GunniJak í Danmörku
22.2.04
  Ekkert. .
Tekur því varla að skrifa fyrir daginn í dag. Ekkert sérstakt gerðist og ég fór ekki út fyrir lóðamörkin í dag. Annars er þetta með lóðamörkin soldið skondið. Ég hef minnst á það áður að það liggur risastór þjóðgarður meðfram öllum bænum í Jimena, það er að segja þeim megin sem við búum. Þessi þjóðgarður var "búinn til" árið áður en Lúí byggði húsið sitt hér. Hún hefði ekki fengið að byggja það árið eftir af því þá hefði svæðið sem það stendur á verið friðað. Og nú liggur þjóðgarðurinn meðfram húsinu hennar þannig að um leið og við stígum út um útidyrnar, uppi og niðri, erum við kominn inn í þjóðgarðinn og meigum raunverulega ekkert gera. Enda pissa ég aldrei úti nema í myrkri af ótta við að spilla þjóðargersemi Spánverja!
Fór smávegis í vegginn í dag, en hef verið eitthvað lumpinn eða óvenju latur í dag. Það hefur verið þrumuveður af og til í dag með tilheyrandi úrfelli. Það er samt ekki enn farið að koma inn til mín vatnið þannig að ég veit ekki hvernig "nýja" áveitukerfið sem ég setti upp í fyrra reynist, það hefur nefnilega ekki komið dropi inn til mín það sem af er þessu ári. Merkilegt veðurfar. Og nú er ég viss um að ekki styttir upp frá 26. feb til 9. mars. Þá verður Gunni á Bílaleigubíl og þarf á sólskini að halda.
 
21.2.04
  Una systir er dáin. Fjandans Krabbinn. Hver benti mér á veturgengna lambið mitt? Prentarinn í lagi. .
Jæja, þá er hún Una systir mín búin að fá friðinn. Hún dó í morgun, Sæunn á Lágafelli sendi mér meil og hringdi í mig. Þakka henni fyrir það. Una systir var búin að vera veik í nokkur ár, að berjast við fjandans Krabbann. Mér finnst eins og annar hver maður sem ég frétti að sé dáinn hafi farið úr honum. Það finnst trúlega seint lækning við Krabba, raunverulega eru þetta hundrað sjúkdómar hver með sín einkenni og viðbrögð við því þegar reynt er að eyða honum. Blessuð sé minning Unu systur. Hennar verður víða sárt saknað, kannski mest af Guðmundi blessuðum sem var henni styrk stoð í hennar veikindum og trúr og góður vinur. Og svo Missir Siggi á Baugsstöðum líka mikið. Fyrst bróður sinn fyrir fáum árum og svo núna mágkonu sína.

Ég var hálf lamaður fram eftir degi, hálf þunnur, ósofinn og þreyttur á líkama og sál. Þessvegna skil ég alls ekki af hverju ég fékk allt í einu óstöðvandi áhuga á stóra prentaranum mínum sem "eyðilagðist" á leiðinni til Spánar. Akkúrat á þessum degi, ég hef verið að safna kjarki í 4 mánuði til að opna hann og skoða betur eyðilegginguna en aldrei haft mig í það. Nema hvað, ég snara honum upp á borð, skrúfa af honum allar hlífar og sjálft boddýið og um leið og ég lít á hann sé ég hvað er að. Hér má ég til með að koma með smá tæknibull, bið tæknihatara afsökunar: Flest allir bleksprautu prentarar eru með prenthaus sem rennur eftir sívölum öxli fram og aftur yfir því sem prentað er. Í hverri ferð sprautar hann úr sér nokkrum þúsundum eða tugum þúsunda lítilla blekdropa með nákvæmni upp á kannski einn hundraðasta hluta úr millimetra. Það má nærri geta að það má ekkert skrölta eða dingla laust til að þessi nákvæmni raskist og þá væri tilgangslaust að vera að reyna að prenta, það væri bara einhver klessa. Þessi prentari kostaði 65.000.- Íkr fyrir þremur árum og er algjörg gullmoli sem tekur A3 blöð, en það þýðir að ég get tekið A4 blað og sett það á lengri hliðina í hann. Svo er hann með 6 lita kerfi sem en enn í dag það besta sem hugsast getur. (Afsakið Canon og HP menn). Ég er nú kominn aðeins út fyrir efnið, ég vil bara að þið skiljið hvað þessi græja er mér mikils virði. Um leið og ég fór að skoða hvað var að sá ég það og var ca. 2 mínútur að laga prentarann þannig að hann er betri en nýr!! Það eru fóðringar utan um öxulinn þar sem prenthausinn rennur fram og til baka og þessar fóðringar höfðu einfaldlega losnað úr sæti sínu og dingluðu lausar á öxlinum en prenthausinn var kominn með ónákvæmni upp á hálfan sentimetra!! Ég renndi fóðringunum á sinn stað og allt var í lagi. Að vísu eru ennnþá stífluð 2 göt í svarta hlutanum, en hylkið tæmdist áður en ég gat klárað að hreinsa hann. Þarna var ég búinn að veltast með prentarann á alla kanta, upp á endann og á hlið og svo framvegis. Nú langaði mig að prófa hann og tek A4 blað og ætla að setja það í á langveginn, en gat ekki með nokkru móti fært sleðann sem stillir blöðin á réttan stað. Ég var lagður á stað út í verkfæraskúr að sækja sleggjuna og kúbeinið til að fixa þetta aðeins til, eggilagiha, en leit aðeins betur á sleðann fyrst og viti menn, það hafði dottið hlutur ofan í smá rennu sem stillisleðinn rennur eftir og hann komst ekki til hliðar vegna þess að þessi aðskotahlutur var fyrir. Og hvað haldið þið að þetta hafi verið nema Sauðféð mitt!! Nókía gemsinn minn! Móbilinn minn kominn í leitirnar heill og sæll með að vera aftur kominn i gagnið. Nú sendi ég Símanum vini mínum meil á eftir og bið hann að opna hann aftur. Ef einhver sem les þetta hefur einhverntíman síðastliðna 4 mánuði skilið eftir áríðandi skilaboð á talhólfinu mínu, vinsamlega sendu mér þau aftur, en á meili í guðanna bænum. Ég hef aldrei getað hlustað á skilaboðin í talhólfinu hér á Spáni og núna verður það lokað þar til ég kem heim, en þá opna ég það aftur. Og nú er spurningin þessi: Af hverju fór ég í þetta í morgun af öllum dögum?? Svari hver fyrir sig. En ég hugsa sitt af hverju.

Það hellirigndi allan fyrripartinn en stytti upp síðdegis. Ég skrapp í bæinn, bjó til peninga og fór í stórmarkaðinn. Það eru ansi margir pöbbar lokaðir á sunnudögum svo ég "neyddist" til að fara á aðeins fínni Tapas stað en vanalega. Ég læt þessa getir vegna þess að ég taldi Tapas bakkana og það reyndust vera um 21 tegund að velja. Þrjú sjö rétta borð. Allt frá einföldu grænmetissalladi og upp í flóknar steikur, allt til þess að borða af lítilli undiskál. Ca. 2 desilítrar hver skammtur. Og kostar víðast hvar 2 evrur. Ég fékk mér hrognarétt og rækju og skelja rétt. Yfirleitt læt ég mér duga einn Tapas og einn bjór, en núna var ég að halda upp á smalamennskuna og fékk ég mér 2 af hvoru. 4 evrur eða ca. 330.- Ikr.
 
20.2.04
  Stóri fallegi munnur. Írland. Alon. Rosalega flott veisla. .
Spánarrigning í mest allan dag. Ég er feginn, nenni ekki út. Er bara að dútla í tölvunni og leggja mig á víxl. Við Lúí fórum svo í veisluna sem ég var búinn að minnast á. Það var rosalega gaman. Þarna voru 48 manns og ég kannaðist við helminginn af þeim. Ekki einmana hér, GunniJak! Jane mín kom með vinkonu sína með sér. Hún er á ferðalagi og gistir í nokkrar nætur hjá Jane. Okkur kom sérlega vel saman, hún er með einhvern stæsta munn sem ég hef séð á nokkurri manneskju, en ég hefði heldur ekki trúað að óreyndu að það gæti farið nokkurri manneskju svona vel. Hún er frá Írlandi og aumingja GunniJak er með fótaför á tungunni. Þeir sem ekki skilja þetta verða bara að hafa það. Þessi veisla var haldin í veitingahúsi sem heitir Alon, eitt af alvöru veitingahúsum í Jimena. En það er samt Tapas bar uppi undir risi, verður að vera Tapas bar, annars er staðurinn núll og nix. En á jarðhæðinni er fyrsta flokks veitingastaður með fullkominni þjónustu. Lúí hefur unnið mikið fyrir eigendur staðarins, bæði heima hjá þeim og fyrir Alon. Hún hefur talað mikið um þetta fólk og ég var orðinn forvitinn að vita hver þau væru. Þegar líða tók á kvöldið bað ég Lúí að hnippa í mig ef eigendurnir gengju framhjá svo ég vissi hverjir þeir væru. Fyrst gapti hún og lét eins og hún skildi ekki mína lýtalausu ensku, en áður en mér gafst ráðrúm til að grípa til spænskunnar eða íslenskunnar fór hún að hlægja og bauðst til að kynna mig fyrir vinkonu sinni sem sat mér til vinstri handar og hafði gert allt kvöldið. Þetta var vinkona okkar Lúíar og ég hef ótal sinnum hitt hana hjá Lúí og úti um allt. Þetta var þá eigandinn eftir allt saman, ég ég hafði ekki hugmynd um það.
 
19.2.04
  Tuðandi nöldurskjóða, Sleppiðiðí. Skammast á 7 tungumálum. Duglegur í grjótinu. Prúdencio hættur við að drepast í þetta skifti. .
Þetta rakst ég á á netinu í kvöld:

Kæri Drottinn. Í dag hef ég gert allt rétt. Ég hef ekki slúðrað, ekki orðið reiður, ekki verið gráðugur, fúll, vondur eða sjálfselskur. Ég hef ekki vælt, kvartað, blótað eða borðað súkkulaði. Ég hef ekki sett neitt á kreditkortið mitt. En ég fer á fætur eftir nokkrar mínútur, og ég mun þurfa mun meiri hjálp eftir það. Amen.

Ég myndi í ykkar sporum bara sleppa næsta kafla í Dagbókinni :o(

Svona líður mér stundum, en aldrei á kvöldin. Ég var að vinna við vegginn í allan dag. Það er að segja stuttar vinnur og langar pásur eins og vanalega. Loksins held ég, eftir 47 ára þrotlausar tilraunir, að ég sé búinn að finna vinnu-stílinn minn. Eins og ég var að lýsa. Mér er nákvæmlega sama hvort nokkur trúir mér, en ég hef búið við verulega skerta starfsorku allt mitt líf. Andlega og líkamlega. Þúsun sinnum hef ég orðið fyrir háði, spotti, kerksni og stundum hreinum illindum vegna þess að ég GAT ekki unnið og gert það sama og allir í kringum mig. Ég vil kenna fjandans skjaldkyrtilinum um þetta að mestu, annars veit ég ekkert hvað er að. Mér er líka orðið nokk sama, ég ætla ADREI að koma mér í þær aðstæður oftar að þurfa að djöflast langt umfram getu, andlega og líkamlega. Nýjasta dæmið er bara þriggja daga gamalt: Þegar ég fór að hlaða vegginn og það allt þá sagði ég fröken Lúí að ég hefði sex (5+1 til öryggis) vikur til að klára þetta, ég skildi alltaf hafa gott aðgengi og snyrtilegt, en ef hún ræki á eftir mér þá einfaldlega hætti ég, segði upp og færi í drafúldna fýlu og ryki heim til Íslands 4. apríl. Aumingja Lúí hrökklaðist undan mér þegar ég öskraði þetta framan í hana með steittum hnefa, Poor Lúí!
Nei nei, við erum svakalega góðir vinir við Lúí og það hefur aldrei farið eitt styggðaryrði á milli okkar. Æ, það er svo notalegt að það skuli enginn vera í 1000 km. radíus að angra mann og ergja, stríða manni og hrekkja. En það eru ekki alltaf jólin og best að "Vera viðbúinn því illa af því það góða sakar þig ekki".

Ræsiskallarnir klára líklega á morgun. Þeir lofuðu í upphafi að grafa fyrir mig eitt rör niður í jörðina með gröfunni þegar hún var hérna, en gerðu það ekki. Síðan er ég búinn að vera að núa þessu loforði um nasir og síðast í dag ætluðu þeir að fara með allt sitt hafurtask og þóttust vera búnir. En þeir þekkja ekki enn hvað GunniJak getur verið rosalega leiðinlegur, ég reifst og skammaðist yfir þeim og heimtaði að þeir kláruðu það sem þeir voru búinr að lofa. Og þeir hunskuðust burt, enda vinnudagurinn búinn, og lofuðu að koma á morgun og gera allt sem þeir hefðu lofað fyrir mig. Ég sagði svo Lúí, en hún var að vinna þegar þetta var, hvað ég hefði sagt og gert og þá hvíslaði hún að Rod, sem var staddur hér, "Á hvaða tungumáli ætli hann hafi skammað þá?" Svo var ég að enda við að segja að enginn stríddi mér hér!!

Já, dagsverkið. Ég gróf langan skurð og setti ofan í hann rör alla leið að niðurfalli sem er fyrir framan þvottahússdyrnar. Þar hlóð ég svo brunn úr múrsteinum og steyptir niðurfallið ofaná. Þetta er ég búinn að læra af Spanjólunum allt í kringum mig. Á Íslandi hefði ég fengið mér hné á rörið og skellt niðurfallinu þar ofaná. Svo ef rörið hefði stíflast hefði ég eða sá sem þyrfti að annast það lent í djúpum skít. Stílfær og/eða raunverulega. Það verður rosalegur munur að geta gengið eftir flottri og þurri stétt að þvottahúsinu og brennigeymslunni í staðinn fyrir að vaða drullu upp að hné í rigingum og skrika ofan í djúpan skurð í þurru.

Fór ekkert af bæ í dag nema til að kaupa handa okkur Prúda í matinn. Hann er endanlega hættur við að fara á hin víðu og björtu (Eða segir maður kannski dimmu þegar kettir eiga í hlut?) veiðilönd og lætur sér duga stólinn við hliðina á mér fyrst um sinn. Lúí segir að ég hafi örugglega bjargað lífi hans og komið honum til heilsu á ný. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Einhver kallaði mig Doktor Dúlittel eða Dagfinn Dýralækni um daginn þegar hundur sem ég hafði hitt tvisvar áður stökk frá eiganda sínum til að rabba við mig. Eigandinn segir að hundurinn hafi aldrei gert þetta áður við neinn, en greyið þekkti mig bara. Það er það sem ég hef alltaf sagt, ferfætlingar og börn laðast að mér. Púnktur. Þetterbarasona.

 
18.2.04
  Veggjarslagur og drén. Hoppandi vatn. Prúdi átti kannski eitt líf eftir. Rod á námskeiði, fyrsta lessjón eða kennskustund. .
Ég er rosalega duglegur í dag og gengur vel með vegginn, en er voðalega argur út í verkfærin sem mér eru boðin til að vinna með. Ef verkfæri skildi kalla, hef talað um það áður og sleppi því hér. Lúí var búin að segja mér að það væri ekkert hægt að gera meira til að stoppa lekann inn í húsið, meðal annars að leggja drénlögn meðfram veggnum sem ég er að vinna við. Og mikið rétt, ég fann drénlögnina og það var mulningur í kringum hana og steypt stétt undir henni. En gallinn var bara sá að hún er ca fet fyrir ofan gólfplötuna. Þannig að vatnið þarf að hoppa ca. 50 cm upp í drénlögnina. Segjum sem svo að vatn gæti og vildi hoppa svona upp þá kemst það ekki inn í drénið vegna þess að það er steypt stétt undir rörinu og vatnið myndi bara reka höfuðið uppundir og detta, fyrirgefið, rigna niður aftur. Aumingja vatnið.
Prúdencio er aðeins, en bara örlítið, að hressast. Hann át ca. 2 fullar fingurbjargir af fiski í gær og tvöfaldaði skammtinn í dag. Og drakk heilan helling. Ég fékk að klappa honum í dag, en hann hefur verið hálf pirraður við klappi undanfarna daga, en í dag fór hann bara að mala eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og teigði sig nokkrum sinnum. Hún mamma mín sagði alltaf að hægt væri að sjá fyrstu batamerkin á fjórfætlingum sem væru búnir að vera veikir þegar þeir teygðu sig. Og kýrnar yrðu aftur heitar á eyrunum og að kettirnir fari að mala ef þeim væri klappað. Oft er gott sem gamlir segja.
Rod kom hér í dag með verkefni sem þarf að leysa, hann er að búa til kort af bænum og leiðinni heim til hans til að senda tilvonandi kúnnum í sumarhúsið hans. Og hann tók fyrstu lessjón í Fótósjoppfræðum í leiðinni. Var í tvo og hálfan tíma. Eins gott að harði diskurinn í hausnum á honum sé ekki eins götóttur og í mér.
Það hefur verið mystur hér um slóðir síðustu daga. Ég held að þetta sé ekki meingun heldur eitthvað náttúrulegt. Það skilur enginn í þessu veðurlagi, mannaminni og svo framvegis.

 
17.2.04
  Píka ssó. Kona með auga í naflanum. Og annað í ,,,,,,,,nei, sleppum því. Malaga. Eplagrautur. Veggja vegg veggjum veggið .
Ég fór í afburða skemmtilega ferð í dag. Ég hitti Rod við veginn hans klukkan hálfníu, en mér til vonbrygða var hann einn en ekki með sína (okkar) heittelskuðu Lis með sér. Því miður. Þau áttu von á gestum sem létu ekki vita fyrr en í gærkvöldi að þeir væru að koma í dag, svo hún komst ekki. Við brenndum beint til Malaga og þar fundum við, eftir nokkra leit epli sem búið var að bíta í, Apple eins og það heitir á fínu máli og er geymt í Machingtosh dós. Þar lét Rod skella auknu minni í laptoppinn sinn þannig að hann er kominn með 730 mb í minni. Vá! Það tók sölumanninn 3 mínútur að skella því í, en í annarri búið sem Rod var búinn að kanna málið taka þeir hálftíma fyrir þetta viðvik sem kostar um 30€ eða ca 3000kall. Hann keypti minnið, 4 tengja Róter, mús og smádót fyrir innan við 25.000.- kall Íkr. Það er ekki dýrt. Næst fengum við okkur kaffi og ég fann íslenska jólaköku, eða allavega nákvæmlega eins. Eins og að vera kominn heim. Nema kaffið, ca. 1 desilíter og bleksvart eins og tjara með flóaðri mjólk útá. Rosa gott en allt of lítið fyrir svelg eða niðurfall eins og mig.
Síðan fórum við á Picasso safn sem nýlega var opnað aftur eftir stækkun og þar gaf á að líta!!! Það hafa aldrei neinsstaðar verið samankomnar eins margar Picasso myndir á einum stað. Þarna voru 2 salir fullir af myndum sem safnið á og auk þess þrír salir með myndum frá einstaklingum um allan heim sem þeir lána á safnið í einn mánuð. Sá hluti sýningarinnar lokar 1. apríl. Við Rod vorum þrjá og hálfan tíma og komumst samt ekki yfir nema 3 af 5 sölum. Það tekur tíma fyrir alvöru listamann eins og Rod að skoða svona sýningu. Og þvílíkur hafsjór af upplýsingum og sögum sem hann sagði mér og ryfjuðust upp fyrir honum þegar hann sá sumar myndirnar. Ég er harðákveðinn í að fara aftur og skoða þessa þrjá sali sem eftir eru og helst að renna aftur yfir það sem ég var búinn að skoða. Ég hef nú ekki gert mér grein fyrir hvað kall skrattinn var mergjaður listamaður. Þarna voru svo nákvæmar og faglega unnnar andlitsmyndir að maður gat talið svitaholurnar eftir myndinni og svo á næst vegg var kannski mynd af "konu" með augun í nablanum, hendurnar uxu út ur mjöðunum og hnjánum og höfuðið í tveimur hlutum, munnurinn á öðrum og nefið á hinum. Þvílíkt og annað eins!! Ég verð að byrja á að fara til Malaga þegar ég verð kominn á Settinn okkar Jane. Eftir þetta fengum við okkur svo tvöfaldan Tapas og ég tvöfaldan bjór, en Rod bílstjórinn einfaldan pilla.
Í stríðinu gerðist það stundum þegar bensínflutningaskip voru sprengd í loft upp að kallarnir sem stóðu á dekkinu urðu fyrir svo miklu höggi upp undir sig að augnkallarnir gengu upp undir handarkrika, innvortis, og þannig voru þeir dregnir um borð í björgunarskip, lifandi. Ég held að mér hafi liðið eitthvað svipað þegar ég var búinn að standa upp á endann í þrjá og hálfan tíma. Þegar ég kom heim lagði ég mig í klukkutíma og fór svo bakvið hús að grafa fyrir steinvegg og byrja að hlaða hann og núna þegar ég er að fara að sofa finn ég hvergi til. Skilettekki.
Ég gleymdi einu, þegar verrið var að grafa fyrir nýja hlutanum af safninu var komið niður á mannvistarleifar frá því um 800, sem er nú ekki ýkja merkilegt, ef það væri ekki FK! Það er að segja fyrir krists burð. Það fundust 3 lög frá mismunandi tímum, ég er svo lítill sögumaður að ég man ekkert hverjir voru hvað, nema ég held að þeir elstu hafi verið Föniku menn. Það var byggð heil hæð umhverfis og fyrir ofan þetta og svo eru göngustígar á milli rústanna. Merkilegt sögulega séð, en klaufalega eitthvað plastlegt allt þar inni nema rétt rústirnar sjálfar. Göngustígarnir úr gljáandi mahony og stáli og milli rústanna skjannahvítur grjótmulningur. Samt gaman að hafa séð þetta.
 
16.2.04
  Kannski á Prúdencio eitt líf eftir af 9? BÝKÓ aumingjar. Karmelludrusla. Whiský fyrir dres secundo. .
Þegar ég vaknaði í morgun lá Prúdencio við hliðina á mér og ég gat ekki merkt neina hreifingu á honum. Það var að vísu rökkur í herberginu en ég sá ekki neinn andardrátt eða neitt. Svo ég strýk honum yfir hrygginn og segi: "Svona fór það þá, kannski það best fyrir þig". En þá lítur hann upp og ég sá í svipnum á honum að hann sagði: "Sá gamli í neðra hefur nú ekki klófest mig ennþá"! Stuttu seinna labbar hann út og að fötu sem alltaf stendur full af vatni bak við hús og fær sér vel að drekka. Svo settist hann út í sólskinið og var hinn brattasti. Þetta er það fyrsta sem hann fer út í 4 daga nema til að gera þarfir sínar. Svo labbaði hann út í Própertíið og rabbaði við Heath sem var að ná sér í kál og aðrar matjurtir. Ég fór í göngutúr, en þegar ég kom til baka lá sá gamli uppi í rúmi og hefur ekki hreift sig síðan. Nú þyrfti annaðhvort að fara að slökkna á mínum eða að batna. Þetta er óþolandi bið og óvissa.
Já, ég labbaði í bæinn upp úr eitt til að kaupa rist fyrir yfirborðsvatnið við vaskahússdyrnar. En loka þá ekki þessir andskotans letingjar í BÝKÓ klukkan 13:30 en ég kom eina mínútu yfir. Þvílík Síesta!!! Þyrfti að senda þá á námskeið hjá Alvöru BÝKÓ í Kópavogi, til dæmis í mannlegum samskiptum og kurteysi. Þetta eru bara dónar í þessari búð. Ég kom við á pöbbnum mínum á leiðinni heim og fékk mér eitthvað ógeðslega ljótt og fráhrindandi, eitthvað grátt gutl með brúnum bitum í. En mikið svakalega var það gott maður, þarf að spyrja Lúí hvort hún viti hvað ég var að éta. Og einn bjór. 1,65€. 124 ca. Íkr. Hvað hefur þetta lið í kaup, mér er spur? Kom við hjá Rod í heimleiðinni alveg upptendraður af skúlptúrunum mínum, hann kom mér nú samt aðeins niður á jörðina, þannig að ég tylli allavega stóru tánum niður. Hann bauð mér með sér og Lis til Malaga á morgun, hann er að fá sér stærra minni í KarmelluDrusluna sína svo hann komi inn í hana Fótósjoppinu og ég geti byrjað að kenna honum á það. Hann er farinn að kvíða fyrir tímaskorti hjá mér, ég á alveg eftir að ganga frá við þvottahúsið hennar Lúíar, setja niður drénlögn, hlaða vegg, helluleggja með litlum náttúrulegum steinum ca 5 m2 og steypa stétt framan við allt saman. Svo er ég að fá bílaleigubílinn í 12 daga og ætla mér ekki að gera annað en ferðast þann tíma, þannig að eins og vanalega er GunniJak að drepast í annríki upp fyrir haus. Húrra fyrir því, mér leiðist þá ekki á meðan.
Lúí kom niður til mín áðan og bauð mér upp til sín í smá Whiský tár. Vitanlega þáði ég það með þökkum (Kannski geta þær Bidda systir þá skipt á milli sín sektartilfinningunni yfir að ég fer beint á Vog þegar ég kem heim). Þegar ég stóð upp um síðir og sýndi á mér fararsnið sagði hún mér að prentarinn sinn virkaði ekki neitt. OÓ, þessar kellingar, ég spurði hana hvort Whiskýið væri eins og gulrótin fyrir asnann og samþykkti hún það. Sagðist verða að finna nýtt trix næst. Ég mælti nú bara með Koníaki, það mundi virka ennþá betur en Whiský og Gulrót til samans!! (Tengillinn við prentarann hafði aðeins dregist út og ég ýtti honum inn aftur. Dýr 3ja skúndna viðgerð sem kostaði hálfa Whiskýflösku!!)
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com