GunniJak í Danmörku
GunniJak gerir allt fyrir mat. Bjarki er smiður en ekki FræBúðingur.Gulrótin og asninn. Trafik.
.
.
Vakna klukkan níu en hef mig ekki framúr fyrr en klukkan tíu, rétt áður en ÁK vakti mig til að ginna mig með rúnnstykkjum eins og asninn með gulrótinni. Í fyrra þá dagbókaði ég einu sinni í Jimena, eftir að Jane mín Brandaraíska var búin að bjóða mér tíu sinnum í mat og ég að gera henni ýmsa Fjölvikja greiða á eftir, að GunniJak gerði allt fyrir mat. Síðan var þetta haft sem máltæki í Jimena út veturinn. GunniJak gerir allt fyrir mat. Annars finnst mér eins og hér hafi verið stöðug veisla frá því ég kom. Eins og á öðrum nútíma heimilum er bara borðað snarl í hádeginu, en svo er heldur betur eldað á kvöldin. Ég hef verið óþarflega latur að segja hvað er í matinn, en ég hef alla vega ekki fúlsað við neinu ennþá. Ekki einu sinni Lasanja, en það verður að taka fram að það er matreitt af frúnni sjálfri en ekki pakkamatarLasanja. Þannig að það mátti leikandi svæla því í sig. Þá meina ég eins og í merkingunni hjá sjókokkunum, mesta hrós sem nokkur kokkur á fiskibát getur átt von á er að það megi svæla matnum í sig. Helst án þess að láta hann koma við tungu eða góm. Kokkurinn kannski búinn að vera að vinna á dekkinu og fer svo að elda margrétta dýrindis krásir á meðan hinir leggja sig og fá svo þetta framan í sig, má svæla því. Jú, stundum hrósa félagarnir mjólkinni hvað hún er vel heppnuð og stundum kartöflunum, ef þær eru soðnar. Þessum húmor náði aumingja Heiðrún ekki í fyrstu, enda BændaHáSkólaMenntuð en ekki Háseti eða Stýrimaður. Já vel á minnst, ég var víst að ljúga á ykkur í dagbókinni stuttu eftir að ég kom hingað, Bjarki er ekki bændaskóalagenginn, ekki búfræðingur og ekki einu sinni fræbúðingur. En hann er lærður snikkari eða trésmiður. Hann vann við smíðar, bæði þegar Heiðrún var á Hólum og á Hvanneyri. Hann er aftur á móti búinn að taka einn vetur í háskóla hérna í Danmörku og ætlar hann sér að verða, æ ææ, nú lýg ég kannski aftur, en ætla að hafa fyrirvara á, hann ætlar að verða ByggingaFræðingur einhverskonar. Skal spyrja hann á morgun og leiðrétta þetta ef með þarf. Það er soldið skemmtilegt að segja frá því að hann hefur unnið við að byggja alls þrjá bændaskóla í tveimur löndum.
Jæja, ég fékk mér semsé ný rúnnstykki í morgunmat og svo var farið að smíða, og ef undan er skilinn pínulítill lúr í hádeginu ( Hvað eru 2 tímar á heilli mannsæfi? Eða á heilu ári, eða öld? Bara eins og títuprjónshaus) alveg til hálf átta. Okkur Bjarka vannst vel, hann var með mér í allan dag, hefur varla gerst áður. Enda er hann í hinu og þessu út um allar trissur á kvöldin og um helgar. Í dag sneið hann grindur handa mér og ég gerði lítið annað en að sjóða. Endaði á því að setja upp súlu framan við gluggann.
Þreyttur í kvöld, en ég ætla mér samt að horfa á myndina "Trafik" frá 1970, kannski í fimmta eða tíunda sinn. Ein af topp tíu hjá mér. Myndin byrjar klukkan hálf tvö. Eftir korter.
Þægur og góður drengur. Smíða heilt hlið, að vera fast eða ekki fast eins og Sjeikspýr sagði.
.
.
Það er ákveðið að AF fari ekki til dagmömmunnar fyrr en eftir helgi svo ég passa í dag. Gekk rosalega vel, við lögðum okkur í 2 tíma og vöknuðum með bros á vör. Ég hef lítið þurft að hafa fyrir þessum dreng þessa þrjá daga, helst að ég leitaði til hans ef mér leiddist. Hann var bara að leika sér og dunda og bögga heimilisdýrin. Hann er ekki nema 2ja ára þetta skinn og hefur ekki fattað ennþá að vera ekki mjög harðhentur við dýrin. Annars er eins og þau hafi óendanlega þolinmæði við hann, eins og títt er um börn og dýr. ÁK kom heim um hálfþrjú og þá tók hún vaktina en ég fór út að smíða. Mér tókst að klára að smíða heilt hlið og koma því fyrir á sínum stað og sjóða það fast. Sko ekki fast, þannig heldur bara lamirnar fastar þannig að það er hægt að opna það. :-) Fór ekki út aftur eftir kvöldmat. Þreyttur mjög. En finn allsekki neitt til í skrokknum, hvernig sem á því stendur. Ég get setið mest allan daginn og hvíli mig um leið og ég finn að þrekið er að minnka, í staðinn fyrir að þrjóskast og verða svo stopp.
Passa. Gráu hárunum fjölgar. Á Arnari sko, baddnapían er svo boring.
.
.
Passa aftur í dag. Nú er Arnar Freyr með sár á eyranu, trúlega eitthvað vírus eða bakteríuvesen. Honum líður held ég ekkert mjög illa í því, en það er óþarfi að senda hann til dagmömmu þar sem er fullt af börnum sem gætu hugsanlega smitast. Líkurnar litlar en allur varinn góður. Það breytir líka heilmiklu að hafa baddddnapíukellingu á bænum. AF er skapstór en afskaplega ljúfur og góður drengur. Það þýðir ekkert að fara að honum með einhverjum látum, en ef hann heldur að hann ráði ferðinni er hann ljúfur sem lamb að passann. Einu vandræðin eru þau að hann er ansi harðhentur við hana Þumalínu mína. Ég er búinn að setja myndir af henni inn á Fotki.com, klikkaðu bara á Þumalína og þá getur þú séð myndir af henni. Og mér, munur!! Æ, ég er í vandræðum með Fotki og geri þetta bara á morgun.
Þegar Bjarki kom heim fór ég og smíðaði fram að kvöldmat, en nennti ekki út aftur. Letihaugur.
ArnarFreyr lasinn og ég að passa hann. Keyrði Bjarka. Smíða. Enginn man eftir mér. Það er bæði slæmt og gott. Meira slæmt.
.
.
Arnar Freyr fór ekki til dagmömmunnar í morgun. Ég tók að mér að gæta hans í dag og gekk það bara ágætlega. Auðvitað var það fyrsta sem hann gerði að gera stórt í bleyjuna, en GunniJak kippir sér nú ekki upp við það, ef það væri það versta sem ég hef lent í á lífsleiðinni þá væri betur komið fyrir mér.
Af því Bjarki var í fríi í gær var hann ekki á vinnubílnum svo ég keyrði hann klukkan hálf sjö fyrir kallana sem voru á vinnubílnum að bensínstöðinni við hringtorgið til Nípu. Var kominn heim áður en hún fór í skólann svo allt gekk upp þennan morguninn. Verst að hún fór í afmæli beint úr skólanum, annars hefði hún getað leyst mig af og ég farið að smíða. Ég fór að smíða strax og Bjarki kom heim og fór svo aftur út eftir kvöldmat. Ótrúlegt snudd í kringum hliðin út úr stíunum. En svakalega gaman.
Nú er ég búinn að vera hér í 7 vikur og bloggað eða réttara sagt dagbókað hvern einasta dag, en ég hef ekki heyrt hósta eða stunu frá Íslandi. Ekki frá neinum. Það væri nú ekki leiðinlegt að fá smá meil, þó ekki væri nema eina línu, á netfangið mitt:
gunnijak@simnet.is . Þú þarft ekki annað en klikka á netfangið mitt og þá kemur póstforritið upp. Mér finnst nefnilega að ég sé að skrifa akkurat ÞÉR á hverjum degi þannig að það hallar ekki á mig. Einn kostur er þó við að fá ekki bréf, maður er þá ekki að fá slæmar fréttir á meðan og ekki heldur skammir og skítkast, en aðeins bar á því í fyrra. Sleppið þið því þá frekar þið sem takið það til ykkar. Amen:-)
Arnar Freyr lasinn. Læknar í Lögstör. Læknar í Álaborg. Læknar án landamæra. Maggi. KikkBox
.
.
Bjarki fór ekki í vinnuna í morgun. Og er enginn hissa eftir lestur dagsins. Ég stillti klukkuna á hálfátta eins og aðra virka daga, en þegar hún hringdi mundi ég eftir því að Bjarki var heima til að líta til með ÁK í skólann svo ég sofnaði aftur og svaf til 09:00. Smíða til tíu, en við Bjarki áttum tíma á heilsugæslunni í Lögstör klukkan ellefu. Hann með ógróandi sár á fingri en ég ætlaði að fá inflúensusprautu. Það er bara hægt eftir klukkan 15:00 á daginn. Áður en við fórum á stað var hringt frá dagheimilinu hans AF og sagt að hann væri veikur. Við sóttum hann áður en við fórum til Lögstör og fyrst Bjarki var kominn til læknisins lét hann hann líta á hann og sagði doktorinn að þetta væri bara barnapest. Við áttum tíma í skoðun með hjólhýsið klukkan hálftólf og af því hvað þeir feðgar voru lengi fór ég með það einn. Það gekk eins og í sögu, nema hvað kúlugrópin í beislinu er orðin gatslitin og getur hrokkið uppaf hvenær sem er. Nei nei, þetta var bara grín. Ekki að stykkið sé slitið, heldur að eitthvað geti skeð í náinni framtíð. Við fengum allavega fulla skoðun og vorum ekki minna stoltir en í gær þegar við gerðum við bremsurnar.
Við stoppuðum heima í rúman klukkutíma og fórum þá til Álaborgar. Bjarki var að fara í hnikk mðe bakið á sér og AF átti pantaðan tíma hjá eyrnalækni. Hann fann ekkert að eyrunum, enda var þetta bara venjulegt tékk vegna þess að hann var "eyrnabarn" þgar hann var lítil. Minni en núna. Við komum við á Möllegarden hjá Magga og sem dæmi um hvað sá stutti var lasinn þá vildi hann ekki stoppa neitt heldur fara bara heim Sem og hann fékk, stoppuðum bara 5 mínútur. Ég fór strax út að vinna og var til ca. átta. Mæðgurnar fóru í KikkBox í kvöld.
Þreyttur. Maskinstation. Stella tálmar hálmara. WC vandamál leyst. StóriLaukur, sækja Bjarka. Stella ekki hömlulaus lengur.
.
.
Ég er helst á því að ég hafi gengið helst til hart að mér í gær. Allavega var ég í óstuði í allan dag. Keyrði ÁK í skólann vegna þess að ljósið af hjólinu er bilað. Og það er orðið ansi skuggsýnt hér í Danmörku um átta leitið á morgnana. Vann slatta af heimilisstörfum og skrapp svo um 10 leitið og sótti mjólk í VagnsBæ og fór svo í
Bejstrup Maskinstation , en það er stærsta landbúnaðar verktakafyrirtækið í landinu og er dreyft um norður Jótland. Þeir leigja út allar gerðir af vélum og verkfærum til landbúnaðar. Við fréttum svo í gær að það sé járnvörubúð hjá þeim og ég fékk þar ýmislegt til járnsmíðanna, m.a. 5 kg. af suðuvír, en ég er búinn að sjóða úr 7 kílóum. Það skilja þeir sem þekkja hvað það er mikið. Mér finnst það mikið.
Þegar ég kom aftur heim var traktor fyrir utan hlöðuna og komst ekki inn vegna þess að Stella er þar inni til bremsuviðgerða. Ég og traktorskallinn ýttum henni bara út í horn og þá var nóg pláss fyrir þá.
Kósettkallarnir sem komu á fös eða lau dag komu í dag og þéttu leka sem var úr vatnskassanum á klósettinu. Við vorum að vona að þeir myndu skipta um klósett en það varð nú ekki. En setan er búin að vera biluð síðan þau komu hingað og þeir ætla að koma með nýja á morgun.
Ég skrapp í Lögstör um hálffimm og sótti Bjarka, hann er í önnum á morgun, allstaðar nema í leiðindunum sem slíta svo sundur fyrir manni daginn. (Vinnunni). Við fórum, eftir að hafa fengið eplaköku beint úr ofninum og ís, að gera við bremsurnar á Stellu. Eftir nokkuð japl og jaml og fuður fann Bjarki út hvernig hægt er að herða útí og svínvirkuðu þær svona líka rosalega vel á eftir. Ekki lítið grobbnir með okkur :-)