GunniJak í Danmörku
21.11.04
  ÁK handboltahetja, tapaði 6-3 í dag. Málaði gaskassann. Skruppum til Magga á Millegarden. Hress. Maggi sko. Ég líka sko. .
.

Veðrið í dag:
Morgunn: -4° V 3 m Léttskýjað Snjóföl
Miðdagur: -0° V 5 m Hálfskýjað
Kvöld: 0° V Rok og rigning seint í kvöld

Sofnaði ekki fyrr en klukkan fjögur í nótt þó ég hafi farið upp í rúm klukkan eitt. Fór samt ekki niður í tölvuna í þetta skiptið, heldur velti mér endalaust í bælinu. Verð að koma svefnvenjum mínum í betra lag. Þegar ég kom svo niður um kl. 10 var enginn í kotinu. Heiðrún að vinna og Bjarki og börnin á handboltaleik í bæ milli Lögstör og Nipe. Foreldrarnir skiptast á um að keyra börnin og nú var komið að þeim hérna. Þau komu svo heim um 12 leitið. Ég kláraði heimilisverkin áður en ég fór út á verkstæði til að mála kassann. Bjarki hafði kveikt á hitablásaranum í morgun og orðið sæmilega hlýtt. Rúllaði yfir allan kassann með vélalakkinu og mér sýnist að það muni verða ansi gott. Fór svo inn og lagði mig. Vakinn klukkan fimm til að borða gulrótarköku sem Heiðrún bakaði á meðan ég svaf á mitt græna. Við förum svo öll í heimsókn til Magga. Þau alltaf jafnhress og kát. Maggi var búinn að vinna fyrir vikuna, tók tvær næturvaktir og þarf ekki að mæta aftur fyrr en undir næstu helgi. Það voru gestir hjá þeim og ég verð alltaf soldið útundan þegar 6-8 manns tala saman á dönsku, og stundum allir í einu. En það þarf engum að leiðast á Millugarði, þau hafa gerfihnattadisk með 50 stöðvum, tölvu, gítar og Páfagauk. Nóg að gera! ´

Á leiðinni heim keyrðum við eftir gamalli járnbrautarslóð þar sem áður hafði verið járnbrautarteinar milli Álaborgar og Tisted, ca. 100 km. Nú er löngu búið að taka alla teina og hefla svo nú er þarna ágætur malarvegur og á honum hafa forgang reiðhjól, hestamenn, skokkarar og annað útivistarfólk. Við hleyptum Blíðu út, en hún fékk að fara með í þetta skipti og hljóp hún eins og byssubrennd langa leið á undan bílnum. Mikið er það þrek maður minn. Komum svo heim um hálf níu.

Þá fór ég út og málaði aðra umferð yfir kassann, mér sýnist þetta ætla fram út mínum björtustu vonum. Prýðilega gljáandi og alveg rennislétt áferð á lakkinu. Ótrúlega gott. Ef það dettur þá ekki allt af í nótt!

Ef ‏ْþú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
20.11.04
  Reykvísk stórhríð í nótt. Snjór í skóvarp. Fer á stað 2. des. Börnin skruppu til Ferjuslef. Frisbí. .
.
Veðrið í dag:
Morgunn: -3° V 3 m Léttskýjað Snjóföl
Miðdagur: -1° V 5 m Léttskýjað
Kvöld: -3° V 3 m Skýjað

Það var vetrarlegt um að litast í morgun, frost og hvítt í skóvarp eins og sagt hefði verið í gamla daga, þegar ég var ungur. Semsagt, grasið stóð uppúr en alhvítt þar sem slétt var undir. Tók ekki upp í dag. Vetrarlegt með meira móti. Vaknaði klukkan 3 í nótt og gat ekki sofnað, fór niður og í tölvuna, skrifaði nokkur meil og fór að sofa um svipað leiti og Heiðrún fór á stjá, um 6 leitið. Hún á vinnuhelgi núna, byrjar klukkan hálf sjö og vinnur fram undir hádegi og svo aftur frá kl. 15:00 til klukkan ca. 17:00. Ég ætlaði ekki að trúa því að hún væri komin aftur í helgarvinnustuð, mér finnst síðasta vinnuhelgi hjá henni hafa verið fyrir nokkrum dögum, en það eru víst þrjár vikur síðan. Tíminn líður svo hratt hérna.

Ég er búinn að ákveða brottfarardaginn, 2. desember skal það vera. Ég verð nokkra daga enn með Stellu og svo á ég heldur ekki fyrir bensíni á bílinn fyrr en um mánaðarmót. Ég fór bara aðeins út að vinna í dag, færði kassann út á söðlaverkstæðið hans Bjarka og ætla að mála hann á morgun og næstu daga. Sópaði svo bílskúrinn og gekk frá öllu dótinu sem ég notðai við smíðina.

Ég bauð ÁK og AF í bíltúr í dag. Fengum lánaða Möstuna. Þetta var óvissu og ævintýraferð þar sem ÁK réð ferðinni. Alltaf þegar við komum að gatnamótum sagði hún mér hvort ég ætti að beyja til hægri eða vinstri. Og þessi spennandi ferð endaði, getið þið hvar, í miðbænum í Ferjuslef. Það var nú í góðu lagi, við fórum út og skemmtum okkur prýðilega í Frisbí og fleiru. Blíða fékk að fljóta með og hún gelti látlaust allan tímann. Ég teipa saman á henni trantinn næst þegar ég fer með hana út. Svo fengum við okkur ís úr frysti í pylsuvagninum bak við Nettó og átum hann inni. Svo var bara haldið heim og allir mjög glaðir og ánægðir.

ÁK fór í enn eitt afmælið í morgun, í Haverslev. Ég sótti hana um eittleitið og sótti mjólk um leið.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
19.11.04
  Maggi í Millugarði kom loksins í heimsókn. Hann járnaði Víking. Smíða gaskassa í allan dag. .
.
Veðrið í dag:
Morgunn: -3° Au- 7m Léttskýjað
Miðdagur: 0° Au- 5 m Léttskýjað
Kvöld: -2° Gola Skýjað

Vakinn klukkan hálfellefu við það að Maggi í Millugarði þusti inn í herbergið mitt, hann var að koma til að járna og Bjarki var að sýna honum húsið. Hann hefur ekki komið hér áður. Hann járnaði sjálfan Víking, besta hest og fjölhæfasta í Danmörku. Svo segir eigandinn alla vega, ÁK á hann.

Það er skemmst frá að segja að ég hef verið að smíða gaskassann í allan dag, með eðlilegum hléum. Lagði mig samt aldrei í dag og fór að sofa klukkan ellefu í kvöld.

Ásta Kristín fór í afmæli út í Bæjstrup þegar hún var búin í skólanum og átti það að enda klukkan fimm. Ég ætlaði að sækja hana þá, en þá var hún að byrja að borða einhverjar veislukrásir. Það var soldið fyndið að sjá 15 skólatöskur á forstofugólfinu í afmælishúsinu, það fóru allar stelpurnar í bekknum hennar í afmælið. Ég sótti hana svo klukkan tæplega sex.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
18.11.04
  Vitlaust veður. NÝJAR MYNDIR!! Mála GasKassa. Ferrislef að ná í Arnar Frey, flókin heimleið. .
.
.
Veðrið í dag:
Morgunn: 0° Rok (Skaðaveður sl. nótt á Suður Jótlandi
og í Noregi)
Miðdagur: 6° 10 m sek
Kvöld: 0° gola Skýjað

Sko nýja lúkkið mitt! Fyrirsagnirnar með veðrið koma sjálfkrafa þegar ég skrifa í dagbókina. Það var ofsarok í nótt, en við erum inni í einka skógi og trén brjóta niður storminn svo allir sváfu á sitt græna.

Nýjar myndir, loksins!! Ég setti slatta af nýjum myndum inn í albúmið hennar Þumallínu, frá 10 og til enda. Svo bjó ég til nýtt myndasvæði fyrir Ástu Kristínu, það er komin eitt albúm í það, Grettukeppni!

Vakna klukkan 10:00 og klára heimilisverkin. Skrepp svo upp í Maskin Station til að kaupa grunn og lakk á Gaskassann. Þá virkaði kreditkortið mitt ekki og næsti hraðbanki í 13 km fjarlægð. Þetta var hálf vandræðalegt, en þá var mér sagt að koma bara seinna og borga, þeir ætluðu ekki einu sinni að fá nafnið mitt. Ég hálf neyddi það upp á þá. Eins gott að gleyma þessu ekki!Lagði mig lengi eftir hádegi og var nývaknaður þegar ÁK kom heim. Ég er búinn að lofa og svíkja alla vikuna að fara með hana í bíltúr, nú var hnefinn settur í borðið.

Svo allt í einu um hálf fjögurleitið munum við eftir að Arnar Freyr var í Ferristlev í dag, svona dagmömmu skipti sem eru ca. einu sinni í mánuði. Og það átti að ná í hann þangað. Og við á Skortinum heima, en það er bara eitt farþegasæti í honum. Og vitanlega enginn barnabílstóll. Við brenndum öll þrjú, ég, Bjarki og ÁK í Heiðrúnarvinnu og skiptum um bíl og svo var brunað í FerjuSlef. Vorum komin 3 mínútur yfir. Ég tók Þumallínu með okkur og við fórum með hana inn á dagheimilið, en það var ekki búið að sækja nema fá börn. Hún vekur allstaðar jafn mikla lukku. Ég bað Bjarka að keyra einhverja nýja leið heim, sem ég hefði ekki farið áður. Og það gerði hann svo sannarlega, alls konar króka og keldur fram og aftur um sveitirnar í kringum Ferjuslef og víðar. Og það endaði með því að hann náði mér af áttunum, og þarf mikið til þó ég segi sjálfur frá. Hann stoppaði og sagði mér að benda á LögStör, en ég klikkaði um 90 gráður. Það fyndnasta var samt að við vorum eiginlega í túnfætinum á Bejstrupvej 103!!

Ég keyrði ÁK á fimleika æfingu um hálfsex leitið. Fimleika? Já, það er von þið spyrjið, krakkinn er í Badminton, Handbolta, Kikkboxi, og Fimleikum. Kannski gleymi ég einhverju. Og það er með hana eins og svo marga aðra sem eru í öllu með skólanum að henni gengur mjög vel við námið og þarf lítið að hafa fyrir því. Svo er bara að vona að þetta haldi svona áfram, en nú eru erfið ár framundan eins og hjá öllum á hennar aldri. Ég fór svo um sexleitið og horfði á stelpurnar í fimleikunum, hef ekki gert það áður. En oft í öllu hinu, nema kikkboxinu, en eins og ég hef sagt áður eru þær mæðgur saman í því uppi í Ferritslev. Ég hef verið að mála GasKassann í áföngum í dag og er búinn með hann að innan og botninn. Nú verð ég að fara að vanda mig þegar kemur að því að mála hann að utan. Ég keypti Vélalakk í morgun, það er alveg eins og vélalakkið frá Málningu minnir mig.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is
 
17.11.04
  Helsvítið hann BlogSpot!! Skrúfaði saman gaskassann. .
.
Ég var búinn að skrifa með meira móti fyrir þennan dag en skepnan hann BlogSpot vinur minn eyðilagði það allt. Og nú nenni ég ekki að skrifa neitt. Fúlt.

Og þó, ég skrúfaði saman megnið af gaskassanum og grunnaði hann. Þetta verður flottasti gaskassi á Húsbílamarkaðnum. En ég verð lengi með hann, verð að mála hann í nokkrum áföngum. Og núna nenni ég ekki, eða hef ekki skap í mér til að skrifa meira. Bless.
 
16.11.04
  Borð og rúm um borð í Stellu. Stelpa í sprellaskoðunarleiðangri. Sá marga snilla. Sjálf algjör snilli að gera þetta. .
.
Bjarki setur upp borðið að framan og breikkar rúmið mitt í Stellu. Þó nokkur breyting, enda á þetta að vera eina heimili mitt í nokkra mánuði. Ég bóna hana að aftan og framan. Málningin drekkur í sig bónið, enda ekki skrítið þar sem ég þvoði hana með svo sterku Ajax að vatnið varð hvítt af málningunni. En þetta verður líka svakalega flott. ÁK kom með vinkonu sína heim úr skólanum, Malin held ég hún hafi heitað, og þær léku sér til klukkan 16:00, að ég skutlaði þeim á handboltaæfingu. Um leið náði ég í mjólk og sótti Heiðrúnu í vinnuna vegna þess að hennar bíll er á verkstæði.

Eitt má ég til að segja ykkur, maður sleppir ekki svona brandara. Ég gleymdi að segja frá því þegar við fórum í sund um daginn, þá vorum við Bjarki að fara úr fötunum í búningsklefanum innanum ca. 20 aðra kalla á aldrinum 0,5 til 90 ára. Kemur þá ekki stúlkukind með svona gólfskúringamaskínu sem hún keyrði á undan sér. Stelpan hefur verið eitthvað um tvítugt, kannski aðeins meira. Og hún fór bara hring eftir hring þar til hún var búin með gólfið. Það var alveg stórkostlegt að sjá viðbrögðin á karlpeningnum, þeir yngstu og elstu létu sem ekkert væri og héldu bara sínu striki, ekkert smeykir við að vera á snillanum þó ung og falleg dama væri að sniglast í kringum þá. En svo voru þarna nokkrir strákar í hóp, líklega rétt innan við tvítugt, og þeir greyin tvístruðust í allar áttir og reyndu að skýla hreðjum sínum, en aðrir hlógu sig máttlausa að þeim og skemmtu sér hið besta. Að lokum flýðu þeir inn í sturtuklefann, en hann var aðeins afsíðis. Ekki get ég sagt að ég hafi kippt mér mikið upp við þessa uppákomu, hafi blessuð snótin ekki séð myndarlegan undirvöxt áður þá gat ég ekki verið að koma í veg fyrir það og háttaði mig eins og ekkert væri. En stelpan sjálf var í fullkomnu jafnvægi og var ekki að sjá hið minnsta að hún kippti sér nokkuð upp við þetta. Kannski er þetta bara orðið svona í Danmörku, hver veit!!!
 
15.11.04
  Og enn heldur veislan áfram. Ferjuslef. Obýbrú. Myllugarður eða Maggastaðir. GunniJak latur í dag. .
.
Og enn heldur veislan áfram. Ég get ekki stillt mig um að seja það hér, af gefnu tilefni. Mér finnst eins og hér hafi verið stöðug veisla síðan ég kom. Alltaf eitthvað verið að bralla og prófa og svo gamalkunnir og venjulegir íslenskir og danskir réttir inn á milli. Ég hef stundum sagt þetta, "og enn heldur veislan áfram", svo í kvöld spurði Heiðrún mig hvort ég væri að segja þetta á blogginu líka og þá skammaðist ég mín fyrir hvað ég hef lítið talað um þessa stöðugu veislu, alla vega upp á síðkastið. Til dæmis í kvöld, þá var lax í sneiðum, steiktur á pönnu og með voru ofnbakaðar kartöflur í sméri og hrásalladd de la Heiðrún. Laxinn var veiddur fyrir utan fjörðinn og fiskikallarnir selja hann á bryggjunum, eða keyra í hús með hann. Flott þjónusta.

Vaknaði klukkan hálfsjö til að keyra á eftir Bjarka til bifvélavirkjans hans, en hann var að fara með Möstuna í árlega yfirhalningu. Um níu leitið fórum við svo til Ferritslev, en Bjarki þurfti að tala við Kommúnuna, en það er svona sýslumannsembætti eða hreppstjóra, útaf sjúkradagpeningum. Hann er ennþá í kross eða þvers í bakinu. Síðan fórum við til AAbebro til að fara í húsbílastöðina þar. Vantaði nýja læsingu og þeir áttu hana til, á mynd, en ætla að panta hana fyrir mig. Ég var að pæla í að fara á fimmtudaginn, en læsingin kemur ekki fyrr en á föstudag. Svo fórum við í BÝKÓ og fengum ýmislegt til að ditta að Stellu með. Meðal annars krossvið til að smíða gasalega kassann úr, lamir, læsingar og lím. Kostaði í allt 500 dk. Svo keypti ég gas á einn Kósangaskút, hann kostaði 170 dk. Skruppum í pulsuvagninn og fengum okkur pulsumix, en það eru franskar með brytjaðar pulsur samanvið og þrjár tegundir af sósum í litlum bikar. Sniðugt!! Og það þarf varla að taka það fram að við komum við hjá Magga frænda. Hann var að hlaða vegg í hlöðusárið á hesthúsinu, ég hjálpaði honum smávegis svo hann kæmist fyrr inn til að við gætum tafið hann alminlega. Janný kom svo heim rétt áður en við fórum heim. Líka gaman að sjá hana. Komum svo heim um þrjúleitið. Þá var ég alveg búinn á því og stakk mér beint upp í sófann og svaf til klukkan hálf sex. Þá blöskraði AF svoleiðis svefninn á mér að hann vakti mig og dró mig fram úr sófanum. Kvöldið fór í japl og jaml og fuður og mér varð ekkert úr verki. Skemmtilegur dagur, en ég sé svosem ekki mikið eftir mig.
 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com