GunniJak í Danmörku
1.2.04
  Bíleigandi. Gosi og ekkert nema Gosi. Nokkurhundruð og fimm júgur. Fjárskaði ægilegur. Myrkraferð. .
Hellingur af nýjum myndum: Frá Lágafelli, Bíllinn minn, Frá ferð til Gaucin og Ljósmyndaferðir til Castellar!

Stór dagur að kvöldi kominn. Góðar fréttir og slæmar fréttir. Aldrei slíku vant er best að koma með góðu fréttirnar fyrst. Það fór eins og mig grunaði í gærkvöldi, ég gat ekki sofið fyrir spenningi og vaknaði klukkan 08:00 þó ég hafi stillt klukkuna á 10:30. Hálftíma áður en uppboðinu á Fordinum lauk hafði enginn boði í hann, svo ég bauð 5€ og um leið, á sama sekúndubrotinu var kominn annar og bauð 5€ yfir mig. Ótrúlega fljótur! Svo ég bauð aftur 5€ yfir hann, en eins og í fyrra skiptið bauð hann aftur á meðan ég flutti fingurinn af takkanum. Ég var búinn að ákveða það fyrirfram að fara allsekki yfir 50€ umfram upphaflega verðið, en ég þoldi ekki þessa frekjudós svo ég bauð og bauð á móti honum, alltaf hækkuðu báðir um 5€ þangað til hann hafði náð næsta hundraði og Fordinn hafði hækkað um 100€ (9 þúsund kall) og þá gafst ég upp. Þá datt mér í hug að það sé hægt að setja í gang einhverja maskínu á eBay sem bjóði og bjóði sjálfkrafa um einhverja upphæð þar til vissri upphæð sé náð, en hætti þá. Ég fór að hugsa um að vitanlega hefur gaurinn ákveðið að láta maskínuna hætta á hundraði svo ég ákvað að bjóða einu sinni enn. Hundraðið og fimm. Og viti menn, ekkert skeði og hálftíma seinna rann uppboðið út, fyrsta annað og þriðja og ég átti/á Fordinn!! Hérmeð óska ég sjálfum mér til hamingju með að vera orðinn bíleigandi. Og bíllinn heitir GOSI og verður ekki nefndur annað hér eftir í Dagbókinni, nema kannski til að minna á nafnið. Það var fullt af myndum sem fylgdu af honum í auglýsingunni og skellti ég þeim inn á netið. Þetta er svakalega sportlegur bíll en samt ekki skemmdur af sporti. Trúlega fallegasti bíll sem ég hef eignast. Og ekki var lýsingin léleg, aðeins einn eigandi, það er á honum dráttarkrókur, sem myndi nýr úr Bílanaust og kominn á bílinn kosta ca. bílverðið!! Hann er með beina innspýtingu sem þýðir minni mengun og meiri kraftur. En, því miður, ekki minni eyðsla. Ætlann eyði ekki ca. 10-11 á hundraðið ef hann er eins góður og af er látið. Gosi á heima 30-40 km norðan við Valencia, en þangað er ca. 11 klukkutíma lestarferð!! Svona ca eins og frá Keflaví til Raufarhafnar, að minnsta kosti. Vitanlega gæti ég flogið milli Malaga og Valencia, en ég vil ekki missa af þessu tækifæri til að fara í flotta lestarferð. Það er skipt um lest á miðri leið og tekin næturlest þaðan á leiðarenda og komið snemma morguns til Valencía, en ég tými ekki sofa af mér eitt fallegasta svæði jarðar og ætla þess vegna að gista þar sem lestirnar mætast og taka morgunlestina daginn eftir í björtu alla leið. Þetta mun kosta ca. 100€ en ég sé ekki eftir þeim pening, spara bara við mig í mat í staðinn :-( Nú bíð ég eftir meili frá gaurnum um það hvernig hann vill haga greiðslum og afhendingu o.sv.frv. Vitanlega vil ég fara sem fyrst og allavega í þessari viku. Það er nefnilega kominn mánudagur hjá mér og klukkan að verða fjögur að nóttu. Ég skellti helling af myndum á Fotki í dag og í gær og það er yfirlit yfir þær hérna.

Og þá eru það vondu fréttirnar. Ég er búinn að týna sauðfénu mínu. Algjörlega og endanlega. Þannig að nú þýðir ekki að hringja í gemsanúmerið mitt. Aftur á móti ætla ég að fá mér venjulegan verkamannasíma í fyrramálið og tengja hann við línuna mína og þá er hægt að hringja í mig beint eins og hvern annan alminlegan sveitamann. Ég ætla semsage ekki að fá mér annan gemsa fyrr enn ég kem heim, ef ég kaupi mér þá nokkuð annan gemsa. Ég hef ekkert að gera við hann hér og hvernig lifði maður og komst af án gemsa hér í gamla daga? Mér er spur. Nú er ég að fara að sofa enda þreyttur eftir erfiðan dag. Já vel á minns, ég "skrapp" og heimsótti Rod & Lis í kvöld eftir að dimmt var orðið. Það er nú meira en að segja það að fara niður að ánni og svo uppeftir aftur. Hæðarmunurinn er mörg hundruð metrar og snarbratt á köflum. Enda datt ég útaf sofandi þegar ég kom heim og vaknaði svona eitilhress eins og sést á dagbókinni og myndasíðunni.
 
31.1.04
  Ford Sierra 2,0i CLX. GunniFótalatiJak. .
Skrapp í bæinn. Ætlaði að hitta Rod í stúdíóinu, en hann var ekki að vinna. Fór heim og skrapp inn á eBay. Og þar gaf á að líta. Þessi fíni Ford Sierra 2,0i CLX á spænsku síðunni. Og á þessum líka fína prís. Ég nenni ekki að segja hvað var sett á hann, en það var ótrúlega lágt verð. Ég gerði ráðstafanir til að fjármagna kaupin ef mér dytti í hug að bjóða í hann og svo ótrúlega vildi til að ég fengi hann. Ég sagði engum manni frá þessu, fólk er orðið svo útborað (Bora, baur, burum, boring=hundanskotileiðinlegur) af endalausum, já bókstaflega enda-lausum bílavæntingasögum frá mér. Þær eru búnar að vera margar og hafa aldrei haft endir, og varla byrjun heldur. Jæja, uppboðið á Fordinum endar í fyrramálið klukkan 11:24:30. Þegar þetta er skrifað klukkan að verða fjögur í nótt er enginn búinn að bjóða betur.
 
30.1.04
  Tapas og bjór. Á pöbbnum og hjá Lúí. Furðufiskur á 397 kall. Allir til Spánar að kaupa ýsu. .
Svaf til 11:00 og dreif mig þá á lappir og fór að vinna í tölvunni. Fór svo í bæinn og sleit pening út úr bankanum, Hreppur hafði borgað húsaleigubæturnar í dag, þökk þeim, ég átti ekkert til að éta nema allskonar baunir og þær eru leiðigjarnar eintómar. Fór í Stórmarkaðinn okkar og keypti nauðsynjar og ekkert annað. Kom við á uppáhaldspöbbnum mínum beint á móti Internetkaffinu hans , æ hvað heitir hann daninn sem kom mér á Internetið, já, Allans, hann er ekki enn búinn að opna, Endemis pappírsvesen allstaðar. Já, ég fékk mér Tapas á barnum og tvo bjóra. Í þetta skipti var bara um þrjá rétti að velja, og ég valdi eitthvað sallad sem ég hef ekki græna glóru hvað var í, bar að það var svaka gott. Svo bauð frökn Lúí mér í bjór og fleira í kvöld og þar sem ég var farinn að smakka aðeis rauðvínið sem ég keypti i dag varð kvöldið hið besta. Gaman á Spáni, það má nú segja.

Ég get ekki stillt mig um að tíunda það sem ég keypti í stórmarkaðnum í dag fyrir 1404.90.- Íkr. Ef þið eruð orðin leið á þessum sífelldu verðdæmum mínum, sleppið þeim þá bara! En í alvöru, hvað hefðum við fengið á íslandi fyrir þennan pening? Bara ketið? Eða vínið? Er ekki eitthvað mikið að þegar ég fer í búðina við hliðina á stórmarkaðnum og kaupi þar fisk sem er með blett fyrir aftan tálknin, svarta rönd þaðan og aftur á sporð, gróft hreistur og silfurlitur á 3.30€ kílóið? Eða 397 íkr þegar sami fiskur kostar á annað þúsund krónur á Íslandi? Er nokkuð skrítið þó manni blöskri? Hvar liggur munurinn? Það veiðist engin ýsa við strendur Spánar og best gæti ég trúað að þessi ýsa hafi verið frá Íslandi. Ég spurði hana hvaðan hún væri, en þar sem greyið var frosin og í bútum var ekki hægt að ætlast til að hún svaraði. En þarna munar allavega 300 % á verði heima og að heiman. Fokk!!! ( Þetta orð þýðir, í þessu samhengi, að draga upp fokkuna á seglskipum. Það þótti bæði vont verk og erfitt og síðan er talað um Fock þegar eitthvað er sérstaklega erfitt og andstyggileg.) Ég fór í stórmarkaðinn í dag eins og áður segir og keypti eftirfarandi:

30 01 04 Túnfisk í dós 120 gr venjuleg Caballa #Albo......... 1,09 € 1 1,09 € 98,10 kr.
30 01 04 Súputeningar 8 stórir Kjúkl... Doble Caldo #Knorr 0,52 € 1 0,52 € 46,80 kr.
30 01 04 Súputeningar 8 stórir Boli..... Caldo de #Knorr..... 0,52 € 1 0,52 € 46,80 kr.
30 01 04 Kraftsúpa ?........................... Doce Verduras........ 0,95 € 1 0,95 € 85,50 kr.
30 01 04 Kraftsúpa ?........................... Sopa de Cebolla..... 0,95 € 1 0,95 € 85,50 kr.
30 01 04 LGG í 6 stórum fl 600 gr....... ActiMel #Danone..... 2,99 € 1 2,99 € 269,10 kr.
30 01 04 Spaghetti 3cm mjóir 250 gr... Pasta #Gallo.......... 0,40 € 1 0,40 € 36,00 kr.
30 01 04 Ostur í sneiðum 200 gr Innp. Queso Asturiana..... 0,69 € 1 0,69 € 62,10 kr.
30 01 04 Kjúklingapulsur 4 stórar 350g Jumbo Pollo .............1,59 € 1 1,59 143,10 kr.
30 01 04 Mjólk 1l 14. Apríl Engin E efni.. Leche #Puleva.........0,92 € 1 0,92 € 82,80 kr.
30 01 04 Sojabrauð gróft....................... ................................0,95 € 1 0,95 € 85,50 kr.
30 01 04 Rauðvín í kassa 1 líter............. Tinto Vino #Vivó.......0,60 € 1 0,60 € 54,00 kr.
30 01 04 WC pappír 4 rúllur.................. Higienico...................0,65 € 1 0,65 € 58,50 kr.
30.0104...Ketlíklegasvínaketca.600g ........................................2,79€.....1..............2,79€........251,10kr. Samtals..................................................................................................................15,61€ .1.404,90 kr

Í þriðja dálki kemur fyrst það sem varan heitir á spænsku og síðan vörumerkið á eftir # merkinu. Þetta er EXEL skrá sem núna telu á annað hundrað línur. En hér var bara tekið það sem ég keypti í Hagkaup þeirra Jimena búa í dag. 
29.1.04
  Húsaverð fer lækkandi kringum húsið mitt, af hverju? Aðgöngumiðar að Nó Erport. Blankur, aldrei slíku vant. .
Sturtudagur. Leiðinlegasta sem ég geri er að fara í sturtu eða bað yfirleitt. Þess vegna vann ég það til á Lágafelli að keyra 44 kílómetra til að þurfa ekki að fara í heimahússsturtu. Samt er fínasta sturta hjá Sæju frænku og mér guðvelkomin á nóttu sem degi. Að vísu soldið þröng fyrir fullvaxna, en það var ekki ástæðan. Ég bara hata sturtu. Allt öðru vísi í sundlauginni, þar er maður úti á miðju gólfi og getur haft alla sína hentisemi. Og rakað sig rennblautur og farið svo aftur í sturtu til að skola af sér sápuna. Ég get svosem ekki kvartað hérna, Lúí segir að sturtan hér og baðherbergið allt sé það lang flottasta í allri Jimena. Ég held að það sé ekki fjarri lagi, það er stór og mikill sturtuklefi og flott sturta með gnótt af heitu og köldu vatni. Úr hverju haldið þið að sturtuklefinn sé? Megið giska 2348 sinnum, en ef það dugar ekki þá er hann hlaðinn úr múrsteini og pússaður!!! Nema hvað. Ég held að þetta antiheimasturtusindrom sé eitthvað meðfætt og galli í litningakeðjunni, ég hef alltaf verið svona. Kannski af því það var ekkert bað í Hallstúni þar sem ég er alinn upp. Bara bali. Og ekki farið í bað á hverjum degi, enda ekkert rennandi heitt vatn lengi vel. Var bara hitað á kolaeldavélinni. Ég man ekki eftir því að hafa beðið tjón á líkama eða sál vegna þess að hafa ekki farið í fjandans sturtu tvisvar á dag. Og í sambandi við baðfarir, nú er talað um að kornabörn séu og hafi lengi verið ofböðuð. Húðin þornar upp og þó verið sé að sulla einhverjum kemiskum olíum í staðinn er það aldrei það sama og eðlilegir húð vessar og fita.
Ég lét mig nú samt hafa það að fara í sturtu og svo skrapp ég í bæinn. Í súpermarkaðinn og keypti inn fyrir 14.50€. Ég svitnaði þegar stelpan nefndi upphæðina vegna þess að ég átti ekki nema 15.05€ á kreditkortinu í Caja san Fernando bankanum mínum og innan við hundraðkall á Íslandsbankakortinu. En þetta slapp til og ég vona að Hreppur borgi mér húsaleigubæturnar á morgun, þeir borga oftast seinasta virka dag í mánuði en Tryggingastofnum alltaf þann fyrsta, eins þó hann sé á sunnudegi eins og núna. Ekki kom blekið og batteríin í dag, nú er ég farinn að spyrja á Pósthúsinu þrisvar á dag eins og í biðinni löngu eftir Kassanum mínum. Kassanum með stórum staf.
Alltaf fellur mér eitthvað til, Braiany vinkona mín bað mig að búa til 50 aðgöngumiða að kvöldverði sem á að halda til fjáröflunar fyrir No Airport samtökin. Byrjaður, en verð að fá meira blek áður en ég get prentað þá alla. Ég sem var farinn að kvíða því að hafa ekkert að gera!
PS: Ég fer ALLTAF í sturtu annan eða þriðja hvern dag. Svo þið haldið ekki á ég sé kominn með 30 metra fríradíus. Alla vega er kötturinn ekki flúinn, ég hef það til viðmiðunar.
 
28.1.04
  Áveituframkvæmdir. 30 cm. reglan hefur ekki verið prófuð á Prúdencio, ennþá. Bilaður bróðir eins og bræðum er gjarnt. .
Dagurinn sem ég ætlaði ekkert að gera. Alls ekkert nema sofa, éta og svo framvegis. En þá er bankað, Gúnnje, mæ seiving maskín is stopp, help! Í íslenskri þýðingu: Hæ GunniJak, Lúí hér, ég var að vinna með saumavélina mína í allan dag og núna er hún orðin svo stirð og þung að ég er hætt að geta saumað! Ég er á leiðinni með hana á saumavélarverkstæði í Algeciras. Nei, bíddu við kona, engan æsing, láttu Fjölvirkjann kíkja á hana áður en þú gerir eitthvað sem kostar þig hundrað evrur. Ó, heldurðu að þú getir lagað hana? Já, alveg örugglega, þá henti hún Bróður sínum inn á eldhússborðið hjá mér og fór og náði í, eftir minni beiðni, verkfæri og saumavélarolíu. "Bróður sínum": saumavélin heitir Brother. Og það var eins og mig grunaði og ég hef oft komist í áður, skyttan var orðin hálf föst af kuski og olíuleysi. Ég hreinsaði alla vélina upp og smurði allt sem smyrja þurfti. Og viti menn, betri en ný og bilar aldrei eins og segir í þjóðsöng Fjölvirkja. Godd bless jú sagði Lúí og brosti út í báðar kinnar svo sjá mátti aftur fyrir hnakka.

Ég hef verið að trassa að koma áveitukerfinu mínu í gott lag, er búinn að eiga allt efni í það síðan í fyrra, en það hefur bara ekki rignt á þessu ári fyrr en í gær. En nú var ekki til setunnar boðið, ég endurbyggði það mest allt og notaði alvöru sílikon en ekki akrílkítti eins og þorskhausarnir í BÝKÓ seldu mér. Sílikonið fékk ég hjá kaupmanninum mínum á horninu, það stóð á milli brauðsins og kjúklinganna. Ég var bara alminlega þreyttur í kvöld.

Stytti upp seinni partinn og endaði með kvöldsól. Ég treysti henni samt ekki, það virðist vera erfitt að hætta að rigna ef það byrjar á annað borð. Púdencio er ágætlega hress, hann er aftur alfluttur niður til mín. Lúí er soldið abbó sem von er, en hann hefur steinhjarta og hefur enga samúð með fóstru sinni sem er búin að ala önn fyrir hann í 14 ár. Nú er hann farinn að taka upp á því að sofa ofan á mér, ef ég sný mér harkalega flýgur hann í loftköstum og ómögulegt að vita hvar hann lendir. Vill til að kettir lenda yfirleitt mjúklega. Þekkið þig 30 cm regluna? Ef þú heldur á ketti með lappirnar upp í loft þarf hann ekki nema 30 cm til að snúa sér og lenda á fótunum.  
27.1.04
  Rigning. Gaucin. List eða ekki list. Hjón í megrun buðu okkur Rod í kaffi, guði sé lof fyrir bumbuna mína. .
Húrra húrra, það er komin rigning!! Guði sé lof, vont er að hafa of mikla rigningu, en ennþá verra hafa hana of litla. Að vísu hefði mátt velja betri dag til að byrja að rigna vegna þess að ég fór í skemmtilegt ferðalag í morgun. Rod þurfti að hitta listamann í Gaucin og bauð mér með sér. Þetta er fjallaþorp lengst uppi á fjallstoppi. Það er krákuvegur að bænum. Rod sagði mér að það væri svakalega flott útsýni á þessari leið, en við sáum mest lítið af því. Það rigndi ekki mikið, en það var svona þokuslæðingur með rigningunni þannig að ekkert sást sem var lengra í burtu en 100 metrar. Ergilegt, en kom ekki að eins mikilli sök vegna þess að listamaðurinn sem við heimsóttum er mjög sérstakur karakter. Því miður man ég ég ekki hvað hann heitir, en hann er þýskur, var 13 ár prófessor í listaháskóla í Glaskow í Bretlandi. Ekki veit ég hvað kom fyrir hann þar, en hann tók sig upp, keypti sér mótorhjól og flutti til Spánar. Nú er hann Mótorhjólatöffari og hvunndagsfötin hans eru svört töffaraföt og þröng leðurstígvél. Til skýringar á því af hverju ég tala svona mikið um þetta er sú að þetta er maður á mínum aldri, semsagt á grafarbakkanum. Hann á risastórt hús á fjórum hæðum í brattri brekku, þannig að allar hæðirnar enda í brekkunni. Uppi á háalofti er hann með grafískar græjur, til að prenta og móta alls konar listaverk. Þangað upp átti Rod erindið, hann er að móta pappír í þrívídd en á ekki pressu til að gera það með. Hann samdi við gaurinn að meiga koma í pressuna hans hvenær sem hann vill. Heppinn Rod. Á næstu hæð, götuhæðinni, en eldhús og flott stofa með heilan glervegg sem snýr að stórum dal sem hann sagði mér að væri rosalega fallegur. Svo á tveimur neðri hæðunum er gallerí í mörgum herbergjum eða sölum. Allt fullt af listaverkum eftir hann. Meiriháttar. Þegar við Rod gátum slitið okkur frá Listinni fórum við í heilmikinn göngutúr um Gaucin, alveg upp undir kletta sem halda uppi kastala, nema hvað. Allstaðar kastalar og aftur kastalar. Þessi sýnist frekar lítill, en Rod sagði að hann leyndi á sér. Við fórum á stað í þennan leiðangur um kl. 11:00 og komum heim klukkan fimm. Flottur túr, en æsti og tryllti upp í mér löngun til að koma aftur í léttara veðri. Þegar ekki þarf að nota regnhlífar! Við kynntumst svo afskaplega aðlaðandi hjónum sem buðu okkur heim uppá kaffi og saltsýru. Kaffið var vont en saltsýran góð. Þegar heim var komið og ég var að fá mér síðdegislúrinn fixaði ég myndirnar og gerði þær nethæfar. Þegar þetta er skrifað er ég ekki búinn að koma þeim inn, en vona að ég verði búinn að því áður en ég skelli dagbókinni á netið. Jú, víst er ég búinn að því, hvað er GunniJak að bulla! Ef ég fer að hafa minna að gera ætla ég að hafa þennan háttinn á, skella nýju myndunm inn og hafa linka á þær frá Dagbókinni. Það dræpi ykkur nú varla að senda mér smá meil og segja ykkar álit á þessu og öllu öðru, hverju sem er. Ég ætla að setja svar-form við dagbókarfærslurnar, en bara kann það ekki. Prófa það samt fljótlega.
 
26.1.04
  Prófessionalljósmyndarastælar. Beðið eftir rigningu, klórum í mastrið. D vítamín skortur. .
Mætti í stúdíóið til Rod klukkan hálf tólf með tölvuna og myndavélina. Nú skyldi gera úrslita tilraun til að taka mynd af grafíska listaverkinu sem hann er að fara að setja á sýningu í Cádiz. Rod á góðan þrífót og ég stillti myndavélinni upp á hann, yfir sérstöku hallandi borði sem hann teiknar á. Myndin er upphleypt og skjannahvít og það verður að falla á hana ljós frá réttu sjónarhorni til að hún komi vel í ljós. Þar stendur hnífið í kúið, það er svakalega erftitt að taka mynd af hlut sem er allur mis upplýstur. Þegar einn hlutinn er kominn með rétta snerpu og lit er annar hluti orðinn ómögulegur. Ég tók ca. 50 myndir með mikilli upplausn og setti þær jafnóðum inn á tölvuna og þar gátum við skoðað þær við betri aðstæður en í litla glugganum á myndavélinni. Það vill til að myndavélin er með sérstaka stillingu fyrir Halogen lýsingu, en það er einmitt lýsingin sem Rod notar á þessar 3D myndir sínar. Við vorum að basla við þetta í 4 tíma og svo fór ég heim og er nýbúinn að klára að prenta út mynd sem mér líkar. Semsagt, vinna frá kl. ellefu í morgun og til klukkan eitt í nótt. En mikið rosalega er þetta gaman, ég lifi mig alveg inn í svona dútl, en ég þekki ekki marga sem ég held að hafi svona mikla þolinmæði. Jú, kannski Smári frændi minn Æðeyjingur. Vel á minnst, ég tók hann í hálfsmánaðar kúrs í tölvufræðum, m.a. Fótósjopp, nú er ég aftur að fara að kenna Prófessionality Listamanni á tölvu, nei fyrirgefið mér ef þið getið, Makkinntoss og á Fótósjopp. Feraðtakkettaaðmér. Nú bíð ég spenntur eftir að sýna Rod myndina og hvort hann verður ánægður með hana. Hann rétt ræður eftir alla þessa vinnu. Djöfull væri ég ríkur maður ef ég tæki alltaf fullt kaup fyrir allt sem ég geri fyrir aðra! En á móti kæmi ef allir tækju fullt kaup fyrir allt sem þeir gera fyrir mig er ég ekki eins viss um að verða auðugur. Kannski jafnar þetta sig bara upp.

Það er búið að vera alskýjað í allan dag og nú mænir fólk til himins og óskar eftir rigningu. Það er allt að skrælna hérna eftir fimm vikna bónusveður handa GunnaJak. En nú er komið nóg af því í bili og má alveg fara að rigna. Núna, klukkan hálfþrjú að nóttu, en hvasst og hlýtt, kannski bara rignir hann í nótt. Bara ekki á morgun vegna þess að þá er ég að fara í ferðalag.

Ég má til að stinga því hér inní að Rod leysti mig út með fullan höldupoka af appelsínum. Hann heimsótti einhvern vin sinn sem er með fleiri hektara af appelsínutrjám og hann gaf honum tvo poka. Svo þegar ég kom heim var fullur höldupoki af appelsínum á hurðarhúninum hjá mér, Jane fer reglulega í einhvern garð og "stelur" gommu af appelsínum og gaf mér og Lúí sinn hvorn pokann. Ætli það sé nokkur hætta á að ég deyji út D-vítamín skorti?


 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com