Bless og takk fyrir mig.
.
Jæja kæru ættingjar og vinir og aðrir þeir sem gluggað hafa í þessa dagbók undanfarna 5 mánuði. Nú er ég kominn heim til Íslands og þar með er tilgangi þessarar dagbókar náð. Ég er ákaflega hreikinn af að hafa aldrei sleppt úr einum einasta degi allan þennan tíma. Dagbókin átti aldrei að vera lengri en þetta, á meðan ég væri á Spáni og ferðirnar fram og til baka. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég geri núna, hvort ég nenni að halda áfram að Dagbóka og þá í hvaða mynd það yrði. Margt sem nú fer í hönd á ekkert erindi í dagbók á netinu, allt annað en suður á Spáni. Við verðum bara að sjá til og endilega kíkið öðru hvoru hérna inn til að sjá hvað er að gerast eða til að sjá hvað er ekki að gerast. Ég ætla aftur suður á bóginn í haust og þá helst að kaupa mér húsbíl í Þýskalandi og keyra suður á bóginn. Lengra ná mín plön ekki í dag, en eitt er víst, ef ég fer aftur á flakk suður í Evrópu ætla ég mér að byrja að dagbóka í sömu mynd og í vetur á Spáni. Þakka ykkur svo öllum fyrir veturinn og gangi ykkur allt í haginn.
GunniJak
PS: Þess má til gamans geta að dagbókin er:
Orð: 67.737
Stafir og stafabil 365.358
Línur: 5.875
Blaðsíður: 138
Dasaður. Og kald, skítkalt. Hjörtur annar Sólveigarson. Svaf hjá Ólafíu.
.
Svaf fram að hádegi enda mikið dasaður eftir ferðalagið. Skíta andskotans kuldi eins og vanalega á þessu skeri. Þó líklega ekki frost, en það er alveg sama, það er kallllt! Fór á stað um þrjú leitið og byrjaði á að heimsækja Hjört, Sólveigu og Massaguttann. Þau mæðgin eitthvað lumpin, en þó ekki alvarlega held ég og mikið er þetta sléttur og fallegur strákur. Hann er bara nokkurra vikna en var 19 merkur við fæðingu. Stoppaði heillengi og fór svo til Ólafíu. Þar voru staddar Linda og Sjöfn og svo kom Palli með Ellu og skildi hana eftir þegar hann fór. Ég yfirgaf svo samkvæmið þegar klukkan var um 21:00 og fór beint í Árbæjarlaugina. Þvílíkur léttir að komast í heita pottinn eftir 5 mánaða fjarveru. Það sem mér þóttti einna verst á Spáni var að komast ekki í heitan pott. Ekki einu sinni sund. Svo dreif ég mig bara austur og var kominn í Ullarkofann um miðnætti. Kíkti í hitt húsið og þá var Sæunn vakandi búin að búa um sig í stofu sófanum. Halldór búinn að sparka henni út úr hjónarúminu. Nei, því miður var það ekki svoleiðis, heldur er hún viðbeinsbrotin greyið að tarna. Og þarf að sofa hálfsitjandi til að líða betur. Við ræddum heima og geima til klukkan hálfþrjú. Ég fór svo fljótlega að sofa upp úr því.
Kominn heim rændur og rifinn og er kalt. Allt annað í lagi.
pfff pfff pfff, mér er kalt, alveg skítkalt, alveg andskoti skítkalt!!!! Þettas getur ekki merkt nema eitt, ég er kominn Heim. Ferðalagið gekk stórslysalaust og engin slys á mér og vonandi ekki á mínu dóti heldur. Það eina sem skyggir á gleði mína með ferðalagið var það að ég var rændu næstum aleigunni. Ég þurfti að borga um það bil aleiguna fyrir umframvikt. Hreint rán. Ég er að pikka á tölvuna hans OfurBaldurs og má ekki vera að því. Fer ekki austur í dag en kannski á morgun.
Eins og róni í eina nótt. London, ljótasta hús í heimi. Rændur aftur, en bara 50%. Labba upp að hjám. Núlli upprisinn.
.
Núna eru engin skýr skil á milli daga nema bara að líta á klukkuna. Ég man ekki hvort ég var búinn að segja frá viðskiptum mínum við gistiheimilið rétt hjá Stansted. Það er mælt með því á heimasíðu IcelandExpress. Ég pantaði gistingu þar fyrir löngu en þá kom í ljós að þau gátu ekki tekið við fólki nema það væri komið fyrir ellefu, þá lokaði gistiheimilið. Og það var sama hvað ég rellaði, því var ekki haggað. Og að lokum var ég beðinn, og það ekki kurteislega, um að senda þeim ekki fleiri meil. Nú, ég hitti konu í Imformeisjon básnum (Upplýsingum) og hún gaf mér símanúmer á þremur B&B, en það er skammstöfun á gistiheimilum þar sem morgunverður er innifalinn. Eitthvað hefur blessaðri konunni fundist ég fátæklegur vegna þess að hún saðgi við mig að það kosta a.m.k. 80 Pund nóttin. Ég veit ég leit hálf fátlega út, í úlpugarmi, slitinni peysu og allur úfinn og tætingslegur. Allavega saup ég hveljur og bað guð að hjálpa mér. Nýbúið að ræna mig 270 evrum og átti eftir að bóka mig aftur og láta ræna mig aftur. Ég spurði hvenær flugstöðin lokaði og hvað ég fengi að vera þar lengi inni. Mér til léttis sagði hún að það væri aldrei lokað og það væri mjög algengt að fólk bara hallaði sér yfir nóttina. En pakkageymslan opnaði ekki fyrr en klukkan fimm. Ég var með dótið mitt á svona innkaupakörfu og fór nú að ferðast um staðinn. Og viti menn, allstaðar var sofandi fólk. Á bekkjum, undir bekkjum, á gólfinu hvar sem var og það var ekki annað að sjá en þetta væri bara sjálfsagður hlutur. Ekki nennti ég nú að fara að grýta mér í gólfið heldur fór ég í bókabúð og keypti mér kilju, fór á kaffihúsið og fékk mér kaffi og meððí og las í rólegheitum. Já, ég gleymdi að segja það að það voru nokkrar af þeim ca. 50 búðum sem eru á Stansted opnar alla nóttina. Og þrír veitingastaðir. Ekki entist ég nú við að lesa alla nóttina heldur var á eilífum ferðalögum, það var svo gaman að skoða mannlífið við þessar aðstæður. Klukkan hálfsex byrjuðu lestirnar til London að ganga og þá var búið að opna pakkageymsluna. Það er bara stórt herbergi sem dótið er geymt inni í og maður fær bara kvittun. En dótið er allt gegnumlýst og skannað til að finna stóru sprengjurnar. Þeir fundu ekki mína.
Ég tók fyrstu lest og var ekki með neitt á mér nema veskið. Ekki einu sinni myndavélina. Batteríin tóm og ekki hægt að gera neitt í þessu vitlausa rafmagni í landi Betu. Það var að byrja að birta þegar lagt var á stað og orðið sæmilega bjart á þessum 45 mínútum sem það tekur að fara til Lifrarpollsstöðvarinnar í London. Ég hafði ekkert hugsað út í það að lestin stoppar í miðju Citi of London. Fattaði það ekki alminlega fyrr en ég ég sá ljótasta hús í heimi. Það var byggt fyrir ca. 20 árum og þá olli það þvílíkum usla í fegurðarheiminum að annað eins hefur líklega ekki gerst áður. Og það setti eigandann næstum á höfuðið vegna þess hvað það var dýrt og vegna þess að snobbið var svo mikið að þá var nýtingarhlutfallið innan við 30%. Verra en á Borgarspítalanum. (Fyrirgefið þið, ég meinti Landsspítala Háskólasjúkrahúsi Fossvogsdeild). Og nú er spurningin, vitið þið hvaða hús þetta er? Svara seinna.
Ég var orðinn glorhungraður og fór að leita mér að matarholu. En því miður fyrir mig voru öll hús einhverjar peningahallir úr marmara, gleri og stáli. Og ekki nógu virðulegt að hafa einhverja veitingastaði sem hæfðu manni með lýsinguna sem áður greindi. Allt í einu sé ég skilti með ör sem bengi á London Bridge. Ég í þá áttina, og mikið rétt, eftir hálftíma rölt kom ég að breiðustu brú sem ég hef séð, þrjár akreinar í hvora átt og breitt bil á milli til og frá og gangstéttarnar sitt hvoru megin voru ca. 10 metrar á breidd. Ég var þarna á ferðinni um 8 leitið og það veitti ekki af stéttinni, hún var bókstaflega pakkfull af fólki með skjalatöskur undir hendinni. Og líka allskonar öðru fólki. Það er sagt að það séu fleiri litaðir í Londan en neins staðar annarsstaðar í ólitaðri borg. Ég er þessu alveg sammála eftir að hafa verið í London. Kannski þriðji hver maður. Ekki allir kolsvartir, en svona mjög dökkhvítir eða ljóssvartir. Um leið og ég var kominn yfir brúna var ég kominn inn í allt annan heim. Óteljandi mér hæfandi matsölustaðir, venjulegar búðir og bara allt eins og það átti að vera. Ég var bara feginn að vera kominn út úr City þó ég hafi ekki verið búinn að vera þar nema hálfan annan tíma og komast innanum fólk eins og mig sjálfan. Ég fór inn á stað sem bauð morgunverð og ég sagði bara við vertinn að mig langaði í stóran og eins týpiskan breskan morgunverð og hann ætti. Og það stóð ekki á því, tvö egg, annað skramblað, beikonsneiðar, ristað brauð, tvær stuttar feitar pulsur, sveppir og ýmislegt fleira sem ég man ekki. Og þið megið giska 3425435 sinnum hvað ég drakk með. Ef þið giskið á te þá sparið þið ykkur 3425434 ágiskanir. Nema hvað. Rosalega var þetta gott svona í morgunsárið.
Þarna ráfaði ég fram og aftur um gamla hverfið og sá eitthvað nýtt og athyglisvert á hverju horni og á milli þeirra. Mest þótti mér athyglisvert að sjá járnbrautirnar sem voru uppi á annarri hæð fyrir ofan göturnar. Mikið er gott að vera laus við þann fjanda bæði heima og Heima. Núna gerðist minn maður bæði þreyttur og syfjaður og vildi fara að komast aftur til Stansted. Fann brúna eftir nokkra leit en alls ekki LiverPool stöðina. Labbaði og labbaði. Marga kílómetra. Kom á marga staði sem ég vissi að hún hafði verið á þegar ég kom. Hefur verið færð á meða ég úðaði í mig beikoninu. Svona er matargræðgin alltaf að koma mér í koll. Að lokum spurðist ég til vegar og þá spurði gaurinn af hverju ég væri að labba í þessa átt þega Liverpool stöðin væri í þessa? Og um leið benti hann beint aftur fyrir mig. Eftir mikla hrakninga komst ég svo loksins á stöðina. Ég hef alveg gleymt að segja ykkur að það var andskotans skíta þræsingur, hitinn 2-3 gráður og rok. En smá sólskin að nafninu til. Mikið var gott að koma inn á hlýja stöðina. Þarna ráfaði ég á milli lestanna og þræddi brautarpallana. Fór alla leið að holunni þar sem lestirnar koma inn á stöðina og fylgdist hugfanginn með því þegar þær komu og fóru. Ef þig eigið eftir að ferðast, eða þegar þig farið að ferðast næst ráðlegg ég ykkur að taka öllu með Open Mind eða opnum huga og drekka allt í ykkur án fordóma og ekki hugsa um hvað aðrir myndu hugsa um ykkur ef þið gerður nú bara það sem ykkur dettur í hug hverju sinni. Það mun margur hrista hausinn í undrun og hneikslan yfir því að ég stæði þarna og drykki í mig tilfinninguna fyrir því að sjá lestirnar koma og fara. Þetta er það sem MÉR finnst gaman, þið skuluð svo ekki hika við að gera það sem YKKUR þykir gaman. Og það án þess að bíða. Grípa augnablikið. Núna. Dæmi: Þegar ég kem næst til Andalúsíu mun ég ekki taka myndir eins og ég tók þegar ég var nýkominn þangað í fyrsta sinn. Það er smá kaktusaumingji rétt fyrir utan dyrnar á húsinu Okkar Lúí, ég tók helling af myndum af þessum kaktus og sumar eru komnar inn á netið. Síðan sá ég miklu stærri og "fallegri" kaktusa, en mér þykir mjög vænt um myndirnar af litla kaktusnum og ég mun alltaf muna tilfinninguna þegar ég sá þá í fyrsta sinn.
Ég gat ekkert fengið mér á lestarstöðinni vegna þess að ég átti engin pund og það hefur líklega hitt á tímann þegar reiknistofan er að mjólka bankatölvurnar þegar ég ætlaði að ná mér í smá gjaldmiðil svo ég bara skellti mér aftur til Stansted, átti sem betur fer farmiða fram og aftur. Á Stansted var kortið komið í lag og ég fékk mér aftur Morgunverð. Svo tillti ég mér á þægilegan stól og blundaði í ca. klukkutíma með hökuna niðrá bringu. Ég skal viðurkenna að þetta var alls ekki viðeigandi þegar allt var komið á fulla ferð og fólk í þúsundavís að koma og fara allt í kringum mig. Ég gat bara ekki haldið lengur út. Klukkan fimm átti svo að byrja að bóka til Íslands með IcelandExpress og ég var næst fyrstur í röðina. IE hafa enga starfsmenn á Stansted heldur notast við hórur eða allra flugfélaga gögn. Stelpur sem fara á milli bása fyrir litlu flugfélögin sem fljúga þangað. Aftur fór Innskráningarstelpan í kerfi þegar ég setti töskurnar mínar á bandið og sagði að ég yrði að tala við þeirra yfirmann og létu mig hafa miða með viktinni á töskunum. Ég þangað og hitti afar elskulega konu sem tekur miðann og segir strax sextíu pund. Sem er ca. 50.000.- Íkr. Nú fór fyrst að fara um gamla. Ég einfaldlega átti ekki svona mikla peninga og þó ég hefði átt þá ætlaði ég að nota þá í annað. Ég vildi fá að sjá útreikningana og þá reiknaði daman út frá 65 kílóum og á 3 pund kílóið. Ég leiðrétti hana með þyngdina, yfirviktin væri ekki nema 45 kíló og í reglum IE væri hvergi talað um pund heldur 500 krónur kílóið í umframvikt og nú væri hún búin að reyna að svindla á mér og það væri alvarlegt mál ef það færi lengra svo ég vildi bara ekki borga neina yfirvikt. Stelpugreyið sá að hún var komin í klípu og bauð mér að borga helminginn, það er að segja 20.000. Ég féllst á það með bros á vör, bjóst ekki við að ná neinum árangri. En ég varð að fara með rússnesku ferðatösluna í sérstakan tékk inn þar sem hún var sérstaklega gegnumlýst. Hafa séð á henni þjóðernið. Ég varð að bíða í álíka langri röð og í Disney World um árið til að komast inn í vopnaleitarsalinn. Klukkutíma. Og þvílík taugaveiklun maður minn! Þarna voru margar löggur með vélbyssur í skotstöðu niður með lærinu og gegnumlýsingartækið sendi frá sér viðvörun við aðra handtösku sem fór í gegn. Þá var farið með töskuna og eigandann afsíðist og mér sýndist liggja við að þeim værri sprett upp. En allt tókst þetta að lokum og við fórum aftur með stjóralausri lest í hina flugstöðina þaðan sem við fórum svo um borð hálftíma á eftir áætlun klukkan 19:50. Flugið gekk eins og í sögu og vélin lenti um tíúleitið í Keflavík. Ég tók flugrútuna að Víkingakránni í Hafnarfirði og þar tók Ofur Baldur á móti mér og bauð mér heim með sér og ég svaf hjá honum um nóttina. Takið því eins og þið viljið, en konan hans og börnin sjö voru öll í Danmörku. Ég fékk að sjá nýju fínu Möstuna mína tilsýndar og leist bara býsna vel á. Kannski er hún nógu flott til að mér finnist taka því að þvo hana. Hver veit.