni, svaf líklega of mikið í dag. Það er mjög þægilegt að vinna svona einn, geta hvílt sig þegar þarf. Þó margir haldi annað, þá er ég með ansi skert úthald við vinnu og aðra hreifingu. Ég er bestur þegar ég vinn einn og get hvílt mig þegar ég vil og þarf. Gott dæmi er þegar ég byggði Ullarkofann, þá vann ég á einskonar vöktum. Ég var kannski að fara út að smíða klukkan 2 að nóttu, eða klukkan 5 að morgni og svo framvegis. Enda byggði ég hann á mettíma og klikkaði ekkert í skrokknum. En stundum er manni ekkert boðið upp á svona lúxus, eins og þegar verið er í blóðtöku, þá er þetta 3ja til 5 tíma törn og ekkert hægt að fara heim og sofa í millitíðinni. Eins er það í heyskapnum, það þýðir ekkert að segja: "kæri þurrkur, viltu doka aðeins lengur við á meðan ég fer heim og legg mig hjá Kettinum", nei stundum er manni ekki boðið upp á neinn lúxus. Eins er það þegar Lúí er heima, hún er þessi týpa sem allt á að gerast í gær, fyrripartinn. Ég stökk samt niður til mín um daginn í miðju rúmniðurbrotinu og lagði mig í klukkutíma. Enda sagði hún að ég væri efni í ekta Spánverja. Lúí segir að það sér tóm vitleysa og kjaftáttur að Spánverjar séu einhverjir letihaugar. Þetta séu upp til hópa prýðilegir verkmenn og ekkert undan þeim að kvarta. Það er blessuð Síestan sem hefur komið þessu á stað. Þú ert að labba úti í bæ um 2 leitið og allt í einu sérðu öllum búðum lokað og allir verkamenn fara heim. Þetta hef ég talað um áður. Letihaugar, aumingjar, rúmfíklar. Jæja, ég vinn til 5, fer í bað, horfi á sjónvarpið, fæ mér að éta, legg mig og fer svo aftur út að labba um kl. hálf níu og hvað sé ég? Allir úti að vinna, öll fyrirtæki opin og allar verslanir. Byggingamenn að smíða, verkstæðin opin og alles! Allt þetta fólk var að vinna á meðan ég, letihaugurinn, aumingjinn, rúmfíkillinn og allt það, ég bara slappaði af á meðan allt þetta góða fólk var að vinna. Kannski er þetta það lang sniðugasta, að gera eins og ég og Hinir spánverjarnir, vinna þar til maður verður þreyttur, hvíla sig og mæta svo aftur til leiks endurnærður á sál og líkama!!

Fór seint að sofa og fer sjálfsagt seint á lappir í fyrramálið.
 
19.12.03
  Fann ekki túttu, Jane USA, Kjúklingaréttur uppskrift, ektaalvörugerfiSpánverji .
Hitinn ca. 20º um miðjan daginn en 9º í kvöld
.
Mér var hálfillt í hnjánum í morgun í fyrsta sinn eftir að ég kom til Spánar. Þreytandi að keyra lengi eða sitja í bíl yfirleitt, en það er í góðu lagi núna í kvöld. Enda er ég búinn að vera heilmikið á labbinu. Fór heim til Jane, sem bauð mér í kvöldmatinn og við Lúí tæmdum svo ísskápinn hjá. Hún er á ferðalagi núna og ég þétti með slögnunni frá þvottavélinni þar sem hún kemur í rörið í veggnum. Ég fór í þrjár búðir til að spyrja um svona gúmmítuðru sem alltaf er notuð við þetta, en þrátt fyrir að ég hafi skrifað greinargóða lýsingu á þessum hlut á ensku og látið tölvuna/netið þýða það yfir á spænsku skindi fyrst í stað enginn neitt, en í öllum tilfellum þegar afgreiðslufólkið skildi loksins miðann og leikritið sem ég lét um leið og miðinn var lesinn yppti öxlum, sagði bara Siliconioinosio og snéri einhverju óákveðnu í loftinu utan um puttann á sér. Vísifingurinn. Svo ég gerði það bara í raunveruleikanum. Ég skal verða alvarvöruspánverji og hætta að gagnrýna þetta ágæta fólk áður en ég fer heim í vor. Ég skal.
Svo múraði ég gaflinn á rúminu hennar Lúí svo núna get ég sett á hann kork á morgun eða hinn. Eða hinn. Við Prúdi erum hálf einmana svona einir í húsinu, hvernig ætli það verði hjá okkur um jólin, þá ætla ég að gefa honum beikon, það er eitt það allra besta sem hann fær. En beikonið er skratti dýrt á spánskan mælikvarða, 6.50€ kg, hátt í 600 kall kílóið. Getur einhver sagt mér hvað það kostar á Íslandi? En það er annar matur sem er ekki dýr hérna, og svosem ekki heldur á Íslandi, en það eru Kjúklingavængir, þeir kost 1.20€ kg, eða ca 110 kr kílóið. Og þetta er lang besti bitinn af skepnunni, en verður svolítið ódrjúgur vegna beinanna. Hér kemur svo að lokum uppskrift að kjúklingavængjaréttinum sem ég eldaði og át í kvöld:

5 kjúklingavængir 1/2 kg
Hvítkál 3/4 meðal haus
Blómkál hálfur haus
Paprika hálf, en þær eru 3x stærri hér en heima
Einhver brúnn ávöxtur/grænmeti í laginu eins og pera en 4x stærri
3 hvítlauksrif
1 heill laukur
1 pk kjúklingasúpa
1 stór NAUTA súputeningur
1 bolli hrísgrjón
Ekki frekara salt eða krydd, soðið í 3 korter og svo, hvað haldið þið? ÉTIÐÐÐÐ :-) Þvílíkt nammi og ég þarf ekki að elda neitt á morgun, enda boðið í mat klukkan 14:00, þannig að ég þarf ekki að elda fyrr en á mánudaginn.

Meira um það á morgun. Góða nótt. (klukkan er 23:00 og hitinn er 9º og stafalogn, ég með hurðina opna og gluggann og er ekki kalt. Mér væri það heima í 9º ?
 
18.12.03
  Malaga, Rammmmvilltur, Lúí flogin norður á bóginn, Komst samt heim .
Þokuslæðinur í morgun en létti til, hálfskýjað í allan dag, hiti um 20º en 10º seint í kvöld
.
Við Lúí lögðum á stað til Malaga klukkan 16:30. Þetta var okkur líkt, vélin hennar til Englands átti að fara af stað klukkan 21:00 og við þurftum ekkert að erinda á leiðinni. Það er ótrúlega mikill munur að hafa nógan tíma þegar farið er í flug. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð, keyra meðfram flestum þekktustu sólarströndum íslendinga, til dæmis Torremolinos. Ekki hefði mig nú samt langað niðrá þessar strendur núna, hálf hráslagalegt þó hitinn hafi verið um 20º þá stóð strekkingsgola af sjónum og ekki beint hlýlegt. Enda allar strendur lokaðar, alla vega sá ég hvergi skjátu á stjái, hvað þá hrút. Það er ca. 200 km. frá Jimena til Malaga, þannig að þetta var heilmikið ferðalag. Það eru tveir vegir eftir endilangri ströndinni, annar þræðir alla bæi og þorp og fylgir næstum alveg fjörunum. Þetta er flottur 4ra akreina vegur, 2 í hvora átt, en soldið holóttur. Já, holóttur, ég held þeir tými ekki að setja nóga tjöru í malbikið hérna. Það er ótrúlegt hvað það er mikið um malbiksskemmdir. Ekki eru það naglarnir og ekki er það saltið sem skemma hérna. Ónei, óekkí. Þegar við vorum komin hálfa leið nennti Lúí ekki að krókast meira eftir strandgötunni og við skelltum okkur upp á hinn veginn, hraðbrautina. Það er nú meiri svaka græjan, hraðbrautin. Enda sagði Lúí að hún væri byggð fyrir EU peninga. Hraðbrautin liggur víðast hvar uppi í hæðunum fyrir ofan byggðina og fer í gegnum hæðir og á brúm yfir dali. Eða það er skorið í gegnum hæðirnar. Það er eins gott að ekki snjói ofan í þessum giljum og gljúfrum. Og allar brýrnar undir og yfir, það er ótrúlegt hvað þær eru þéttar sumsstaðar. Það er greiddur vegtollur á hraðbrautinni og á leiðinni til Malaga þurftum við að borga 3.10 € ca. 300.- Íkr.
Ég lagði rosalega vel á minnið hvar við beygðum út af hraðbrautinni inn á flugvallarveginn til að lenda nú örugglega ekki í villum þegar ég svo sæki Lúí 30. des. Ég skildi við hana í flugstöðinni klukka 19:30 og okkur kom saman um að það væri betra að bíða í hálfan annan tíma í flugstöðinni en að vera á næstseinustu, eða það sem verra væri, mínútunni eftir seinustu mínútunni, missa af fluginu með ómældum afleiðingum. Hún átti tvö stefnumót í fyrramálið í Englandi o.sv.frv. Jæja, það var auðvitað komið myrkur, það er orðið dimmt hér um kl. 17-17:30 og ég setti það ekki fyrir mig. Ég þurfti bara að beygja til hægri þegar ég kæmi að hraðbrautinni og keyra svo beint af augum eftir hraðbrautinni alla leið til Algeciras, en þangað hef ég komið tvisvar og rata orðið heim þaðan. En hvenær hefur þú lesandi góður, sem þekkir mig sjálfsagt eitthvað, vitað til að GunniJak hafi tekið einföldustu leiðina í lífinu? Nei það er nú eitthvað annað. Hvernig ég komst yfir/undir fjandans hraðbrautina hef ég ekki græna glóru um. Ég var alla vega allt í einu kominn langt inn í gamla bæinn í Malaga, í þröngar götur eins og "heima" í Jimena de la Frontera. Sá var munurinn þó að í Jimena getur maður gert eins maður gerir þegar maður villist í íslenskum skógi, bara líta kringum sig og koma sér svo heim. Nei, Malaga er milljóna borg á einherjum ferkílómetrum og til að gera langa sögu stutta rammvilltist ég algjörlega og missti meira að segja áttirnar. Ég er helst á því að ég hafi komist einu sinni eða tvisvar að hraðbrautinni, en núna var ég vitlausu megin af því ég þurfti að beygja til vinstri til að komast heim og þar með að fara fyrst undir/yfir hraðbrautina og svo að finna einhverja aðrein inn á hana. Jæja, eftir hartnær klukkutíma blasti hraðbrautin allt í einu við, ég réttu megin og þurfti ekki annað en að skella mér inná næstu aðrein og svo var ég kominn á 100 km hraða á gamla Renó áður en varði.
Það er rétt á mörkunum að það tæki því fyrir mig að segja frá þessu ævintýri ef það endaði þarna, eða réttara sagt eftir beina og breiða keyrslu beint heim. Bíddu nú við kæri lesandi, var hraðbrautin ekki breiðari en þetta, var hún ekki þrjár akreinar í hvora átt en ekki allt í einu orðin ein akrein eftir að hafa þó verið tvær og hvers vegna er engin byggð framundan, bara myrkur? Aumingja GunniJak, á gamla Renó rammvilltur í öræfum í ókunnu landi og ekki einu sinni hægt að snúa við. Ég sá fyrir mér að næsta byggða ból væri París eða Moskva, svo villtur var ég orðinn. Allt í einu blasi við bensínstöð í hina áttina, ég gat snúið við eftir 2-3 kílómetra og renndi í hlað, mikið feginn. Með kortið í hendinni steðja ég inn á Bensínstöðina og spyr hvar ég sé. Jú ekki stóð á því, "aslidgj ewqri vweiorjv ploeirwé werieirjg", ég benti þeim á kortið og svo á munninn á mér og teiknaði rennilás á hann til að sýna fram á spænskukunnáttu mína. Mér til mikillar gleði vindur sér að mér einn kúnninn og spyr mig á ágætri, en smá tungubögglaðri ensku hvar ég vildi óska mér að ég væri, sagði ég Jimena de la Frontera. Svo villtur getur enginn maður verið sagði hann og benti mér á lítinn púnkt á kortinu.

Nú kemur smá sögustund um ferðir um Ísland: Einu sinni átti ég heima í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Ég bauð til mín fólki af Vesturlandi í kvöldmat (250 km) og sagði að maturinn yrði til kl. 20:00. Nú, ég þekkti þetta fólk að sérstakri stundvísi þannig að ég var orðinn hissa þegar klukkan varð 21:00, 22:00 og loksins klukkan 22:30 kom blessað fólkið að bana komið af hungri og þreytu. Það sem gerðist var þetta: Það gekk prýðilega vestur yfir Laxárdalsheiði, mjög vel um Húnavatnssýslur, ágætleg um Skagafjörð og afburðavel að og í gegnum Akureyri. Þaðan var ekið í rólegheitum yfir Vaðlaheiðina (Ha spyr einhver staðkunnugur sjálfan sig núna, hvað er langt síðan þetta var?) og svo seim leið liggur til vinstri, langa langa leið. Það er farið yfir smá fjall og svo niður langar brekkur og allt í einu blasir við rosalega stórt stöðuvatn og lengst til vinstri eru ljós á þorpi eða þéttbýli. Nú er stoppað og klórað sér í hausnum og enginn skilur neitt í neinu, samt vann þetta fólk við ferðaþjónustu. Svo það er tekin ákvörðun um að kanna þetta þorp betur. Eftir langan akstur finnur fólkið það út að það er komið aftur til Akureyris. Fattaði þá ekki Víkurskarðið, gleymdi að beygja til hægri hjá ánni til að fara beint austur í Þingeyjarsýslur og keyrði sem leið lá framúr Víkurskarði og sá Eyjafjörðinn og Akureyri innst við hann, rétt eins og hún er ennþá og verður lengi enn. Hér endar þessi saga, en hún er miklu lengri og verður kláruð við annað tækifæri.
Þetta sama henti mig í Malaga, púnkturinn á kortinu var svipaður og ég ætlaði frá Hafnarfirði til Selfoss um Reykjavík, en spyrði til vegar í Hvalfirði. Ég var hafður að spáði og hotti á bensínstöðinni og Daninn, já hann reyndist vera Dani enskukunnáttumaðurinn og þar skýrðist tungubögglingurinn, vísaði mér rosalega vel til vegar. Ég kæmi fljótlega að hringtorgi og ætti að beygja útúr því við þriðju afrein og svo kæmi vegur og svo kæmi gata og svo kæmi braut og svo kæmi hitt og þetta sem skiptir engu máli vegna þess að ég hef trúlega strax farið vitlaust útúr hringtorginu og þar með var allt hitt ónýtt. Og GunniJak jafn villtu og áður. Og þó. Ég náði áttum á bensínstöðinni og sá bjarma fyrir Malaga svo ég var ekki svo mjög hræddur um að fara til fjalla aftur. Eða upp í Hvalfjörð. Eða til Moskvu. Eða bara eitthvað, heldur til Malaga aftur og það tókst. Aftur fór ég að keyra um borgina og er að keyra eftir einhverju breiðstræti þegar ég sé lítið skilti á gatnamótum þar á stendur "Agerciras og Cádiz" Þetta var eins og mæta vatnstankbíl í Sahara, ég setti á mig gatna mótin og gat snúið við eftir 2-3 kílómetra og beygði svo við skiltið. Þá reyndist þessi gata vera afturendinn á sjálfri hraðbrautinni og ég gat bara haldið endalaust áfram alla leið til Algeciras og þaðan heim. Ég var hátt á annan klukkutíma í villum en gekk svo prýðilega heim og tók hraðbrautina alla leið. Ég þurfti að borga tvisvar á heimleiðinni, samtals 4.20€. Mér fannst það ekki mikið. Þegar ég sæki Lúí, en hún á að lenda kl. 23:00 ætla ég að fara strax fyrir hádegi og fara mjög rólega eftir allri stöndinni og taka gommu af myndum. Og það verða ekki myndir eins og þið sjáið í auglýsingabæklingunum frá ferðaskrifstofunum, því get ég lofað ykkur. Og svo ætla ég að byrja að svipast um eftir flugvellinum svona um kvöldmatarleitið :-)
Ég var með myndavélina með mér, en tók engar myndir. Lúí stoppar nú ekki að gamli sínu, annars er hún hörkubílstjóri og ég mun aldrei keyra oftar með hana í farþegasætinu, svo framarlega hún sé sæmileg edrú! (Sem ég held hún sé nú yfirleitt, það er ekki það) Mikið asskoti var ég svangur þegar ég kom heim, hefði getað étið heila kú og drukkið heilan hest. Veðrið í dag var alveg frábært, ekki mikil sól en hiti , eins og áður sagði, yfir 20º semsagt gott ferðaveður.
 
17.12.03
  BYKO, Dey úr hungri á jólunum og Renóinn hennar Lúíar Þungbúið veður í dag, en hitinn í kringum 18º.
.
Ef einhverjir eru nýjir hérna þá upplýsist það hér með að ég er með myndasíðu sem hefur addressuna: http://www.fotki.com/gunnijak. Best er að fara beint á staðinn sem ég skrái allar uppfærslur. (Ég uppfærði myndir í dag) Og ef þú manst hvenær þú fórst þarna inn seinast getur þú séð hvort ég hafi bætt við myndum síðan þá.

Við Lúí fórum í verslunarleiðangur í byggingavörustórmarkað stutt frá Mollinu sem við Jane fórum í um daginn. Þetta var svona svipað og nýja BYKÓ, hún var að kaupa efni handa mér til að smíða úr á meðan hún er í Englandi, en þangað fer hún á morgun. Hún er búin að setja mér svo mikið fyrir að ég mun í mesta lagi fá frái milli 18:00 og 23:59 á aðfangadagskvöld. Ekki að það breyti neinu, ég er búinn með alla peningana mína og verð bara að éta kál og arfa fram að áramótum! Ég keypti mér hillur og búkka undir borð undir prentarann og skannann. Já, ég fékk að keyra Renóinn, en Lúí var svoleiðis með lífið í lúkunum að hún nefndi ekki einu sinni að ég keyrði heim. Hún er hörku bílstjóri og gefur ekkert eftir þeim yngri. Ég held að þessi bíll hennar sé yfir 30 ára gamall og hellingur af eins bílum hérna í Jimena. Þið getið séð myndir af honum á Fotki. Fer til Malaga með Lúí á morgun og ætla að taka myndavélina með mér. Heyrumst.
PS: Þið megið alveg skilja eftir nokkur orð við albúmin og/eða myndirnar. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur. :-)
 
16.12.03
  Slagurinn við rúmið, Matur fyrir lítið, Hálf búlemía .
Bjart og gott veður í dag, hitinn í kringum 17º
.
Var í allan dag að berjast við rúmið hennar Lúí. Það endaði með hálfum sigri. Nú á ég eftir að múra gaflinn og líma á hann korkflísar um leið og ég lími korkflísarnar á gólfi. Ég tók myndir af slagnum og eru þær komnar inn á netið. Vesenið í þessum konum alltaf, en þegar verkunum er lokið sér maður að yfirleitt hafa þær rétt fyrir sér. Það verður rýmra um hana eftir breytinguna. Standard lengd á rúmum á Spáni er 185 cm, en ekki 200 cm eins og hjá okkur tröllunum norður við heimskautsbaug.
Mig langaði svo svakalega í Eggjaköku í kvöld, en átti engin egg svo ég skrapp í búðina. Takið nú vel eftir, ég keypti:

6 mjög stór egg sem eru seld í stykkjatali 1,00€
150 gr ost í 8 sneiðum sem eru pakkaðar í plast hver og ein, 0,60€,
Gráðaost 100 gr 0,94€
1 l, já, einn líter af góðu rauðvíni 0,60€, (54 krónur)


og hvað haldið þið að þetta hafi kostað? 3,15€ !! Evran er á ca. 90.- Íkr þannig að þetta kostaði allt saman 283.- íslenskar krónur :-)

Er það nokkuð skrítið þó lítið gangi með megrunina? Ég er upp á gramm nákvæmlega jafn léttur og ég var daginn sem ég kom hingað. Það er vikt á baðinu svo ég veit þetta nákvæmlega. Ég held ég sé með hálfa búlimaníu, ég man ekki hvað þetta heitir nákvæmlega, en ég hef bara ofátshlutann en ekki ælupartinn. Ég bara ét og ét en skila engu upp aftur, enda er það tómur sóðaskapur og óþægindi.
 
15.12.03
  Í svefnherbergi Lúíar, Aumir múrarar Miklir ketkallar .
Hef ekki uppfært myndir síðan 12-12-03
Bjart og hvasst í dag, 7º í morgun en komst í 18º um hádegi og 9º í nótt kl. 02:00

Ég fór á fætur kl. 09 í morgun, enda eins gott, ég var undir stjórn jaxlsins á efri hæðinni í dag að líma upp korkinn á svefnherbergisvegginn. Það var mesta staut, veggurinn allur skakkur, gólfið allt skakkt og loftið allt skakkt. Hann Össi frændi minn ætti ekki að koma hingað, það er að segja sem múrari, það er ægilegt hvað þeir vanda sig lítið múraranir. Hann dytti niður dauður að sjá verkin þeirra. Á móti kemur að þeir eru fljótir og taka lítið kaup svo fólk steypir sér í minni skuldir og meiri peningar eftir til að njóta lífsins. Össi mætti hins vegar koma hingað sem ketpjakkur og kynnast matarmenningunni. Til dæmis svínslærunum sem eru til sölu í öllum búðum. Lærin, sem eru með klaufum og öllu saman eru hengd upp og þurrkuð. Við það verkast kjötið á sérstakan máta og verður svolítið líkt skerpuketi frá Færeyjum. Þetta er skorið í næfurþunnar sneiðar og étið hrátt og þykir herramannsmatur. En ekki finnst mér það, en ætla að svæla því í mig þar til ég ét það mér til ánægju.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com