GunniJak í Danmörku
14.11.04
  Búinn að þvo Stellu bak við eyrun. ÁK handboltahetja. Elú dó. .
.
Vakna klukkan hálf ellefu og þá er kotið tómt. Fer út um 11 leitið og klára að þvo Stellu. Þið þurfið ekki að vera hissa þó ég sé búinn að vera lengi að þvo hana, það er ótrúlega erfitt að ná öllum gróðrinum og öðru sem hefur safnast á Stellu mína. Hún hefur líka staðið óhreifð í 2 ár. Vont fyrir flesta hluti að vera ekki notaðir. Lifandi og dauða.

Þau komu heim um hádegið, höfðu farið á handboltaleik þar sem ÁK stóð í markinu. Hún ku hafa staðið sig með ágætum þó leikurinn endaði með smá tapi hjá okkar stelpum.

Bjarki fór út með mér eftir hádegi og hann sneið plötu í rúmstæðið mitt og undirbjó að setja upp skrifborð. Erfitt með festingar í plast og ál, hvort tveggja jafn þunnt. Ég tók gamla gaskútakassann af og slípaði beislið, það varð seinasta afrek aumingja Elú gamla, slípirokksins sem við skárum og slípuðum alla hesthússinnréttinguna með. Ég fann seinasta daginn í smíðinni að hann var að gefa upp andann og það gerði hann svo um leið og ég var búinn að slípa beislið á Stellu. Við ætlum að smíða nýjan kassa vegna þess að Kósangaskútarnir taka miklu meira pláss en litlu kútarnir.

Vann í tölvunni í kvöld við að búa til merkimiða á geisladiska, backup og fleira. Fór ekki út fyrir hússins dyr í dag. Innipúki. HetiLaugur.
 
13.11.04
  Stella brotin. Sundferð í skautasundlaug. Heitur pottur!! Börn með tálkn. .
.
Dútlaði smá í Stellu, hafði alla vega af að brjóta hurðarhúninn. Vont mál, ekki hægt að sjóða eða neitt og þetta er ábyggilega rándýrt he...ti. GunniKlaufiJak. Annars sá ég gamalt brot í húninum, bara þreyttur og lúinn. Enda orðinn 27 ára.

Eftir hádegi dubbaði mannskapurinn sig upp og fór nokkra kílómetra suður fyrir StóraLauk að stað sem heitir Rjönberg huse. Þetta er einn af ótal "SkemmtunAfÖlluTagi" í Danmörku. Svipað og í Rödhus sem ég sagði ykkur frá að ég heimsótti um daginn, bara miklu stærra í sniðum og flottara. Þarna er til dæmis risa sundlaugargarður innanhúss með ótrúlega langri renni braut og, haldið ykkur, heitum pottum!! Hélt að slíkt væri bara séríslenskt fyrirbæri. Nei nei, ég vissi að það væri ekki, en á mót kom að sundlaugin og allir hinir staðirnir eru ískaldir. Það munaði litlu að liðið væri til dæmis Á skautum en ekki Í sundlauginni. Á þessum stað eru líka 3 veitingastaðir, líkamsræktarstöð, tenni og batminton vellir og stór íþróttahöll. Og vitanlega tjald-húsbíla-hjólhýsa svæði. Við skelltum okkur öll í sund og vorum í hálfan annan tíma. Þau eru ekki leiðinlegri í vatni en á landi börnin! Botnfíla sundið og allt í kringum það. Svo fórum við bara heim og höfðum það notalegt í kvöld.
 
12.11.04
  Vatnsheld "grisja". ÁK jafn góð í badminton eins og í öðru. Bensó. Lissen tú mí. Flottar fraukur. .
.
Vakna um 10 leitið og fer út að kítta í toppinn á Stellu. Varð fyrir vonbrygðum með "grisjuna" sem ég fékk í apotekinu í gær. Danir virðast kalla grisju þéttofinn dúk sem búið er að setja í 6 cm breiðar rúllur. Það kallast ekki grisja á Íslandi. Ég setti breiða rönd af kítti og grisjuna ofaní og ætlaðist til að kíttið gengi í gegn um grisjuna og svo ætlaði ég að smyrja þunnt lag ofan á hana. Ég gerði þetta svosem, ekki vantaði það, en það kostaði ótrúlega mikið vesen og vinnu og var alls ekki eins og ég ætlaðist til þegar ég var búinn. Hin samskeytin setti ég bara soldið þykkt lag af kítti og ekkert annað. Get þá alltaf skellt á það grisju ef ég finn svoleiðis einhversstaðar.

Við Arnar Freyr keyrðum ÁK á Badmintonæfingu um hálffjögur leitið og vorum í salnum alla æfinguna, eða í klukkutíma. Ótrúlega gaman að skemmta sér með þessum pjakki, sprellfjörugur en samt nokkurnveginn viðráðanlegur. Eins og strákar eiga að vera. Nú fór ég með myndavélina mína í íþróttahúsið í fyrsta sinn, allt annað líf að taka á hana en blessaða HP vélina þeirra. Sérstaklega munar mikið um flassið. Það er miklu öflugra á minni vél. Náði nokkrum ágætum myndum af ÁK við að spila. Hún er nokkuð nösk að spila, sérstaklega hefur hún mikla leik-gleði. Á eftir fórum við upp í kaffi/REYK stofuna og fengum okkur smá bragðlaukakitling.

Í kvöld komu gestir og í tilefni af því skruppum við ÁK á Bensínstöðina og versluðum smávegis til tilbreytingar fyrir þá. Ís og kökur. Snögg ferð í myrkrinu. Villtumst ekkert. Gestirnir voru Lissen Ruthker og íslensk kona með henni, kann engin skil á henni, en hún frétti af íslendingum hérna og vildi ólm fá að berja þá augum. Ef þið smellið á myndina af Lissen vinkonu minni og farið á næstu mynd sjáið þið hvað ég get verið mikið fjandans kvikindi. Setti andlitið á mér í staðinn fyrir andlitið á henni. Hún hafði ekki séð þetta fyrr en ég sýndi henni myndirnar í kvöld. Var hálf smeikur, en hún skemmti sér hið besta yfir uppátækinu. Ég held að það hafi verið virikilega gaman fyrir húsráðendur að fá þessa gesti, það koma aldrei of margir íslendingar í heimsókn. Að vísu fór mest allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér, enda eingðngu töluð enska, mema í einkasamtölum.
 
11.11.04
  Nú verður Þumba mín ekki lengur lausbeisluð. Ferjuslef. Þrífa Stellu. .
.
Vakinn klukkan átta. Klára heimilisstörfin og legg mig fram að hádegi. Skrepp til Ferritslev upp úr hádegi. Keypti beisli á Þumallínu, sniðugt að það skuli vera til beisli á svona lítil kvikindi. Keypti mér líka fúgulím til að setja í samskeytin á toppnum á Stellu og í kringum lúguna. Svo leit ég aðeins inn í Apotekið og bakaríið og var kominn heim klukkan hálf þrjú. Lagði mig til klukkan fimm. Þetta er auðvitað ekki nokkur hemja hvað ég er þróttlaus, þarf að leggja mig fimm sinnum á dag og sofa tíu tíma á hverri nóttu!! Klikkun. En ég er góður á milli og fínn í skrokknum. Held áfram að þrífa Stellu eftir kvöldmat, er búinn með hægri hliðina og aftur hlutann. Þá er bara eftir framendinn og vinstri hliðin. Þetta hefur allt sinn tíma. Vona bara að þolinmæði húsráðenda endist í nokkra daga í við bót. :-)
 
10.11.04
  Vakinn látalaust. Stella inni í hlöðu innan um hálmbaggana. Fékk höfuðþvott. Datt, ekki í´ða því miður. .
.
Vakinn, ekki með látum, klukkan 07:45. Heimsætunni sárnaði við mig um daginn þegar hún sá einhversstaðar í dagbókinni minni að ég hafi verið vakinn með látum. Hún átti það heldur ekki skilið. Keyrði Stellu inn í hlöðu, það er drullusvað fyrir utan hlöðuna og ég kom bara á fullri ferð á Skortinum og flaug yfir svaðið. Bjarki var í dyrunum og átti fótum fjör að launa. Sem betur fer er búið að taka það mikið af hálmi út að það var hægt að bakka Grána framhjá Stellu og út, með sömu aðferð og inn, á fullri ferð yfir drulluna. Vanir sveitamenn á ferð. Kemur sér oft vel.

Ég þvæ toppinn á Stellu og hreinsa vel og vandlega undan öllum listum og líka frá topplúgunni. Toppurinn var alveg grænn af slíi og ég notaði rótsterkan hreinsilög til að þvo hann. Skóf upp úr samskeytunum á plötunum á toppnum. Sá að það hafði verið sett á þau alls konar efni. Hef grun um að það hafi lekið í vinstra horninu að framan. Tók topplúguna af, held ég setji hana ekkert á aftur. Hún er öll orðin lasin, gormar sem eiga að þrykkja henni niður eru ónýtir og allt í volli með hana. Seinnitímavandamál. Eitt af mörgum. Bjarki er að smíða borðið framí, ætla að setja heilt borð alla leið út í horn við hliðina á vaskinum. Þá verður þetta ekki svefnbekkur lengur, heldur tölvuborðið mitt.

Ég datt kylliflatur á gólfið þegar ég var að fara ofan af tunnu og steig ofaní/á skúringafötuna mína. Slapp með skrekkinn, lét mig bara detta eins og dauðann og þá er helst að maður sleppi. Hefði viljað sjá þetta á vídeói, hægt!! Latur að öðru leiti í dag. Ausandi rigning og skítviðri, alíslenskt veðurfar. Það eru allir akrar komnir undir vatn og þeir sem ekki voru búnir fyrir rigningarnar eru í vondum málum með akrana sína.
 
9.11.04
  Bjarka hnykkti við í Álaborg. Maggabær og kaffi. Gaulum á leiðinni heim. .
.
Gerði ekkert í Stellu í dag. Bjarki bauð mér með sér til Álaborgar, hann var að fara í hnikk. Sem ég þáði strax vegna þess að ég sá strax að ég myndi geta platað hann til að fara smá útúrdúr í heimleiðinni. Við vorum komnir þangað um hálf elleftu og Bjarki var búinn um ellefu. Ég tók til í Möstunni á meðan, bætti á hana olíu og fleira. Hún brennir jafnmörgum lítrum að olíu og bensíni. Nei nei, bara grín, en í alvöru þarf að bæta á hana öðru hvoru. Búið að keyra mótorinn hálfa milljón kílómetra og trúlega aldrei verið opnaður. Ótrúleg ending. Og Mastan er í prýðilegu lagi að öðru leiti.

Við gerðum ekkert annað í Álaborg og fórum beint til AAbybro þar sem við fórum í stórmarkað og losuðum okkur við tvo svarta poka af flöskum. Einhverra mánaða samansafn. Hérna í Danaveldi taka stórmarkaðirnir við flöskunum. Þeim er potað inn í vél sem tekur þær eina og eina. Skoðar þær í krók og kring, vegur og metur hverja fyrir sig og ákveður hvað eigi að borga fyrir hverja, ef hún vill borga eitthvað á annað borð. Hérna eru algengustu plastflöskurnar fjölnota og það er borgaður hellingur fyrir þær til baka. Eitthvað minna fyrir annað plast, en gler er verðlaust með öllu. Bjarki hafði um 3.000.- Ikr upp úr krafsinu. Kíktum inn í húsvagnabúð til að athuga með mótstykki fyrir dráttarkúluna. En eins og þeir muna sem lásu um það þegar ég fór með hjólhýsið í skoðun þá var gerð athugasemd við þetta stykki. Fæst ekki. Skítt með það, vona bara að Stella fylgi mér og Grána af gömlum vana ef kúlan klikkar.

Komum við hjá Magga, eftir að ég var búinn að borða orly steiktann fisk og bjarki hamborgara í pulsuvagninum "okkar" í Norresundby, aðallega til að taka steikarfeiti bragðið úr munninum. Maggi var að múra í gaflana á útihúsunum. Honum var nær að rífa hlöðuna og skilja gaflana eftir með gapandi andlitin. Alltaf gaman að koma í MillugGarð.

Svo plataði ég Bjarka, samt ekki nauðugan, til að fara krókinn niður að Gaul. Þá fer maður meðfram strandlengjunni milli AAbybro og Aggersundbrúarinnar. Þetta er stórkostleg leið, krókótt og falleg. Og bærinn soldið sérstakur. Þar er meiriháttar skútuhöfn og við fórum að tveimur skútuhöfnum í viðbót. Það var komið kvöld þegar við komum heim og dagurinn ekki til neins það sem eftir var. Lá í tölvunni í kvöld og fór seint að sofa.
 
8.11.04
  Myndir á Fotki, klikkið ekki á því. StóriLaukur. Gasalega dýrt Gas.Lagði mig, hver getur trúað því? Enda bara plat. .
.
Alveg eiturhress í morgun þegar ég stökk framúr um tíuleitið. Fór samt seint að sofa í gærkvöldi, var að standa við loforð um að koma gommu af myndum inn á netið. Það sem ég setti inn í dag og í gær var: Vígsla hesthússins, Smíðasaga hesthússins, Ferð til Hanstholm og Stella, en það er hjólhýsið mitt. Klikkið bara á feitletruðu orðin og þið farið beint á Fotki þar sem myndirnar eru.

Skrapp á Grána til Lögstör í morgun til að keyra Bjarka heim, en hann var að skila vinnubílnum. Hann er að drepast í bakinu og getur ekki unnið trésmíðavinnu, til dæmis hefði hann átt að vera uppi á þaki að gera við þakglugga ef hann hefði getað mætt í vinnuna. Ég hef sjálfur verið veikur í baki í 40 ár (eða þar til fyrir 10 árum) og veit hvað þetta er. Keypti gas á annan kútinn fyrir hjólhýsið. Þetta er 5 kílóa kútur (aumingi) sérstaklega fyrir hjólhýsi og það kostaði á hann 160 dkr eða hátt í tvöþúsundkallinn íslenskan. En í sama skýlinu voru til sölu 11 kílóa Kósangaskútar, þessir allravenjulegustu, gulu, og innihaldið í þeim kostaði 159 dkr!!!! Þannig að ég er að borga 230% meira fyrir gasið. Ætla á morgun að athuga hvort ég geti ekki komið fyrir Kósangasi á beislið í staðinn fyrir aumingjann og hafa hann í bílnum til vara. Það eru til margir Kósangaskútar hérna og ég get fengið lánaðan einn ef ég vil.

Lagði mig langt fram yfir hádegi, var þá í heimilisverkum til 16:00 til að Heiðrún sem kemur yfirleitt heim um 4 leitið komi að sæmilega hreinu borði. Í eiginlegri og óeiginlegri meiningu. Síðan er ég búinn að vera stöðugt í tölvunni það sem eftir var dags og í allt kvöld. Jú, vel á minnst, fyrr í dag fluttum við Bjarki tvö trippi aftur upp í girðingu, en þau voru heima til sýnis ásamt 4 öðrum hrossum B&H í veislunni.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com