GunniJak í Danmörku
28.11.04
  Fyrrverandi leyndarmál, hestahirðir hennar hátignar. Settum upp fortjaldið. Stórveisla. Nýjar myndir af Stellu. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....5° A 7 m Rigning
Miðdagur: ... 5° A 5 m Rigning
Kvöld: ......... 3° A 1 m Svarta þoka

Jæja elskurnar mínar, nú skal ég upplýsa leyndarmálið. Ég er að gerast ráðsmaður á hestabúgarði á Spáni. Nú væri skemmtilegast að segja bara ekkert meira, en það væri ekki alveg sanngjarnt, svo ég skal útskýra þetta dálítið betur.

Lúí Kastel er búin að taka það að sér, óbeðin, en með mínum vilja, að útvega mér pláss fyrir okkur Stellu og Þumallínu í eða við Jimena í vetur. Hún nefndi þetta á kóræfingu, en hún er í klassískum kór í Jimena. Þá segir einn kórfélaginn, hollendingur sem er búinn að eiga lengi heima á Spáni að hann og konan hans hafi nýlega verið að kaupa "hill" eins og Lúí orðar það, og þar sé fullt af hestum, póló pony eins og þeir heita, og stórt hesthús. Þeim væri þökk í því að einhver vildi vera þarna sem einskonar næturvörður og kannski til að ditta smáveis að hinu og þessu. Þarna er kalt rennandi vatn og klósett, en ekkert íbúðarhús og ekkert rafmagn. Það er það eina sem mig vantar, en skiptir samt ekki höfuð máli. Þarf bara að fá mér góðan rafgeymi í Stellu og láta Grána (Skortinn) hlaða hann upp og svo hef ég omformer sem breytir 12 voltum í 220 volt sem dugar fyrir hleðslutækin og kannski ljós. Allt annað gengur fyrir gasi, ljós, hiti og eldavél. Jafnvel ísskápurinn ef ég vil það við hafa.

Ég er búinn að bíða eftir svari með þetta í nokkra daga og nú er það komið. Ætla að hitta Lúí um leið og ég kem í bæinn og þá skreppum við uppeftir og kíkjum á slotið. Ég get ekki gert mér neina grein fyrir því hvernig þetta er, það kemur bara í ljós. En fyrst ég verð með Stellu á sama stað í lengri tíma ætla ég að taka fortjaldið með mér, en ég ætlaði það ekki í upphafi.

Ég sópaði allt gólfið í hlöðunni og skilaði og gekk frá öllum verkfærum í dag. Svo í kvöld fórum við Bjarki með fortjaldið út og settum það upp. Það er sko ekkert slor maður minn!!! Sé ekki betur en að það sé svakalega vandað og stórt. Með gólfteppi hvað þá annað. Svona fortjöld voru auglýst á sömu síðu og ég fékk Stellu á á svipuðu verði og ég gaf fyrir Stellu og fortjaldið!! Heiðrún hefur verið að taka aðeins til í skápum hjá sér og týnt til alls konar dót handa mér í útileguna. Ég fór með helling af eldhússdóti út í kvöld og svo kom Ásta Kristín og hellti upp á könnuna. Svo bauð ég öllum á bænum í heimsókn í tilefni þess að nú er Stella tilbúin til að renna suður á bóginn. Ég tók helling af myndum og skellti þeim strax inn á netið. Klikkið hér og skoðið!

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
27.11.04
  Lúguleikur. Hurðarlaust.......... Leyndó, hí á ykkur!! .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....5° SA 5 m Skýjað
Miðdagur: ... 8° SA 5 m Skýjað
Kvöld: ......... 6° SV 5 m Skýjað Spænskt úrfelli í kvöld í ca. korter

Svaf fram að hádegi, var í mest alla nótt að snudda í tölvunni, m.a. að svara slatta af meilum, auðvitað frá öllum heimshornum, nema frá Íslandi. Engin meil til að svara, því miður :-(

Bjó til festingar á lúguna og skrúfaði hana í. Varð að kítta hana fasta, gúmmílistinn undir henni er bæði harður og hlykkjóttur svo hann náði ekki að þétta. En núna má rigna eldi og brennisteini á hundrað kílómetra hraða án þess að leki.

Litla hurðin á háa skápnum var laus á lömunum og ofninn sem er festur á hana var líka laus. Reif allt burtu og setti nýjar skrúfur í lamirnar, límdi spjald innan á hurðina til að taka af henni slufsið og festi ofninn vel og vandlega með boddýskrúfum. Þar með er ég búinn með það sem ég ætla að gera og þarf að gera og nú er bara að henda Stellu út. Og þó, það vantar ennþá læsinguna, en hún er komin í búðina í AAbro, en ég á ekki 350 kall fyrr en eftir mánaðarmót.

Nú eru bara 4 dagar þar til ég fer suður á bóginn. Ég skal trúa ykkur fyrir því að ég bara nenni því hreinlega ekki. Orðinn latur og værukær hérna í Danmörku, enda er gengið undir mér og stjanað við mig, að ekki sé talað um fæðið. Ég er búinn að búa til máltæki: Og áfram heldur veislan. Nú þarf ég ekki að segja nema: Og nú......... þá vita þau hvað á eftir kemur.

Ég nefndi í fyrradag að það væri mikið framundan hjá mér, ég verð því miður að kvelja ykkur svolítið meira, ég hef ekki frétt neitt ennþá. Ok, drepist bara úr forvitni, úr einhverju verður maður að drepast, ekki satt?

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is
 
  Lúguleg vinnubrögð. Jólamynd. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....-2° sV 5 m Rigning
Miðdagur: ... -0° V 5 m Skýjað
Kvöld: .........04° SV 1 m Rigning

Svaf fram undir hádegi. Bjó til lúguna á Stellu, eða réttara sagt, bjó til spjald til að setja ofan á lúgugatið. Gamla lúgan er alveg ónýt, og það þarf ekkert að vera hægt að opna þaklúgu þar sem það eru 3 opnanlegir gluggar og svo er hurðin á tveimur hæðum. Þannig að ég get haft efri helminginn opinn en neðri lokaðan. Kláraði að bóna hægri hliðina og þar með er ég búinn að bóna Stellu alla.

Í kvöld fixaði ég jólamynd handa þeim hérna. Tók þrjár myndir sem við tókum út garði um daginn og klippti þær saman. Grunninn af einni, og svo voru þau ÁK og AF á hinum tveimur. Held að útkoman hafi verið nokkuð góð. Heiðrún fór svo með myndina á diski til Lögstör í dag og ætlar að láta prenta eftir henni slatta með jólakortunum. Prentarinn þeirra hérna er hundrað ára HP sem var lélegur þegar þau keyptu hann, hvað þá núna. Lélegur í prentgæðum meina ég, hann stendur sína plikt sem textaprentari, en lítið meira.


Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is
 
25.11.04
  Gamall. HundHelvítiGamall. FerjuSlef í Keilu, Pitsustað í Pitsu og í LissenStað til Lissen. Ferrarí, Konfekt, Hvítvín og Krukka. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....-2° V 3 m Skýjað
Miðdagur: ... -0° V 5 m Skýjað
Kvöld: .........-0° SV 1 m Rigning

Til hamingju með daginn GunniJak!!

Þeir sem ekki vita, þá á ég afmæli í dag. Kristín frá Oddakoti, takk kærlega fyrir hringinguna, það yljar manni um hjartaræturnar að einhver heima á Fróni man eftir manni. Betri er einn en enginn.

Látum liggja milli hluta hvað ég varð gamall, aðalatriðið er að ég er enn ungur í anda og eitt afmæli til eða frá breytir öngvu.

Ég fór að "sofa" klukkan tvöl síðastliðna nótt, eins og svo oft áður. Og eins og svo oft áður gat ég með engu móti sofnað. Svo ég skellti mér í fötin og fór út í hlöðu og kláraði að bóna vinstri hliðina á Stellu. Sofnaði svo um fjögur leitið. Klukkan sjö í morgun, eftir þriggja tíma svefn, komu svo þrjár manneskjur blaðskellandi inn til mín og sögðu mér að það væri kominn morgunn. Ég vildi bara sofa áfram. En þá sagði Ásta Kristín, en þetta var hún, pabbi hennar og litli bróðir, að hún væri að baka grautar-klatta og mér væri boðið í afmælislummur. Það var grjónagrautur í matinn í gærkvöldi og hún fór að baka úr afgangnum af honum klukkan hálf sjö!! Og eins og Jane mín ameríska og heittelskaða sagði í fyrra, GunniJak gerir allt fyrir mat, þá spratt ég framúr og borðaði með þeim klatta og drakk ískalda BeljuMjólk með. Namminamm. Með sultu. Um daginn spurði ÁK mig hvað ég vildi í afmælisgjöf og ég þurfti ekki lengi að hugsa mig um, auðvitað Ferrari kappakstursbíl eins og Súmaker vinur minn keyrir. Og viti menn, Ferrari fékk ég, þennan flotta MattsBox bíl, eldrauðan og flottan! Svo gaf hún mér krukku með köflóttu tau loki og á hliðarnar var búið að líma allskonar myndir og lakka yfir. Þessi krukka verður staðalbúnaður í Stellu.

Eftir að ÁK var farin í skólann og ég búinn að taka af borðinu og laga til fór ég aftur upp í bólið mitt og lagði mig smá stund, hm, til klukkan eitt!!

Fór þá út í Stellu og kláraði að festa niður gaskassann og byrjaði að þrífa og laga frunsur á hægri hliðinni.

Þegar klukkan var orðin fimm fórum við öll í Keilusalinn í Ferritslev og spiluðum einn leik. En hver leikur er einn klukkutími. Afmælisbarnið vann fyrsta leikinn, hef grun um að mér hafi verið leyft að vinna af því ég átti afmæli, en svo var montið og grobbið svo mikið í GunnaJak að hann varð að standa á eigin fótum, en það voru hálfgerðir brauðfætur, svo hann tapaði jafn glæsilega og hann hafði unnið áður. Heiðrún vann þessa keppni. Svo vann Bjarki seinustu keppnina óvenju glæsilega, hann skaut og fékk 8, svo GunniJak og hann fékk 1 og svo Heiðrún og hún fékk 6. Þá slökknaði á öllu og klukkutíminn var búinn.

Næst var farið á flottan Pitsustað og allir átu á sig gat. ÁK og AF fengu heila pitsu sem þau skiptu á milli sín og kláruðu!! En við hin fengum okkur eitthvað sem ég man ekki hvað heitir og það var eiginlega pitsa sem búið var að rúlla upp og fylla með ýmsu góðgæti. Td. Kebab og hrásalati. Svo fengum við hvítlauksolíu yfir, namminamm.

Ég hafði nefnt það fyrr um daginn að það gæti verið gaman að heimsækja Lissen vinkonu mína, en ég hef ekki séð hana síðan við vígsluna á hesthúsinu. Og Bjarki brunaði beint þangað. Það var mjög gaman að koma þarna, heimilið hjá henni er alveg nákvæmlega eins og ég vil hafa heimili, gamalt hús og ekki allir hlutir í nákvæmlega 90° afstöðu hver til annars og jafnt bil á milli þeirra. Semsagt, mjög hlýlegt og persónulegt heimili. Hún á dóttir jafn gamla ÁK, stór og myndarleg stelpa. Svo eiga þær mæðgur íslenskan hund og tvo ketti. Ég var mestan tímann að bögga hundtíkina, hún var svona "haltu mér, slepptu mér, mér er ekki eins leitt og ég læt".

Þegar Lissen frétti að ég ætti afmæli gaf hún mér stóran Anthon Berg konfektkassa. Upp úr klukkan níu fórum við svo heim. Eða réttara sagt, áleiðis heim. Eftir nokkra kílómetra hringdi síminn hjá Bjarka og þá hafði ég gleymt konfektkassanum. Afar óheppilegt og sérstaklega klaufalegt þar sem ég missti við það flest þau prik sem ég hafði unnið mér inn, enda sagði hún með tárin í augunum að þetta sýndi hversu mér væri annt um hana. Heimsætan gaf mér banana með slaufu um leið og mamma hennar rétti mér konfektkassann. Nú er bara að upphugsa eitthvað til að bæta upp glötuðu prikin og það strax, ég er jú að fara eftir 6 daga.

Þegar heim var komið gáfu þau mér flott skreytta rauðvínsflösku. Ég átti sjálfur rauðvínsflösku og við Bjarki fengum okkur smá í glas, en ég ætlaði mér að sötra aðeins frameftir yfir tölvunni. En viti menn, um ellefu var allur þróttur úr mér og ég skreið í bókið, vitandi það að ég myndi að öllum líkindum vakna aftur fljótlega. Og það gekk eftir, ég er að pikka þetta inn núna klukkan hálfþrjú að nóttu að staðartíma, en ég datt útaf áður en ég gæti bloggað í gærkvöldi.

Þegar ég er búinn að blogga ætla ég út og halda áfram að bóna hægri hliðina á Stellu. Það er það síðasta við hana nema þrif og svo þarf ég að líta á 12 voltin. Ég gleymdi að segja frá því í fyrradag að við fórum með Grána á verkstæði til að láta laga útpúst og gera við varadekkið. Ætlum að athuga með hann á morgun.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
24.11.04
  StóriLaukur og FerjuSlef. Fram og til baka. Hleðslutæki. Bóna. Electric dúfur með radar. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....-6° V 10 m Heiðskýrt
Miðdagur: ... -0° V 5 m Hálfskýjað
Kvöld: ........0° SV 10 Rigning

Vaknaði á sama tíma og venjulega, hálf ellefu. Við Bjarki fórum til Lögstör upp úr eitt, keyrðum ÁK í Fristund um leið. Bjarki fór til læknis, það kom ekkert nýtt útúr myndatökunni sem hann fór í um daginn. Ætlar að reyna að mæta í vinnu á mánudaginn, ef hann er ennþá í vinnunni! Danir hafa allt annan hátt á að reka/ráða en við heima á Klakanum. Hann hefur bara viku uppsagnarfrest og að sjálfsögðu gagnkvæmt. Samt held ég að vinnuveitandi hans vilji fyrir alla muni halda honum, en núna er dauðasti tíminn í byggingavinnu í Danmörku eins og annarsstaðar þar sem kemur alvöru vetur. Þannig að hann veit ekki alveg hvar hann stendur.

Við fórum í nokkrar búðir, buddan mín leifði nú ekki annað en hleðslutæki fyrir rafhlöður í nýju myndavélina mína. Það kostaði eins og hálf önnur myndavél. En þetta er hlutur sem mig er lengi búið að dreyma um að eignast. Ég ætlaði að kaupa léttara bón á Stellu mína, en bón er víst munaðarvara, alla vega hefði ég getað keypt mér 7 hvítvínsflöskur fyrir eina andskotans bóndollu. Svo ég ákvað bara að nota leifar sem Bjarki á og kaupa mér í staðinn 7 hvítvínsflöskur. Að vísu seinna, trúlega ekki fyrr en á Spáni. Síðan þurftum við að fara til Ferritslev, en Arnar Freyr var þar í pössun. Á vegum dagmömmunnar sinnar. Loks sóttum við Heiðrúnu í vinnuna og svo ég ÁK klukkan fimm. Ég skrapp út og bónaði einn þriðja af annarri hliðinni á Stellu, svona ætla ég að hafa það, bara að bóna smá bletti i einu. Hef ekki mikið meira úthald þessa dagana.

Í kvöld fórum við Bjarki svo að heimsækja Electricman og skoðuðum hjá honum dúfurnar. Hann á á annað hundrað stykki, bæði bréfdúfur og matfugl. Við ÁK ætlum að heimsækja hann áður en ég fer suður á bóginn og þá ætla ég að taka myndir. Geymi allar lýsingar þangað til.

Ég fékk e-mail í dag þar sem mér eru boðið gull og grænir skógar. Ég svaraði því á mjög jákvæðan hátt, en er ekki búinn að fá svar. Geymi að segja meira þangað til það er komið. Þið megið kveljast af forvitni þangað til!

Ef ‏ْþú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is
 
23.11.04
  Michaelsstaðir. Heiðrúnarvinnustaðir. Bóna. Hallamála. Gekk frá borðinu stóra. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....-0° SV 10 m Rigning
Miðdagur: ... -0° SV 5 m Hálfskýjað
Kvöld: ........-2° V 10 m Hálfskýjað
Tungl á síðasta kvartili

Nýjar myndir!!

Michaelsstaðir, en það er svínabúið þar sem Heiðrún vinnur. Eins og þið munið þá skruppum við Bjarki þangað einn góðan veðurdag í roki og rigningu og skoðuðum allt pleisið. Og tókum helling af myndum. Nú eru þær komnar á Fotki.com og skoðið þær eins og ykkur lystir.

Fór á fætur klukkan hálf elleftu, virðist vera orðinn fastur fótaferðatími hjá mér. Fór beint út í Stellu og kláraði að ganga frá borðinu afturí. Hrein og tær snilld hjá Bjarka að detta í hug að ganga svona frá þessu. Gerði bara göt fyrir borðfæturna innundir bekkinn vinstra megin og smeygði þeim þar inní og þá er komið pláss fyrir borðið þannig að ég get farið upp í rúmið án þess að hreyfa við því og einnig er líka hægt að sitja þeim megin við það. Svo setti ég hallamælinn á beislið og að lokum er ég búinn að bóna framan og aftan og toppinn, en hliðarnar eru báðar eftir. Vantar bón. Þetta er ég búinn að vera að gera með hléum í allan dag.

Keyrði ÁK á handboltaæfingu klukkan fjögur en pabbi hennar sótti hana.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is
 
22.11.04
  StóriLaukur. Lakkaði beislið á Stellu. Tók til í leðrinu. ÁK með kveisu. .
.
Veðrið í dag:

Morgunn: .....-0° V 10 m Rigning
Miðdagur: ... -0° V 5 m Hálfskýjað
Kvöld: ........-0° V 10 m Heiðskýrt.
Tungl á síðasta kvartili, Tunglsljós

Vaknaði klukkan hálf ellefu. Heimilisstörf fram að hádegi. Skrapp til Lögstör og fékk mér bolta til að festa gaskassann niður með. Hann er ótrúlega flottur, þá meina ég málningin, hún er eins og hann hafi verið sprautaður og háglans á lakkinu. Maður veit hvernig á að mála bílinn sinn í framtíðinni! Keypti kattasand og mat, ýmislegt í matinn og frystipoka. Fór út á leðurverkstæðið um 5 leitið og þurkkaði allt ryk sem komið hafði þegar ég slípaði gaskassann og tók til og skúraði gólfið. Orðið mjög kósý þarna inni. Málaði svo beislið á Stellu, spreyjaði það næstum hvítt. Við Bjarki hjálpuðumst að við að búta niður tvo lambsskrokka sem eru búnir að hanga í vikutíma. Settum ketið í plastpoka og í frysti. Annar skrokkurinn var 18 kíló og hinn yfir 20, ekki horlömb á Jótlandi!

Bjarki sótti Ástu Kristínu í skólann um ellefu leitið í morgun, hún var með einhverja magakveisu. Bar sig samt vel í dag. Hress í kvöld.

Ef þú vilt hafa samband: gunnijak@simnet.is

 
Dagbók GunnaJak

ARCHIVES
02.11.03 / 09.11.03 / 16.11.03 / 23.11.03 / 30.11.03 / 07.12.03 / 14.12.03 / 21.12.03 / 28.12.03 / 04.01.04 / 11.01.04 / 18.01.04 / 25.01.04 / 01.02.04 / 08.02.04 / 15.02.04 / 22.02.04 / 29.02.04 / 07.03.04 / 14.03.04 / 21.03.04 / 28.03.04 / 04.04.04 / 05.09.04 / 12.09.04 / 19.09.04 / 26.09.04 / 03.10.04 / 10.10.04 / 17.10.04 / 24.10.04 / 31.10.04 / 07.11.04 / 14.11.04 / 21.11.04 / 28.11.04 / 19.12.04 / 09.01.05 / 16.01.05 / 06.02.05 / 21.08.05 / 05.02.06 / 09.08.09 / 17.03.13 / 01.11.15 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting by HaloScan.com