GunniJak í Danmörku
Hansthólm, engin Norræna. Fallbyssuhreiður, en engin egg í því. Skranbúð og skemmtigarður.
.
.
Heim komu sumir um síðir í nótt, eiturhressir að vanda. Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. Mikið væri nú heimurinn öðruvísi og betri ef vímuefni (Áfengi Tóbak Dóp Kaffi, nei annars, kaffið passar ekki hér þó svo að frúin sé ekki enn búin að læra að drekka það) væru notuð í svipuðum mæli og hér á bæ. Inklút GunniJak. (InnKlútur, enska og þýðir: að meðtöldum höfðingjanum.....) Ég er farinn að hlakka til að hella mér í stjórnlausa drykkju á Spáni eins og í fyrravetur. Verst að það fellur ekki vel að ferðamátanum sem ég er búinn að velja mér. Eins og segir í fallega versinu: "Eftir einn ei aki neinn/Taktu tvo og keyrðu svo". Kannski sný ég bara dæminu við og fer að drekka á sumrin og vera í afvötnun á veturna. Nei andskotinn, það er svo hrikalega dýrt, verð að bæta núlli aftan við hverja upphæð miðað við Spán. Og svo eru jafn lélegir drykkjusiðir í Lágafelli og hér. Sem og önnur eiturefnanotkun.
Af tillitssemi við skemmtanafríkin bauð ég krökkunum í bíltúr eftir hádegi. Við ákváðum að fara til Hanstholm, en þar leggur ferjan Norræna að. Hún var að vísu á ferðinni í gærmorgun, enda var erindið ekki að skoða hana. Aftur á móti sáum við ferju sem tvær Norrænur hefði getað verið innaní án þess að reka sig í. En ferðalagið byrjaði á því að við keyrðum sem leið lá vestur Jótland og komum þar að sem fenjaflói mikill teygir sig inn í landið. Þar yfir hefur verið gerð gríðarleg landfylling undir veg. Og fyrir innan landfyllinguna hafa skapast óvenjulega góð skilyrði fyrir líflegt fuglalíf. Á miðri leiðinni yfir flóann er búið að koma upp sérdeilis skemmtilegri aðstöðu fyrir fuglaskoðara. Þarna eru tvö hús með stráþökum, í öðru eru sýningarskápar með uppstoppuðum fuglum af svæðinu, mikill fróðleikur á veggspjöldum og svo seinast en ekki sýst, þá er vídeóvél sem snýr útá fuglasvæðið og hún sýnir fuglalífið "læf" eða á rauntíma á risaskjá. Myndavélinni er svo hægt að stjórna með fjarstýringu og súmma að og frá. Til dæmis er hægt að fylgja sama fuglinum fram og til baka og súmma inn í augasteinana á honum. Í hinu húsinu, en það stendur hinu megin við breitt sýki sem er innan við alla uppfyllinguna og brú á milli, eru kíkirar til afnota fyrir gesti. Hægt er að opna alla gluggana sem snúa út á fuglasvæðið og skoða að vild. Svo er þar einn risakíkir sem súmmar í kornið í auganu á fulglinum úti á mýrinni. Mýri já, mér fannst ósköp lítið til þessara fugla koma, nokkru kvikindi sem syntu, flugu og bardúsuðu eins og fuglar gera í milljóna tali um allan heim, líka heima á Íslandi. Ég hef aldrei getað litið á fugla sem einhver skrítin fyrirbrygði heldur bara venjulegan hluta af umhverfinu. Nær væri að búa til svona útsýnishús við endann á einhverri göngugötunni eða torginu og súmma á mannfólkið. Þar sæum við mun undarlegri, skrýtnari, athyglisverðari og því miður stundum ónáttúrulegri hluti en í einhverri ómerkilegri mýri. Allavega er ég búinn með lífstíðarskammtinn minn af því að horfa út á einhverjar mýrar.
Næst stoppuðum við í Hagkaup við veginn og keyptum okkur efni í PikkNikk, man ekki í augnablikinu íslenska orðið. Stoppuðum svo næst rétt áður en við komum til HanstHólm, uppi á höfðanum fyrir ofan bæinn. Eða öldunni réttara sagt, varla hægt að tala um höfða. Þar eru rústir af undirstöðu undan riiiiiiiiiiiiisastórri fallbyssu úr seinna stríði sem Þjóðverjar settu þarna upp. Ég er alveg að fara að skella myndunum frá þessu mannvirki inn á Fotki og þá er sjón sögu ríkari. En mannvirkið er alveg ótrúlega stórt. Því miður er löngu búið að bræða byssuna í einhverja þarfari hluti en einhver vopn og stendur bara grunnurinn eftir. Þarna eru borð til að næra sig við og gerðum við það óspart, enda allir orðnir svangir. Svo löbbuðum við drjúgan spotta að leiksvæði sem er rétt við risavaxið neðanjarðarbyrgi sem ég held að sé undir öðru fallbyssustæði. Byrgið var opið, en lítið hægt að skoða það vegna myrkurs. Þarna rétt hjá er sannkölluð leikjaparadís og flest leiktækin úr efni beint úr skóginum sem er allt um kring. Þarna skemmtum við okkur heillengi, eða þangað til þolinmæði GunnaJak þraut endanlega. Samt voru feðgarnir (uppi) búinir að fylla tvisvar á (þolinmæði) kortið. Dugði ekkert þó ég segði að það væri að koma rigning, "Róla meira, Renna meira, Vega meira" og svo framvegis. Loks fórum við á stað og það passaði, gerði ekki hellidembu með þrumum, en ekki eldingum. Við urðum alveg hundblaut og gat ég ekki annað en hlegið að aumingja Arnari mínum ljúflingnum, hárið klesst niður að augum og svo rann niður andlitið á honum. En það var mjög hlýtt, ca. 18 gráður svo þetta kom ekki að neinni sök. ÁK bara hristi sig, enda er eins og að stökkva vatni á gæs þó hún lendi í rigningu. Þarna tæmdist myndavélin og ekki eru til myndir frá aðal viðkomustaðnum, Hansthólm. Enda kom það ekki að sök, við fórum ekkert út úr bílnum þar. Keyrði bara einn bryggjurúnt og búið.
Á heimleiðinni stoppuðum við í risastórri Antik-Rusla-Skranbúð við veginn uppi í sveit. Við ÁK gátum ekki stillt okkur um að líta inn, enda hafði hún komið þarna áður. AF sofandi í stólnum sínum svo við skelltum okkur inn. Og þvílíkt dót til sölu maður!! Og ýkjulaust, þetta hafa verið að minnsta kosti 400 fermetrar á tveimur hæðum í eldgömlu húsi. Og hillur frá gólfi til lofts og þröngir ranghalar á milli. Það eru engin takmörk fyrir því hvað þarna var að finna gamalt og nýtt. Aðeins í líkingu við smádótahlutann af Góða Hirðinum, en bara miklu stærra. Munurinn á þessum tveimur stöðum er þó aðallega verðmunur, og aldrei þessu vant var munurinn Íslandi í hag! Dótið var nefnilega rándýrt upp til hópa. Og fljóta eigendurnir á því að þetta sé AntikBúð og antik sé dýrt. Ég keypti mér stóra kaffi/te drykkjarkönnu á 20 dk, hefði kostað 50 kall í GH. Það var komið fram undir kvöoldmat þegar við komum heim, allir sælir og glaðir með túrinn.
PartýTröll. Leigubílstjóri. Söngvakeppni krakka.
.
.
Frúin á bænum er meira Partý-tröll en ég hafði haldið. Nú er klukkan 02:00 að nóttu og ég er að bíða eftir að þau hjónakornin hringi til að "Panta Bíl". Þetta væri ekki svo merkilegt ef ekki væri það að Frú Heiðrún byrjaði skemmtanahaldið upp úr hádegi, aðra helgina í röð!! Hún byrjaði á því að fara í afmæli sem mér skilst að eigi að standa frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Allan sólarhringinn! Ekki er reiknað með að margir hafi samfellt úthald allan þennan tíma heldur droppi út og inn eftir geðþótta. Þetta gerði Heiðrún og var fram eftir degi. Svo skrapp hún aðeins heim og fór í betri spariföt og svo fóru þau hjónakornin til XXXXXXXXXX þar sem er partý úr vinnunni hennar. Með mat og alles.
Við Bjarki vorum að smíða grindur fram eftir degi ásamt barnapössun og heimilisstússi. Við börnin horfðum svo á ansi skemmtilega söngvakeppni í sjónvarpinu í kvöld. Það eru eingöngu krakkar sem kepptu, frá ca. 7 til 12 ára. Það var mikil umgjörð um keppnina, gaf söngvakeppninni einu og sönnu lítið eftir.
Keypti mér Hjólhýsi!! Verið að búa til Aktýgi á GunnaJak, á ekki neinn bíl. Árhús. Grátur. Hlátur.
.
.
Bjarki fékk gommu af galvinseruðum röragrindum á gjafprís. Í morgun byrja ég að sjóða þær saman og búa til 4 stíur fyrir hrossin þeirra. Þetta verður gríðarleg vinna, það er ansi mikið maus að sníða saman rör sem mætast þvers og kruss. Við höfum fína rafsuðu, það vantar ekki og allt til alls. Það koma bogar á milli grindanna þar sem hrossin eiga að éta í genum og þeir eru gamlir og ryðgaðir. Bjarki slípar þá alla niður með vírbursta á rokknum, en það er samt basl að sjóða saman ryðgaðan hlut annarsvegar og galvinseruð rör hinsvegar. En allt mun þetta ganga upp að lokum trúi ég. Verst ef ég verð allan veturinn að því, þá dey ég úr kulda hérna! Gæti svosem allt eins gert það heima á fróni.
Bjarki er búinn að vinna á hádegi og hann kemur með mér í smíðarnar fram undir fjögur, en þá kemur Heiðrún heim úr vinnunni. Við stökkvum beint upp í Möstuna og brennum suður og austur Danmörku. Til Árhúsa, en eins og ég nefndi í gær er þar í grenndinni verið að auglýsa hjólhýsi. Og mikið rétt, eftir örugga og góða leiðsögn Heiðrúnar eftir kortunum komum við beint á staðinn um sex leitið. Þarna var þetta fína hjólhýsi og leist okkur strax vel á það. Að vísu frekar lítið en ótrúlega létt. Það léttasta í sínum stærðar/verð-flokki sem við vorum búin að skoða á netinu. Ég tók helling af myndum af hjólhýsinu og mun skella þeim á Fotki eins fljótt og ég get. Með Hjólhýsinu fylgir stórt og gott fortjald með helling af húsgögnum. Í því er allt þetta sem á að prýða hjólhýsi, nema klósett, samt er klefi fyrir klósett í því. En eigendurnir kusu frekar að nota hann sem geymslu en að hafa í honum klósett. En á móti kemur að það er sjónvarp með stóru útiloftneti sem hægt er að draga upp og niður. Eldavél, ísskápur og vaskur og svo auka koja sem eigendurnir höfðu smíðað handa öðru barninu sínu. Nýleg dekk og gott varadekk og öll ljós í lagi. 12 volta og 220 volta rafkerfi og tveir stórir gaskútar. Það er auðséð á öllu að það hefur verið snyrtilegt og þrifið fólk sem átti hjólhýsið og það hefur aldrei verið reykt í því.
Bjarki og Heiðrún töluðu vitanlega við fólkið og sögðu mér svona upp og ofan af því sem á milli þeirra fór. Við vorum búin að segjast ætla að skoða hitt hjólhýsið svo við vildum standa við það, þó okkur öllum litist afar vel á þetta. Hringdum í fólkið, en þá var eitthvað til fyrirstöðu með að við gætum skoðað það um kvöldið, en máttum koma í fyrramálið. Við þökkuðum pent, 200+ kílómetrar hvora leið! Nei nei, ég bara skellti mér á hjólhýsið og Bjarki stakk upp á upphæð sem eigandinn samþykkti.
Nú fórum við inn í næsta þorp til að GunniJak gæti aðeins létt á kortinu, enda það farið að bólgna út til vandræða. En þá kom babb í bátinn, úttektarheimildin, það er að segja dagskammturinn dugði ekki nema fyrir 2/5 af verðinu. Sem betur fer eru Heiðrún og Bjarki með allra ríkasta fólki (ef þau eru sett undir sama mæliker og ég) og gátu náð út af sínu korti nóg til að borga gripinn. Svo fengum við okkur stóra og ljúffenga hamborgara og komum til baka um níuleitið. Þá var fólkið að enda við að ganga frá hjólhýsinu, setja inn í það fortjaldið og allt sem því átti að fylgja. Við fórum inn í kaffi og gengið var frá pappírsmálum. Þegar við vorum að fara fóru mamman og heimasætat, dúlla ca. 11-12 ára og týndu út úr skápum persónulegt dót og leikföng sem þar hafa ábygglega verið árum saman. Og telpukornið fór að brynna músum þegar hún labbaði út úr hjólhýsinu í síðasta sinn. Hún hafði jú átt þar ótal skemmtilegar stundir og foreldrar hennar hafa átt það þegar hún fæddist svo hún þekkti ekki annað en að hafa það og geta stokkið á stað þegar ástæður leifðu. Ég bara fann til með henni.
Svo var bara haldið heim á leið, í svarta myrkri með hjólhýsið "mitt" (að 2/5) í eftirdragi. Ferðin gekk vel, þó við færum ekki alltaf hárrétta sveitavegi í myrkrinu, enda ekki hægt að líta í kortin. Heim komum við svo fyrir miðnætti og allir glaðir og sælir með ferðina.
Kannski er einhver heima að pæla í því hvort ég ætli að hengja fasteigninga aftan í sjálfan mig? Nei nei, þó ég sé nú með al hraustustu mönnum (TR ætti að sjá þetta :-( ) þá treysti ég mér ekki til að trilla með það á sjálfum mér nokkur þúsund kílómetra til Spánar, yfir fjöll og fyrnindi. Nei, Bjarki á Escort Station De Lux á óræðum aldri. Hef minnst á hann áður. Ég er búinn að leigja hann af honum í vetur. Fastur kostnaður fyrir Bjarka að eiga hann er ca. 6.000.- Íkr á mánuði. Ég borga það og svo smá slatta í viðbót. Fyrir þessa greiðasemi mun hann svo hafa hjólhýsið allt næsta sumar, en ég heim með Norrænu, en eins og ég hef áður sagt er stutt í hana héðan. Ca 45 km. Þannig að innan tíðar mun GunniJak leggja land undir 6 hjól á eftir farfuglunum suður á bóginn. Gangjonumvel.
Kallaferð. Slasaður Fíat, lyf handa honum. Hnykkur. Maggi. Kikkbox. Eða Klikkbox. Hvað veit ég.
.
.
Kallaferð til Álaborgar í dag. Kellingaferð í gær. Hvað verður á morgun er ekki gott að segja.
Fór á Skortinum í vinnuna til Bjarka um klukkan þrjú, þá er hann vanalega búinn að vinna á föstudögum. Við keyrðum beint í Bílanaust og keyptum þar allskonar hluti til að gera við traktorinn á MjólkurBænum. Bjarki var að ná heyrúllum af sturtuvagni og var að stinga í "fjær" rúllu og gaf helst til mikið í á bremsulitlum Fíat traktornum og hnullaði grillið á traktornum við vagninn. Og þar sem það er út trefjaplasti og engin hlýfðargrind framan á traktornum, sem vitanlega er alveg fáránlegt, þá brotnaði draslið og dældaðis. Ég ætla að reyna að púsla þessu einhvernveginn saman. Fengum líka grunn og málningu á milligerðirnar í Hesthúsinu. Bjarki rétt náði að komast á réttum tíma í erindið til Álaborgar, en það er í Hnikk hjá kírópraktor. Hann er með brotnar stýringar við hriggjarlið og það plagar hann heilmikið. Það eina sem hægt er að gera, fyrir utan það að fara reglulega í hnikk, er að bíta saman jöxlum og bölva í hljóði. Það tók ekki nema hálftíma og svo fórum við beint heim aftur, nema að við komum við hjá Magga, nema hvað. Ég er búinn að merkja mér bolla, eða allt að því.
Við komum passlega heim til að passa vegna þess að Heiðrún var að fara í KikkBox. Latur í kvöld og tiltölulega snemma að sofa. Semsagt vel fyrir morgun.
Eyrað, HA? Vastaseijeikkvað? Ha? Ókeypis læknir. Álaborg. Maggi og hyski, kynning.
.
.
Eitthvað hef ég minnst á hægra eyrað á mér undanfarið, nenni ekki að gá hvað ég hef sagt svo ég ætla að renna aðeins yfir það. Á miðju sumri fór mér að líða illa í því og alltaf verr og verr. Á endanum fór ég til afleysingalæknis á Hellu og hún reyndi að hreinsa á mér eyrað, sagði að það eina sem að mér væri væri skítur, eyrnamergur og óhreynindi. Hún lét mig hafa dropa til að leysa upp óþverrann og fór ég til hennar aftur að viku liðinni. Hún gafst upp á að hreinsa skítinn og sendi mig upp á Háls, nef og eyrnadeild á Borgarspítala. Ég þangað og þeir pússa, þvo, slípa og skúra allt eyrað að innan og segja að ekkert ami að mér meira. Þó mér væri ennþá ill. Og liði illa. Og kveldist. Átti bara að vera svona og myndi lagast með tímanum. Mér þótti þetta skrýtið vegna þess að það eina sem gerist með tímanum í eyrum er að þau fyllast af skít og ef ég var veikur af skít, afhverju átti mér þá að bata þegar búið væri að skipta um skít í eyranu á mér??
Í Danmörku hefur mér alltaf liðið verr og verr í fjandans eyranu og að lokum pantaði ég tíma hjá lækni í Álaborg og sá tími var í morgun klukkan 11:40. Við Heiðrún vorum búin að skipuleggja kellingaferð til Álaborgar á morgun, vegna þess að þá er fyrsti dagur mánaðarins og þá er hátíð hjá fátæklingunum vegna þess að það er eini dagurinn í mánuðinum sem við eigum peninga. En ég gat ekki fengið tíma á morgun svo við bara skelltum kellingaferðinni á daginn í dag. Þegar læknirinn var búinn að skoða mig sagði hann að ég væri með slæma sveppasýkingu í ytra eyranu og miðeyrað væri fullt af einhverskonar sulli. Enda er ég orðinn algjörlega heyrnarlaus á eyranu. Hann hreinsaði eyrað vel og vandlega og lét mig svo fá reseft fyrir dropum til að setja í það kvölds og morgna. Þetta eru sko dropar í lagi maður, það er pensill neðan í tappanum vegna þess að þessir dropar eru aðallega til að bera á sveppasýktar neglur og aðra sveppastaði í/á líkamanum. Droparnir mynda hálf harða húð og það logsveið undan þeim þegar ég setti þá í eyrað áðan. Það fylgir nefnilega dropateljari með sem ég treð alla leið inn að hljóðhimnu og tæmi hann þar. Ullabjakk, en þetta er þó ekkert hland eins og ég fékk á Íslandi. Læknirinn sagði mér að koma eftir viku tila að skoða þetta og svo þyrfti ég trúlega að koma eftir aðra viku og ef sveppasýkingin verður orðin góð þá þá má fara að aðgæta það sem fyrir innan hljóðhimnuna er. Snertir það ekki fyrr en sveppur er dauður, dáinn og farinn.
Það var eitt alveg rosalega sniðugt hjá doksa, það er stór sjónvarpsskjár fyrir framan sjúklinginn þar sem hægt er að fylgjast með öllu sem gert er í eyranu á manni. Þegar hann svo sýndi mér hljóðhimnuna og hlustina í hinu eyranu skildi ég hvað veika eyrað er skelfilega ljótt. Hljóðhimnan bólgin og blá og doppótt í staðinn fyrir hvít og falleg í hinu eyranu.
Og takið eftir einu, það borgar enginn neitt þegar hann fer til læknis í Danmörku, ekkert. Og sem betur fer erum við íslendingar nú alltaf hálfgerðir danir hérna og höfum að mörgu leiti full réttindi. Samt tókst mér ekki að kría út afslátt útá örorkukortið mitt í Apótekinu þegar ég sótti meðalið. Kostaði ekki nema 60.- dk eða um 720 íslenskar.
Arnar Freyr var með okkur í þessari ferð og verð ég að segja eins og er, í þeirri von að mamma hans lesi þetta ekki og ofmetnist, að það er sérdeilis gott og skemmtilegt að ferðast með hann. Samt sofnar hann sjaldan í bíl og svei mér þá ég hef aldrei vitað hann sofna á leið frá bæ. Einstaka sinnum á heimleið en annars ekki. Þau mæðgin fóru með inn til lækninsins til að þýða, enda eins gott, ég hefði aldrei botnað neitt í neinu án "þeirra". Þó ég kunni hrafl í ensku og geti bjargað mér að panta mér hamborgara og bjór þá dugar það skammt þegar komið er út í læknavísindin. AF fyldist andaktaður með hasarmyndinni í sjónvarpinu, Bardaginn Við Sveppinn Með Dr. SaxaDanska og GunnaJak.
Við fengum okkur hamborgara á BurgerKing, þeir eru bara alveg eins góðir og á Íslandi. Svei mér þá. Svo fórum við í kellingaleiðangur eftir aðal verslunar/göngugötunni og kíktum í 50-60 búðir. Ég keypti mér rosalega flottan jakka/blússu úr efni soldið líku rúskinni, en samt ekki eftir líking af því. Brúnn og fóðraður að inna. 300.- dk eða 3.900.- Íkr!! Hefði kostað 7.500.- á Íslandi, á útsölu hjá Hagkaup. Ekki minna. Þetta var það eina sem mig vantaði alvarlega af fötum þannig að nú get ég boðið öllum veðrum byrginn. Heiðrún keypti skó og eitthvað smálegt á börnin eins og mæðrum er gjarnt og svo versluðum við í matinn í ódýrum stórmarkaði. Álaborg er gullfalleg og ég féll alveg fyrir henni eins og fleiri. Hún er á öðrum mjóa staðnum yfir Limafjörðinn, hinn staðurinn er Aggersund hérna í túnfætinum heima.
Komum við hjá Magga í heimleiðinni. Kann alltaf betur og betur við þetta fólk, Maggi frændi er svo innilega mikill villimaður undir ljúfu yfirborðinu eða kannski ljúfur undir grófu yfirborðinu. Þið verðið sjálf að kynnast honum til að komast hinu eina rétta. Konan hans er engill og krakkarnir hress og kát eins og krakkar eiga að vera. Svo eru þarna 2 aðrir í heimili, Jói færeyingur, hann er hrossari, það er að segja temur, venur, ríður, járnar og hirðir hesta. Og svo má ekki gleyma fósturbaddddninu hans Magga, stelpu innan við fermingu sem hann hefur undir handarjaðrinum og kinninni. Ég man ekki hvað hún heitir, en hún sérlega brosmild og ljúf. Ég tala svona mikið um Magga og hans hyski vegna þess að ég held að ég eigi eftir að hafa meira saman við hann/þau áður en ég flýg suður á bóginn á eftir farfuglunum.
Handbolti. Járnsmíði, smá spegúlasjón. Hjólhýsadraumar.
.
.
ÁK fór á handboltaæfingu í dag, ég keyrði hana og var hálfan tímann að fylgjast með. AF kom með og skemmti sér konunglega. Var að fíflast í krökkum sem voru þarna á svipuðum forsendum og við. ÁK er efnilegur markmaður og sýndi mikil tilþrif á köflum.
Ég að skera þriðja daginn í röð. Djös djö erfitt, hávaðasamt, skítugt og slítandi. Skil ekki fólk sem leggur fyrir sig járnsmíðar. Og þó, það er líka rosalega gaman að smíða, sérstaklega út nýju. Maður getur alltaf huggað sig við það. Enda hlakka ég til að fara að byggja upp aftur. Bjarka voru gefnar grindur í allar milligerðirnar og við þurfum að smíða úr þeim í sameiningu. Nú kemur sér vel eins og oftar að vera Fjölvirki. Kunna að skera, slípa, sjóða og brasa. Og að hafa fengið þessa reynslu við hinar ólíkustu aðstæður, oft erfiðar.
Núna er ég mikið að hugsa um að fá mér ökutæki til að komast suður á Spán. Það er vonlaust fyrir mig að kaupa húsbíl, ég á 50 kall eins og áður hefur komið fram. Við Bjarki fórum í dag inná svona gular-síður-wef þar sem eru ókeypis auglýsingar um allt milli himins og jarðar. Ef þig vantar einn títiprjón eða eina Bóeing þotu, farðu inn á
http://dba.de . Og allt annað líka. Þar höfum við verið að skoða Hjólhýsi og þó ótrúlegt megi virðast er hægt að fá nothæf hjólhýsi allt niður í 50.000.- Íkr. Bjarki er búinn að hringja í nokkra og málið er komið í það far að við eigum stefnumót við tvo aðila nálægt AArhus á föstudagskvöld. Við höfum báðir sama vitið á hjólhýsum, nefnilega ekkert. Jú, ég segi ekki að ég hafi ekki mætt gommu af þeim um æfina, en þar með upptalið, nema þau sem ég hef séð kyrrstæð. Kannski kemur eitthvað út úr því, allavega erum við þá búnir að sjá inní svona tæki og getum kannski gert okkur grein fyrir því hvernig hjólhýsi á 50 kall lítur út.
Dömurnar á heimilinu fóru til FerjuSlef í kvöld á kikkbox æfingu, Segi það aftur og enn, karlmenn, stöndum saman og komum í veg fyrir svona nokkuð, eða soddannoget eins og danskurinn segir.
Skera, rista, tæta. Kaupmaðurinn á horninu lengi lifi.
.
.
Held áfram að skera niður milligerðirnar í fjósinu/hesthúsinu, en hesthús skal það vera hér eftir vegna þess að trúlega koma aldrei kýr eða annar nautpeningur í þetta hús. Tók helling af myndum áður en ég byrjaði til að bera saman við verkið fullklárað. Það er býsna þægilegt að vera einn heima allan daginn og geta unnið eins og maður vill. Allavega fyrir mig vesalinginn og aumingjann. Í skrokknum að segja.
ÁK kom heim upp úr tólf og við fengum okkur að borða saman. Skruppum svo til kaupmannsins á horninu og keyptum brauð og fleira sem vantaði. Tókum smá rúnt á heimleiðinni.
Rífa niður. Ekki byggja upp. Styrjöld um kjúklinginn gamla.
.
.
Keyrði ÁK í skólann vegna þess að hún fer í sund til FerjuSlef og kemur til baka með skólabíl sem stoppar hér rétt fyrir utan. Það á að breyta gömlu fjósi hérna í útihúsunum í hesthús. Í dag byrjaði ég að skera sundur gömlu milligerðirnar milli básanna í fjósinu. Við rífum allt niður og setjum svo allt nýtt í staðinn. Ég mundaði slípirokkinn á fyrsta rörið, en þetta er allt úr tommu sveru. Heldur fannst mér ganga illa, hef samt hundrað sinnum skorið með samskonar skurðarskífum og samskonar slípirokk. Eftir langa mæði komst ég í gegn, og viti menn, "rörið" sem ég var að skera var massíft stangajárn!! Þetta gjörbreytti öllu til hins verra og það sem átti bara að taka smá tíma verður margra daga verk. Og ekki nóg með það, beyzlurnar voru svo fast steyptar niður að ég varð að brjóta frá þeim til að geta skorið við gólfið. Ég gafst upp um kvöldmat og var þá akkúrat hálfnaður. Með mesta harðfylgi. Íslendingsins.
Framhald sögunnar um kjúklinginn ógurlega:
Það geysaði styrjöld við kvöldmatarborðið. Hinn helmingurinn af kjúklingnum stóra og gamla var í matinn. Húsmóðirin pikkaði kjötið af beinunum og notaður í pottrétt. Já, það er pottþétt. Og svo var farið að tala um hvort væri betra, pottrétturinn eða kjötsúpan. Sumir sögðu súpan og aðrir pottrétturinn. Og fólk flakkaði milli skoðana eftir því hvernig vindurinn blés og eftir rökum sem fram voru borin. Samt held ég að heildarniðurstaðan hafi verið sú að hvor réttur var betri en hinn nema að hinn var betri en hvor. Allir enduðu sáttir og enginn meiddist. Og líkur þar með að segja söguna af fuglinum étna.