GunniJak í Danmörku
26.9.04
  Endanlega búið á hinum staðnum. Ferðalag sem endar hjá Magga frænda. .
.
Svaf til 10:30. Skammaðist mín fyrir að sofa svona lengi, vissi að Bjarki ætlaði að fara á gamla staðinn og klára að þrífa útihúsin, undan kanínum og hestum. Þau voru með þónokkra kanínurækt, ca 30 stykki. Það var nýbúið að slátra þeim þegar ég kom hingað. Það var slatti af hálmi og taði sem átti eftir að hreinsa og svo undan nokkrum hestum. Bjarki kom svo heim um hálf tólf. Ég át morgunmat á meðan hann fékk sér hádegismat. Fór svo með honum og við kláruðum algjörlega að þrífa og taka allra seinustu dreggjarnar. Ég tók kanínustíurnar en hann kláraði að tína allt dótið sem var eftir þegar við vorum búin að taka það síðasta um daginn. Þetta er alltaf svona, þegar allt er búið er hellingur eftir. Við komum svo heim upp úr 01:00, passlega til að sjá Formúluna, en hún var haldin í Kína í fyrsta sinn. M. Schumaker er minn maður, en af því hvað hann hefur óeðlilega mikla yfirburði í allt sumar hafði ég lúmskt gaman af hans óförum. Hann endaði í 12. sæti.

Síðan var farið í heljarmikinn bíltúr. Beint í norður fyrst og alla leið að sjónum. Þar var farið upp á heilmikinn kamb á sjáfarbakkanum og skoðað útsýnið frá honum. Að vísu var heilmikið rok, en hlýtt og skýjað. Svo fórum við sem leið lá meðfram ströndinni og svo á bílnum niður í fjöruborðið á hvítri, endalausri strönd. Eða fjöru. Gaman að keyra svona í fjöruborðinu, alveg við sjóinn. Tíkin Blíða var með í för og hún fékk að hlaupa með bílnum á sandinum. Að lokum komum við að vegi sem lá upp úr fjörunni. Síðan var farið þvers og kruss um sveitirnar og endað hjá Magga Frænda. Þar var nú heldur betur fjör eins og vanalega. Blíða hitti mömmu sína og þær tuskuðust allan tímann. Öll fjölskyldan er hin skemmtilegasta eins og ég hef tekið fram áður. Það var lagt í púkk og pöntuð Pitsa sem var étin með bestu list. Við fórum heim um 8 leitið og allir voru glaðir og ánægðir með velheppnaðan ferðadag.
 
25.9.04
  Djamm á B og H. Öll sund lokuð. Gunni á BLAKMÓT! Keila og TV. .
.
Bjarki og Heiðrún eru með spakasta fólki í útfrábæ-skemmtunum. Svona eins og sveitafólkið heima, það er Þorrablótið, Töðugjöldin og kannsi eitt sveitaball. Það er einhverskonar uppskeruhátíð í vinnunni hans Bjarka, en ef ég hef ekki sagt ykkur það, þá er hann snikkari og vinnu hjá verktakafyrirtæki í LögStör sem hefur nokkra tugi manna í vinnu hingað og þangað, aðallega um norðanvert Jótland. Flestir af vinnufélögunun eru svona hressir strákar eins og hann sjálfur og þeir halda svona skemmtun einu sinni á ári. En það er ekki verið að nasla í snittur milli 2 og 3, búið, nei ekki aldeilis. Þau fóru klukkan þrettánhundruð, eða eitt eftir hádegi og komu heim klukkan tvö eftir miðnætti!!! Fyrst var farið í Bóling og svo voru allskonar skemmtiatriði hjá þeim sem enduðu með ógurlegri fantareið, en ég held að það sé ágætt nafn á Ródeó upp á Brandaraísku. Já, þið sjáið fyrir ykkur þar sem nauti er sleppt út úr búri með því að fella hlera og íslending sitjandi berbakt hangandi í einni gjörð. Nei, svo gott var þetta nú ekki, heldur var boli vélknúinn og gat víst gert alveg eins mikla stæla og alvöru RoastBeaf. Varla þarf að taka fram að íslendingarnir voru okku til mikils sóma eins og endranær á erlendri íþróttagrundu. Svo var farið út að borða og svo var ball og svo var ................. Að þeirra sögn var það eina sem þau urðu sér (og þá um leið allri þjóðinni á HjaraVeraldar) var mikill slappleiki við drykkjuna. Drukku semsagt hvorki eins og íslendingar eða norðmenn. Að ekki sé talað um Finnar.

Nú, við ÁK vorum ábyrg fyrir heimilinu, að meðtöldum ArnariFrey þar til foreldrarnir komu heim um ellefu leitið. Okkur datt það snjallræði í hug að fara í sund. Eftir soldið japl og jaml og fuður, meðal annars að draga undirritaðann útúr hálftíma blundinum sínum væra, skelltum við okkur til FerjuSlef. En, þegar þangað er komið var klukkan orðin þrjú og sundlaugar&%&%&&%#"$$ að loka. En, og haldið ykkur nú, það var að byrja Blak-mót í íþróttahúsinu sem er sambyggt sundlauginni. Og GunniSporthatariJak fór á Blak-mót!! Ef þið hafið veri búin að jafna ykkur á Körfuboltamótinu og Batmintonleiknum þá skellur þetta á!!! En þetta var hin besta skemmtun, það voru svona eldra fólk að keppa, karlar og konur í blönduðum liðum. Keppt á 2 völlum.Þó var það lang flottasta klapppíurnar frá FerjuSlef. Allt stútúngskellingar, ein var um þrítugt og allar hinar milli 55 og 80 ára! Þær voru í skærrauðum pínupilsum sem voru allar skornar í ræmur eins og á Havaí og hvítum bolum. Svo héldu þær á þessum líka svaka legu dúskum, hvítum og rauðum. Og gáfu þeim bandarísku heilalausu ekkert eftir í kúnstum og samtakamætti.

Það verst við mótið var að ég vissi ekkert hverjum ég ætti að halda með. ÁK bannaði mér að halda með Ferjusleg, svona venjulegur rígur á milli bæja, eins og á Íslandi svo ég tók þann fræga kost tækifærissinnans að halda bara alltaf með því liði sem vann. Við vorum þarna á annan klukkutíma og skemmtum okkur ágætlega. Þegar þolinmæði Arnars þraut fór hann bara að hlaupa um áhorfendabekkina og það var allt í lagi, hann þurfti ekki nema að brosa framan í áhorfendur sem hann var að trufla til að bræða jafnvel hörðustu steinhjörtu. Já, ég gleymdi því, við fengum okkur pulsur áður en leikurinn hófst. Bara sem sárabætur fyrir að laugin var lokuð.

Nú var haldið í keilusalinn, ég sagði ÁK fyrirfram að ég færi alls ekki í keilu með Arnar Freyr með okkur. Það væri of erfitt fyrir okkur að hafa hemil á honum og ennþá verra fyrri hann að láta sitja ofan á sér. (líking til að fyrirbyggja misskilning.) Aftur á móti prófuðum við kappakstur í svona kössum og kúluspil. Þegar síðasti peningurinn minn, sem átti að endast fram að jólum, var búin fórum við beint heim. Fínasti túr fyrir alla. Í sjónvarpinu var sönglagakeppni barna í kvöld. 2ja tíma dagskrá sem gaf JúgarVísum ekkert eftir hvað snerti umgjörðina, munurinn var sá að lög og flytjendur voru ekki öll að gera það sama eins og í Júró. Mikið gaman. ÁK svæfði ArnarFrey áður en keppnin byrjaði og sjálf fór hún að sofa eftir ca. hálftíma af JamesBond 007, the golden gun. Ég horfði á hana til enda og svo á einn þátt með Falk gamla og fór svo loks að blogga klukkan 02:00. Þarmeð er ég búinn að auka sjónvarpsgláp mitt í Danmörku um 100% á einu kvöldi.
 
24.9.04
  Kominn kettlingur. Fallegur eins og mamman. Styrjöld um kjúikling, enginn slasaður líkamlega..Laukstaur og Torg. .
.
Mikið um að vera hér í morgun. Önnur læðan er að fara að gjóta. Þau eiga læður sem er að verða 13 ára og allir héldu að hún væri löngu komin úr "kettlingaeign", en fyrir 2 árum eignaðist hún svo 2 kettlinga. Annar þeirra er læðan sem var að undibúa got í morgun. Hún var sett í kassa og svo var ég ljósmóðir fram eftir degi. Ég skrapp í LaukStaur Nettó þar til að efna mér í kjötsúpuna sem ég ætla að elda í kvöld. Fann allt sem mig vantaði nema Lammeköd og Rófur. Það spyr enginn um Rófur til manneldis hér í Danmörku né flestum öðrum löndurm. Þetta er bara nautgripa og svínafóður og alls ekki mönnum bjóðandi. Aumingja fólkið, það veit ekki hvers það fer á mis!! Um leið og ég er lentur í hlaðinu heima og ekki kominn út úr bílnum hringir Bjarki í mig og biður mig að sækja sig í Bensínstöðina við torgið á leiðinni til Nípu. Og ég var nýkominn frá þessum slóðum! Það er heljarmikið gilli í vinnunni hans á morgun og þeir hinir þurftu vinnubílinn til að undirbúa það. Við Bjarki fengum svo lánaðan traktor á "mjólkurbænum" með 6 m3 vagn til að flytja brenni sem var enn á gamla staðnum. Vagninn varð kúffullur af viði og eru það um og yfir 6 RÚMmetrar. Allt í söguðum trjástubbum frá 10 til 50 cm í þvermál og ca 30 cm langir. Þetta urðum við að rétta útum fjósglugga og raða á vagninn. Gamli GunniÞreyttiJak var alveg búinn eftir þetta. Sem betur fer var þetta sturtuvagn og gátum við sturtað beint inn í eldiviðarskýlið. Þegar við komum heim úr eldiviðarflutningunum var kominn einn risastór kettlingur, alveg eins og mamman. Og þeir urðu ekki fleiri. Aumingja kisa að losa sig við þetta flykki svona að gjóta í fyrsta sinn. Ég segi ykkur meira frá kettinum þegar ég hef myndir til að sýna með annarri sögu.

Klukkan fjögur keyrðum við ArnarFreyr ÁK í íþróttahúsið. Heiðrún var í útreiðartúr og Bjarki að flytja eitthvað á traktornum svo ég tók að mér að passa pjakkinn. Og það var tilvalið að gera það í íþróttahúsinu. ÁK var að fara á Badminton æfingu. Það var æft á 4 völlum og var mikið fjör og læti. Við Arnar vorum aðallega að böggast í krökkum sem voru þarna að fylgjast með systkynum sínum og öðrum. Hann var rétt búinn að gera hosur sínar grænar fyrir lítilli dömu þegar æfingunni lauk og var hundfúll yfir að þurfa að yfirgefa nýfundna kærustu. Ætli þetta verði ekki til að hann pipri greyið? Kominn á örvæntingaraldur, enda orðinn 2ja ára!! Og ÁK vann fleiri æfingar en hún tapaði. Meiri orkan í þessu gerpi!!

Þegar heim var komið upphófst styrjöld mikil í kotinu. Það var búið að afþýða kjúkling sem var búinn að verpa í nokkur ár, ábyggilega 5 kíló!! Risastór unghæna. Heiðrún kom ekkert heim í hádeginu og hún bað mig um að láta fuglinn inn í ofn á 120 gráður um hádegi, sem ég og gerði. Þegar hún kemur heim ætla ég að fara að skera sundur kjúklinginn, en hún segir þvert nei, hún ætli að steikja hann. Til hvers haldi ég að ég hafi átt að setja hann í ofninn? Nú, ég var ekki sáttur við þetta og segist vera búinn að gera mér ferð yfir hálfa Danamörku til að efna í kjötsúpu og ég ætli bara að fá minn kjúkling í mína kjötsúpu. Og upphófst nú slagur mikill um fuglinn fræga. Honum lyktaði með því að fuglinn slitnaði í sundur og þá var ég fljótur að taka syðri helminginn af honum (Þeimmegin sem ég hélt í hann) og slengja honum ofan í súpupottinn en Heiðrún var að bít í það súra epli (Eða aldraða kjúkling) að geta ekki steikt hann nema hálfan. Kjötsúpan var býsna góð og hrósuðu henni flestir, mest þó Heiðrún. Svo býð ég bara spenntur eftir hvort sá steikti verði jafn góður.

Þetta var viðbætt og stílfærð saga GunnaJak af kjúklingnum stóra og aldraða.


 
23.9.04
  Leggja sig, napp, slappa af, hvíla sig, pása, þreyttur, dáinn. .
.
Þegar ÁK kom heim úr skólanum kl. 14:15 var ég sofandi í sófanum niðri. Mikið þreittur. Ég gaf henni þá skýringu að fyrst hefði ég sofið út. Svo lagði ég mig. Svo fékk ég mér "napp" (Enskur blundur) Svo tók ég pásu og svo slappaði ég af uppi í rúmi. Eftir allt þetta basl varð ég að leggja mig og varð ekki glaður þegar hún ónáði mig í fallegum draumi. Heiðrún kom ekki heim í hádeginu, á bara eftir 3 daga óunna á gamla staðnum. Tilhlökkunin mikil hjá henni og ekki nema von.

Lagaði tölvuborðið aðeins, lyklaborðsplata vildi detta niður. Bara smá fix fyrir Fjölvirkja. Og svo bara smá húshjálparsnudd til 18:30, en þá förum við ArnarFreyr upp íþróttahús til að horfa á seinni hálftímann í fimleikum hjá ÁK. En því miður var bara hálftími hjá henni í dag svo við fórum bara upp í kaffiteríuna og ég fékk mér kaffi en þau ís. Vorum þar í klukkutíma, bara að vepjast og leika okkur. Sjoppuhaldarinn gaf þeim sinn hvorn tuskufílinn með fótbolta, þau eru auðsjáanlega góðir vinir, ÁK og kallinn. Hún kemur sér allstaðar vel.


 
22.9.04
  Latur. Ökutæki, hámarks bjartsýni. Kikk Box, hættulegar konur. .
.
Legg mig eftir að ÁK er farin í skólann. Fór allt of seint að sofa í gærkvöldi. Þetta ADSL (Háhraða nettengingin) er alveg að fara með mig. Ég bara ligg og ligg í tölvunni og flækist fram og aftur um heiminn. En þetta á eftir að breytast, ég verð ekki í svona sambandi aftur á næstunni. Það er ekki búið að henda mér út hérna ennþá, ótrúleg þolinmæði í fólkinu. Ég er að reyna með öllum ráðum að komast yfir ökutæki. Stórt eða lítið, gamalt eða nýtt, bara að ég geti KEYRT!! Ekki að mér þyki gaman að keyra, en bara þess meira að ferðast. Að vísu eru 3500 km "heim" til Spánar þannig að ökutækið verður að endast amk. 7000 km, af því ég ætla að keyra til baka hingað til Danmerkur. Og geyma ökutækið hér. Það er nóg húspláss og svo reddar Ofur mér bara um bíl heima í vor. Ég held það sé tóm vileysa að ætla að fara með ökutæki heim, tollar og rugl.
Ég gerði ekkert sérstakt í dag, dundaði mér heima við að létta aðeins heimilisstörfin af heimamönnum. ÁK og Heiðrún fóru í sína vikulegu KikkBox ferð til FerjuSlef. Maður veigrar sér við að gera þeim eitthvað til miska, maður gæti fengið löpp á kjammann eða í nýrun. Þær eru með lappirnar fyrir ofan haus þó þær standi á gólfinu.
 
21.9.04
  Þvottaklemmur. Skúra og ryksuga. Myndir á Fotki.com .
.
ÁK hjólaði í skólann í morgun en ég tók törn á ýmsum verkum hér heima. Skrapp í Aggerssund til kaupmannsins á horninu. Vantaði þvottaklemmur. Bærinn er hérna megin við Aggerssund, en rétt hinum megin við það er LaukStaur. Lagði mig í klukkutíma fyrir mat. ÁK kom úr skólanum kl. 13:15 og vorum við bara að fíflast og atast til kl. 15:00 að hún fór á Handboltaæfingu og ég á gamla staðinn og tók síðustu dreggjarnar af puðinu þar. Kláraði að skúra og ryksuga og tók það al-síðasta úr húsinu. Nú er ekkert eftir þar nema eitt sturtuhengi, sem ég hafði ekki verkfæri til að taka. Heim kl. 17:30, algjörlega búinn á því, eins og unglingarnir segja. Lagði mig í tvo tíma og skrapp svo og sótti Bjarka, en hann hafði verið að fara með hestana í girðinguna. Ég var búinn að hirða þá í morgun, Bjarki járnaði þá í gærkvöldi. Er svo bara að slæpast það sem eftir lifir kvölds, jú, ég er búinn að setja nýjar myndir inn á Fotki. Slóðin er: http://fotki.com/gunnijak . Síðan finnið þið síðu sem heitir: "Danmörk 2004" Þar munu koma ALLAR myndir sem ég tek í Danmörku á þessu ári. Nú koma til með að streyma inn myndir á næstunni. Hleðslutækið í myndavélinni minni er bilað og ég get ekki tekið myndir á hana. En þau hérna eiga góða vél til að taka net-myndir á og ég má nota hana. Fyrstu 80 myndirnar eru héðan á nýja staðnum (103) og tók Heiðrún þær allar. Það var smá flipp í gangi, þessar myndir eru aðallega fyrir fólkið þeirra hérna, en trúlega hafa fleiri gaman af þeim. Svo koma mínar myndir inn fljótlega. Skúrir í allan dag, en 15 stiga hiti. Golu skratti.
 
20.9.04
  Hjól. Mjólk með ídífu. Laukstaur og Nípa. Gramsað í Góða Hirðinum. 700 kall. .
.
Skrifað um hádegi. Ég keyrði ÁK í skólann í morgun. Foreldrar hennar eru búnir að banna mér að ofdekra hana og láta hana komast upp með of mikið. Það var slagveðursrigning i morgun, en hvorki hvasst né kalt. Og hún hefði sko mátt hjóla ef ekki væri það að hún er að fara í sund til Ferjuslef í dag og kemur heim með skólabíl. Þannig að það hentaði ekki að eiga svo hjólið sitt uppí skóla. Í gær þegar við fórum á Leikinn ætlaði hún að taka hjólið sitt heim, en það hafði dagað þar uppi, en fann það hvergi við skólann. Þar er heljarmikið reiðhjólaskýli en hjólið var ekki þar sem hún hafði skilið við það. En um leið og við gáfumst upp og vorum að fara rak hún augun í smá bút af stýrinu sem skagaði útaf þakinu á skýlinu. Þar uppi voru nokkur fleiri hjól. Við kipptum þeim öllum niður og hún fékk sitt hjól. Kýmnigáfan er allst staðar eins!!

Þau hérna fá mjólk á sveitabæ sem er alveg við hliðina á gamla staðnum. Það eru ca. 30 kýr þar og mjólkuhúsið eins og þau gerast á Íslandi. Við förum með 2 hálfs annars lítra brúsa til að fylla og höfum með okkur mjólkukönnu til að hella í brúsana. Síðast þegar ég var að ná mér í mjólk var þar kona með dóttur sinni sömu erinda. Það var frekar lágt í tankinum og hún dýfði könnunni sem hún var með ofan í mjólkina. Og þurfti að teygja sig hálfa útyfir tankinn. Hvað ætli hann Halldór á Lágafelli myndi segja ef hann héldi að einhver gerði þetta við tankinn hans? Þegar þau hérna byrjuðu að fá mjólk hjá þessum bónda sagði hann að þau skildu bara dýfa könnunni í tankinn!! En vitanlega tökum við bara úr krananum á botninum á tanknum eins og þrifnum Íslendingum sæmir. Þetta var mjólkursögustund GunnaJak.

Bjarki átti tíma hjá tannlækni í dag í bæ sem heitir Nípa (Nibe). Hann var að vinna stutt þar frá, en hafði ekki bíl til umráða af því hann er kominn á fyrirtækisbíl. Ég fór upp úr hádegi og sótti hann í vinnuna. Heppinn að rata alla leið, Ég þurfti að fara um LaukStaur (Lögster) og þaðan vestur með strönd Limafjarðar. Bjarki er að vinnan við að byggja við frægan BændaHáskóla sem er rétt við Nípu. Ég ætlaði mér sko ekki að verða of seinn og kom þarna klukkutíma áður en ég þurfti og skrapp á meðan ég beið í Camping svæði þar sem fólk leggur húsbílunum sínum. Ætlaði að spyrja um verð og annað, en þá var enginn í afgreiðslunni. Fékk mér Hamborgara á grilli sem þarna er. Á meðan Bjarki var hjá Tannsa fór ég í búð sem heitir Gambaro eða eitthvað í þá áttina. Hún er rekin af kirkjunni og selur gamla hluti. Svipað og Góði Hirðirinn nema að fólk kemur með dótið og gefur í búðina. Ég ætlaði að fá mér buxur, en það hefur enginn spikhjassi gefið brækur í þessa búð nýlega svo ég fékk mér engin föt. En ég keypti samt fjóra hluti: Leðurtösku undir Fartölvuna mína, ljóta, slitna og gamla, en í góðu lagi. Það dettur engum í hug að það sé 200.000.- verkfæri í svona ljótri tösku. Svo keypti ég gamaldags brúnan leirteketil svona með löngum stút. Hef ekki séð svoleiðis græju hjá Heiðrúnu svo ég gaf henni hann. Svo keypti ég húfu á pjakkinn, eins og mikki mús að framan og svo kemur skott undan henni að aftan. Að lokum fann ég þarna batteríisljós með 3 ljósum. Hvítt venjulegt, Gult sem bæði getur blikkað og logað stöðugt og gult toppljós sem blikkar. Gott handa ÁK þegar hún fer að hjóla í myrkinu í skólann. Allt kostaði þetta 60.- dk eða ca. 700.- Íkr. Nú er orðið kílómeter lengra fyrir hana en á hinum staðnum.

Gerði mest lítið eftir að ég kom heim. Slæpast og kíkja í tölvuna öðru hvoru. Fékk Litla Jón inn á MSNið mitt í kvöld, gaman að því.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com